Uss, allt verður í lagi

Size: px
Start display at page:

Download "Uss, allt verður í lagi"

Transcription

1 Hugvísindasvið Uss, allt verður í lagi Handrit að kvikmynd Lokaverkefni til MA-prófs í ritlist Ellen Ragnarsdóttir Maí 2014

2 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Ritlist Uss allt verður í lagi Handrit að kvikmynd Lokaverkefni til MA-prófs í ritlist Ellen Ragnarsdóttir Kt.: Leiðbeinandi: Marteinn Þórsson Maí 2014

3

4 Efnisyfirlit Greinargerð... i Uss, allt verður í lagi... 1 Heimildaskrá... 71

5 i. Uss, allt verður í lagi: Vegferð Í greinargerð þessari verður litið á það ferðalag sem ritun kvikmyndahandrits er. Einnig verður munur á kvikmyndahandritum og öðrum skáldskap tíundaður. Að lokum verður svo fjallað um sköpunarferlið og það verklag sem haft var til hliðsjónar þegar handritið Uss, allt verður í lagi, sem fylgir hér á eftir var skrifað. Formgerð og fræði Að skrifa kvikmyndahandrit er frábrugðið því að skrifa fagurbókmenntir. Kvikmyndahandritið lýtur öðrum reglum og þó að handrit sé lipurlega skrifað og það framkalli myndir í hugum lesenda, er því ekki ætlað að standa eitt og sér, líkt og til að mynda skáldsögur gera. Í raun má segja að handrit séu leiðarvísar fyrir leikstjóra, leikara og aðra sem koma að gerð kvikmynda. Þar af leiðandi er orðaskrúð og óþarfa flúr aðeins til trafala. Í vel skrifuðu handriti er textinn einfaldur og skýr. Hann greinir frá því sem koma skal fyrir sjónir á skýran og skilmerkilegan hátt. Því kvikmynd er fyrst og fremst sjónrænn miðill. Ógrynni er til af kennslu- og handbókum fyrir upprennandi handritshöfunda. Flestar predika þær sama hlutinn, því formgerðin sem langflest handrit eru skrifuð eftir er svo rótgróin að hún þekktist á tímum Aristótelesar og hefur, því miður myndu sumir segja, lítið breyst. Einn þekktasti höfundur slíkra bóka er Syd Field, en á ferli sínum gaf hann út fjöldann allan af ritum sem kenna eiga fólki réttu handtökin. Þekktustu bækur Fields eru Screenplay (1979) 1 og Screenwriters Workbook (1984) 2 sem báðar hafa verið uppfærðar og endurútgefnar mörgum sinnum. Aðferðin sem Syd Field kynnir í þessum tveimur bókum 1 Syd Field, Screenplay, New York, Bantam Dell, Syd Field, The Screenwriters Workbook, New York, Bantam Dell, 2006.

6 ii. er afar einföld, og í raun svipar henni til þeirrar sem Aristóteles skrifaði um í riti sínu, Um Skáldskaparlistina. 3 Það sem Field bæði bendir á og boðar er að flestar kvikmyndir sem framleiddar eru í dag eru skrifaðar eftir ákveðinni forskrift. Í stuttu og afar einföldu máli gerir forskrift þessi ráð fyrir að 120 blaðsíðna kvikmyndahandriti megi, eða skuli, skipta í þrjá hluta. Nánar tiltekið upphaf sem spannar 30 síður, miðju sem spannar 60 síður og endi eða úrlausn sem spannar aðrar 30 síður. Að sama skapi myndi 80 blaðsíðna handriti vera skipt í 20 blaðsíðna upphaf, 40 blaðsíðna miðju og 20 blaðsína úrlausn. Samkvæmt Field er fyrsti hlutinn (hversu langur sem hann er) til þess fallinn að kynna persónur, sem og sögusvið. Í Lok þessa fyrsta kafla verða síðan hvörf (e. plot point) sem gera það að verkum að sagan tekur nýja stefnu. Næstu 60 síðurnar eru síðan helgaðar vegferð persónanna, þ.e. hvernig þær vinna að settu marki og hvaða hindranir þær þurfa að yfirstíga til þess að ná því. Í lok annars kafla verða síðan önnur hvörf, sem aftur krækja í atburðarásin og beina henni á aðra braut. Að lokum fara síðustu 30 síðurnar jafnan í að leysa úr flækjunni og hnýta lausa enda. Auðvitað er þetta mikil einföldun á skrifum Fields og að sjálfsögðu er um margt annað fjallað í bókum hans. Í grunninn er þetta þó sú formgerð sem Field, og reyndar fleiri fræðimenn, telja vænlegasta til árangurs. Enda hefur hún fylgt okkur frá örófi alda. Yrkisefni og andagift Hugmyndin að Uss, allt verður í lagi kviknaði fyrst við lestur Klakahallarinnar (1963) skáldsögu norska rithöfundarins Tarjei Vesaas. 4 Bókin segir frá ákaflega 3 Aristóteles, Um skáldskaparlistina, Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, Tarjei Vesaa, Klakahöllin, Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1963.

7 sérstæðri vináttu tveggja ungra stúlkna, Siss og Unn, sem búa í norsku smáþorpi á öndverðri tuttugustu öld. Bókin er leyndardómsfull, ævintýraleg og hrífandi en að sama skapi ófullnægjandi á einhvern hátt vegna þess að hún leikur sér að lesendum og neitar þeim um svör sem brenna á þeim. Í upphafi bókar kemur í ljós að önnur stúlkan, Unn, býr yfir leyndarmáli, sem hún telur að muni dæma sig til heljar. Hún lofar að trúa Siss, sálufélaga sínum, fyrir leyndardómnum hræðilega, en deyr áður en hún fær tækifæri til. Leyndarmálið er því aldrei afhjúpað, aðeins gefið í skyn. Þó að sögusvið, aðstæður og nöfn persóna hafi verið fengin að láni úr Klakahöllinni er alls ekki um tilraun til aðlögunar að ræða, enda er lítið annað líkt með sögunum tveimur. Segja má að iii. handritinu megi fremur líkja við ýmsar kvikmyndaðar þroskasögur (e. coming of age films), sem einblína á vinkvennasambönd. Þar má t.d. nefna kvikmyndirnar Heavenly Creatures, 5 Picnic at Hanging Rock, 6 Fucking Åmål 7 og Mais ne nous délivrez pas du mal. 8 Þó að samband Siss og Unn sé vissulega í forgrunni er saga Francisku, hinnar ógiftu móður, órjúfanlegur þáttur handritsins og í raun forsenda þess. Snemma á 20. öld birtist í tímaritinu Journal of Criminal Law and Criminolgy grein sem bar titilinn Problem of Illegitimacy in Europe. 9 Þar eru rakin þau fjölmörgu samfélagslegu mein sem ógiftar mæður og bastarðarnir þeirra bæði verða fyrir og valda. Greinin var ekki einungis gagnleg, heldur beinlínis nauðsynleg, þegar kom að því að skapa það umhverfi sem mæðgurnar lifa og hrærast í. Að sjálfsögðu mætti tína til fleiri verk og texta sem 5 Heavenly Creatures, leikstj. Peter Jackson, Nýja Sjáland, WingNut Films, Picnic at Hanging Rock, leikstj. Peter Weir, Ástralía, The Australian Film Commission, Fucking Åmål, Lukas Moodysson, Svíþjóð, Memfis Film, Mais ne nous délivrez pas du mal, Joël Séria, Frakkland, Société Générale de Production, Victor Von Borosini, Problem of Illegitimacy in Europe, Journal of Criminal Law and Criminology, vol. 4, no. 2, 1913, bls

8 veitt hafa innblástur. Þó verður að segjast að það er næsta ógerningur að henda reiður á þeim öllum. iv. Vefnaður Undirbúningur handritsins er búinn að standa yfir í rétt rúmlega ár. Þar af hafa skrifin sjálf tekið stystan tíma. Heilmikill tími hefur hins vegar farið í ýmiskonar hugmynda- og rannsóknarvinnu, eins og gjarnan vill verða þegar svo langir textar eru skrifaðir. Eins og gefur að skilja hefur sagan þróast mikið á þessu ári, og í raun má segja að hún hafi farið í marga hringi og líklega er enn ekki farið að sjá fyrir endann á því ferli. Fyrstu mánuðina voru nokkur ágrip (e. treatment) sett saman. Þeim má lýsa sem nokkurskonar beinagrind í samfelldu máli, án nokkurra samtala eða ítarupplýsinga. Þessar beinagrindurnar urðu nokkuð margar, mislangar og eðlilega misjafnar að gæðum. Það var svo skömmu eftir áramót sem vinnan við sjálft handritið hófst. Á því stigi var unnið að því að setja síðasta ágripið á blað. Til þess var þar til gerður hugbúnaður notaður, enda er formgerð og uppsetning afar mikilvæg, líkt og vikið var að hér að ofan. Meðan á þessu stóð lengdist, breyttist og þéttist sagan umtalsvert. Enda er það á þessu stigi sem kjötinu er smurt á beinin. Eins og sjá má þarf að huga að ýmsu þegar kvikmyndahandrit er skrifað. Hvort sem handritshöfundur ákveður að hafa þær ævafornu venjur, sem fjallað var um að ofan, í heiðri eða ekki. Í handritinu sem fylgir hér á eftir var sumum reglum fylgt, á meðan aðrar voru eflaust margbrotnar.

9 Uss, allt verður í lagi Höfundur Ellen Ragnarsdóttir

10 EXT. BAKGARÐUR, DAGUR Garðurinn er í órækt. Nokkrar hænur vappa um í rytjulegu hænsnaneti og tína upp korn sem GÖMUL KONA (64) hendir í þær. Gamla konan er í slitnum kjól, með grátt hárið bundið í hnút. Hún hendir í þær síðustu mylsnunum og gengur hægum skrefum í átt að húsinu. Málningin er farin að flagna af veggjunum INT. STOFA, DAGUR Gamla konan hagræðir blómum í vasa á borðstofuborðinu. Síðan strýkur hún fingri eftir borðbrúninni og blæs í burtu ósýnilegu ryki. Hún lokar glugganum og dregur snjáðar blúndugardínur fyrir sprungna rúðuna. Bröndóttur köttur nuddar sér utan í lappirnar á gömlu konunni og mjálmar. Hún tekur köttinn í fangið og gengur í átt að útidyrunum. INT. FORSTOFA, DAGUR Gamla konan opnar dyrnar og setur köttinn niður. Hún strýkur honum þéttingsfast eftir bakinu. Síðan stuggar hún við dýrinu, sem heldur leiðar sinnar, og lokar dyrunum. INT. HJÓNAHERBERGI, DAGUR Gamla konan situr á rúmbríkinni. Róðukross hangir á veggnum. Rúmið er uppábúið, en hinn helmingur þess er tómur. Á náttborðinu henni við hlið er karafla fyllt vatni, glas og umslag sem á stendur Franciska. Gamla konan hagræðir umslaginu. Því næst hellir hún vatni í glasið og opnar náttborðsskúffuna. Það glittir í bunka af gulnuðum bréfum. Hún dregur fram pillubox, skrúfar lokið af og sturtar pillunum í lófa sér. Síðan skolar hún þeim niður og leggst til hvílu. EXT. LESTARSTÖÐ, SÍÐDEGI Dökkhærð, grönn kona, (32) stígur út úr lest. Föt hennar eru dökk og slitin og andlit hennar markað þreytudráttum. Fast á hæla hennar fylgir (14) dökkhærð og horuð en myndarleg unglingsstúlka. Ryk þyrlast upp í kringum mæðgurnar, báðar halda þær á ferðatösku. Unn horfir rannsakandi í kringum sig en Franciska gengur hröðum skrefum í átt frá teinunum. Tveir vinnufataklæddir MENN (37) á lestarpallinum gjóa til þeirra augunum og hvískra.

11 CONTINUED: 2. Þessa leið. EXT. HÚS, SÍÐDEGI Mæðgurnar standa fyrir framan hús gömlu konunnar. Franciska snýr lykli í skránni og þær ganga innfyrir. INT. STOFA, SÍÐDEGI Blómvöndurinn er enn í vasanum á borðstofuborðinu. Blómin eru sölnuð og krónublöð liggja umhverfis vasann. Mæðgurnar standa á miðju gólfinu, með ferðatöskurnar sér við hlið. Unn grípur fyrir munn sér, brosið leynir sér ekki. Mikið er þetta sætt hús. Svo er víst. Unn horfir hrifin í kringum sig. Svona, farðu nú út og fóðraðu dýrin fyrir mig. Erum við með dýr? Ekki mikið lengur ef þú gefur þeim ekki að éta. Fóðrið er í litla skúrnum baka til. Unn drífur sig út en Franciska gengur rakleitt að herbergi móður sinnar. INT. HJÓNAHERBERGI, SÍÐDEGI Gardínurnar eru dregnar fyrir. Rúmgrindin stendur tóm á miðju gólfinu, búið er að fjalægja dýnuna. Karaflan og glasið er enn á náttborðinu, ásamt umslaginu. Franciska opnar bréfið og les. Á því stendur: "Ég veit ég sé þig aldrei aftur. Húsið er þitt. Fyrirgefðu." Hún opnar náttborðsskúffuna og stingur umslaginu ofan í. Það glittir í bunka af gulnuðum umslögum. Síðan dregur hún frá, opnar gluggann og fer að tæma fataskápinn.

12 3. EXT. SVÍNASTÍA, SÍÐDEGI Unn fóðrar lítinn grís í stíunni. Bröndótti kötturinn mjálmar ámátlega við lappirnar á henni. Hún lyftir honum upp og kjassar hann. Hvað ert þú að væla. Ert þú líka svangur? INT. HJÓNAHERBERGI, SÍÐDEGI Franciska stendur fyrir framan nær tóman fataskápinn og virðir fyrir sér einu flíkina sem eftir er, smáblómóttan kjól. Á gólfinu er hrúga af fötum. Unn gengur inn með köttinn í fanginu. Mamma, eigum við köttinn líka? Ég býst við því. Unn kemur auga á kjólinn. Fallegur kjóll, átti mamma þín hann? Já. Ég man eftir honum síðan ég var lítil. Ég veit ekki til hvers hún hefur geymt hann. Hvers vegna er engin dýna í rúminu? Franceska tekur augun af kjólnum og lítur á Unn. Hún var víst búin að liggja nokkra daga. Hefði legið enn lengur hefði nágranninn ekki heyrt öskrin í grísunum. Gyltan drap þá nær alla. Unn stirðnar upp. Kötturinn ólmast í fanginu á henni, stekkur síðan niður á gólf og skýst fram. Unn horfir á móður sína sem sýnir engin svipbrigði og fer aftur að skoða kjólinn. Ég ætla að sjá hvort ég finni eitthvað að gefa kettinum.

13 4. Unn fer fram á eftir kettinum. Franciska virðir kjólinn fyrir sér í smá stund, þreifar á efninu og hendir honum síðan í hrúguna. INT. ELDHÚS, SÍÐDEGI Unn tekur sardínudós úr einum skápnum, opnar hana og setur á gólfið. Gjörðu svo vel. Kötturinn ræðst á matinn og hámar í sig. Hún klappar honum blíðlega. Franciska gengur inn í eldhús. Ertu búin að sjá herbergið þitt? Unn glennir upp augun og brosir. Nei. Komdu, ég skal sýna þér það. Unn eltir mömmu sína út úr eldhúsinu. INT. SVEFNHERBERGI, SÍÐDEGI Herbergið er lítið en snyrtilegt. Inni í því er kommóða og uppbúinn dívan með ullarteppi og nokkrum útsaumuðum púðum. Á náttborðinu er gömul biblía og upp við einn vegginn er borð og vaskafat. Blúndugardínur eru fyrir glugganum. Þetta var einu sinni herbergið mitt. Unn kíkir inn í fataskápinn. Hann er tómur. Því næst skoðar hún í náttborðsskúffuna, sem líka er tóm. Að lokum sest hún á dívaninn. En hvar ætlar þú að sofa? Ég verð í stofunni. Farðu nú að koma þér fyrir. Ég ætla að taka til smá snarl fyrir okkur.

14 5. Franciska grípur með sér Biblíuna þegar hún yfirgefur herbergið. Unn leggst niður, lygnir aftur augunm og teygir makindalega úr sér. EXT. BAKGARÐUR, KVÖLD Franciska hefur hrúgað fötum foreldra sinna og öðrum smálegum munum, líkt og biblíunni, úti í garði. Unn gengur upp að henni, hún er syfjuleg og geispar. Franciska ber eld að hrúgunni. Það er aldeilis að þú ert búin að sofa? Það er brauð og með því á eldhúsborðinu. Unn kemur auga á blómótta kjólinn, efst í hrúgunni og glennir upp augun. Mamma, hvað ertu að gera? Þetta var allt meira og minna mölétið. Farðu nú inn og fáðu þér að borða. Mæðgurnar horfa á eldinn í smá stund. Það er svalt í lofti og hrollur í þeim. Allt í lagi mamma. Unn fer aftur inn. Franciska tekur fram bréfin, hendir þeim í eldinn og horfir á þau fuðra upp. EXT. KIRKJUGARÐUR, MORG Kirkjugarðurinn er gamall og gróinn. Fjöldi fúinna timburkrossa og grárra, mosavaxinna legsteina er á stangli umhverfis litla kirkju sem stendur í garðinum miðjum. Lágur kliður berst út. Mæðgurnar standa fyrir framan tvær grafir. Önnur er nýtekin, hin greinilega eldri. Þetta eru amma þín og afi. Unn gerir sig líklgega til að leggja rytjulegt blóm á gröf þeirra. Franciska grípur mjúklega í hönd hennar og stýrir henni burt.

15 6. INT. KIRKJA, MORG Þorpsbúar lúta höfði og fara með bænina Salve Regina. Allir nema (14), ljóshærð unglingsstúlka, sem fylgist með mæðgunum út um gluggann. Mæðgurnar yfirgefa kirkjugarðinn, Siss fylgir þeim eftir með augunum. Þegar þær eru horfnar sjónum lútir hún höfði og fer að þylja bænir í hálfum hljóðum.... móðir miskunarinnar, lífs yndi og von vor, heil sért þú. Til þín hrópum vér, útlæg börn Evu. Til þín andvörpum við stynjandi... INT. SVEFNHERBERGI, MORG Unn er búin að koma sér fyrir í herberginu. Nokkur litrík póstkort eru límd fyrir ofan rúmið og á borðinu liggja gamlar bækum um mannslíkamann. Plakat með mynd af beinagrind hangir fyrir ofan skrifborðið. Unn stendur á miðju gólfinu, í svörtum kjól og hvítri skyrtu innanundir. Franciska situr á dívaninum og fylgist með henni. Unn Sléttir úr pilsinu og dregur djúpt andann. Hún lítur á móður sína sem réttir henni skólatöskuna og brosir til hennar. Brosið nær ekki til augnanna. Þú verður of sein. Ég er alveg að fara. Unn dregur djúpt andann áður en hún heldur af stað. EXT. GÖNGUSTÍGUR, MORG Unn gengur hægum skrefum eftir stígnum með skólatöskuna á bakinu. Hún heyrir skvaldur og í ljós kemur HÓPUR EINKENNISKLADDRA SKÓLABARNA (13-15). Drengirnir eru klæddir dökkgráum stuttbuxum, hvítum skyrtum og steingráum jökkum. Stúlkurnar í samskonar klæðnaði og Unn. Ein stúlknanna er Siss. Unn staðnæmist og fylgist með krökkunum sem ekki hafa tekið eftir henni. Þau standa í hnapp í kringum lítinn broddgölt. Einn drengurinn, GYÖRGY (13) stjakar við dýrinu með tánni. Broddgölturinn veltur yfir á bakið og hniprar sig saman. Börnin flissa. Bjalla hringir í fjarska. Þau líta upp, koma auga á Unn og mæla hana út í smá stund. Síðan drífa þau sig í átt að skólanum. Unn heldur í humátt á eftir þeim.

16 7. INT. KENNSLUSTOFA, MORG Kennslukonan, FRÚ KURUC (37), stendur teinrétt fyrir framan töfluna og horfir yfir bekkinn. Unn er við hlið hennar. Börnin standa fyrir framan skrifborðin sín og bíða þess að mega fá sér sæti. FRÚ KURUC Góðan dag. Börnin svara öll í kór. BÖRN Góðan dag frú Kuruc FRÚ KURUC Fáið ykkur sæti. Börnin setjast. Í dag byrjar hjá okkur nýr nemandi. Þetta er Unn, við skulum bjóða hana velkomna. Börnin svara öll í kór. BÖRN Velkomin Unn. FRÚ KURUC Þú mátt fá þér sæti. Kennslukonan bendir henni á autt sæti aftarlega í kennslustofunni. Takk frú Kuruc. Unn gengur að borðinu sínu og sest niður. FRÚ KURUC Vinsamlegast takið nú upp bækurnar og skriffæri. Kliður fer um stofuna þegar börnin taka upp bækurnar. Unn opnar stílabókina sína. FRÚ KURUC Líka þú György. Jæja, hver getur sagt mér frá því sem þið lásuð heima? Siss? Unn horfir til skiptis á bókina sína og út um gluggann. Já frú. Sagan segir frá hafmeyju og smokkfiski sem fella hugi saman. Allir í konungsdæminu (MORE)

17 CONTINUED: 8. (cont d) hlæja að ást þeirra því smokkfiskurinn er ekki verðugur að eiga prinsessu... Unn rissar mynd í stílabókina sína. INT. ELDHÚS, DAGUR Franciska liggur á fjórum fótum og skrúbbar gólfið. Hún vindur tuskuna og setur ofan í fötu, það er sápulöður á höndunum á henni. Síðan fer hún með fötuna út. EXT. HÚS, DAGUR Franciska skvettir vatninu úr fötunni. INT. STOFA, DAGUR Franciska opnar skáp, tekur fram silfurkertastjaka, hnífapör og klút. Hún lítur aftur í skápinn. Innst í horninu kemur hún auga á ryðgaða tindós. Hún tekur dósina út og opnar. Í henni eru nokkrir seðlar og gullhringur með rauðum steini. (Við sjálfa sig) Hérna geymdirðu þetta þá. Gamla nánösin þín. INT. SKÓLI - FORSTOFA, SÍÐDEGI Unn stendur í útidyrunum. NOKKRIR LILIR DRENGIR (7-8) smeygja sér fram hjá henni með látum. Hún stígur út og dyrnar lokast. Siss og tvær vinkonur hennar, MARTA (13) og REBEKA (14) horfa á eftir henni. MARTA Gamla kerlingin sem drap sig var víst amma hennar. REBEKA Já, mamma segir að þær séu bara hér því þær erfðu húsið. Þær voru ekki einu sinni viðstaddar útförina.

18 9. INT. ELDHÚS, SÍÐDEGI Franciska hrærir í potti þegar Unn kemur inn. Unn þefar út í loftið og gengur að pottinum. Mmmm, hvaða lykt er þetta? Ég er að elda paprikukjúkling og soðbollur. Það er aldeilis. Eru jól, eða hvað? Við eigum nú skilið smá lúxus, er það ekki? En heyrðu, farðu nú fyrir mig í krambúðina og kauptu eitthvað gott í eftirrétt. Franciska lítur upp úr pottinum og á dóttur sína. Það lifnar yfir Unn. Í alvöru? Eins og hvað? Komdu mér á óvart. EXT. GARÐUR -, SÍÐDEGI BRIGID (39), þreytuleg og gráspengd kona, reytir kjúkling. Hvítur dúnn flögrar í kringum hana. OTTO (1), sonur hennar og litli bróðir Siss hangir í pilsfaldinum og vælir. LÁSZLÓ (5) miðjubróðirinn hleypur á eftir dauðhræddri hænu í garðinum. BRIGID László hættu þessu. Siss opnar garðhliðið og grípur í handlegginn á bróður sínum sem ólmast og reynir að sleppa. Hænan hleypur í skjól. Brigid hættir að plokka kjúklinginn og þurrkar svita af enninu á sér með handarbakinu. BRIGID Siss, farðu fyrir mig til slátrarans og kauptu pylsur. Já mamma. Er í lagi að ég skipti um föt fyrst? Brigid bendir Siss ergilega að fara inn og fer aftur að reyta fiðrið af kjúklingnum.

19 CONTINUED: 10. BRIGID Já, já. En vertu snögg. Peningurinn er á kommóðunni. Já, mamma. Siss sleppir takinu á bróður sínum, sem hleypur rakleitt á eftir hænunni, og fer inn. Brigid sleppir ergileg takinu á kjúklingnum sem hún var að reyta. BRIGID László, ég sagði þér að hætta þessu. Drengurinn lætur ekki segjast. Brigid fer á eftir honum, grípur hann, bregður honum yfir hné sér, girðir niður um hann og flengir þéttingsfast. László rekur upp org. INT. SVEFNHERBERGI -, SÍÐDEGI Herbergið er bjart og snyrtilegt. Lítil mynd af tveimur stúlkubörnum sem gætt er af engli hangir fyrir ofan rúmið. Gegnt rúminu er skrifborð og stóll. Siss brýtur saman skólabúninginn sinn og leggur frá sér á borðið. Síðan fer hún í ljósan sumarkjól yfir nærfötin. Hún tekur upp lítinn handspegil sem liggur á borðinu, klípur sig í kinnarnar til að fá roða í þær og skoðar spegilmynd sína augnablik. EXT. STÍGUR, SÍÐDEGI Siss hjólar eftir stígnum. Þegar hún er farin að nálgast torgið nemur hún staðar og leysir sítt, ljóst hárið úr fléttunum. Hárið flæðir niður axlirnar. EXT. KRAMBÚÐ, SÍÐDEGI AFFGREIÐSLUKONA (52) stendur í dyragætt krambúðarinnar. Hún er í hvítum kjól með rauðum röndum. Rytjulegur PILTUR (6) og skítug STÚLKA (5) mæna inn um gluggann. Afgreiðslukonan bandar þeim reiðilega burt. AFGREIÐSLUKONA Komið ykkur burt. Þið kámið glerið. Krakkarnir flýja vonsviknir og konan tautar við sjálfa sig.

20 CONTINUED: 11. AFGREIÐSLUKONA Fjandans niðursetningar. INT. KRAMBÚÐ, SÍÐDEGI Unn stendur við búðarborðið og skoðar úrvalið. Afgreiðslukonan slær suðandi flugu frá sætindunum. AFGREIÐSLUKONA Áttu pening? Spurning afgreiðslukonunnar slær Unn út af laginu. Uuuhh, já. Unn hugsar sig um. AFGREIÐSLUKONA Jæja, hvað ætlarðu þá að fá? Ég ætla að fá... Ég ætla að fá tvær rjómabollur... og tvö kirsuberjastykki. Afgreiðslukonan tekur saman sætabrauðið og pakkar því inn. Síðan réttir hún fram höndina. AFGREIÐSLUKONA Það gera fjörutíu og sex aura. Unn tekur aurinn úr buddunni og réttir yfir borðið. Afgreiðslukonan tekur við peningnum og réttir henni pokann. Takk fyrir. Afgreiðslukonan snýr sér við og fer að sýsla eitthvað, hún tekur ekki undir kveðju Unn. Unn grípur tækifærið á meðan sú gamla er ekki að horfa og grípur poka af brjóstsykri með sér áður en hún fer út. EXT. KJÖTBÚÐ, SÍÐDEGI Unn er á leið heim, með sætabrauðið undir handleggnum. Hún stingur upp í sig brjóstsykursmola. Horaður flækingshundur hringsólar fyrir framan kjötbúðina og vælir. JAN (17), ungur, ljóshærður og myndarlegur drengur birtist í dyragættinni, hann hendir í hundinn beini.

21 CONTINUED: 12. JAN Var hún erfið við þig? Unn nemur staðar fyrir framan verslunina. Hún er með fullan munn af brjóstsykri. Ha, hver? JAN Kerlingin í krambúðinni. Hún er erfið við alla undir þrítugu. Nema börn bæjarstjórans. Já hún. Hún hefði betur verið ögn kurteisari. Unn réttir fram pokann og býður Jan. Brjóstsykur? EXT. TORG, SÍÐDEGI Siss kemur hjólandi í áttina að kjötbúðinni. Hún kemur auga á Jan og Unn og nemur staðar. Jan stingur upp í sig brjóstsykri. Tekur síðan í höndina á Unn og kynnir sig. Kunnulegt blik er í augum hans. Siss fer af baki og leiðir hjólið síðasta spölinn að kjötbúðinni, Unn og Jan kveðjast, Jan fer inn og Unn gengur af stað. EXT. KJÖTBÚÐ, SÍÐDEGI Siss er komin upp að búðinni. Hún starir kuldalega á Unn, gengur svo fram hjá henni án þess að heilsa. Unn brosir lítillega með sjálfri sér, hristir höfuðið og gengur burt. INT. BORÐSTOFA -, KVÖLD Siss er snúðug og snertir hvorki pylsuna, né kartöflumúsina heldur rótar í disknum með gafflinum. Ottó gruflar með puttunum í matnum. Brigid er þreytuleg, svuntan hennar er blettótt, það eru svitaperlur á efri vörinni og hárið er úfið. Hún þurrkar fingur Ottós með blautri tusku. BRIGID Hva, er þetta ekki nógu gott fyrir þig?

22 CONTINUED: 13. Jú mamma. Ég hef bara enga lyst. BRIGID Hefurðu enga lyst? Heldur þú að við vöðum í peningum? Hvað eigum við að gera við matinn? Henda honum fyrir svínin kannski? Siss stingur upp í sig bita og tyggur hægt. Pabbi hennar, BÉLA (45) teygir sig í áttina að disknum, stingur gafflinum í pylsuna og setur á diskinn sinn. BÉLA Þegiðu kelling. Ég skal éta þetta. Siss situr eftir með tóman disk fyrir framan sig. BRIGID (Við Siss) Þú mátt fara frá borðinu. Já mamma. Takk fyrir mig. Siss tekur diskinn sinn og fer fram. INT. SVEFNHERBERGI -, KVÖLD Siss háttar. Hún sogar inn magann og skoðar sig gagnrýnin. Síðan klæðir hún sig í hvítan náttserk og leggst í rúmið. Augu hennar eru galopin. Hún vefur sér í sængina og snýr sér á hliðina. INT. STOFA, KVÖLD Mæðgurnar hafa lokið við að borða kvöldmat. Það logar á kerti á borðstofuborðinu. Franciska leggur diska og bolla á borðið á meðan Unn raðar sætabrauðinu fallega á kökudisk. Ég hef aldrei áður smakkað kirsuberjastykki. Bíddu bara. Réttu mér diskinn þinn. Franciska tekur kirsuberjastykkið upp með kökuspaða. Hún réttir út höndina til að setja það yfir á diskinn en hittir ekki. Kakan lendir á borðinu og Franciska rekur upp dálítið óp. Mæðgurnar flissa lítillega. Unn kemur sætabrauðinu fyrir á disknum sínum. Það er rjómaklessa á

23 CONTINUED: 14. borðinu þar sem kakan lenti. Unn tekur klessuna upp með fingrinum, sem hún svo stingur upp í sig. Mmmmmm... INT. SKÓLI - FORSTOFA, MORG Börnin standa í röðum og bíða þess að vera hleypt inn í skólastofuna. Siss og vinkonur hennar gjóa augunum í átt að Unn og hvískra. Kennslukonan hleypir börnunum inn. Siss og vinkonur hennar halda áfram að pískra og hlæja þegar Unn gengur fram hjá þeim. INT. KENNSLUSTOFA, SÍÐDEGI Börnin eru í söngtíma. Þau syngja gamalt þjóðlag í kór. Kennslukonan stjórnar söngnum. Stelpurnar halda áfram að gjóa augunum til Unn og glotta. BÖRN (Ungverskt þjóðlag) Ég held á fjarlægar slóðir. Þangað sem enginn áður hefur komið. Umkomulaus er ég, einmana eins og ský. Ég hef engan mér hjá. Ég hef engan mér hjá. Dagar mínir eru fylltir mæðu. Morgundeginum fylgir engin von. Sorg mín sigrar. INT. BÆJARSKRIFSTOFA, DAGUR HERRA JAKÚB (53) situr fyrir aftan voldugt skrifborð. Franciska situr fyrir framan hann Á milli þeirra er samningur. Hann sleikir digra fingurna og flettir upp á öftustu síðu samningsins. HERRA JAKÚB Þú setur nafnið þitt hér og hér. Ég kann að lesa, þakka þér fyrir. Franciska undirritar samninginn og réttir yfir borðið. Herra Jakúb tekur á móti pappírunum og setur fyrir framan sig. Síðan vætir hann stimpil bleki, stimplar samninginn og lítur í augu Francisku. HERRA JAKÚB Jæja, það ætti ekki að væsa um þig og bastarðinn í nýja húsinu.

24 CONTINUED: 15. Hann réttir Francisku samninginn hún, stendur hægt upp frá borðinu án þess að líta af Herra Jakúb. Ég veit í það minnsta hvar minn bastarður er niðurkominn. Franciska snýst á hæli og yfirgefur skrifstofuna. EXT. STÍGUR, SÍÐDEGI Unn situr á gamalli rótarhnyðju við veginn. Gamalt, ryðgað hjól liggur við hliðina á henni. Siss, Marta og Rebeka koma gangandi. Þegar þær sjá Unn hægja þær ósjálfrátt á sér. Ég var farin að halda að ég hefði misst af ykkur. Stelpurnar nema staðar. Úr andlitum þeirra má lesa undrun. Hvað áttu eiginlega við? Unn þegir í smá stund. Sest síðan glottandi á hjólið sitt. Siss, ég vildi bara segja þér að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Þú mátt eiga hann alveg ein. Unn hjólar af stað. Áður en hún hverfur sjónum snýr hún sér við, glottir og veifar stríðnislega. Marta og Rebeka líta á Siss sem er rjóð í kinnum og forðast augnaráð þeirra. MARTA Hvað í ósköpunum var hún að tala um? Siss brosir vandræðalega og gengur af stað. Ég hef ekki hugmynd. Marta og Rebeka elta. REBEKA Það er greinilega ekki í lagi með hana.

25 16. Rebeka og Marta skella upp úr. Siss hlær vandræðalega með þeim. EXT. HÚS, SÍÐDEGI Franciska stendur fyrir innan garðhliðið og neglir niður skilti sem á stendur "Til sölu". Unn nemur og stígur niður af hjólinu. Þú ert greinilega búin að hitta sýslumanninn. Já. Þetta er allt klappað og klárt. Unn opnar hliðið og reiðir það að útidyrunum. Ég verð inni hjá mér að læra. Hún gengur inn. Franciska klárar að negla niður skiltið. INT. SVEFNHERBERGI, SÍÐDEGI Unn kúrir í rúminu með köttinn í fanginu. Varstu nokkuð að abbast upp á læðuna í næsta húsi? Hún kyssir hann á trýnið og horfir í augun á honum. Nei, þú ert herramaður. Þú myndir ekki gera svoleiðis. Það er bankað á dyrnar, Franciska opnar og gægist inn. Hún er tortryggin á svip. Það er verið að spyrja eftir þér. EXT. HÚS, SÍÐDEGI Þegar Unn kemur að dyrunum stendur Siss fyrir utan og tvístígur. Sæl. Unn brosir glettin til Siss.

26 CONTINUED: 17. Ég vissi að þetta værir þú. Er það? Komdu innfyrir? Ha, nei, nei. Þetta er allt í lagi, ég ætlaði bara... Unn grípur í handlegginn á Siss og teymir hana innfyrir dyrnar. Jú, komdu inn. Ég ætla að sýna þér herbergið mitt. INT. SVEFNHERBERGI, SÍÐDEGI Siss stendur vandræðaleg á miðju gólfi. Unn hlammar sér í rúmið hjá kettinum. Hvernig líst þér á? Ég hef aldrei áður haft sér herbergi. Siss horfir hissa á Unn. Það er mjög fínt. Ert þú líka með þitt eigið herbergi? Ha, já. Auðvitað ertu með eigið herbergi. En heyrðu Unn, varðandi þetta í dag, mig langar að... Biðja mig afsökunar. Ég veit. En veistu, þú gast ekki látið nýju stelpuna komast upp með að stela stráknum sem þú ert skotin í. Unn er glettin á svip, Siss horfir smá stund á tærnar á sér, brosir svo vandræðaleg út í annað.

27 CONTINUED: 18. Já, eitthvað svoleiðis. Unn tekur upp köttinn og knúsar. Ég hef heldur aldrei átt kött. Ég kalla hann Alfonz. Mér sýnist þetta reyndar vera læða. Í alvörunni? Unn snýr kettinum við og lyftir rófunni til að kíkja. Veistu, ég held að henni sé alveg sama þótt að ég kalli hana Alfonz. Siss sest á rúmstokkinn við hliðina á Unn og klappar kettinum. Bankað er á dyrnar. Franciska gægist inn. Stelpur má ég bjóða ykkur hressingu? Unn brosir laumulega til Siss. INT. ELDHÚS, SÍÐDEGI Stelpurnar sitja við narta í ostakex. eldhúsborðið, drekka mjólkurkaffi og Svo hvað geriði til að skemmta ykkur hérna? Siss hugsar sig um stundarkorn. Bara allskonar. Unn horfir stíft á Siss og bíður eftir svari. Það eru stundum söngskemmtanir í félagsheimilinu. Unn glennir upp augun.

28 CONTINUED: 19. Síðan flissar hún. Hvað segirðu? Eru stundum söngskemmtanir í félagsheimilinu? Ekki er það allt og sumt? Siss verður vandræðaleg á svip. Nei, auðvitað ekki. Hvað gerið þið í borginni til að skemmta ykkur? Ja, bara þetta venjulega, drekkum brennivín, brjótum rúður, rænum gamlar kellingar og... (Innan úr stofu) Unn, vertu ekki að bulla þetta (Við Siss) Ekki taka mark á henni. Unn beygir sig flissandi fram á borðið í átt að Siss. Ég vissi að hún væri að hlera. Siss hlær með henni. Franciska kemur inn í eldhús. (Við Siss) Viltu ekki fá þér meira? Nei takk, ég þarf að drífa mig núna. Foreldrar mínir fara að hafa áhyggjur. Siss stendur upp, Unn fylgir á eftir. Takk fyrir mig. Verði þér að góðu. Stelpurnar ganga í átt að útidyrunum.

29 20. INT. FORSTOFA, SÍÐDEGI Unn stendur í dyragættinni og veifar. Bless, sjáumst í skólanum. Síðan lokar hún dyrunum. Þegar hún snýr sér við stendur Franciska fyrir framan hana. Hún er alvarleg á svip. Unn vertu ekki að rugla svona í fólki. Þú veist aldrei hvaða kjaftasögur hún gæti farið að bera út. Unn brosir glettnislega til mömmu sinnar. Vertu þá ekki að hlera. INT. ELDHÚS -, KVÖLD Brigid er að bita í sundur horðaða kanínu. Ottó hangir í pilsfaldinum og vælir. Brigid stuggar honum í burtu. Siss gengur inn. BÉLA (Innan úr stofu) Hvar er maturinn minn? Brigid virðist fegin að sjá Siss. BRIGID Hvar hefurðu verið? Pabbi þinn er búinn að vera að leita að þér. BRIGID (Við Béla) Siss er komin. BÉLA (innan úr stofu) Segðu henni að koma og æfa sig á píanóið í smá stund. Brigid heldur áfram að þjösnast á kanínunni en gefur Siss merki um að hlýða pabba sínum. Siss yfirgefur eldhúsið. INT. STOFA -, KVÖLD Pabbi Siss situr makindalega í hægindastólnum og reykir pípu. Það mótar fyrir bumbunni í gegnum skyrtuna. Siss sest við píanóið og fer að spila Hungarian Dance No 5 eftir Brahms. Pabbi hennar lygnir aftur augunum og dregur sér smók.

30 21. INT. SKÓLI - NÁTTÚRUFRÆÐISTOFA, DAGUR Plaköt skreytt jurtum og dýrum hanga á veggjunum. Á hillu er röð af krukkum, í hverri krukku flýtur svínafóstur í gruggugum vökva. Nokkur glerbúr standa á borði. Kennslukonan stendur fyrir framan eitt búrið. Hún heldur í skottið á lítilli mús sem ólmast í loftinu. Börnin standa í hnapp við hliðina á henni. Hún opnar búrið og sleppir takinu á músinni sem lendir fyrir framan snák. Hann virðir músina fyrir sér stundarkorn, stekkur síðan á hana. Börnin hræra sig hvergi. Siss lokar augunum. FRÚ KURUC Allt hefur sinn tilgang, börn mín góð. Allt hefur sinn tilgang. Börnin stara á músina hverfa ofan í snákinn, öll nema Siss sem er enn með lokuð augu. Györgi byrjar að hlæja stórkallalega. FRÚ KURUC Jæja, allir á sína staði. Þið munið með hverjum þið eigið að vera í hóp. Börnin taka sér stöðu fyrir aftan borðin sín. Siss og Unn standa við eitt borðið. Fyrir framan þær er bakki, flísatöng, lítil skæri, hnífur, nokkrir títuprjónar, bómullarbnoðri og dauður froskur. FRÚ KURUC Þið byrjið á því að næla sýnið á bakkann. Siss starir á froskinn fyrir framan sig, en gerir ekkert. Unn lítur á hana, setur síðan froskinn á bakkann, með magann upp og stingur títiprjóni í hvern fótlegg til að skorða hann. Kennslukonan gengur á milli borða og skoðar hvernig börnunum gengur. FRÚ KURUC Þegar þið eruð búin að koma sýninu fyrir er kominn tími til að opna kviðarholið. Siss starir á froskinn, hendur hennar hvíla meðfram síðunum. Viltu að ég sjái um þetta?

31 CONTINUED: 22. Siss kinkar kolli. Unn tekur flísatöngina og tosar í skinnið á maganum. Síðan klippir hún húðina í sundur og leggur hvorn flipa til hliðar þannig að innvolsið blasir við. Siss er orðin hvít í framan. Vissir þú að hjá sumum tegundum froska er það karlinn sem sér um ungviðið? Hann geymir eggin upp í sér og spýtir svo ungunum út þegar þeir eru orðnir nógu stórir til að sjá um sig sjálfir. Siss hristir höfuðið. Unn tekur upp bómullarhnoðra og þerrar blóð sem farið er að safnast meðfram öðrum flipanum. Kennslukonan gengur að borðinu þeirra. FRÚ KURUC Siss, ekki standa þarna eins og þvara. Ertu hrædd við að óhreinka hendurnar? Siss lokar augunum, andar inn og gerir sig líklega til að taka við áhöldunum af Unn. Frú Kuruc, ég var að taka við. Ég myndi gjarnan vilja fá að spreyta mig líka. Kennslukonan virðist ögn tortryggin. FRÚ KURUC Nú, fyrirgefðu. Auðvitað máttu það. Kennslukonan gengur að næsta borði. Siss andar léttar og lítur á Unn. Takk. Unn brosir hughreystandi til Siss. EXT. HÚS, DAGUR IGOR (31) og kona hans, IVONNE (25) sem augljóslega er þunguð, standa fyrir framan hús Francisku. Igor bankar ákveðið á dyrnar. Franciska lýkur upp fyrir þeim. IGOR Við erum hér til að skoða húsið. Franciska færir sig úr gangveginum til að hleypa hjónunum inn.

32 CONTINUED: 23. Komið innfyrir. Igor og Ivonne ganga inn. INT. STOFA, DAGUR Franciska gengur á undan hjónunum. Ivonne horfir í kringum sig, en Igor horfir stíft aftan á Francisku sem vísar veginn. Þetta er stofan. Innaf stofunni eru tvö svefnherbergi, og í bakgarðinum er aðstaða fyrir svín og hænur, sem fylgja húsinu. Igor brosir lymskulega. IGOR Þessi söluræða er með öllu óþörf. Ég er kominn til að gera þér tilboð. Franciska snýr sér við og lítur á Igor. Ivonne ræskir sig vandræðaleg og lítur niður. IGOR þrjátíu þúsund. Franciska lítur tortryggin á Igor sem glottir. Þú veist vel að húsið er mun meira virði. IGOR Já ég geri mér grein fyrir því. Ég veit líka að hér er enga vinnu fyrir þína líka að fá, og sparifé þeirrar gömlu dugar ekki endalaust. Nasavængir Francisku þenjast lítillega, en að öðru leyti sýnir hún engin svipbrigði. Hún bendir í átt að útidyrnum. Rödd hennar titrar lítið eitt. Þið ratið út.

33 24. EXT. HÚSVEGGUR, DAGUR Hlýtt er í veðri og sól á lofti. Unn og Siss sitja berfættar upp við húsvegg og naga puntstrá. Takk fyrir þetta í dag. Það var ekkert. Mér finnast krufningar heillandi hvort eð er. Siss er forviða en það lifnar yfir Unn. Ef ég væri strákur myndi ég vilja verða skurðlæknir. Vissir þú að erlendis eru reknir sérstakir læknaskólar fyrir konur? Ha, nei. Ég vissi það ekki. Stelpurnar þegja báðar og horfa feimnislega fram fyrir sig. Siss stingur stráinu aftur upp í sig. Heyrðu, langar þig kannski að koma með mér niður að vatni á morgun. En það er sunnudagur á morgun. Já, það eru einmitt bestu dagarnir. Þá fær maður vatnið algerlega útaf fyrir sig. Ég var búin að lofa að hjálpa mömmu með kökubasarinn. Er kökubasar á morgun? Það er enn betra. Segðu mömmu þinni bara að þú sért veik. Hún trúir því aldrei. Ég fer þá bara ein. Unn stingur upp í sig stráinu, lygnir aftur augunum og hallar höfðinu í átt að sólu. Siss reisir sig upp.

34 CONTINUED: 25. Hvers vegna farið þið ekki í kirkju? Unn tekur stráið út úr sér og opnar augun. Mamma segir að það sé ekki pláss fyrir fólk eins og okkur þar. Fegin er ég. Það væri ég líka. Unn stingur stráinu aftur upp í sig og lokar augunum. Siss gerir sig líklega til að standa upp. Ég þarf að drífa mig heim. Þú um það. Unn haggast ekki, heldur situr eftir, sleikir sólina og nagar stráið sitt. INT. ELDHÚS -, SÍÐDEGI Allskyns smákökum, bökum og kruðeríi er staflað á eldhúsbekkinn og hveiti upp um alla veggi. Siss kemur að bróður sínum, László, sem stendur við eldhúsbekkinn og raðar í sig góðgæti. Hann er með sultu út á kinn. László, hvað ertu að gera? Mamma verður brjáluð. Siss grípur í handlegginn á honum, en ekki áður en hann nær að hnupla einni kökunni enn. Hún teymir hann út úr edhúsinu. Siss heyrir læti innan úr búrinu og gægist í gegnum skráargatið. INT. BÚR, SÍÐDEGI Brigid stendur beygð yfir borðið, með pilsið upp um sig. Hveiti hrynur taktfast úr hárinu á henni. Béla stendur fyrir aftan hana með buxurnar á hælunum. Fölar rasskinnar hans hreyfast hratt fram og til baka. Hann heldur flötum lófa um hnakka hennar.

35 CONTINUED: 26. BÉLA Vertu kyrr, gyltan þín. Ég verð linur við að sjá framan í þig. INT. ELDHÚS -, SÍÐDEGI Siss hryllir sig og stígur aftur á bak. Ottó vælir innan úr stofu, Siss fer að sækja hann. INT. STOFA -, SÍÐDEGI Ottó stendur í leikgrindinni sinni og grætur. Hann er með hor út á kinn. Siss tekur hann upp. Hvað ertu að væla litli kall. Eigum við að koma og þvo þér í framan? Ottó hættir að gráta, en snöktir svolítið. Siss fer með hann fram. INT. BAÐHERBERGI -, SÍÐDEGI Siss þrífur Ottó í framan með þvottapoka. Hann er hættur að gráta. Svona. Nú ertu orðinn hreinn og fínn. BÉLA (Innan úr stofu) Siss, ertu komin heim? Siss lítur í spegilinn, lokar síðan augunum og andar frá sér. Ottó bablar og iðar í fanginu á henni. Já pabbi. Ég er inni á baði. PABBI Komdu nú og spilaðu smá á píanóið fyrir pabba gamla. Ég er að koma.

36 27. INT. STOFA -, SÍÐDEGI Siss setur Ottó aftur í grindina. Síðan sest hún við píanóið án þess að líta á pabba sinn. Béla situr í hægindastólnum, hárið er úfið og hægra skyrtulafið hangir niður fyrir buxnastrenginn. Hann er að troða tóbaki í pípuna sína. Siss byrjar að spila. Hann kveikir í, lygnir aftur augunum og tottar pípuna. Reykurinn liðast um herbergið. EXT. STÖÐUVATN - BAKKI, MORG Sólin skín í gegnum laufþykknið og fuglar syngja. Unn liggur á teppi við bakkann og hummar lagstúf. Það brakar í greinum fyrir aftan hana og hún lítur við. Siss birtist milli trjánna. Unn brosir þegar hún sér hana. Átt þú ekki að vera í messu? Ég er með gubbupest. Stelpurnar flissa. Siss dregur fram poka, fullan af bakkelsi og sest á teppið við hlið Unn. Ég kom með nesti. Unn skoðar í pokann, lokar honum svo aftur. Geymum þetta þangað til við erum búnar að synda. Komdu. Unn byrjar að klæða sig úr. Siss situr á teppinu og fitlar við kjólinn sinn. Unn er komin úr öllu nema nærfötunum. Hún horfir stríðnislega á Siss. Ekki ertu feimin? Nei. En hvað ef einhver sér okkur? Eins og hver? Það eru allir í messu. Unn veður út vatnið og bendir Siss á að koma líka.

37 CONTINUED: 28. Komdu útí tepran þín. Í augnablik gerir Siss ekkert, síðan lætur hún til leiðast, háttar og veður hægt út í til Unn. Það er kalt. EXT. STÖÐUVATN, MORG Stelpurnar standa andspænis hvor annarri spölkorn frá bakkanum. Bíddu. Vertu alveg kyrr. Unn ber höndina upp að andliti Siss. Lítil maríubjalla skríður yfir á fingurinn hennar. Það er gæfumerki ef að maríubjalla lendir á manni. Réttu mér höndina. Siss réttir fram höndina. Unn beinir maríubjöllunni yfir í lófa hennar. Blástu henni burt. Þá máttu óska þér. Siss ber lófann að andliti sínu,lokar augunum og blæs. Unn klemmir saman varirnar, skellir svo upp úr. Trúðirðu öllu sem þér er sagt. Siss stekkur á Unn og dýfir höfði hennar undir yfirborðið. Þegar Unn skýtur aftur upp kollinum frussar hún og hlær enn meira. EXT. STÖÐUVATN - BAKKI, MORG Stelpurnar liggja á bakinu og láta sólina þurrka sig. Hár þeirra er rennblautt og þær raða í sig kökum. Mmmmmm, þetta eru ótrúlega góðar kökur. Heldurðu að mamma þín taki ekki eftir því að það vanti svona margar?

38 CONTINUED: 29. Nei, hún heldur ábygglega bara að litli bróðir minn hafi borðað þær. Svo bakaði hún nóg til að fæða heila hersveit. Stelpurnar smjatta á bakkelsinu. Siss rúllar sér síðan yfir á magann og horfir í smá stund á Unn, líkt og hún sé að telja í sig kjark. Unn. Áttu ekki pabba? Unn slítur upp lítið blóm, rúllar sér líka yfir á magann og lítur á Siss. Þær liggja þétt upp við hvor aðra. Auðvitað á ég pabba. Ég bara veit ekki hver hann er. En hefurðu aldrei spurt mömmu þína um hann? Jú, hún hefur bara aldrei viljað tala um hann. Og ég er fyrir löngu búin að gefast upp á að spyrja hana. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi verið giftur. Finnst þér það ekkert leiðinlegt? Hvað? Að vita ekki hver hann er. Unn hugsar sig um í smá stund. Veistu, hann er ábyggilega maður sem mig langar ekkert að þekkja. Stelpurnar þegja saman í smá stund. Unn rekur blómið framan í Siss og kitlar hana í nefinu. Siss fitjar upp á nefið, líkt og hún þurfi að hnerra og bandar Unn svo brosandi burtu. Hættu. Ég þarf að drífa mig, basarinn fer að verða búinn.

39 30. Stelpurnar rúlla sér aftur yfir á bakið, standa upp og fara að ganga frá dótinu sínu. EXT. SKÓGUR, DAGUR. Stelpurnar ganga eftir troðningi í skóginum. Þær eru léttar í spori. Siss nemur staðar. Unn, bíddu aðeins. Ég þarf að pissa. Hún leggur frá sér dótið og bregður sér af stígnum. Þegar hún er komin í hvarf dregur hún niður um sig nærbuxurnar, sest á hækjur sér, lyftir pilsinu og pissar. Þegar hún er búin heyrir hún fliss og kemur auga á par sem lætur vel hvort að öðru í gegnum gróðurinn. Bæði eru hálfnakin. Siss girðir upp um sig og laumast til baka. Síðan bendir hún Unn á að koma með sér. Hún sussar á hana, bendir henni síðan flissandi á fólkið sem nú er kviknakið. Unn stekkur ekki bros, heldur stendur snögglega upp og klappar saman lófunum. Hey, þið. Drattist heim til ykkar. Fólkinu krossbregður. Það reynir að skýla nekt sinni, síðan hörfar það á brott. Siss er hætt að hlæja. Hvers vegna gerðirðu þetta? Æ, bara að gamni mínu. Unn gengur af stað. Siss eltir. INT. ELDHÚS, KVÖLD Franciska er blóðug upp fyrir haus. Á borðinu er stafli af steikum og lítið svínshöfuð. Fyrir framan hana er kjötkvörn. Hún hendir kjöttægjum og fitu í kvörnina og snýr sveifinni af miklum móð, bleikir taumar seitla ofan í skál fyrir neðan. Þegar Unn kemur auga á móður sína frýs hún í sporunum. Loksins ertu komin. Settu á þig svuntu, komdu svo og hjálpaðu mér.

40 CONTINUED: 31. Mamma. Slátraðirðu grísnum? Franciska heldur áfram að snúa sveifinni. Skálin fyrir neðan er barmafull af bleiku hakki. Já, ég held hann eigi eftir að duga okkur út sumarið. Kötturinn klórar í eldhúsdyrnar og mjálmar, æstur í að komast inn. Svona, stattu ekki bara þarna. Gerðu eitthvað gagn. Unn setur á sig svuntu og tekur við af Francisku. Sveifin er þung og Unn snýr henni hægt og með erfiðismunum. Franciska hendir meiri afgöngum í kvörnina og þjappar þar til bleikt gumsið tekur að vella í skálina. Svona, hraðar. voðaleg linkind er þetta. Unn reynir að auka hraðann, án árangurs. Franciska ýtir henni frá. Æ, það er best að ég geri þetta bara sjálf. Franciska snýr sveifinni af miklum krafti. Unn starir orðlaus á. INT. SVEFNHERBERGI, NÓTT Unn liggur í rúminu með galopin augu. Gegnum vegginn heyrist ískur úr kjötkvörninni. Franciska er enn að gera að svíninu. Unn byltir sér, setur koddann yfir eyrað og klemmir aftur augun. INT. KENNSLUSTOFA, DAGUR Stelpurnar sitja í sætunum sínum, Siss framarlega, Unn aftar í stofunni. Unn er þreytuleg og geyspar. Siss lítur til hennar, glottir og leggur lófana undir kinn líkt og hún sé að þykjast sofa. Síðan skrifar hún miða og lætur hann ganga til Unn. Unn les á hann og flissar. Kennslukonan, sem stendur fyrir framan krítartöfluna, verður þess vör og gengur yfir til hennar. Unn felur miðann í lófanum.

41 CONTINUED: 32. FRÚ KURUC Sagði ég eitthvað sniðugt? Nei, frú Kuruc. Alls ekki. FRÚ KURUC Þú vilt kannski deila því sem stendur á miðanum með okkur hinum. Kennslukonan réttir fram höndina. Unn kreppir lófann utan um miðann. Nei, frú. FRÚ KURUC Ef þú réttir mér ekki miðann núna strax verður þú látin sitja eftir. Unn horfir þóttafull á kennslukonuna. Stingur síðan miðanum upp í sig og lokar munninum. Kennslukonan snýst á hæli og gengur hægt að skrifborðinu sínu. Þögn slær á bekkinn. Hún opnar skrifborðsskúffuna og dregur fram samanbrjótanlegt prik. Síðan gengur hægum skrefum að Unn á meðan hún tekur prikið í sundur. Þegar hún er komin að borðinu tekur hún hendur Unn og stillir þeim upp á skrifborðinu, lófarnir vísa upp. Svo slær hún prikinu yfirveguð í lófann á Unn, sem kippist til, en kveinkar sér ekki. Unn lítur á kennslukonuna sem brosir lymskulega. Hún lætur annað högg falla. Unn kveinkar sér heldur ekki í þetta sinn og kennslukonan reiðir af enn eitt höggið. EXT. TORG, SÍÐDEGI Siss gengur eftir torginu. Jan stendur í dyrunum á kjötbúðinni og veifar, Siss veifar á móti og gengur í áttina til hans. EXT. KJÖTBÚÐ, SÍÐDEGI Jan hvílir bakið við dyrakarminn. Hann er glaður í bragði. JAN Nei, langt síðan ég hef séð þig. Ég var farinn að sakna þín. Siss ræður hvorki við brosið né roðann sem brýst fram í kinnarnar.

42 CONTINUED: 33. Pabbi varð sér úti um fisk. Það er ekki búið að vera neitt annað í matinn undanfarið. Jan brosir enn breiðar. Siss verður hins vegar vandræðaleg um leið og hún hefur sleppt orðunum. JAN Segðu pabba þínum að þú viljir fara að fá pylsur. Jan nikkar hana og fer svo inn. Siss heldur af stað, klemmir saman augun og hristir hausinn vandræðaleg á svip. INT. KENNSLUSTOFA, SÍÐDEGI Unn situr ein við borðið og skrifar í bókina sína. Opnan er þéttskrifuð. Þegar hún hefur lokið við að skrifa niður blaðsíðuna leggur hún pennann frá sér. Ég er búin frú Kuruc. Kennslukonan stendur upp frá skrifborðinu sínu og gengur yfir til Unn sem horfir á borðið. Hún tekur upp stílabókina og flettir í gegnum hana. FRÚ KURUC Gott. Þú hefur þá vonandi lært þína lexíu. Já, frú Kuruc. Kennslukonan gengur aftur að borðinu sínu. FRÚ KURUC (Í hálfum hljóðum) Ég mátti svo sem búast við því að þú yrðir til vandræða. Unn klemmir saman varirnar og horfir kuldalega á eftir kennslukonunni. Kennslukonan fær sér sæti við borðið sitt. FRÚ KURUC Þú mátt fara. INT. SAUMASTOFA, SÍÐDEGI Siss er á undirfötunum. Góðleg, eldri SAUMAKONA (63) stendur fyrir framan hana með málband á lofti. Hún ýtir handleggjum Siss upp.

43 CONTINUED: 34. SAUMAKONA Upp með hendur, svona já. Siss lyftir höndunum upp þar til þær standa út til beggja hliða. Saumakonan bregður málbandi utan um brjóstkassann á henni og skráir niður tölurnar. SAUMAKONA Þú ert farin að springa út stelpa. Strákarnir hljóta að vera farnir að elta þig á röndum? Siss roðnar og verður vandræðaleg. Ha, nei. Ekkert þannig. Saumakonan bregður málbandinu kringum mittið, skráir tölurnar hjá sér og kímir. SAUMAKONA Þá er það bara vegna þess að þú átt ekki nógu fínan kjól. Saumakonan mælir ummálið í kringum rassinn og skráir niður tölurnar. SAUMAKONA Bíddu hæg, mér var að detta dálítið í hug. Saumakonan nær í tískutímarit, flettir upp í því og sýnir Siss mynd af kjól. SAUMAKONA Þessi er eitthvað fyrir þig. Strákarnir munu ekki láta þig í friði í honum. Siss strýkur fingri eftir myndinni. SAUMAKONA Hvernig líst þér á? Hann er ofboðslega fallegur. Saumakonan tekur blaðið af Siss og gengur frá því. SAUMAKONA Jæja, þá er það ákveðið. Þú mátt fara aftur í fötin þín. Saumakonan fer fram. Siss verður eftir og gaumgæfir sig ánægð í speglinum.

44 35. INT. ELDHÚS, KVÖLD Franciska situr við eldhúsborðið. Hún er þreytuleg og með dökka bauga. Unn situr á móti henni, með útréttar hendur. Hún er rauð í augunum og sýgur upp í nefið. Franciska smyr smyrlsi varlega á lófana sem markaðir eru rauðum rákum. (Muldrar) Gamla herfan. Þetta er nú meiri friðþægingin. Unn lítur á móður sína. Franciska er rauð í augum. Svona, þetta ætti að draga úr bólgunni. Mamma, hvað varstu segja? Franciska virðist annars hugar. Ha, ekki neitt. Það er best ég fari að huga að matnum. Franciska stendur upp frá borðinu og þurrkar sér um augun. Unn situr eftir og horfir í lófann á sér. EXT. SKÓLALÓÐ, HÁDEGI Skólinn, sem starfræktur er í litlu timburhúsi, stendur í skugga hárra beykitrjáa. Lóðin, sem er fremur lítil, er girt af með hlöðnum múrsteinsvegg sem er má muna sinn fífil fegurri. Unn og Siss sitja í skugganum af tré á skólalóðinni. Unn strýkur lófann á sér. Allt í kringum þau eru börn að leik. Nokkrir LITLIR PILTAR (6-9) sparka bolta og hópur LÍTILLA STÚLKNA (6-9) leikur í parís. Siss flissar og les upp úr bók í hálfum hljóðum. Stundarkorn stóð heimurinn í stað. Felipe strauk þykkum vörunum eftir mjúkum, ávölum brjóstum hennar. Heit tungan lék við litlar bleikar geirvörturnar, sem stífnuðu jafnóðum upp. Hún hafði aldrei áður upplifað slíka frygð. Það var engu líkara en lendar hennar loguðu.

45 CONTINUED: 36. Unn ranghvolfir augunum og dæsir. Lítur svo forviða á Siss. Í guðanna bænum Siss. Hvar grófstu þennan hroða upp? Siss lokar bókinni snöggt og lítur glettilega á Unn. Voðalega ertu viðkvæm. Ertu nokkuð hinsegin? Hvað áttu við? Þú veist. Gefin fyrir stelpur. Unn setur stút á varirnar og snýr sér að Siss. Jú, komdu hérna og kysstu mig. Siss skellir upp úr og bandar Unn frá sér. Ef að ég er lesbía, þá ert þú með brókarsótt. Siss stingur bókinni ofan í tösku og lítur stórum augum á Unn. Unn, veistu hvað gerðist í gær? Nei. Ég var vant við látin. Ef þú manst ekki eftir því. Unn rekur rauða lófana framan í Siss, hún lætur sér fátt um finnast og ýtir þeim frá sér. Unn glottir. Þegar ég var á leiðinni til saumakonunnar þá hitti ég Jan. Og veistu hvað hann sagði? Sagði hann: "Ég þrái að strjúka þykkum vörunum eftir ávölum brjóstum þínum"?

46 CONTINUED: 37. Nei, hann sagði að hann hefði saknað mín. Af því að ég hef ekki komið í búðina svo lengi. Heldurðu að hann sé hrifinn af mér? Unn er hætt að glotta. Siss, ég er nokkuð viss um að hann langi bara til að sofa hjá þér. Siss lítur særð á Unn. Mikið ertu leiðinleg. Og hvað með það þó hann langi til að sofa hjá mér, ætlar þú að vera hrein mey alla ævi? Ég vil frekar vera hrein mey alla ævi heldur en að daga uppi í einhverju smáþorpi með grenjandi krakka í pilsfaldinum. Prakkaralegt bros færist yfir varirnar á Siss. Vissirðu ekki að það er engin hætta á því ef þú ert lesbía. Það þarf nefnilega bæði karl og konu til að geta barn. Unn grettir sig og slær til Siss sem skellihlær. EXT. ÚTIMARKAÐUR, DAGUR Franciska gengur á milli bása sem flestir hafa að geyma grænmeti og ávexti. Hún stoppar fyrir framan einn og tínir til nokkrar paprikur, kartöflur og lauka. Síðan réttir hún gamalli, tannlausri BÓNDAKONU (72) það sem hún hefur tínt til. Bóndakonan, sem er með sjal á höfðinu, tekur við grænmetinu, vigtar það og gengur frá. BÓNDAKONA Þetta gera 30 aura. Franciska tekur upp litla buddu, opnar hana, sturtar peningnum í lófa sér og byrjar að telja. Hún heyrir kunnuglega rödd fyrir aftan sig.

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson Ritstuldarvarnir Sigurður Jónsson sigjons@hi.is Aðgangur að Turnitin 1. Beint í Turnitin á www.turnitin.com 2. Gegnum Moodle-námskeið Kennarar og nemendur halda sig í Moodleumhverfinu Fá frumleikaskýrslu

More information

Ég vil læra íslensku

Ég vil læra íslensku Ég vil læra íslensku 16 Föt Föt Évlí - 16 föt 1 hlusta Generated by Foxit PDF Creator Foxit Software benda lita teikna klippa líma strákur stelpa ekki stelpa/ekki strákur hugsa Évlí - 16 föt 2 hlusta íslenskur

More information

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66 Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66.A.20(b) privileges The holder og an aircraft maintenance licence may not exercise its privileges unless: 1. In compliance

More information

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Q1. Ert þú karl eða kona? Karl 229 19.83% Kona 926 80.17% Fjöldi 1155 Q2. Á hvaða aldursbili ert þú? 30 ára eða yngri 190 16.42% 31-40 ára 257 22.21% 41-50 ára 312 26.97%

More information

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Samanburður vindmæla Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Haustþing Veðurfræðifélagsins 2011 Tegundir vindmæla Til eru margar mismunandi gerðir vindmæla sem byggja á mismunandi

More information

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND INDEX I. Regional Partnerships Official Partners of the OPEN DAYS 2011 East Iceland... 3 Austurlands... 5 2 I. Regional

More information

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Björn Traustason og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá Fagráðstefna 25.mars 2010 Inngangur Landfræðileg greining til að meta útbreiðslu nokkurra

More information

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. í sálfræði 103 á vorönn 2008 um viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. Rannsóknin á að gera grein fyrir afstöðu nemenda við Menntaskólanum á Egilsstöðum til nýgerða breytinga á stoðtímakerfi

More information

ÞINGMAÐURINN. Eftir Guðmund Óskarsson og Martein Þórsson. Byggt á sögu eftir Martein Þórsson 24. FEBRÚAR 2012

ÞINGMAÐURINN. Eftir Guðmund Óskarsson og Martein Þórsson. Byggt á sögu eftir Martein Þórsson 24. FEBRÚAR 2012 ÞINGMAÐURINN Eftir Guðmund Óskarsson og Martein Þórsson Byggt á sögu eftir Martein Þórsson 24. FEBRÚAR 2012 (c) 2012 Tenderlee Motion Pictures Company ehf. info@tenderlee.com 1 INNI. ÓRÆTT RÝMI - DAGUR/KVÖLD

More information

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði Eðlisfræðiskor HÍ og Raunvísindastofnun Háskólans Tilraunahúsið p.1/18 Sýnishorn af markmiðum ríkisvalds í menntamálum

More information

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Power Point leiðbeiningar Sjónarhorn View Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Outline view - Yfirlitshamur Hér er hægt að rita minnispunkta við hverja glæru fyrir þann sem

More information

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Ný tilskipun um persónuverndarlög UT Messa SKÝ, 9. febrúar 2012 Hörður Helgi Helgason Um fyrirlesara 1999 2000-03 2003-06 2006- Héraðsdómslögmaður Persónuvernd Ráðgjafi, evrópsk persónuv.lög LM lögmenn -> Landslög munið #utmessan Boligen

More information

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Morgunverðarfundur Ferðamálastofu Grand hótel, Reykjavík 14. apríl 2011 Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Dr. Edward H. Huijbens Forstöðumaður /

More information

Könnunarverkefnið PÓSTUR

Könnunarverkefnið PÓSTUR Könnunarverkefnið PÓSTUR Þáttakenndur í verkefninu UM PÓST Rauði hópur Vor 2010 Börn fædd 2005 Hópstjóri: Tatjana Lind Jónsson Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina

More information

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2 1 Examples 2 Sýnidæmi 2 2 Example 25-1 Gefið er 3 fasa, 3 teina raforkukerfi samkvæmt meðfylgjandi einlínumynd. Allar stærðir á myndinni eru í einingakerfinu ( per unit ). Seríuviðnám háspennulínanna er

More information

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Stóra myndin Uppbygging þekkingarsamfélags Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Bakgrunnur Viðskiptaráð Íslands 1 Yfirlit 1. Hvað eru þekkingarkjarnar? 2. Hvað

More information

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila desember 2016 VIÐMIÐ TEGUND FYRIRTÆKIS

More information

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 50. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 15. DESEMBER 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Þegar ritstjóri

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 16. TBL 2. ÁRG. MIÐVIKUDAGUR 20. APRÍL 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Betri er lítill fiskur

More information

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ / 1004720-1004720-3-ABC 2.1.2018 09::16 Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær»»» Reykjavík/HÍ 06:42 06:44 06:45 06:47 06:51 06:52 06: 07:17 07:18 07:22 07:28 07:29 07:31 07:32 07:34 07:36 07:38

More information

OKKUR KOM EKKI SAMAN UM FRAMTÍÐINA FYRIRSÆTAN ÁSDÍS RÁN GUNNARSDÓTTIR UM SKILNAÐ- INN, FYRIRSÆTUFERILINN, LÍFIÐ Í BÚLGARÍU OG ÁSTINA

OKKUR KOM EKKI SAMAN UM FRAMTÍÐINA FYRIRSÆTAN ÁSDÍS RÁN GUNNARSDÓTTIR UM SKILNAÐ- INN, FYRIRSÆTUFERILINN, LÍFIÐ Í BÚLGARÍU OG ÁSTINA 13. APRÍL 2012 BÝR SIG UNDIR ÓLYMPÍULEIKANA UPPLIFIR DRAUMAVERKEFNIÐ STJÖRNUR Á SKÍÐUM OKKUR KOM EKKI SAMAN UM FRAMTÍÐINA FYRIRSÆTAN ÁSDÍS RÁN GUNNARSDÓTTIR UM SKILNAÐ- INN, FYRIRSÆTUFERILINN, LÍFIÐ Í

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 19. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 12. MAÍ 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ Saman látum við hjólin snúast GRUNNNÁM

More information

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM Skýrsla fyrir skólaárið 2016-2017 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 1. Inngangur... 3 2. Markmið og tilgangur matsins... 3 3. Aðferðir og framkvæmd matsins... 3 4.

More information

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR Ingvar Örn Ingvarsson Verkefnisstjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar Samgöngufundur á Norðurlandi, 19. nóvember 2015 Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir

More information

Til að forritið vinni með Word þarf að hlaða niður á tölvuna forritsstubbnum Cite While You Write

Til að forritið vinni með Word þarf að hlaða niður á tölvuna forritsstubbnum Cite While You Write Veflæga heimildaskráningarforritið EndNote Web er notað til að halda utan um tilvísanir og búa til heimildaskrár. Hægt er að flytja tilvísanir úr bókasafnsskrám og gagnasöfnum inn í forritið. EndNote Web

More information

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur CHEMISTRY The Central 9th Edition Hlutfallareikningur: AðA reikna út frá formúlum og efnajöfnum fnum Lavoisier: Massi varðveitist í efnahvörfum. : lýsa efnahvörfum. Efnajafna : Hvarfefni og myndefni: 2H

More information

Háskólaprentun Reykjavík 2015

Háskólaprentun Reykjavík 2015 Háskólaprentun Reykjavík 2015 Inngangur Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar við fórum að velta fyrir okkur hvernig tískan hefur verið í gegnum tíðina og hvernig hún hefur breyst hjá unglingum undanfarna

More information

Wind to Hot water MILL Detailed Specifications

Wind to Hot water MILL Detailed Specifications MILL 2700 Detailed Specifications Generator Type 3 phase generator with high-quality permanent magnets. Cast aluminium body. Generator Weight 25 kg Blade/Rotor Construction 3 Blades, Advanced injection

More information

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg.

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg. STO FNA Ð 1945 VESTANPÓSTUR Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg. Meðal efnis: Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi VESTANPÓSTUR 2006 Ábyrgðarmaður: Guðfinnur Kjartansson

More information

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Þórólfur Guðnason yfirlæknir Sóttvarnalæknir, Embætti landlæknis Nóvember 2014 Gastegundir frá eldgosum >95% H 2 O, CO 2 SO 2

More information

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 I GENERAL INFORMATION ABOUT THE SCHOOL 1. Describe the school and its surroundings very

More information

Fjölmenning á Íslandi Maí Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir

Fjölmenning á Íslandi Maí Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir Fjölmenning á Íslandi Maí 2018 Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir Multicultural Iceland May 2018 In Icelandic the word menning (culture) does not exist in the plural form yet at the same time Icelandic

More information

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík Notkun merkis Veðurstofu Íslands Veðurstofa Íslands Bústaðavegur 9 150 Reykjavík +354 522 60 00 +354 522 60 01 vedur@vedur.is Maí 2009 2 Efnisyfirlit Merki 3 Litanotkun 5 Merki í fleti 6 Stærð merkisins

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 18. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 5. MAÍ 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ ÍSLENSKA SIA.IS ICE 54848 05/11 GÓÐIR

More information

Lífið FURÐUVERUR OG BÓNORÐ Í SMS-I. Signý Kolbeinsdóttir. Nanna Árnadóttir íþróttafræðingur STUNDUM LÍK- AMSRÆKT ÚTI VIÐ Í SÓLINNI 4

Lífið FURÐUVERUR OG BÓNORÐ Í SMS-I. Signý Kolbeinsdóttir. Nanna Árnadóttir íþróttafræðingur STUNDUM LÍK- AMSRÆKT ÚTI VIÐ Í SÓLINNI 4 Lífið Nanna Árnadóttir íþróttafræðingur STUNDUM LÍK- AMSRÆKT ÚTI VIÐ Í SÓLINNI 4 Eva Laufey Kjaran þáttagerðarkona LJÚFFENGUR LAXABORGARI OG LAXASTEIK 8 Tíska og trend í förðun SÉRFRÆÐINGUR KENNIR GLAMÚR-

More information

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017 Innihaldsyvirlit til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor seinast dagført 15. aug. 2017 Innihaldsyvirlit...1 Upprættan av kundum við INDIVID...2 Allar fyritøkur og persónar, ið hava føroyskt A-,

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 3. TBL 1. ÁRG. FIMMTUDAGUR 8. APRÍL 2010 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ Fermingarveislan er hafin Þú átt að elska rúmið

More information

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar 1 Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar Introduction to rotating machines 2 Grunnhugtök og meginþættir Klassískar gerðir véla Riðstraumsvélar Samfasavél (synchronous machine) Spanvél (induction machine

More information

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson Samstarf HR og IGI Ólafur Andri Ragnarsson Leikjaiðnaðurinn 2021 Leikjaiðnaðurinn 2021 5.000 störf 70 milljarðar í heildarútflutningstekjur ef... Photo Ian Parker http://parkerlab.bio.uci.edu/nonscientific_adventures/iceland_man.ht

More information

föstudagur SUMARTILBOÐ VIL GERA HLUTINA Á EIGIN FORSENDUM Fylgir frítt með! HÚN HEFUR ALLTAF VERIÐ SYNGJANDI

föstudagur SUMARTILBOÐ VIL GERA HLUTINA Á EIGIN FORSENDUM Fylgir frítt með! HÚN HEFUR ALLTAF VERIÐ SYNGJANDI föstudagur FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS 8. maí 2009 VIL GERA HLUTINA Á EIGIN FORSENDUM Ólöf Jara Skagfjörð Valgeirsdóttir fer með hlutverk Sandyar í Grease, er á leið í sambúð og klárar stúdentspróf. HÚN HEFUR

More information

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga BSc. ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga Eva Úlla Hilmarsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson Febrúar

More information

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 22. TBL 1. ÁRG. FIMMTUDAGUR 9. SEPTEMBER 2010 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Bubbi Morthens hætti

More information

Könnunarverkefnið. Ljón. Þáttakenndur í Ljónaverkefninu. Rauði hópur. Haust 2009 Börn fædd 2005

Könnunarverkefnið. Ljón. Þáttakenndur í Ljónaverkefninu. Rauði hópur. Haust 2009 Börn fædd 2005 Könnunarverkefnið Ljón Þáttakenndur í Ljónaverkefninu Rauði hópur Haust 2009 Börn fædd 2005 Hópstjóri: Tatjana Lind Jónsson Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina

More information

Dystópíur uppgangskynslóðarinnar

Dystópíur uppgangskynslóðarinnar Hugvísindasvið Dystópíur uppgangskynslóðarinnar Dystópíur François Truffaut og Jean-Luc Godard og áhrif maí 1968 Ritgerð til BA-prófs í kvikmyndafræði Sigurður Helgi Magnússon Maí 2013 Háskóli Íslands

More information

17. MARS 2006 I 11. VIKA UNG OG ÓHRÆDD

17. MARS 2006 I 11. VIKA UNG OG ÓHRÆDD ÞITT EINTAK SIRKUS 17. MARS 2006 I 11. VIKA RVK ÞÓRDÍS ELVA OG GUÐMUNDUR INGI OPNA DYRNAR VERTU ÁRSHÁTÍÐAR- DÓLGUR BALTASAR BREKI TEKINN Á TEPPIÐ UNG OG ÓHRÆDD MATTHILDUR LIND MATTHÍASDÓTTIR SIGRAÐI Í

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 20. TBL 3. ÁRG. FIMMTUDAGUR 17. MAÍ 2012 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ LANGAR ÞIG AÐ KOMAST FRÍTT Á STÆRSTA

More information

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11 Samantekt Í þessari ritgerð er fjallað um rými og innsetningar og sérstaklega verk Elínar Hansdóttur Path og Parallax. Elín er ungur, íslenskur listamaður sem hefur vakið mikla athygli á síðustu árum með

More information

ALLTAF Í VEÐMÁLUM. Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen

ALLTAF Í VEÐMÁLUM. Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen Björn Sveinbjörnsson og Svava Johansen ALLTAF Í VEÐMÁLUM 30. NÓVEMBER 2007 Jón Ásgeir á lúxusráðstefnu í Moskvu Bjarni töframaður og kokkanámið Ellý Ármanns og fötin hennar BLS. 2 sirkus 30. NÓVEMBER 2007

More information

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Hugvísindasvið Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Pólitíkin og pönkið Ritgerð til B.A.-prófs Valur Gunnarsson Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði Skítsama um allt, frá

More information

Þegar tilveran hrynur

Þegar tilveran hrynur ÓHÁÐ FRÉTTABLAÐ Á VESTFJÖRÐUM Fimmtudagur 11. júní 2003 23. tbl. 20. árg. Stofnað 14. nóvember 1984 Sími 456 4560 Veffang: www.bb.is Netfang: bb@bb bb.is Verð kr. 250 m/vsk Þegar tilveran hrynur rætt við

More information

Viftur. Það borgar sig að nota það besta! Bíla- og vélavörur...sem þola álagið! Höfundar efnis í þessu blaði: Bogi Baldursson.

Viftur. Það borgar sig að nota það besta! Bíla- og vélavörur...sem þola álagið! Höfundar efnis í þessu blaði: Bogi Baldursson. Höfundar efnis í þessu blaði: Bogi Baldursson Þá er þetta annað tölublað Mótor & Sport orðið að veruleika og viljum við þakka fyrir allar þær hringingar og tölvupósta sem okkur hafa borist. Miðað við viðtökurnar

More information

FÖSTUDAGUR. Það lærir enginn að vera hugmyndaríkur. Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt:

FÖSTUDAGUR. Það lærir enginn að vera hugmyndaríkur. Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt: FÖSTUDAGUR 1. FEBRÚAR 2008 FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS ELLÝ ÁRMANNS aftur á skjáinn NANNA KRISTÍN MAGNÚSDÓTTIR opnar barnavöruverslun ÞORBJÖRG HELGA VIGFÚSDÓTTIR topp 10 Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt:

More information

FÖSTUDAGUR. Íslands? best. verst. Hverjir eru. klæddu karlmenn 30. MAÍ 2008 FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS

FÖSTUDAGUR. Íslands? best. verst. Hverjir eru. klæddu karlmenn 30. MAÍ 2008 FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2008 FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS Hverjir eru best & verst klæddu karlmenn Íslands? 2 FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2008 HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ GERA UM HELGINA? Auðunn Blöndal grínisti Ég geri ráð fyrir að

More information

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst 15. 18. ágúst 21. 25. ágúst 28. ág 1. sept. 15. skipulagsdagur 16. skipulagsdagur 17. Skipulagsdagur 18. skipulagsdagur

More information

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 Ingvar Sigurgeirsson Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 details how school climate is associated with and / or promotes safety, healthy relationships, engaged learning

More information

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd 10. tbl. 2009 nr. 439 Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar um starfið og verkefnin Það fer að styttast í að Eymundur Runólfsson

More information

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Klettafjöllin og Grand Canyon 1 Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Kristbjörg María Guðmundsdóttir Eitt af fallegustu handverkum náttúruaflanna er án efa að finna í vesturhluta Norður-Ameríku.

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 8. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Daði Oddberg Einarsson Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Desember 2016 Grafísk hönnun og hip-hop

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 20. TBL 4. ÁRG. FIMMTUDAGUR 16. MAÍ 2013 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ Taktu á móti póstinum þínum í Möppunni

More information

Ljósa. Kennsluleiðbeiningar Gyða Erlingsdóttir og Hjördís Alda Hreiðarsdóttir

Ljósa. Kennsluleiðbeiningar Gyða Erlingsdóttir og Hjördís Alda Hreiðarsdóttir Ljósa Kennsluleiðbeiningar 2013 Gyða Erlingsdóttir og Hjördís Alda Hreiðarsdóttir Þessar kennsluleiðbeiningar voru unnar vorið 2013 sem lokaverkefni í námskeiðinu Kennsla íslensku á Menntavísindasviði

More information

Lífið Á HRAÐRI UPPLEIÐ Í LEIKLISTINNI. Hera Hilmarsdóttir. Kristín Stefánsdóttir förðunarmeistari GEFUR ÚT FYRSTU ÍSLENSKU BÓKINA UM FÖRÐUN 2

Lífið Á HRAÐRI UPPLEIÐ Í LEIKLISTINNI. Hera Hilmarsdóttir. Kristín Stefánsdóttir förðunarmeistari GEFUR ÚT FYRSTU ÍSLENSKU BÓKINA UM FÖRÐUN 2 Lífið FÖSTUDAGUR 6. SEPTEMBER 2013 Kristín Stefánsdóttir förðunarmeistari GEFUR ÚT FYRSTU ÍSLENSKU BÓKINA UM FÖRÐUN 2 Soffía Dögg Garðarsdóttir HUGMYNDIR Á SKREYTUMHÚS.IS FYRIR HEIMILIÐ 4 Hildur Halldórsdóttir

More information

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa Efnisyfirlit Þróun félagsauðs í grannríkjunum Bandaríkin Skandinavía Meginland Evrópu Þróunin á Íslandi Félagsþátttaka Frumtengsl Félagsrof Félagsauður,

More information

Kennsluáætlun í Byrjendalæsi Unnin út frá bókinni Hver er flottastur eftir Mario Ramos

Kennsluáætlun í Byrjendalæsi Unnin út frá bókinni Hver er flottastur eftir Mario Ramos Kennsluáætlun í Byrjendalæsi Unnin út frá bókinni Hver er flottastur eftir Mario Ramos 2. bekkur Hver er flottastur? Markmið Námsmat Að auka orðaforða með áherslu á orð sem lýsa persónum eða persónueinkennum.

More information

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is REYKJAVIK PRIDE 2. 7. ÁGÚST FREE COPY HINSEGINDAGAR.IS Gleðilega hátíð JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA Landsbankinn landsbankinn.is 410 4000 VELKOMIN Á HINSEGIN DAGA 2016 WELCOME TO REYKJAVIK PRIDE 2016 Sagan

More information

HEFÐI EKKI ÞURFT AÐ STRÖGGLA SVONA MIKIÐ VALA MATT UM ÁSTRÍÐUNA FYRIR FJÖLMIÐLUM, FERILINN OG NÝ VERKEFNI SEM EIGA HUG HENNAR ALLAN

HEFÐI EKKI ÞURFT AÐ STRÖGGLA SVONA MIKIÐ VALA MATT UM ÁSTRÍÐUNA FYRIR FJÖLMIÐLUM, FERILINN OG NÝ VERKEFNI SEM EIGA HUG HENNAR ALLAN 30. MARS 2012 FITNESS-DROTTNING MEÐ STÓRA FJÖLSKYLDU FRAMAKONUR Á FLUGI SIRRÝ BEINT Á TOPPINN HEFÐI EKKI ÞURFT AÐ STRÖGGLA SVONA MIKIÐ VALA MATT UM ÁSTRÍÐUNA FYRIR FJÖLMIÐLUM, FERILINN OG NÝ VERKEFNI SEM

More information

Sundráð ÍRB Fréttabréf Ágúst 2011

Sundráð ÍRB Fréttabréf Ágúst 2011 Eldri hópur er hópur sem Ant kom á og frábær nýung fyrir þá sem vilja æfa sund en hafa ekki tíma né áhuga til að vera í afrekssundi. Þetta er frábær vettvangur fyrir þá sem vilja æfa undir topp leiðsögn

More information

Umhyggja. Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns. Brýtur þjónustukerfið mannréttindi?

Umhyggja. Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns. Brýtur þjónustukerfið mannréttindi? Umhyggja Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns Brýtur þjónustukerfið mannréttindi? Sömu námskröfur gerðar til langveikra sem og annarra í MH en aðstoð og aðlögun stundum nauðsynleg 2. tbl. 13.

More information

ROKKAR FEITT Í LONDON

ROKKAR FEITT Í LONDON Einar Bárðarson opnar sig ROKKAR FEITT Í LONDON 26. OKTÓBER 2007 Sjónvarpsstjörnurnar velja Steinunni Gulla selur 3 hæðir Maríanna Clara á magnaðan fataskáp PIPAR SÍA 71167 Prodomo er ný verslun sem býður

More information

12 Arndís Hilmarsdóttir. Arndís Hilmarsdóttir

12 Arndís Hilmarsdóttir. Arndís Hilmarsdóttir Verkefni 6 Búðu til rapplag sem segir frá undrunum sjö Tvö rauð stig (tónsnjall) Eitt gult stig (sjálfssnjall) Eitt blátt stig (orðsnjall) 12 Arndís Hilmarsdóttir Arndís Hilmarsdóttir Nú ætlar þú að fræðast

More information

Einmana, elskulegt skrímsli

Einmana, elskulegt skrímsli Hugvísindasvið Einmana, elskulegt skrímsli Birtingarmyndir forynja í Bjólfskviðu Ritgerð til BA-prófs í Almennri Bókmenntafræði Helga Guðmundsdóttir Maí 2014 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn Bókmenntafræði

More information

Mánudagur 21. desember tbl. 15. árg. Stofnað 14. nóvember 1984 Sími Fax Netfang: Verð kr.

Mánudagur 21. desember tbl. 15. árg. Stofnað 14. nóvember 1984 Sími Fax Netfang: Verð kr. ÓHÁÐ FRÉTTABLAÐ Á VESTFJÖRÐUM Mánudagur 21. desember 1998 50. tbl. 15. árg. Stofnað 14. nóvember 1984 Sími 456 4560 Fax 456 4564 Netfang: bb@snerpa.is Verð kr. 200 m/vsk Tvennir tímar og þrennir þó rætt

More information

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir Hugvísindasvið Lesið í landið Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag Ritgerð til B.A.-prófs Ásta Hermannsdóttir Janúar 2011 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Fornleifafræði Lesið í landið

More information

Horizon 2020 á Íslandi:

Horizon 2020 á Íslandi: Horizon 2020 á Íslandi: - Árangur Íslands í Horizon2020 - Hvernig getur Rannís veitt ykkur aðstoð? Kristmundur Þór Ólafsson Alþjóðasvið Rannís Landstengiliður (NCP) fyrir H2020 Hvað er H2020? Rammaáætlun

More information

STARA. Rit Sambands íslenskra myndlistarmanna

STARA. Rit Sambands íslenskra myndlistarmanna STARA Rit Sambands íslenskra myndlistarmanna nr 8, 1.tbl, 2017 English ~Click here~ 4&5 Hversdagsævintýri um hugarfarsbyltingu Eirún Sigurðardóttir NR 8, 1.TBL, 2017 6&7 (S.O.S.= MAYDAY) Sara og Svanhildur

More information

RAKEL ÝR SIRKUS EF ÍSLAND FER Á HAUSINN? HVERNIG Á AÐ HERÐA SULTARÓLINA ÁLFRÚN ÖRNÓLFSDÓTTIR OPNAR DYRNAR

RAKEL ÝR SIRKUS EF ÍSLAND FER Á HAUSINN? HVERNIG Á AÐ HERÐA SULTARÓLINA ÁLFRÚN ÖRNÓLFSDÓTTIR OPNAR DYRNAR ÞITT EINTAK HVERNIG Á AÐ HERÐA SULTARÓLINA EF ÍSLAND FER Á HAUSINN? SIRKUS 7. APRÍL 2006 I 14. VIKA ÁLFRÚN ÖRNÓLFSDÓTTIR OPNAR DYRNAR RVK RAKEL ÝR SIRKUS STÓÐ FYRIR FORSÍÐUKEPPNI Í ÞÆTTINUM BIKINÍMÓDEL

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 11. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 17. MARS 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Monitor er komið með

More information

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum Raddir fjölbreyttra kennarahópa Sólveig Karvelsdóttir, lektor, HÍ Hafdís Guðjónsdóttir, dósent, HÍ Rannsóknin er hluti af tveimur rannsóknum Fjölbreyttir kennarahópar

More information

EKKI SIRKUS KLÁMSTJARNA KÖRFUBOLTAKONA EINHLEYPUR Á ÍSLANDI TINNA HRAFNS OPNAR KISTUNA LÁRA RÚNARS MEÐ AÐALHLUTVERK Í VEÐRAMÓTUM JOSÉ GONZALES

EKKI SIRKUS KLÁMSTJARNA KÖRFUBOLTAKONA EINHLEYPUR Á ÍSLANDI TINNA HRAFNS OPNAR KISTUNA LÁRA RÚNARS MEÐ AÐALHLUTVERK Í VEÐRAMÓTUM JOSÉ GONZALES ÞITT EINTAK TINNA HRAFNS MEÐ AÐALHLUTVERK Í VEÐRAMÓTUM SIRKUS 10. MARS 2006 I 10. VIKA RVK LÁRA RÚNARS OPNAR KISTUNA JOSÉ GONZALES EINHLEYPUR Á ÍSLANDI KÖRFUBOLTAKONA EKKI KLÁMSTJARNA TAMARA STOCKS GEKK

More information

Ofurhugi - Nóvember Ellefu titlar á ÍM 25

Ofurhugi - Nóvember Ellefu titlar á ÍM 25 Ofurhugi - Nóvember 2018 Ellefu titlar á ÍM 25 Sundfólk ÍRB stóð sig afar á Íslandsmeistarmótinu í 25m laug. Mótið var bæði íslandsmót fatlaðara og ófatlaðra en úrslitin hjá fötluðum voru synt í undanrásunum

More information

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Einelti og líðan Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014 Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til B.A. gráðu í sálfræði Hug- og félagsvísindadeild

More information

Fylgiskjal 1. Íris Anna Steinarrdóttir. Kæri skólastjóri.

Fylgiskjal 1. Íris Anna Steinarrdóttir. Kæri skólastjóri. Fylgiskjal 1 Kæri skólastjóri. Þannig er mál með vexti að undirrituð er að ljúka námi við Kennaraháskóla Íslands og er að skrifa B.S. ritgerð. Ritgerðin sem skrifuð er sem lokaritgerð í íþróttafræðum frá

More information

Beethoven og tæknikröfur. píanósónötu nr. 26 Les Adieux. Elín Arnardóttir

Beethoven og tæknikröfur. píanósónötu nr. 26 Les Adieux. Elín Arnardóttir Beethoven og tæknikröfur píanósónötu nr. 26 Les Adieux Elín Arnardóttir Listaháskóli Íslands Tónlistardeild Píanó Beethoven og tæknikröfur píanósónötu nr. 26 Les Adieux Elín Arnardóttir 2013 Útdráttur

More information

MALAYSIA AIRLINES - MH 1 Monday, 17 th of MAY: LONDON - KUALA LUMPUR (lent í Kuala Lumpur kl 17:30 þriðjudaginn 18. maí að staðartíma)

MALAYSIA AIRLINES - MH 1 Monday, 17 th of MAY: LONDON - KUALA LUMPUR (lent í Kuala Lumpur kl 17:30 þriðjudaginn 18. maí að staðartíma) 12. maí, 2004 bls. 1 Dagskrá námsferðar Rafmagns- og tölvuverkfræðinema vorið 2004 til Kuala Lumpur og Singapore (Program for a technical study tour of students in Electrical and Computer Engineering,

More information

Ukulele Söngbók búin til á

Ukulele Söngbók búin til á Ukulele Söngbók búin til á www.guitarparty.com Söngbók búin til á www.guitarparty.com Bls. 2 Efnisyfirlit Afgan..................................................... 4 Agnes og Friðrik................................................

More information

gigtin Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf GIGTARFÉLAG ÍSLANDS 2. tölublað 2017

gigtin Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf GIGTARFÉLAG ÍSLANDS 2. tölublað 2017 gigtin 2. tölublað 2017 GIGTARFÉLAG ÍSLANDS Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf Viðurkenndar stuðningshlífar Virkur stuðningur Vandaður vefnaður Góð öndun Einstök hönnun Fjölbreytt

More information

Lífið KENNDI SJÁLFRI SÉR Á GÍTAR. Ólöf Arnalds. Þóra Kristín og Margrét Ragnars HVAÐ ER HEITAST Í SNYRTIBUDD- UNNI Í HAUST? 2

Lífið KENNDI SJÁLFRI SÉR Á GÍTAR. Ólöf Arnalds. Þóra Kristín og Margrét Ragnars HVAÐ ER HEITAST Í SNYRTIBUDD- UNNI Í HAUST? 2 Lífið FÖSTUDAGUR 26. SEPTEMBER 2014 Þóra Kristín og Margrét Ragnars HVAÐ ER HEITAST Í SNYRTIBUDD- UNNI Í HAUST? 2 Heilsuvísir TÍU HEIMILDAR- MYNDIR UM HEILSU OG MATARÆÐI 6 Þura Stína opnar fataskápinn

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós XML-þjónustan veitir aðgang að nýjum norðurljósagögnum Veðurstofunnar sem birt eru á www.vedur.is. Slóð XML-þjónustunnar er http://xmlweather.vedur.is/aurora?op=xml&type=index

More information

Fél403 Vor 2012 Verkefni jan. Vægi 10% Einstaklingsverkefni.

Fél403 Vor 2012 Verkefni jan. Vægi 10% Einstaklingsverkefni. Fél403 Vor 2012 Verkefni 1. 9 23. jan. Vægi Einstaklingsverkefni. 1. Gerið litla könnun með 20 viðföngum (einstaklingum) þar sem þið vinnið með eina fylgibreytu, Y og tvær frumbreytur X 1 og X 2, helst

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 36. TBL 3. ÁRG. FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST 2012 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST

More information

Lífið UPPHAFLEGI HRINGURINN BÚINN TIL ÚR AFGÖNGUM. Steinunn Vala Sigfúsdóttir ALBÍNÓAR VORU INNBLÁSTUR LÍNUNNAR 2 MEÐ TUTTUGU VARALITI Í TÖSK- UNNI 4

Lífið UPPHAFLEGI HRINGURINN BÚINN TIL ÚR AFGÖNGUM. Steinunn Vala Sigfúsdóttir ALBÍNÓAR VORU INNBLÁSTUR LÍNUNNAR 2 MEÐ TUTTUGU VARALITI Í TÖSK- UNNI 4 Lífið FÖSTUDAGUR 21. FEBRÚAR 2014 Steinunn Vala Sigfúsdóttir Ásgrímur Már Friðriksson fatahönnuður ALBÍNÓAR VORU INNBLÁSTUR LÍNUNNAR 2 Helga Kristjáns förðunarfræðingur MEÐ TUTTUGU VARALITI Í TÖSK- UNNI

More information

Stefnir í ófremdarástand

Stefnir í ófremdarástand 31. janúar 2014 2. tölublað 2. árgangur UMHVERFISVOTTUÐ PRENTUN Útsalan í fullum gangi 1 10-50% afsláttur HAMRABORG 20A KÓPAVOGI 544-4088 YNJA.IS Alvarlegur skortur á leikskólakennurum í Kópavogi: Stefnir

More information

Upplýsingablað fyrir rannsóknina:

Upplýsingablað fyrir rannsóknina: Fylgiskjal 1 Háskóli Íslands Námsbraut í sjúkraþjálfun Læknadeild Upplýsingablað fyrir rannsóknina: Munur á vöðvavinnu við stökk og lendingu hjá stúlkum og drengjum. Er árangur af sérhæfðum styrktaræfingum?

More information

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]!

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]! Hugvísindasvið [fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]! Um skiptihljóðið /f/ í máli stúlku á fimmta ári Ritgerð til B.A.-prófs Rannveig Garðarsdóttir Maí 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Íslenska [fjou:lɪð]

More information

Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr

Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr Listamaðurinn Heimir Björgúlfsson Svana Björg Ólafsdóttir Ritgerð til BA-prófs í listfræði Maí 2016 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Háskóli Íslands

More information

Maðurinn í málverki. eftir Ragnar Þórisson. Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir

Maðurinn í málverki. eftir Ragnar Þórisson. Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir 1 Maðurinn í málverki eftir Ragnar Þórisson Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir 2 Efnisyfirlit INNGANGUR 3 ABSTRAKTMYNDIR 3 Þrír málarar abstrakt

More information

rock.your.mother 2.0 Þjóðhátíð 2003 Búið til á

rock.your.mother 2.0 Þjóðhátíð 2003 Búið til á rock.your.mother 2.0 Þjóðhátíð 2003 Lagalistinn: Á þig (Á móti sól) 1 fgan (ubbi) 1 fmæli (Á móti sól) 2 Ágústnótt (Árni úr yjum og Oddgeir Kristjánsson) 2 paspil (Ný dönsk) 3 Ástardúett (Stuðmenn) 3 ig

More information

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum Útg. Dags. Höf. Rýnir Samþykkur Lýsing 3 11/01 2006 GG EH Lokaskýrsla II 2 21/12 2005 GG SvSv Lokaskýrsla I 1 15/12 2005 GG Uppkast 1

More information

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Jón Viðar Jónmundsson 1 og Emma Eyþórsdóttir 2 1 Bændasamtökum Íslands 2 Rannsóknarstofnun landbúnaðarins/lbh á Hvanneyri Inngangur Fyrsta

More information