BA ritgerð. Hver er ég?

Size: px
Start display at page:

Download "BA ritgerð. Hver er ég?"

Transcription

1 BA ritgerð Mannfræði Hver er ég? Sjálfsmynd Vestur-Íslendinga fyrr og nú Svafa Kristín Pétursdóttir Leiðbeinandi: Kristján Þór Sigurðsson Október 2017

2

3 Hver er ég? Sjálfsmynd Vestur-Íslendinga fyrr og nú Svafa Kristín Pétursdóttir Lokaverkefni til BA-gráðu í mannfræði Leiðbeinandi: Kristján Þór Sigurðsson 12 einingar Félags og mannvísindadeild Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Október, 2017

4 Hver er ég? Sjálfsmynd Vestur-Íslendinga fyrr og nú Ritgerð þessi er lokaverkefni til BA-gráðu í mannfræði og er óheimilt að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa. Svafa Kristín Pétursdóttir, 2017 Prentun: Svansprent Reykjavík, Ísland, 2017

5 Útdráttur Við lok 19. aldarinnar urðu miklir fólksflutningar frá Evrópu til Vesturheims vegna versnandi lífsviðurværis í Evrópu af völdum slæms veðurfars, hungursneyðar og iðnbyltingarinnar. Voru hópar af Íslendingum hluti af þeim etnísku hópum sem fluttust búferlum þangað á þessum tíma. Er áætlað að um það bil tuttugu þúsund manns hafi flutt búferlum frá Íslandi til Vesturheims í þessum fólksflutningum. Í ritgerðinni fjalla ég um mismunandi ástæður fólksflutninganna og þær aðstæður sem mættu fólkinu við komuna til Vesturheims. Skoða ég samfélagsgerðina og þau pólitísku umbrot sem áttu sér stað á Íslandi á síðari hluta 19. aldar og í upphafi 20. aldar. Fjalla ég um þær breytingar sem urðu á íslensku samfélagi á þeim tíma og tengi við þær hugmyndir um sjálfstæði sem íslensku landnemarnir virðast hafa haft með sér til Vesturheims. Einnig skoða ég sjálfsmyndir íslensku landnemanna við brottförina frá Íslandi og hvernig hún tók breytingum smátt og smátt eftir því sem lengra leið á búsetu þeirra í Vesturheimi. Ber ég auk þess saman sjálfsmyndir íslensku landnemanna við sjálfsmyndir afkomenda þeirra í Vesturheimi í dag. Nota ég kenningar um þjóðernishyggju, etnerni, þverþjóðleika, sjálfsmyndir og tvíheima til þess að skoða hugmyndirnar um sjálfstætt ríki Íslendinga í Vesturheimi sem þeir nefndu Nýja-Ísland, en auk þess nota ég kenningarnar til að skoða sjálfsmyndirnar og bera þær saman. 3

6 Abstract At the end of the 18 th century and the beginning of the 19 th century a great migration from Europe to the New World occurred, due to the causes of bad weather, famine and industrial revolution. Among those ethnic groups that migrated from Europe to North- America at that time were groups of Icelanders. It has been estimated that around twenty thousand Icelanders migrated to North-America during that period. In this paper, I write about how different reasons led to that mass migration from Europe to North-America, and into what kind of circumstances in North-America the people migrated. I examine the Icelandic society and the political turmoil that occurd in Iceland at the end of the 18 th century and the beginning of the 19 th century. I write about the change that occurd in the Icelandic society at the time and connect it to the ideas of independence the Icelandic settlers seem to have brought with them to North-America. As well I examine the Icelandic settler s identity when leaving Iceland and how it gradually changed as time passed. I also compare the identity the Icelandic settlers brought with them with the identity their decendants in North-America have today. In the comparison, I use theories of nationalism, ethnicity, transnationalism, identity and diaspora to examine the ideas of independent state of Icelanders in North-America, or New-Iceland as they called it, but I also use the theories to examine the identities and compare them. 4

7 Kort af landnámssvæði Vestur-Íslendinga í Manitoba 5

8 Formáli Þetta er 12 ETC eininga lokaritgerð til BA gráðu í mannfræði. Ég vil þakka leiðbeinanda mínum, Kristjáni þór Sigurðssyni, fyrir ráðgjöf, leiðbeiningar, yfirlestur og skemmtilegar og fróðlegar samræður. Auk þess þakka ég öðrum, ættingjum og vinum, fyrir stuðning, tillögur og yfirlestur. Einnig vil ég þakka öllu samstarfsfólki mínu á menntadeild Landspítala fyrir þolinmæði, stuðning og skilning á meðan á námi mínu stóð, og Hrund Sch. Thorsteinsson, deildarstjóra, fyrir að ýta mér af stað í nám. Að lokum vil ég þakka manninum mínum, Sigurði Ólafi, sérstaklega fyrir endalausan stuðning, þolinmæði, yfirlestur, uppástungur og allt annað sem hann gerði á meðan ég var í náminu. 6

9 Efnisyfirlit Útdráttur... 3 Abstract... 4 Kort af landnámssvæði Vestur-Íslendinga í Manitoba... 5 Formáli... 6 Efnisyfirlit Inngangur Hugtök og kenningar Vesturferðirnar Almennt um fólksflutningana frá Evrópu til Vesturheims á 19. öld og í upphafi 20. aldar Upphaf og ástæður flutninga Íslendinga til Vesturheims á 19. öld Stutt ágrip af sögu landnáms í Manitoba: Landnám Íslendinga í Vesturheimi Sjálfsmynd Vestur Íslendinga við fólkflutningana Sjálfsmynd afkomenda Vestur-Íslendinga í dag Lokaorð Heimildaskrá

10 1 Inngangur Flutningar hópa fólks á milli svæða í leit að betra lífsviðurværi hafa fylgt manninum alla tíð. Oft hafa aðkomuhóparnir aðlagast þeim hópum sem fyrir voru á svæðinu en stundum hafa þeir hópar sem fyrir voru á svæðinu orðið að aðlaga sig að aðkomuhópnum. Enn í dag er fólk á faraldsfæti, og eru tilefnin misjöfn, allt frá því að flýja pólitískt óréttlæti yfir í að vera ferðamenn að skoða heiminn (Hannerz, 1996/2001, bls. 19). Fólk speglar sjálft sig í öðrum til að finna út hvert það sjálft er. Þjóðir bera sig saman við aðrar þjóðir á svipaðan hátt með því að ýkja upp ákveðin einkenni og draga fram ákveðnar ímyndir og sögur sem eiga að vera sameiginlegar fyrir þegna hennar (Eriksen, 2010b, bls. 10, 16). Í þessari ritgerð beini ég sjónum mínum að þeim fólksflutningum sem áttu sér stað frá Íslandi til Vesturheims á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Fjalla ég sérstaklega um Íslendingana sem fluttu vestur um haf til Nýja- Íslands í Manitoba, Kanada. Ég skoða hvaða hugmyndir þeir höfðu í farteskinu um sjálfa sig og hvernig þær urðu til hér á Íslandi. Einnig mun ég skoða hver birtingarmynd þeirra er í dag á meðal afkomendanna í Vesturheimi. Skoða ég þörf Vestur-Íslendinga fyrir að viðhalda sjálfsmynd (e. identity) sinni sem Vestur-Íslendingar og að halda tengslum við Ísland og ættingja þeirra þar. Til að skoða þessa þörf mun ég einnig líta á ástæður þess að hópur Íslendinga ákvað að taka sig upp á síðari hluta nítjándu aldar og flytja sig um set á milli heimsálfa í leit að betra lífi. Einnig skýri ég frá auknum áhuga íslenskra stjórnvalda í dag á afkomendum íslensku landnemanna í Vesturheimi. Ég mun skoða sjálfsmynd þeirra Íslendinga sem fluttu búferlum vestur um haf og hvernig sjálfmyndin birtist á meðal afkomenda þeirra í dag. Leitast ég við að setja umfjöllun mína um sjálfsmynd þeirra í samhengi við kenningar um sjálfsmyndir (e. identities), etnerni (e. ethnicity) tvíheima (e. diaspora), þjóðernishyggju (e. nationalism) og þverþjóðleika (e. transnationalism). Ég fjalla fyrst um hugtök og skilgreiningar um sjálfsmyndir, etnerni, tvíheima, þjóðernishyggju og þverþjóðleika. Mun ég svo styðjast við hugtökin og skilgreiningarnar til að varpa ljósi á mótun sjálfsmyndar einstaklinga og þjóða eða þjóðernishópa. Í fyrsta kafla skoða ég hugtök, skilgreiningar og kenningar um þjóðir. Er þar fjallað um þjóðernishyggju, etnerni, þverþjóðleika, sjálfsmyndir og tvíheima. Í kaflanum geri ég grein fyrir hugmyndum um hvað það sé sem geri þjóð að þjóð og hvernig þær tengjast þjóðernishyggju. 8

11 Rek ég hvernig og hvenær þjóðernishyggjan varð til og tengi hana við kenningar um etnerni, þverþjóðleika, sjálfsmyndir og tvíheima. Í kafla tvö fjalla ég um vesturferðirnar í fjórum undirköflum. Í undirkafla 2.1 rek ég stuttlega þær aðstæður, bæði samfélagslegar og náttúrulegar, sem leiddu til fólksflutninganna á 19. öld frá Evrópu til Vesturheims. Í undirkafla 2.2 skoða ég ástæður þess að Íslendingar hófu að flytja vestur um haf. Fjalla ég um hvaða pólitísku aðstæður voru ríkjandi í íslensku samfélagi á nítjándu öld, og þá með tilliti til atvinnuog búsetufrelsis almennings, en einnig aukinn áhuga á sjálfstæði Íslands frá Danmörku. Auk þess fjalla ég um þær náttúrulegu orsakir sem einnig áttu þátt í flutningi fólks frá Íslandi á þessum tíma. Í undirkafla 2.3 fjalla ég stuttlega um landnám almennt í Manitobafylki í Kanada. Skoða ég aðkomu kanadískra stjórnvalda að skipulagningu þess og samvinnu við frumbyggja. Í undirkafla 2.4 skoða ég landnám Íslendinga í Vesturheimi. Geri ég grein fyrir því hvernig staðið var að stofnun Nýja-Íslands í Manitobafylki, stjórnskipulagi þar ásamt samskiptum milli landnema, frumbyggja og kanadískra stjórnvalda. Í kafla þrjú fjalla ég um sjálfsmyndir Vestur-Íslendinga við komuna til Vesturheims. Ég ræði um trúna sem í upphafi var einn sterkra þátta í sjálfsmynd þeirra og skoða hvernig tungumálið fór að verða mikilvægara fyrir sjálfsmyndina eftir því sem lengra leið frá landnáminu. Ég skoða hvaða hlutverki útgáfa blaða, bóka og annarra rita gegndu í endursköpun sjálfsmyndar Vestur- Íslendinganna. Ég lít einnig á hvaða hlutverki Íslendingadagurinn gegnir og hvernig hlutverk Fjallkonunnar tengist honum. Auk þess segi ég frá þeim samfélagslegu atburðum sem leiddu til stofnunar Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi, ásamt markmiðum félagsins. Í kafla fjögur skoða ég hvernig sjálfsmyndir afkomenda íslensku innflytjendanna birtast í dag. Fjalla ég þar um þær hátíðir og viðburði sem þeir eiga aðkomu að í dag í Vesturheimi. Einnig skoða ég aðkomu íslenskra stjórnvalda að sömu hátíðum og viðburðum. Að auki greini ég frá svörum afkomenda Vestur-Íslendinga við óformlegum spurningum mínum. Í kafla fimm dreg ég svo saman niðurstöður mínar af þessari umfjöllun. Ástæðan fyrir því að þetta efni er mér hugleikið er að þegar ég var 9 ára gömul komst á samband við ættingja í Kanada sem breyttu hugmyndum mínum um fjölskylduna og stærð hennar. Í kjölfar þessa sambands voru haldin tvö ættarmót hér á landi þar sem sterk tengsl við ættingjana í Vesturheimi urðu til. Hafa þessi tengsl haft afar mikil áhrif á líf mitt fram á þennan dag, þar sem ég hef verið í miklu sambandi við þessa ættingja mína og þeir oft snúið sér til mín 9

12 með ýmsar spurningar um bæði nútíð og fortíð. Hefur oft verið athyglisvert að uppgötva þá mismunandi sýn sem þau hafa á upprunanum. 10

13 2 Hugtök og kenningar Í þessari ritgerð mun ég nota hugtök og skilgreiningar um þjóðir og tilurð þeirra. Nota ég hugtök og skilgreiningar um þjóðernishyggju (e. nationalism), etnerni (e. ethnicity), þverþjóðleika (e. transnationalism), sjálfsmynd (e. identity) og tvíheima (e.diaspora) til að skoða og bera saman sjálfsmyndir Vestur-Íslendinga við flutningana vestur um haf á síðari hluta 19. aldar og í upphafi 20. aldar við sjálfsmyndir afkomenda þeirra í dag. Hugtökin þjóð og þjóðernishyggja eru til þess að gera frekar nýleg í sögu mannkyns. Hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar mun hafa þróast fyrst í Evrópu á tímabili frönsku byltingarinnar (Eriksen, 2010b, bls. 122; Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 22). Benedict Anderson (1983/2006, bls. 7) telur hugtökin þjóð og þjóðernishyggja vera sérstök menningarleg og söguleg fyrirbæri. Til að hægt sé að skilja þau þarf að skoða tilurð þeirra í sagnfræðilegu samhengi og hvernig hugtökin hafa breyst í gegnum tímann. Einnig þarf að skoða hvers vegna þau skipta svo miklu máli í dag og vekja svo margræðar tilfinningar. Byltingin sem átti sér stað í Frakklandi í byrjun 19. aldar hafði gríðarleg áhrif á samfélög og þjóðir. Ríkti ákveðin togstreita á milli samfélagshópa innan Frakklands hvað varðaði viðhorf til gamalla hefða og gilda konungsríkisins annars vegar og hins vegar til hinnar nýju lýðveldisstefnu (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls ; Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 23). Sem dæmi um þá togstreitu sem ríkti á milli hópanna má nefna baráttu íbúa Bretaníuskaga. Höfðu þeir stutt afnám ýmissa sérréttinda aðalsins en voru á sama tíma ekki tilbúnir að ganga miðstjórn hins nýja franska lýðveldis á hönd. Var lítil hrifning á meðal Bretóna af afskiptum hinnar nýju lýðveldisstjórnar af pólitískum málefnum Bretaníuhéraðs eða þeim auknu byrðum sem fylgdu stríðsrekstri hennar. Að auki var stefna stjórnvalda í trúmálum þeim ekki að skapi, en völd kaþólsku kirkjunnar á meðal fólksins voru litin hornauga af nýju stjórnvöldunum (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls ). Samkvæmt þriðju grein mannréttindayfirlýsingar frönsku byltingarinnar áttu allir að hafa jafnan lagalegan rétt, en einnig rétt til að ráða örlögum sínum (Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 23). Einnig var lögð áhersla á að allir þegnar hins nýja lýðveldis myndu að lokum líta á sig sem Frakka. Átti franskan, og gerir reyndar enn, mikilvægan þátt í þessari sköpun á sjálfsmynd Frakka sem einnar þjóðar (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 31; Eriksen, 2010b, bls. 132). 11

14 Þrátt fyrir þessa stefnu voru þjóðernishópar innan landamæra Frakklands þá, og í dag, sem áttu og eiga sér tungumál alls óskyld frönskunni, eins og til dæmis Bretónarnir. Hefur sjálfsmynd þessara þjóðarbrota einmitt verið ógnað með hreintungustefnunni sem fylgdi í kjölfar frönsku byltingarinnar og hinna nýju hugmynda um hvað væri þjóð (Eriksen, 2010b, bls. 132). Að auki urðu efnahagsleg áhrif, félagslegar og vísindalegar uppgötvanir, sem og hin stöðuga þróun sífellt hraðari samskiptamáta á 19. öldinni einnig til þess að reka stóran fleyg á milli hugmyndanna um upprunasögu heimsins og upprunasögu mannsins sem hafði fram að því verið álitin sú sama. Því fjaraði hægt og rólega undan hugmyndafræði og hugtökum þar sem talið var að konungar hefðu vald sitt beint frá Guði. Fyrst fjaraði undan þeim í Vestur- Evrópu og svo í framhaldinu í öðrum heimshlutum. Það var því ekki að undra að leit hófst að nýjum aðferðum til að styrkja tengsl og bræðralög, vald og tíma á merkingarþrunginn hátt (Anderson, 1983/2006, bls. 36; Greenfeld, 1992, bls ; ). Þýski heimspekingurinn Johann Gottfried von Herder kom einmitt fram með hugmynd á þessum tíma um hvernig þjóðerni yrði til. Taldi hann að þjóðerni yrði til við stöðugt samspil náttúru og manns, og að tungumálið endurspeglaði þær náttúrulegu aðstæður sem samfélög þróuðust við, ásamt hefðum og venjum. Því gerðu þessar náttúrulegu aðstæður það að verkum að samfélögin yrðu ólík á milli svæða (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls ). Áleit hann einnig að einungis þær þjóðir væru lifandi sem töluðu upprunalegt tungumál þar sem samband þeirra við menningu sína og hugsun hefði náð að þróast óáreitt frá upphafi (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 22). Nefnir Anderson (1983/2006, bls ) einmitt hvernig hugmyndafræði Herders um tilurð þjóðar og hugmynd hans um hlutverk tungumálsins í að sameina fólk í eina þjóð hafi haft mikil áhrif á þjóðernishyggjuna sem var að mótast í Evrópu á 19. öldinni. Ekki voru samt allir samtímamenn Herders samþykkir þessari hugmynd hans um að náttúran og tungumálið sköpuðu þjóð. Samkvæmt Guðmundi Hálfdánarsyni (2001, bls. 23) mótmælti sagnfræðingurinn Fustel de Coulanges þessari kenningu Herders. Taldi Coulanges að hægt væri að finna það í hjartanu hvort að fólk tilheyrði sömu þjóð eða ekki, og að sú tilfinning væri byggð á sameiginlegum hugmyndum, hagsmunum og vonum. Tungumálið væri því ekki þetta sameiningartákn fyrir þjóð eins og Herder talaði um (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls 23). Eigi að síður leiddi hugmynd Herders um tungumálið til þess að ýmis þjóðarbrot eða þjóðernishópar í Evrópu fóru að skoða og enduruppgötva gamlar þjóðsögur, ljóð og sögur. 12

15 Leiddi sú skoðun einnig til þess að málfræði- og orðabækur voru gefnar út á meðal smáþjóða eins og Finna og Norðmanna (Anderson, 1983/2006, bls. 75). Benda Thomas Hylland Eriksen (2010b, bls. 70) og Michael Billig (1995, bls. 66) á að þannig séu hugmyndir um sameiginlegan uppruna nauðsynlegar þjóðarbrotum til að viðhalda sjálfsmyndum sínum. Eru þá túlkanir á sögu þjóðarbrotsins notaðar til að viðhalda og styrkja þessa ákveðnu ímynd eða staðalmynd sem þjóðarbrotið vill viðhalda. Þær ímyndir séu einnig taldar sérstakar og jákvæðar, og sýna viðkomandi hóp í betra ljósi en þær þjóðir sem þjóðarbrotin eða þjóðirnar bera sig saman við. Lýsir Guðmundur Hálfdanarson (2001, bls. 36) því einnig hvernig flest þjóðríki nota þjóðernistákn til að varðveita samkennd. Þessi þjóðernistákn geta verið tungumál, fáni, upprunagoðsagnir, sameiginlegt minni eða gleymska, eða hvaðeina það sem getur gefið þjóðinni ákveðna sögulega dýpt. En hvað er það þá sem gerir þjóð að þjóð? Fyrir rúmum hundrað árum síðan spurði franski málvísindamaðurinn og trúarbragðafræðingurinn Ernest Renan hvað það væri sem gerði þjóð að þjóð. Samkvæmt kenningu Renans ræðst þjóðerni eingöngu af sameiginlegum vilja einstaklinganna sem það skapa. Talaði hann um að sameiginlegar minningar eða þjóðarsagan, gerði það að verkum að fólki finndist það eiga sameiginleg örlög og uppruna (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls ). Þessari skilgreiningu Renans er Ernest Gellner (1983/2002, bls ) ekki alveg sammála. Samkvæmt hans skilningi geta fleiri en bara þjóðir fallið undir þessa hugmynd Renans. Nefnir Gellner (1983/2002, bls. 55) sem dæmi að klíkur, samsærishópar, lið og stjórnmálaflokkar geti þá einnig talist þjóðir ef það sé sameiginlegur vilji til þess á meðal meðlimanna. Aðeins sé hægt að ákveða að vera þjóð þegar vilji, menning og stefnumál renni saman og þyki almennt eðlileg innan hópsins. Þá sé erfitt að hrekja þann sameiginlega vilja sem leiði til ímyndar hópsins sem þjóðar. Telur Gellner (1983/2002, bls. 55) að það sé í raun þjóðernishyggjan sem gefi þjóðum líf en ekki þjóðir þjóðernishyggjunni. Jafnframt telur Gellner (1983/2002, bls. 57) að ef þjóðernishyggjan dafni eyði hún út óæskilegum menningaráhrifum með því að endurlífga gömul menningargildi eða búa til ný með tengingum við gamla siði, hefðir og tungumál. Anderson (1983/2006, bls. 4, 6) hefur hins vegar skilgreint þjóð þannig að hún sé ímyndað pólitískt samfélag en á sama tíma sé hún einnig hugsuð sem sterkt bræðralag þvert á samfélagið, þrátt fyrir að þegnar jafnvel smæstu þjóða muni aldrei þekkja alla eða flesta meðlimi sinnar þjóðar. Billig (1995, bls. 68) er nokkuð sammála þessum orðum Anderson en 13

16 bendir þó á að auðveldlega sé hægt að ímynda sér aðra hópa líka. Þannig megi ímynda sér til dæmis trúarhópa, hópa sem tilheyri ákveðinni stétt og jafnvel hópa þar sem ákveðin sérhæfing er undirstaða ímyndunarinnar. Það sé þó líklega ímyndun af öðrum toga sem eigi sér stað í sambandi við þannig hópa. Tekur Billig (1995, bls. 68) sem dæmi að trúarhópar hafi önnur gildi og markmið í ímyndun en þau gildi og markmið sem séu lögð til grundvallar við ímyndun á þjóð. Þannig hljóti ímyndunin á mismunandi hópum að eiga sér misjafnan uppruna og misjöfn tengsl við ákveðnar kenningar. Ímyndirnar hljóti því að hvíla á afar víðum hugmyndafræðilegum grunni sem leyfi ákveðinn sveigjanleika eftir því um hvaða aðstæður er að ræða þegar ímyndunin á sér stað (Billig, 1995, bls. 68). Gellner (1983/2002, bls. 1) kemst að svipaðri niðurstöðu en bendir þó á mikilvægi þess að mörkin á milli etnernis (e. ethnicity) og pólitíkur ættu ekki að skarast. Það eigi alveg sérstaklega við um stjórnvöld. Það veki upp tilfinningu á meðal þegna af öðru etnerni en yfirvöld eru, að brotið hafi verið á þeim á einhvern hátt. Telur Gellner (1983/2002, bls. 7) að tveir einstaklingar séu af sömu þjóð ef þeir deila menningu. Tiltekur hann að með menningu eigi hann við kerfi ímynda, tákna, félagslegra tengsla, hegðunar og samskipta. Einnig geti tveir einstaklingar verið af sömu þjóð ef þeir viðurkenni hvor annan sem einstakling af sömu þjóð. Telur Anderson (1983/2006, bls. 7) að þessi bræðralagssýn, eða þetta samþykki og viðurkenning manna á milli, að þeir tilheyri sömu þjóð, hafi í raun leitt til þess að síðustu tvær aldir hafi milljónir manna getað réttlætt dráp á öðrum þjóðum. Einnig hafi bræðralagssýnin leitt til réttlætingar á því að fólk deyi fyrir svo takmarkaða ímyndun sem hugtakið þjóð er í rauninni. Varpar Anderson (1983/2006, bls. 7) einnig fram þeirri spurningu hvernig svo takmörkuð ímynd geti fengið fólk til að færa slíkar fórnir og telur að svarið liggi í menningarlegum rótum þjóðernishyggjunnar. Jafnframt bendir hann á að jafnvel stærstu þjóðir hafi ákveðin sveigjanleg mörk þar sem aðrar þjóðir taki við. Eriksen (2010b, bls. 81) nefnir að oftar en ekki þegar þjóð eða þjóðarbrot hefur gengið í gegnum erfiðleika og umbrot sé sjálfsmyndin endurnýjuð og birtingarmyndin verði oft sterkari í kjölfarið. Nefnir hann að tákngerving þjóðernisins sem vísi þá oft í tungumál, trú eða sifjakerfi sé nauðsynleg til að sjálfsmyndin lifi erfiða tíma hreinlega af. Því verði félagsleg sjálfsmynd þjóðar sterkust þegar hún upplifi aðsteðjandi hættu. Sterkar sjálfsmyndir þjóða og þjóðarbrota, sem hafi sterk tengsl við söguna og fortíð þjóðarinnar, virki því sem öryggisgjafi á erfiðum tímum fyrir þegna þjóðarinnar. Sjálfsmyndina megi líta á sem ímyndað sifjakerfi þar 14

17 sem skynjun þegnanna sé að þeir eigi sameiginlegt upphaf. Vitnar Guðmundur Hálfdanarson (2001, bls. 27) einmitt í bók Benedicts Anderson um ímynduð samfélög, þar sem Anderson setur fram þá kenningu að það sem geri þjóð að þjóð séu félagslegar siðvenjur, eða ímynduð samfélög, sem hafi orðið til við ákveðnar pólitískar aðstæður á ákveðnum tíma. Má því segja að söguleg þróun greini þjóðir hver frá annarri, þar sem alltaf séu til staðar innbyrðis deilur eða ákveðinn yfirgangur eins hóps yfir öðrum hjá hverri þjóð. Það geri það að verkum að sagan sé ekki alltaf rétt sett fram, hún sé að hluta til ákveðin sögufölsun og jafnvel goðsögn (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 18). Menningarlega sjálfsmynd telur Eriksen (2010a, bls. 319) vera mikilvæga í mörgum samfélögum þar sem finna má minni etníska hópa (e. ethnic groups) innan um stærri. Þessum hópum finnist mikilvægt að halda í sína menningarlegu sjálfsmynd og halda henni á lífi innan um aðrar menningarlegar sjálfsmyndir í sama samfélagi. Telur því Eriksen (2010b, bls. 86) að allar túlkanir á fortíð og sögu séu því mikilvægar öllum sjálfsmyndum þjóða og þjóðarbrota. Það sé þó alltaf skilningur okkar í dag á fortíðinni sem um sé að ræða. Það fari þó eftir því í hvaða félagslega samhengi við séum, hvernig við túlkum hlutina. Til dæmis nefnir hann að við hegðum okkur misjafnlega eftir því hvort við erum í návist náinna ættingja okkar, vina eða ókunnugra (Eriksen, 2010a, bls. 57). Eriksen (2010b, bls. 190) bendir einnig á að þegar um innflytjendur sé að ræða, þá taki samlögun (e. integration) langan tíma og geti í raun náð yfir nokkrar kynslóðir. Í raun náist aldrei full samlögun að nýju þjóðerni eða sjálfsmynd. Jafnvel þó að innflytjendur og þeirra afkomendur hafi sest að og náð ákveðinni aðlögun tali þeir um að snúa aftur til upprunalandsins. Sem dæmi um þetta nefnir Eriksen (2010b, bls. 191) vettvangsrannsókn Karen Fog Olweg á meðal innflytjenda frá Karabíaeyjunum sem búsettir eru til dæmis í Englandi og Kanada. Hafa rannsóknir Olweg leitt í ljós að innflytjendurnir hafa góða vitneskju um uppruna sinn og geta tengt hann við ákveðinn stað og fjölskyldu á Karabíaeyjunum. Samt viðhaldi þeir sínu félagslega neti við aðra frá Karabíaeyjunum á sama tíma og þeir eru einnig virkir innan nútímasamfélagsins sem þeir búa í. Hefur tilkoma internetsins orðið til þess að mikið auðveldara er að viðhalda þverþjóðlegum samskiptum af þessum toga (Eriksen, 2010b, bls. 191). Hugtakið þverþjóðleiki (e. transnationalism) snertir einmitt ýmsa rannsóknarfleti varðandi etníska hópa og þjóðernishyggju. Hefur það leitt til endurskilgreiningar og endurmótunar á 15

18 deilum varðandi tengsl þjóðernis við sögu og menningu (Eriksen, 2010b, bls. 188). Geta hnattræn og þverþjóðleg samskipti haft margvísleg áhrif í för með sér. Hefur hnattvæðingin (e. globalization) meðal annars gert það að verkum að fólk í fjarlægum heimshlutum veit nú meira af tilvist annarra allt annarsstaðar í heiminum. Jafnvel er það svo að fólk í fjarlægum heimshlutum er orðið nágrannar í dag, og jafnvel þó að fjarlægðin sé mikil þá gerir tæknin okkur kleift í dag að brúa það bil. Þannig hafa fjarlægðir því breyst og gert hugmyndum kleift að ferðast heimshluta á milli óháð fjarlægðum. Hefur hnattvæðing verið skilgreind í þessu samhengi sem ákveðin aukning á samskiptum sem eigi sér stað yfir landamæri og á milli heimsálfa (Appadurai, 1990/2012, bls. 579; Hannerz, 1996/2001, bls ). Samkvæmt Ulf Hannerz (1996/2001, bls. 18) getur hnattvæðingin þó einnig virkað í hina áttina og fært fólk og staði í sundur líka. Þegar ákveðnir staðir geta ekki boðið upp á ákveðin samskipti eða vilja jafnvel ekki gera það detta þeir út úr hnattvæðingarnetinu. Stundum vilja ríki einnig einangra sig og taka þá ákvörðun að standa fyrir utan hnattræn samskipti. Vill Hannerz því jarðtengja þetta hugtak. Bendir hann einnig á að það sé í raun ekki svo nýtt af nálinni, það hafi alltaf einhverskonar hnattvæðing átt sér stað í heiminum (Hannerz, 1996/2001, bls. 18). Með auknum samskiptum við aðra etníska hópa skerpast sjálfsmyndir smærri etnískra hópa oft. Sá etníski hópur sem er ráðandi í viðkomandi samfélagi er þó sá sem mótar dagsdaglegt líf allra að miklu leyti. Getur það leitt til ákveðinna átaka á milli sjálfsmynda hinna smærri etnísku hópa og þeirra sem ráðandi eru. Oft verður þessara átaka sérstaklega vart í jaðarhópum innan samfélagsins. Sem dæmi má nefna þátttöku þeirra sem búa í einu landi en taka þátt í pólitískum athöfnum í öðru landi (Eriksen, 2010b, bls. 188). Telur Eriksen (2010b, bls. 188) að þarna sé um að ræða nýja vídd af félagslegri sjálfsmynd fólksins sem tekur þátt í athöfnum í fleiri en einu samfélagi, og að hún snerti í raun stjórnmálafræði, alþjóða lögfræði og ríkisborgararétt. Gott dæmi um slíka athöfn sem gengur þvert á þjóðir er einmitt hvernig afkomendur írskra innflytjenda í Norður-Ameríku hafa veitt IRA (e. Irish Republic Army) mikilvægan stuðning í gegnum árin, en það myndi einmitt flokkast sem pólitísk athöfn (Eriksen, 2010b, bls. 190). Bent hefur verið á að betra sé að tala um þverþjóðleg tengsl (e. transnational connection) en um hnattvæðingu í þessu samhengi. Það lýsir þessum athöfnum betur. Þverþjóðleg tengsl geta verið mismikil og þau eru heldur ekki alltaf alþjóðleg (e. international) þar sem þetta eru ekkert endilega opinber samskipti á milli þjóða eða ríkja. Þverþjóðleg samskipti eiga sér ekkert síður 16

19 stað á milli einstaklinga, hópa, hreyfinga eða viðskiptaaðila. Samt hefur þetta hugtak, þverþjóðleiki, samtímis ákveðna skírskotun til þjóðernishyggjunnar (Appadurai, 1990/2012, bls. 578; Hannerz, 1996/2001, bls. 6). Þverþjóðleiki hefur með tímanum orðið eitt af megin hugtökunum tengdum hnattvæðingunni og kenningum um fólksflutninga (Gale, 2014, bls. 124). Var hugtakið notað í upphafi um samskipti fjölþjóðlegra fyrirtækja, fjármálastofnana og banka sem teygðu anga sína út fyrir landamæri þjóða og stundum jafnvel heimsálfa, en einnig um lög og regluverk sem lutu að þessum samskiptum. Í dag er hugtakið notað til að skilgreina tengsl af pólitískum toga, sem og á milli fyrirtækja, þjóða og fólks yfir ákveðin mörk sem geta verið landfræðileg en einnig tengd reglugerðum og lögum. Hefur hugtakið meðal annars verið notað til að skoða siðferðilegar hliðar innflytjendastefna hjá stjórnvöldum en einnig öryggismál, ríkisborgararétt og réttindi í sambandi við atvinnusókn yfir landamæri og jafnvel milli heimsálfa (Gale, 2014, bls. 126). Telur Hannerz (1996/2001, bls. 29) að þau persónulegu samskipti sem eigi sér stað milli hins staðbundna og hnattræna séu sífellt að verða óskýrari. Það sé í raun aldrei hægt að vera viss um hvaðan þekking sé upprunnin sem birtist í þverþjóðlegum samskiptum manna á milli. Það séu það margar birtingarmyndir af sifjatengslum, viðskiptatengslum, og jafnvel öryggistengslum að ekki sé hægt að átta sig nægilega vel á hvar hugmyndirnar eða þekkingin um þau tengsl eigi sinn uppruna. Að auki hafa rafrænir miðlar dagsins í dag gert fólki mögulegt að eiga sífellt örari, fjölbreyttari og meiri samskipti en áður fyrr. Hefur þessi rafræna tækni breytt samskiptamátanum gríðarlega og fært hann inn á sameiginlegt svæði (Hannerz, 1996/2001, bls. 19). Er það ekki ólíkt því sem gerðist á tímum frönsku byltingarinnar þegar dagblöð og skáldsögur ýttu, tæknilega séð, undir ímyndina um þjóð og þjóðerni með því að kynna hugtökin til leiks (Anderson, 1983/2006, bls.24-25). Fólk í dag, líkt og þá, les sögur og frásagnir í dagblöðum og bókum. Í dag hlustar fólk einnig á þær í útvarpi eða sér þær í sjónvarpi, auk þess að nota rafræna miðla. Þannig fær fólk vitneskju um hvað aðrir eru að gera, hvað sé að gerast í samfélaginu þeirra, eða öðrum samfélögum, þó það upplifi það ekki endilega beint á eigin skinni. Eru þetta allt saman þættir sem hafa áhrif á félagslega þekkingu fólks. Það er svo undir hæfni hvers og eins komið hvernig viðkomandi nær að vinna úr þeirri þekkingu sem hann eða hún hefur safnað að sér (Anderson, 1983/2006, bls ; Hannerz, 1996/2001, bls. 23). 17

20 Í dag mótast menning því af því hvernig ólík félagsleg þekking skarast. Staðir, fólk, dagblöð, bækur og sjónvarpsstöðvar sem manneskjur komast í snertingu við, eru allt saman þættir sem hafa áhrif á félagslega þekkingu hennar. Breytingin byggir þó ekki eingöngu á því efni sem manneskjan kemst í snertingu við, heldur einnig á hæfni hennar til að vinna úr því (Hannerz, 1996/2001, bls.22-23). Anderson (1983/2006, bls ) álítur að þannig náist að byggja upp tilfinningu einstaklingsins fyrir því að tilheyra heild sem þó sé ímyndun af því að hann þekkir ekki alla hina einstaklingana persónulega, og býst ekkert endilega við því að kynnast þeim. Hannerz (1996/2001, bls. 23) nefnir að það skipti einnig máli hvort fólk skilji tungumálið sem er notað til að segja frá, hvort fólk sé læst og svo framvegis. Þekkingardreifingin sé orðin það flókin í dag að líklega sé samfélagsleg úrvinnsla á henni stundum afar handahófskennd. Einnig er sú hætta fyrir hendi að sú félagslega skipulagða þekking sem birtist alltaf öðru hvoru sé endurskipulögð, endurtúlkuð eða jafnvel hafnað þegar hún birtist. Að staðbundin (e. local) þekking og hnattræn þekking skarist. Sú skörun gerist bæði staðbundið og hnattrænt séð. Þessi skörun á þekkingu leiði því til ákveðinna breytinga (Hannerz, 1996/2001, bls. 28). Samkvæmt Gale (2014, bls. 128) er einnig hægt að nota hugtakið um þverþjóðleika til að skoða tvíheima (e. diaspora). Með því megi skoða áhrif þverþjóðlegra tengsla á flókin málefni sem tengjast stéttarstöðu, kyni, etnerni (e. ethnicity), heilsu og öldrun. Einnig megi nota það til að skoða tengsl hjá þverþjóðlegum fjölskyldum. Uppruna orðsins diaspora má rekja til gríska orðsins diasperien, en dia merkir þvert yfir og sperien að sá eða dreifa fræjum. Var orðið fyrst notað í Alexandríu um það bil á þriðju öld fyrir Krist, í grískri þýðingu á hebreskum ritum sem nefnast septuagint. Voru ritin ætluð grískum gyðingum og var orðið notað í þeim til að lýsa gyðingum sem voru í útlegð frá Palestínu. Af þessum sökum hefur það einnig sterka skírskotun til gyðingdóms. Hefur hugtakið á síðari tímum verið notað sagnfræðilega um samfélög fólks sem settist að fjarri heimalandi sínu ýmist vegna venjulegra flutninga, sem innflytjendur eða vegna útlegða (Braziel og Mannur, 2003, bls. 1). Kemur þessi notkun á hugtakinu heim og saman við það sem Eriksen (2010b, bls. 187) segir, en samkvæmt honum var hugtakið notað yfir ráðandi sjálfsmynd gyðinga og hvernig hún tengdist upprunalandi þeirra, jafnvel þó þeir væru fæddir og uppaldir í allt öðru landi. Er hugtakið einmitt afar umdeilt vegna þeirrar tengingar sem það hefur við trúarbrögð gyðinga, en gagnast þó til að varpa ljósi á svipaðar aðstæður hjá öðrum etnískum hópum. Hefur það einnig verið notað um Afríkubúa sem fluttir voru frá Afríku á sextándu öld og hnepptir í ánauð 18

21 í Nýja heiminum (Braziel og Mannur, 2003, bls. 2). Hefur notkun þess í sambandi við flutning Afríkubúanna reyndar verið gagnrýnd vegna þess að hún þykir ýta undir einsleita mynd af þeim fjölbreyttu samfélögum sem finna mátti í Afríku á þessum tíma og finna má enn í dag (Braziel og Mannur, 2003, bls. 4). Lila Abu-Lughod (1991, bls. 137, 139) hefur einnig útskýrt stöðu þeirra etnísku hópa sem falla undir tvíheima hugtakið með því sem hún kýs að kalla halfies og kalla mætti hálfingja á íslensku. En samkvæmt henni er það fólk sem er með blandaðan uppruna. Uppruninn sé annað hvort þjóðernislega eða menningarlega blandaður þar sem viðkomandi er annað hvort afkomandi innflytjenda, sjálfur innflytjandi eða hefur sótt sér menntun hjá annarri þjóð. Hefur hún tengt þetta hugtak við femínista og mannfræðinga, og þeirra rannsóknir á samfélögum. Gagnrýnir hún einnig þá gagnrýni sem sett hefur verið fram um að sá sem er fæddur innan ákveðins samfélags geti ekki gert óhlutdræga rannsókn á eigin samfélagi af því að þar eigi hann rætur sínar. Til dæmis lýsir Abu-Lughod (1986, bls , 18-19) því meðal annars í bók sinni Veiled Sentiments: Honor and poetry in a Bedouin society í hvaða stöðu hún sjálf var þegar hún gerði vettvangsrannsókn á meðal Bedúína í Vestur-eyðimörkinni í Egyptalandi. Þar upplifði hún hvernig það er að eiga rætur í tveimur menningarheimum. Annars vegar var hún barn palestínsks innflytjanda frá Jórdaníu í Bandaríkjunum, og alin upp í þeim siðum sem faðir hennar þekkti þaðan. Á sama tíma var hún einnig mótuð af bandarískum menningarlegum gildum í gegnum móður sína, sem var af gyðingaættum. Einnig fann hún fyrir því að vera með bandaríska sjálfsmynd þar sem hún var uppalin í Bandaríkjunum. Þetta varð til þess að henni fannst hún þurfa að laga sjálfsmynd sína að þeim aðstæðum sem hún var í á meðal Bedúína, að laða fram þann hluta sinn sem var mótaður af jórdönskum, palestínskum menningarlegum gildum, ef hún ætti að ná trúnaði þeirra og trausti. Þannig varð hún vör við þá togstreitu sem þeir sem tilheyra tveimur eða fleiri menningarheimum finna fyrir. Hefur þessari reynslu einnig verið líst með hugtakinu tvíheimar (Abu-Lughod, 1986, bls , 18-19). Eriksen (2010b, bls. 186) bendir á hversu mikil togstreita sé á milli hugtaksins tvíheimar og hugtaksins þjóðernishyggja. Hugtakið tvíheimar byggi á því að tilheyra í raun tveimur, eða fleiri etnískum hópum en þjóðernishyggjan byggi á því að tilheyra einum og sama hópnum. Hugtakið tvíheimar byggi á varðveislu og endurnýjun á gamalli menningu hjá viðkomandi etnískum hópi (Eriksen, 2010b, bls. 187). Einmitt af þessum sökum telja Jana Evans Braziel og 19

22 Anita Mannur (2003, bls. 7) að mikilvægt sé að halda uppruna hugtaksins tvíheimar til haga, þannig að það tapi ekki sérstöðu sinni með því að vera notað til að túlka allar hreyfingar og flutninga fólks bæði innan og utan borga, sem og á milli landsvæða og þjóða. Gale (2014, bls. 134) er sammála þessum hugmyndum Braziel og Mannur (2003, bls. 7), og Eriksen (2010b, bls ), en telur að hægt sé að nota hugtakið um þverþjóðleika (e. transnationalism) til að skoða þau efnahagslegu, pólitísku, félagslegu og menningarlegu samtök sem hafa tengsl sín á milli þvert á landamæri þjóða, þar sem það taki ekki eingöngu á sjálfmyndum etnískra hópa heldur einnig á þeim tengslum sem hóparnir eiga við uppruna- og aðseturslönd sín. Braziel og Mannur (2003, bls. 8) telja samt að tvíheima hugtakið eigi að aðskilja frá hugtakinu um þverþjóðleika þar sem það túlki aðallega hreyfingar fólksins sjálfs, hvort sem hreyfingin sé af hvötum fólksins sjálfs eða það sé neytt til brottflutnings. Þverþjóðleikahugtakið telja þær að eigi við um miklu fleiri hreyfingar en bara hreyfingar fólks. Hægt sé að fjalla um hreyfingar hugmynda, vöru og fjármagns yfir landamæri þjóða með hugtakinu um þverþjóðleika. Þannig fjalli það meir um ópersónulega hluti og áhrifavalda, en sé einnig tengt hugtökunum um hnattvæðingu og hnattrænan efnahag (Braziel og Mannur, 2003, bls. 8). Gale (2014, bls. 135) bendir þó á að tengslin sem etnískir hópar haldi við upprunaland sitt séu enn mikilvæg innan hugtaksins um tvíheima. Telur hann jafnframt að hægt sé að nota hugtakið um þverþjóðleika til að skoða þessi tengsl sem etnískir hópar skapa á milli upprunalandsins og þess lands sem þeir hafa aðsetur í. Einnig sé hægt að nota þverþjóðleikahugtakið til að skoða tengslin sem skapast á milli stjórnvalda upprunalandsins og aðseturslandsins og nýta þau mögulega til góðs fyrir etníska hópinn sem og aðra þegna. Þannig sé hægt að stuðla að því að allir upplifi góð áhrif af þessum tengslum. Það má því segja að þannig ýti hugtakið tvíheimar undir frekari skoðun og jafnvel endurskilgreiningu á hugtökunum þjóð og þjóðernishyggja, á sama tíma og það ýtir undir að tengsl milli ríkis og þegna þess séu einnig skoðuð nánar (Braziel og Mannur, 2003, bls. 7). 20

23 3 Vesturferðirnar 3.1 Almennt um fólksflutningana frá Evrópu til Vesturheims á 19. öld og í upphafi 20. aldar Á árunum 1815 til 1930 er talið að um það bil 52 milljónir manna hafi flust frá Evrópu vestur um haf. Munu 18,7 milljónir manna hafa flust frá Stóra Bretlandi, fjórar komma átta milljónir frá Þýskalandi, og sex komma tvær milljónir frá Spáni og Portúgal. Færra fólk flutti frá öðrum löndum Evrópu. Flestir þeirra sem fluttu á brott frá Evrópu leituðu búsetu í Bandaríkjunum, eða um 33 milljónir manna. Um fimm milljónir manna fluttu til Kanada og um fjórar milljónir til Brasilíu, en til Argentínu fóru sex komma fjórar milljónir. Einnig fluttust þrjár komma fimm milljónir manna til Ástralíu á þessum tíma (Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 23). Jukust fólksflutningar vestur um haf á þessu tímabili með nokkuð reglulegu millibili, eða á tuttugu ára fresti. Hélst aukningin á fólksflutningunum í hendur við þær efnahagssveiflur sem áttu sér stað beggja vegna Atlantshafsins, í Evrópu og Ameríku. Er hægt að skipta fólksflutningunum í fjóra hluta, fyrsti hlutinn var í kringum 1850, næsti 1870, þriðji hlutinn 1890 og sá síðasti 1910 (Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 23). Þessar 52 milljónir manna sem fluttu vestur um haf á þessum tíma komu aðallega frá þeim löndum og landsvæðum í Evrópu þar sem mikil fátækt var og offjölgun. Mynduðust oft sterk tengsl á milli landsvæðanna og sveitahéraðanna sem fólkið fluttist frá í Evrópu, og þeirra staða eða borga sem það settist að í, í Vesturheimi. Urðu þannig til ákveðnar leiðir sem fólk fór eftir þegar það fluttist vestur um haf og sóttist það í að setjast að nærri samlöndum sínum. Tengslin milli Íslands og Íslendingabyggðanna í Manitoba og Dakota eru einmitt ágætt dæmi um þetta (Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 26). 3.2 Upphaf og ástæður flutninga Íslendinga til Vesturheims á 19. öld Mismunandi ástæður liggja að baki því að fólk flytur sig um set í leit að betra lífi. Þannig hafa eflaust margar misjafnar ástæður legið að baki því að þeir Íslendingar sem fluttu til Vesturheims ákváðu að gera slíkt. Til að mynda áttu ákveðin umbrot sér stað í samfélaginu varðandi atvinnufrelsi, sem á síðari hluta nítjándu aldar var lítið sem ekkert á Íslandi. Var fólk bundið vistarböndum ef það var ógift. Fólu vistarböndin í sér að ógiftir einstaklingar ættu að vera í vist hjá foreldrum sínum, ættingjum eða ókunnugum. Spunnust deilur í íslensku 21

24 samfélagi um hvort að leyfa ætti lausamennsku og húsmennsku, þar sem fólk sem ætti ekki bújörð fengi að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 51). Sú skoðun var þó almennt ríkjandi að ef fólk væri í lausamennsku eða húsmennsku yrði það latt, óábyrgt, eyðslusamt og drykkfellt (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 52). Viðhorfið átti þó eftir að breytast undir lok nítjándu aldarinnar. Til að mynda benti Hermann Jónasson, ritstjóri Búnaðarritsins, á það árið 1888 að lausamennska og húsmennska myndu þvert á móti stuðla að aukinni vinnusemi og ráðvendni þar sem ábyrgðin myndi hvíla á herðum einstaklinganna sjálfra en ekki húsbændanna líkt og hafði tíðkast þegar fólk var í vistarböndum (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls ). Var sjálfstæð búseta og heimili sem ekki hafði jarðnæði, eða svokölluð húsmennska, ekki leyfð sem tilraun til að hefta brottflutning fólks úr sveitunum til sjávarþorpanna. Árið 1893 afnam Alþingi svo bannið við lausamennsku að mestu (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 54). Á sama tíma og þessi umbrot áttu sér stað í íslensku samfélagi bárust einnig fréttir af atvinnufrelsinu sem ríkti í Vesturheimi og ýtti það eflaust undir áhuga almennings á atvinnufrelsi vinnufólks á Íslandi og því að flytjast búferlum á slóðir þar sem atvinnufrelsi ríkti og þar með hugsanlega möguleiki á betra lífi. Þóttu höftin á brottflutningi frá sveit til sjávar hins vegar stangast á við umræður um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem einnig átti sér stað á þessum tíma (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 54). Auk þeirra breytinga sem aukið atvinnufrelsi vinnufólks á Íslandi kallaði á í pólitíkinni, fór einnig að kræla á hugmyndum meðal fólks um að Íslendingar ættu að ráða sér sjálfir en ekki lúta dönskum yfirráðum. Í Crymogæu Arngríms lærða Jónssonar, sem kom út árið 1609, er þjóðveldistímanum lýst sem glæstum afrekstíma og blómlegu tímabili í sögu Íslendinga, eða sem nokkurs konar gullöld og sóttu Íslendingar hugmyndina um gullöldina þangað (Sigríður Matthíasdóttir, 2003, bls. 120; Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls. 50). Töldu þeir sig sjá í Íslendingasögunum að lífið á þjóðveldistímanum hefði verið betra og auðveldara þar sem Ísland var enn frjálst og sjálfstætt. Var sérstaklega horft til síðustu tveggja áratuga átjándu aldar í sambandi við þessa skoðun, en á þeim tíma hafði verið mikið pólitískt umrót í Danmörku sem hafði slæmar afleiðingar á Íslandi. Auk þess hóf að gjósa uppúr 1780 með miklu öskufalli frá Skaftáreldum sem leiddi til óvenju kaldrar tíðar, búfjárdauða, búsifja og hungursneyðar í kjölfarið, þar sem einn fimmti hluti íslensku þjóðarinnar lét lífið (Agnar Helgason, Sigrún Sigurðardóttir, Gulcher, Ward og Kári Stefánsson, 2000, bls. 1000; Byock, 1992, bls.47-49). 22

25 Þessi hugmynd Arngríms lærða Jónssonar um gullaldartímabil íslensku þjóðarinnar var þó mjög umdeild á miðri 19. öldinni en hugmyndin ávann sér þó sterkari sess eftir því sem leið á öldina. Að lokum tengdist hún sjálfstæðisbaráttunni þar sem því var trúað að Ísland og Íslendingar gætu endurvakið þennan glæsta tíma ef aðeins þeir réðu sér sjálfir (Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls ). Höfðu íslenskir stúdentar meðal annars kynnst hugmyndum Herders er þeir voru við nám í Kaupmannahafnarháskóla á fyrrihluta nítjándu aldar og sagt frá þeim þegar þeir komu heim. Kenningar Herders um að þjóð sé lífræn heild, með sameiginlega hagsmuni og sjálfsmynd sem tungumálið endurspegli hafa því sennilega verið þekktar á meðal Íslendinga á 19. öldinni, sem og goðsögnin um þjóðlega gullöld sem hægt væri að nota sem grunn að nútíma þjóðríki (Sigríður Matthíasdóttir, 2003, bls ; Sigríður Matthíasdóttir, 2004, bls ). Samkvæmt Ingu Dóru Björnsdóttur (1996, bls ) er auðvelt að sjá hvers vegna hugmyndir Herders um hvað myndaði þjóð voru þjóðernissinnuðum Íslendingum á nítjándu öld svo hugleiknar. Í þeirra hugum áttu Íslendingar sögu, menningu og sameiginlegt tungumál, íslenskuna, sem allt átti rætur í og var mótað af náttúru Íslands. Voru þessar hugmyndir settar fram í sögum og ljóðum sem almenningur á Íslandi las, og tengdar þar við hugmyndina um náttúruna sem móður (Inga Dóra Björnsdóttir, 1996, bls ). Fellur hugmynd Arngríms lærða Jónssonar um gullöld Íslendinga á tímum þjóðveldis því alveg að kenningu Herders um að hver þjóð eigi sína goðsögu og þurfi að viðhalda henni til að geta kallast þjóð. Í ljósi þessarar nýju kenningar Herders um hvað gerði þjóð að þjóð er athyglisvert að í ávarpi sem flutt var á þingfundi á Íslandi 1850 sagði að Ísland ætti í frjálsu sambandi við Danmörku, en væri ekki hluti af henni. Íslendingar væru með fullt þjóðerni og þjóðréttindi. Með þessu ávarpi kröfðust Íslendingar í raun sjálfstæðis frá Danmörku eða að minnsta kosti heimastjórnar, sem þeir fengu svo árið Var þetta upphafið að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem lauk svo með fullu sjálfstæði 1944 (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 29). Með því að aðhyllast þessar hugmyndir Herders gátu þjóðernissinnaðir Íslendingar aðgreint sig frá Dönum. Var meðal annars bent á að Íslendingar ættu eigið tungumál og að móðir Íslendinga væri önnur en Dana. Varð þannig til hugmyndafræðilegur grunnur fyrir þeirri kröfu að Íslendingar fengju efnahagslegt og pólitískt sjálfstæði (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 29; Inga Dóra Björnsdóttir, 1996, bls ). Er því talið að Íslendingar hafi þá þegar litið á sig sem sérstaka þjóð. Danir áttu einnig erfitt með að horfa framhjá kröfum Íslendinga um 23

26 sjálfstæði vegna þeirrar virðingar sem íslenskur menningararfur naut í Danmörku á þessum tíma (Guðmundur Hálfdanarson, 2001, bls. 34, 37). Þessar hugmyndir um þjóð og sjálfstæði hafa þeir Íslendingar sem fluttu vestur um haf vafalaust haft með sér í farteskinu bæði í formi ljóða, sagna og frétta frá Íslandi. Auk þessara miklu pólitísku umbrota í íslensku samfélagi á þessum tíma urðu einnig umbrot í náttúrunni sem gerðu ræktun lands og búfénaðar erfiða. Á tímabilinu frá 1859 til 1893 komu afar harðir vetur með miklum hafís og frosthörkum. Einnig varð brestur á heyskap á sumrum á þessum árum vegna kulda. Á árunum 1856 til 1860 komu einnig upp veikindi í sauðfé og varð töluverður fjárfellir með tilheyrandi búsifjum og fátækt. Árið 1875 hóf Askja svo að gjósa og spillti það jarðnæði enn frekar (Brydon, 2001, bls 166; Eyford, 2016, bls ; Eyrún Eyþórsdóttir, 2012, bls. 2; Guðjón Arngrímsson, 1997, bls ; Jónas Þór, 1989, bls. 2; Vanderhill og Christensen, 1963, bls. 351). 3.3 Stutt ágrip af sögu landnáms í Manitoba: Samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni (1997, bls. 27) má finna heimildir í Vesturfaraskrá Júníusar H. Kristinssonar um að Íslendingar hafi flutt vestur um haf. Þó er vitað að það vanti töluvert upp á að sú tala sé rétt. Er almennt talið að um það bil 20 þúsund manns hafi farið frá Íslandi, eða um 20-25% þjóðarinnar (Eyford, 2016, bls. 28; Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 27; Steinþór Heiðarsson, 2003, bls. 105). Var mikil umræða á árunum 1870 til 1874 á Íslandi um hvar væri best að nema land í Vesturheimi til að stofna nýlendu þar sem eingöngu myndu setjast að Íslendingar. Var í þessu tilliti rætt um Kanada, Brasilíu og nokkra staði í Bandaríkjunum sem fólki fannst koma til greina. En skoðanir sumra breyttust við komuna til Vesturheims og urðu þær afar skiptar hvað svona landsvæði varðaði (Jónas Þór, 1989, bls. 4; Þorleifur Jóakimsson (Jackson), 1919, bls. 5). Þann 1. júlí árið 1867 var Kanada stofnað sem ríki með eigin heimastjórn, en heyrði enn undir bresku krúnuna. Það voru fjórar breskar nýlendur, Ontario, Québec, New Brunswick og Nova Scotia, sem urðu að Kanada, en höfðu fram að því myndað Breska Samveldið (Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 30; Hacker, 1981, bls ; Forsey, 2006). Í þremur nýlendnanna voru Bretar flestir innflytjenda, en Frakkar voru flestir innflytjenda í Québec (Guðjón Arngrímsson, 1997, bls. 30; Matthiasson, 1989, bls. 159). Frá 1682 til 1812 höfðu þeir Evrópubúar sem settust að á því landsvæði sem í dag ber nafnið Manitoba, gert það á vegum verslunarfyrirtækjanna Hudson Bay Company og North 24

27 West Company. Einnig settust einhverjir sjálfstætt starfandi sölumenn að á svæðinu. Voru settar upp verslunarstöðvar þar sem höndlað var með skinn sem veiðimenn, bæði frumbyggjar og Evrópubúar, sem höfðu sest að á svæðinu, komu með til að selja. Tilheyrði landsvæðið á þessum tíma ættflokkum frumbyggja, en einnig afkomendum franskra veiðimanna og frumbyggja, eða Métis þjóðinni. Héldu forsvarsmenn fyrirtækjanna því fram að þetta svæði væri ekki vænlegt til landnáms. Var því einnig almennt trúað að landsvæðið væri ekki hentugt til landbúnaðar og því lítið um að innflytjendur leituðu þangað til að nema land á þessum tíma (Bertram, 2011, bls. 161; Eyford, 2016, bls. 45; Hacker, 1981, bls ; Matthiasson, 1989, bls. 159). En árið 1857 ákváðu bresk og kanadísk stjórnvöld að senda út könnunarleiðangra á svæðið með það fyrir augum að útvíkka landsvæði Kanada, og athuga hvort möguleiki á landbúnaði væri á þessu svæði þrátt fyrir allt. Í ljós kom að landsvæðið hentaði til landbúnaðar og hófu bæði bresk og kanadísk yfirvöld samningaviðræður við Hudson Bay fyrirtækið sem þá var orðið einrátt á svæðinu, um að kaupa og færa landsvæðið undir stjórn kanadískra stjórnvalda. Var sá samningur gerður án aðkomu og í óþökk frumbyggjanna og Métis fólksins á svæðinu. Í fyrstu settist að lítill hópur Skota, við ármót Rauðár (e. Red River) og Assiniboine ár, og lenti hann einmitt í útistöðum við Métis fólkið en þetta var landsvæðið þeirra (Bertram, 2011, bls. 161; Eyford, 2016, bls: 31, 33, 45; Hacker, 1981, bls ; Matthiasson, 1989, bls 159; Weir, 2012). Yfirvöld í Kanada ákváðu að úthluta landsvæðinu við suðvesturströnd Winnipegvatns til íslensku landnemanna til þess að reyna að skapa þar nýlendu. Var ætlunin að skapa sjálfbært íslenskt samfélag þar, sem myndi laða til sín fleiri íslenska innflytjendur og landnema. Íslenska nýlendan var þannig hluti af áætlun eða verkefni kanadískra yfirvalda um að laða að nýja innflytjendur til að setjast að í Kanada. Öðrum svæðum á þessum slóðum hafði einnig verið úthlutað til landnema frá ýmsum Evrópulöndum, svo sem Bretlandi, Þýskalandi, Danmörku, Írlandi og fólki frá Austur-Evrópu (Eyford, 2016, bls. 45, 47 65, 186; Matthiasson, 1989, bls. 160). Kanadísk stjórnvöld höfðu ráðið til sín John Taylor og Sigtrygg Jónasson, ásamt fjórum Íslendingum í viðbót, til að ferðast um Manitobafylki til að skoða þar landgæði með landnám Íslendinga í huga. Útbjó hópurinn skýrslu þar sem hann taldi kosti landsins það góða að tilvalið væri fyrir Íslendinga að setjast þar að og nema land (Eyford, 20016, bls. 47; Vanderhill og Christensen, 1963, bls ). Sendi Sigtryggur skýrsluna bæði til Íslands og til Milwaukee í Bandaríkjunum á þá íslensku landnema sem þegar höfðu sest þar að. Auk þess fór Sigtryggur líka til Íslands í umboði kanadískra stjórnvalda til að kynna landsvæðið fyrir mögulegum 25

28 innflytjendum. Á sama tíma bárust fréttir um að hópur Íslendinga sem væri staddur í Ontario ætlaði sér að nema land í Manitoba (Jónas Þór, 1989, bls. 4; Stefán Eyjólfsson, 1919, bls. 9). Þegar landstjóri Manitoba, Alexander Morris, hugðist fara og semja við frumbyggjana sem voru við Winnipegvatn um landsvæðið þar, fékk hann send skýr skilaboð frá ráðherra innanríkismála, David Lynch, sem staðsettur var í Ottawa. Samkvæmt þeim var honum bannað að lofa frumbyggjunum landinu sem valið hafði verið af Sigtryggi og John Taylor undir byggð Íslendinga. Var þessi ráðstöfun á landinu svo formlega staðfest 8. október 1875, og var það síðasta landsvæðið í Manitoba sem var úthlutað af landsstjórninni til innflytjenda í Manitoba (Eyford, 2016, bls. 47). 3.4 Landnám Íslendinga í Vesturheimi Fyrstu íslensku landnemarnir, sem komu þann 21. október 1875 í Víðines (e. Willow Point) á strönd Winnipegvatns, sem þá tilheyrði norðursvæðum Kanada en er í dag í Manitoba, stofnuðu nýlenduna Nýja Ísland snemma árs Höfðu þeir samþykkt að setjast að í Kanada gegn því að fá þar land til að stofna íslenska nýlendu, nokkurs konar framlengingu af Íslandi, þar sem þeir gætu varðveitt tungumál sitt og menningu í friði. Var ætlunin að einangra landsvæðið. Voru þessar óskir þeirra samþykktar og settust þeir að í Manitobafylki, eftir mislukkaða tilraun til að setjast að í Ontariofylki. Svæðið sem þeir völdu sér að setjast að á var við suðvesturströnd Winnipeg vatns, sem er um það bil 70 mílur norður af Winnipeg. Þetta svæði kölluðu þeir Nýja Ísland. Var nýlendunni skipt upp í fjögur svæði: Víðinesbyggð (e. Willow Point Settlement), Árnesbyggð (e. River Point Settlement), Fljótsbyggð (River Settlement) og Mikleyjarbyggð (e. Big Island Settlement) (Eyford, 2016, bls. 151; Jónas Þór, 1989, bls. 13; Matthiasson, 1989, bls. 158; Neijman, 1999, bls. 245; Steinþór Heiðarsson, 2003, bls. 107; Vanderhill og Christensen, 1963, bls , 356). Fólk úr ýmsum stéttum, með ýmiskonar kunnáttu, fluttist vestur um haf. Minnist Jóhann Briem (1919, bls. 15) til dæmis á hóp af einhleypu fólki en einnig að nokkrar fjölskyldur hafi verið á meðal eins hóps landnámsfólksins. Auk þess minnist hann á aldraðan mann frá Skagafirði, að nafni Pálmi Jónsson, sem var smáskammtalæknir, skáld og fróður um ýmis málefni. Auk hans var einnig ungur maður með í för til Nýja Íslands, sem hét Sigurður Hjálmarsson, og var hann smiður að mennt (Jóhann Briem, 1919, bls. 20). Á leið sinni til Nýja Íslands, innan Kanada, ferðuðust íslensku landnemarnir meðal annars með járnbrautarvögnum. Virðast þeir hafa verið fremur saklausir gagnvart samferðamönnum 26

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66 Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66.A.20(b) privileges The holder og an aircraft maintenance licence may not exercise its privileges unless: 1. In compliance

More information

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson Ritstuldarvarnir Sigurður Jónsson sigjons@hi.is Aðgangur að Turnitin 1. Beint í Turnitin á www.turnitin.com 2. Gegnum Moodle-námskeið Kennarar og nemendur halda sig í Moodleumhverfinu Fá frumleikaskýrslu

More information

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND INDEX I. Regional Partnerships Official Partners of the OPEN DAYS 2011 East Iceland... 3 Austurlands... 5 2 I. Regional

More information

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Samanburður vindmæla Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Haustþing Veðurfræðifélagsins 2011 Tegundir vindmæla Til eru margar mismunandi gerðir vindmæla sem byggja á mismunandi

More information

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Björn Traustason og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá Fagráðstefna 25.mars 2010 Inngangur Landfræðileg greining til að meta útbreiðslu nokkurra

More information

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði Eðlisfræðiskor HÍ og Raunvísindastofnun Háskólans Tilraunahúsið p.1/18 Sýnishorn af markmiðum ríkisvalds í menntamálum

More information

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR Ingvar Örn Ingvarsson Verkefnisstjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar Samgöngufundur á Norðurlandi, 19. nóvember 2015 Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir

More information

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Morgunverðarfundur Ferðamálastofu Grand hótel, Reykjavík 14. apríl 2011 Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Dr. Edward H. Huijbens Forstöðumaður /

More information

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Q1. Ert þú karl eða kona? Karl 229 19.83% Kona 926 80.17% Fjöldi 1155 Q2. Á hvaða aldursbili ert þú? 30 ára eða yngri 190 16.42% 31-40 ára 257 22.21% 41-50 ára 312 26.97%

More information

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. í sálfræði 103 á vorönn 2008 um viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. Rannsóknin á að gera grein fyrir afstöðu nemenda við Menntaskólanum á Egilsstöðum til nýgerða breytinga á stoðtímakerfi

More information

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Ný tilskipun um persónuverndarlög UT Messa SKÝ, 9. febrúar 2012 Hörður Helgi Helgason Um fyrirlesara 1999 2000-03 2003-06 2006- Héraðsdómslögmaður Persónuvernd Ráðgjafi, evrópsk persónuv.lög LM lögmenn -> Landslög munið #utmessan Boligen

More information

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Stóra myndin Uppbygging þekkingarsamfélags Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Bakgrunnur Viðskiptaráð Íslands 1 Yfirlit 1. Hvað eru þekkingarkjarnar? 2. Hvað

More information

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum Raddir fjölbreyttra kennarahópa Sólveig Karvelsdóttir, lektor, HÍ Hafdís Guðjónsdóttir, dósent, HÍ Rannsóknin er hluti af tveimur rannsóknum Fjölbreyttir kennarahópar

More information

Ég vil læra íslensku

Ég vil læra íslensku Ég vil læra íslensku 16 Föt Föt Évlí - 16 föt 1 hlusta Generated by Foxit PDF Creator Foxit Software benda lita teikna klippa líma strákur stelpa ekki stelpa/ekki strákur hugsa Évlí - 16 föt 2 hlusta íslenskur

More information

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila desember 2016 VIÐMIÐ TEGUND FYRIRTÆKIS

More information

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Ingólfur Ásgeir Jóhannesson Hvernig getur málefni sem ekki er skilgreint sem námsgrein í grunnskóla eða námssvið

More information

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Klettafjöllin og Grand Canyon 1 Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Kristbjörg María Guðmundsdóttir Eitt af fallegustu handverkum náttúruaflanna er án efa að finna í vesturhluta Norður-Ameríku.

More information

Frá Mekka til Reykjavíkur Þjóðernisafmörkun múslíma í Evrópu

Frá Mekka til Reykjavíkur Þjóðernisafmörkun múslíma í Evrópu Frá Mekka til Reykjavíkur Þjóðernisafmörkun múslíma í Evrópu Halldór Nikulás Lárusson Lokaverkefni til BA-gráðu í Mannfræði Leiðbeinandi: Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor Félags- og mannvísindadeild

More information

Ég vil vera ég. Upplifun fullorðinna innflytjenda í íslenskunámi sínu hérlendis. Selma Kristjánsdóttir

Ég vil vera ég. Upplifun fullorðinna innflytjenda í íslenskunámi sínu hérlendis. Selma Kristjánsdóttir Ég vil vera ég Upplifun fullorðinna innflytjenda í íslenskunámi sínu hérlendis Selma Kristjánsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-gráðu Háskóli Íslands Menntavísindasvið Ég vil vera ég Upplifun fullorðinna innflytjenda

More information

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB ÍSLENSK útgáfa EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB I EES-STOFNANIR 1. EES-ráðið 2. Sameiginlega EES-nefndin 3. Sameiginlega EES-þingmannanefndin 4. Ráðgjafarnefnd EES ISSN 1022-9337 Nr. 54 8. árgangur

More information

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur. Multicultural Council of Reykjavik Candidates

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur. Multicultural Council of Reykjavik Candidates Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur Multicultural Council of Reykjavik Candidates Aleksandra Chlipala Hversu lengi búið á Íslandi: Have been a resident of Iceland: Pólsk Polish aleksandrachlipala@gmail.com

More information

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa Efnisyfirlit Þróun félagsauðs í grannríkjunum Bandaríkin Skandinavía Meginland Evrópu Þróunin á Íslandi Félagsþátttaka Frumtengsl Félagsrof Félagsauður,

More information

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar 1 Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar Introduction to rotating machines 2 Grunnhugtök og meginþættir Klassískar gerðir véla Riðstraumsvélar Samfasavél (synchronous machine) Spanvél (induction machine

More information

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Sérfræðingur í persónurétti Yfirlit Stóra myndin Skyldur GDPR Aðlögunarferli Áskoranir og praktísk ráð 2 3 Yfirlit: Hvað er GDPR?» GDPR

More information

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna Samanburðarrannsókn nóvember 2012 Ari Klængur Jónsson www.mcc.is Árnagötu 2-4 400 Ísafjörður Sími: 450-3090 Fax: 456-0215 mcc@mcc.is 1 Velferðarráðuneytið

More information

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrú fjarnám Bókalisti vorönn 2019 2. önn Félagsvísinda- og lagadeild Upplýsingatækni og tölfræði: Kennslubók í Excel 2016. Höfundar: Hallur Örn Jónsson og Óli Njáll Ingólfsson Stærðfræði 3: Stærðfræði

More information

CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir

CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og 2006. Kolbeinn Árnason Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir CORINE: Coordination of information on the environment eða: Samræming umhverfisupplýsinga

More information

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Jón Viðar Jónmundsson 1 og Emma Eyþórsdóttir 2 1 Bændasamtökum Íslands 2 Rannsóknarstofnun landbúnaðarins/lbh á Hvanneyri Inngangur Fyrsta

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services 2011:1 27. maí 2011 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Frá árinu 1987 hefur Hagstofa Íslands leitað upplýsinga frá sveitarfélögum árlega um fjárhagsaðstoð, félagslega heimaþjónustu

More information

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2 1 Examples 2 Sýnidæmi 2 2 Example 25-1 Gefið er 3 fasa, 3 teina raforkukerfi samkvæmt meðfylgjandi einlínumynd. Allar stærðir á myndinni eru í einingakerfinu ( per unit ). Seríuviðnám háspennulínanna er

More information

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn -

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM Schengen ráðstefna 6. október 2011 - Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - Áherslur - Lögreglan á Suðurnesjum - Framkvæmd landamæraeftirlits - Umhverfið - Álag á Ísland

More information

Lengsta fjallakeðja á Jörðinni!

Lengsta fjallakeðja á Jörðinni! AMERÍKA 1 Lengsta fjallakeðja á Jörðinni! Meðfram allri vesturströnd Ameríku liggja Cordillerafjöll. Í S-Ameríku eru þau kölluð: Andesfjöll Í N-Ameríku skiptast þau í: Klettafjöll (Rocky Mountains), Strandfjöll

More information

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11 Samantekt Í þessari ritgerð er fjallað um rými og innsetningar og sérstaklega verk Elínar Hansdóttur Path og Parallax. Elín er ungur, íslenskur listamaður sem hefur vakið mikla athygli á síðustu árum með

More information

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur CHEMISTRY The Central 9th Edition Hlutfallareikningur: AðA reikna út frá formúlum og efnajöfnum fnum Lavoisier: Massi varðveitist í efnahvörfum. : lýsa efnahvörfum. Efnajafna : Hvarfefni og myndefni: 2H

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 8. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós XML-þjónustan veitir aðgang að nýjum norðurljósagögnum Veðurstofunnar sem birt eru á www.vedur.is. Slóð XML-þjónustunnar er http://xmlweather.vedur.is/aurora?op=xml&type=index

More information

Dystópíur uppgangskynslóðarinnar

Dystópíur uppgangskynslóðarinnar Hugvísindasvið Dystópíur uppgangskynslóðarinnar Dystópíur François Truffaut og Jean-Luc Godard og áhrif maí 1968 Ritgerð til BA-prófs í kvikmyndafræði Sigurður Helgi Magnússon Maí 2013 Háskóli Íslands

More information

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson Samstarf HR og IGI Ólafur Andri Ragnarsson Leikjaiðnaðurinn 2021 Leikjaiðnaðurinn 2021 5.000 störf 70 milljarðar í heildarútflutningstekjur ef... Photo Ian Parker http://parkerlab.bio.uci.edu/nonscientific_adventures/iceland_man.ht

More information

MARKAÐSSETNING HÖFUÐBORGARSVÆÐISINS Á ERLENDUM MÖRKUÐUM UNDIR VÖRUMERKINU REYKJAVÍK. Vörumerkið Reykjavík

MARKAÐSSETNING HÖFUÐBORGARSVÆÐISINS Á ERLENDUM MÖRKUÐUM UNDIR VÖRUMERKINU REYKJAVÍK. Vörumerkið Reykjavík MARKAÐSSETNING HÖFUÐBORGARSVÆÐISINS Á ERLENDUM MÖRKUÐUM UNDIR VÖRUMERKINU REYKJAVÍK Hjörtur Smárason, janúar 2014 Borgir og mikilvægi þeirra í framtíðinni Borgir eru í auknum mæli að taka yfir hlutverk

More information

Saga fyrstu geimferða

Saga fyrstu geimferða Lokaverkefni 2015 Réttarholtsskóli Saga fyrstu geimferða Arnar Freyr Jónsson og Oddur Kjartansson 10.FG Hópur 26 Geimöldin Árið 1957 hófst hin svokallaða geimöld sem síðar átti eftir að verða frumkvöðullinn

More information

Green map around the world. Fjölþjóða verkefni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi

Green map around the world. Fjölþjóða verkefni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi Green map around the world Fjölþjóða verkefni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi Upphaf grænkortagerðar og markmið Persónurnar á bakvið Bellagio fundurinn Þróun kortanna síðan Dæmisögur úr öllum álfum

More information

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012 Nr. 28/32 EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012 2013/EES/28/07 frá 8. júní 2012 um framkvæmdarreglur vegna beitingar 16. gr.

More information

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Hugvísindasvið Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Pólitíkin og pönkið Ritgerð til B.A.-prófs Valur Gunnarsson Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði Skítsama um allt, frá

More information

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir Hugvísindasvið Lesið í landið Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag Ritgerð til B.A.-prófs Ásta Hermannsdóttir Janúar 2011 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Fornleifafræði Lesið í landið

More information

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Svíþjóð - stjórnsýslan Þrjú formleg stjórnsýslustig Sveitarfélög, 290 talsins (Local level) Lén, 20 talsins (Regional level) Landsstjórn, 349 þingmenn (National

More information

Hvernig félags- og menningarlegar breytingar hafa leikið frumbyggja á norðurskautssvæðinu

Hvernig félags- og menningarlegar breytingar hafa leikið frumbyggja á norðurskautssvæðinu Hug- og félagsvísindasvið Samfélags og hagþróunarfræði 2010 Hvernig félags- og menningarlegar breytingar hafa leikið frumbyggja á norðurskautssvæðinu Kristbjörg Auður Eiðsdóttir Lokaverkefni við Hug- og

More information

Við áhrif frá hinni gömlu, þjóðlegu list fann ég sjálfan mig.

Við áhrif frá hinni gömlu, þjóðlegu list fann ég sjálfan mig. Hugvísindasvið Við áhrif frá hinni gömlu, þjóðlegu list fann ég sjálfan mig. Endursköpun hefðarinnar í útskurði Ríkarðs Jónssonar Ritgerð til B.A.-prófs Ingunn Sigurðardóttir Maí 2011 Háskóli Íslands Hugvísindasvið

More information

Könnunarverkefnið PÓSTUR

Könnunarverkefnið PÓSTUR Könnunarverkefnið PÓSTUR Þáttakenndur í verkefninu UM PÓST Rauði hópur Vor 2010 Börn fædd 2005 Hópstjóri: Tatjana Lind Jónsson Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina

More information

Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi -

Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi - Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi - Rannveig Björnsdóttir Strandbúnaður 2017, Grand Hótel Reykjavík, 13.-14.mars YFIRLIT erindis Dæmi: doktorsverkefni RBj 2005-2010 BAKGRUNNUR VANDAMÁLIÐ

More information

Félags- og mannvísindadeild

Félags- og mannvísindadeild Félags- og mannvísindadeild BA-ritgerð Félagsfræði Dagblaðalestur íslenskra ungmenna Sylvía Rut Sigfúsdóttir Janúar 2010 Félags- og mannvísindadeild BA-ritgerð Félagsfræði Dagblaðalestur íslenskra ungmenna

More information

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst 15. 18. ágúst 21. 25. ágúst 28. ág 1. sept. 15. skipulagsdagur 16. skipulagsdagur 17. Skipulagsdagur 18. skipulagsdagur

More information

Háskólabrú- staðnám. Bókalisti - Vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

Háskólabrú- staðnám. Bókalisti - Vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrú- staðnám Bókalisti - Vorönn 2018-2. önn Félagsvísinda- og lagadeild Upplýsingatækni og tölfræði: Kennslubók í Excel 2016. Höfundar: Hallur Örn Jónsson og Óli Njáll Ingólfsson Stærðfræði 3: Stærðfræði

More information

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja í mismunandi menningarheimum

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja í mismunandi menningarheimum Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja í mismunandi menningarheimum Lokaritgerð til BS gráðu Höfundur: Anna Jóna Baldursdóttir Leiðbeinandi: Ingibjörg Guðmundsdóttir Viðskiptadeild Ágúst 2011 Lokaritgerð til

More information

Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr

Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr Listamaðurinn Heimir Björgúlfsson Svana Björg Ólafsdóttir Ritgerð til BA-prófs í listfræði Maí 2016 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Háskóli Íslands

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Vaasa Ostrobothnia nóv. 2012

Vaasa Ostrobothnia nóv. 2012 Vaasa Ostrobothnia 19-21.nóv. 2012 Hópurinn og ferðin Halla Steinólfsdóttir Dalabyggð Ingibjörg Valdimarsdóttir Akranesi Ólafur Sveinsson SSV The Ministry of Foreign Affairs of Finland (19.nóv.) The Regional

More information

Áhrif upplýsingarinnar sem koma fram í völdum ritum um veraldleg efni eftir aðra Íslendinga en Magnús Stephensen frá tímabilinu

Áhrif upplýsingarinnar sem koma fram í völdum ritum um veraldleg efni eftir aðra Íslendinga en Magnús Stephensen frá tímabilinu Háskóli Íslands Hugvísindasvið Sagnfræði Áhrif upplýsingarinnar sem koma fram í völdum ritum um veraldleg efni eftir aðra Íslendinga en Magnús Stephensen frá tímabilinu 1796 1820 Ritgerð til BA-prófs í

More information

Áhrif lofthita á raforkunotkun

Áhrif lofthita á raforkunotkun Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Júlí 2017 Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Orkustofnun Júlí 2017 Útgefandi: Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík Sími: 569 6000, Fax, 568

More information

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Lokaverkefni til B.Ed. prófs Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Eru ánægðir foreldrar bestu bandamenn kennara? Halldóra Gísladóttir 300955-5419 Kennaraháskóli Íslands

More information

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík Notkun merkis Veðurstofu Íslands Veðurstofa Íslands Bústaðavegur 9 150 Reykjavík +354 522 60 00 +354 522 60 01 vedur@vedur.is Maí 2009 2 Efnisyfirlit Merki 3 Litanotkun 5 Merki í fleti 6 Stærð merkisins

More information

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is REYKJAVIK PRIDE 2. 7. ÁGÚST FREE COPY HINSEGINDAGAR.IS Gleðilega hátíð JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA Landsbankinn landsbankinn.is 410 4000 VELKOMIN Á HINSEGIN DAGA 2016 WELCOME TO REYKJAVIK PRIDE 2016 Sagan

More information

Hugmyndafræði Jónasar frá Hriflu í Skinfaxa Erlend áhrif

Hugmyndafræði Jónasar frá Hriflu í Skinfaxa Erlend áhrif Hugvísindasvið Hugmyndafræði Jónasar frá Hriflu í Skinfaxa 1911-1915. Erlend áhrif Ritgerð til BA-prófs í sagnfræði Nanna Þorbjörg Lárusdóttir September 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Sagnfræði Hugmyndafræði

More information

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Yfirlit erindis Meginmarkmið og bakgrunnur Nokkrar skilgreiningar Rannsóknaraðferðir

More information

Tölvu- og netnotkun einstaklinga 2011 Computer and Internet usage by individuals 2011

Tölvu- og netnotkun einstaklinga 2011 Computer and Internet usage by individuals 2011 2011:2 6. september 2011 Tölvu- og netnotkun einstaklinga 2011 Computer and Internet usage by individuals 2011 Samantekt Nettenging er til staðar á 93% íslenskra heimila. Árleg fjölgun nettengdra heimila

More information

TRS II tekur við af TRS. Kynningarfundur, 30. maí 2017

TRS II tekur við af TRS. Kynningarfundur, 30. maí 2017 TRS II tekur við af TRS Kynningarfundur, 30. maí 2017 Dagskrá Almennt um TRS og breytingar í tengslum við innleiðingu MiFID II og MiFIR Yfirlit yfir TRS kerfið Helstu breytingar á kerfinu Mikilvægi þess

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Elítur á Íslandi einsleitni og innbyrðis tengsl

Elítur á Íslandi einsleitni og innbyrðis tengsl n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Elítur á Íslandi einsleitni og innbyrðis tengsl Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Þorgerður Einarsdóttir, próf. við Stjórnmálafræðideild Háskóla

More information

Staðbundin áhrif ferðaþjónustunnar á Hornafjörð

Staðbundin áhrif ferðaþjónustunnar á Hornafjörð BSc í viðskiptafræði Staðbundin áhrif ferðaþjónustunnar á Hornafjörð Júní, 2017 Nafn nemanda: Kristín Hallsdóttir Kennitala: 280292-2819 Nafn nemanda: Sindri Snær Ólafsson Kennitala: 220894-2079 Leiðbeinandi:

More information

Ferðaþjónusta á jaðrinum: Um tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi frá 1944

Ferðaþjónusta á jaðrinum: Um tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi frá 1944 Gunnar Þór Jóhannesson (2008) Um tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi frá 1944, í I. Hannibalsson (ritstj.) Rannsóknir í félagsvísindum IX, bls. 209-217 (Reykjavík: Háskólaútgáfan) Ferðaþjónusta á jaðrinum:

More information

Hreyfingar ferðaþjónustu: Skipun þróunarverkefnis í ferðaþjónustu á Vestfjörðum

Hreyfingar ferðaþjónustu: Skipun þróunarverkefnis í ferðaþjónustu á Vestfjörðum Hreyfingar ferðaþjónustu: Skipun þróunarverkefnis í ferðaþjónustu á Vestfjörðum Gunnar Þór Jóhannesson * ÁGRIP Í umræðu um byggðamál og atvinnuþróun er oft horft til ferðaþjónustu sem mögulegs bjargráðs.

More information

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Stillt upp fyrir tískumyndatöku í Hörpu. Samantekt unnin fyrir Höfuðborgarstofu mars 2017 Höfundur: Rögnvaldur Guðmundsson Rannsóknir

More information

Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. September 2018

Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. September 2018 Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu September 2018 Samantekt Íslandsstofa framkvæmdi viðhorfskönnun í júlí og ágúst 2018 meðal erlendra söluaðila sem selja ferðir til Íslands.

More information

Horizon 2020 á Íslandi:

Horizon 2020 á Íslandi: Horizon 2020 á Íslandi: - Árangur Íslands í Horizon2020 - Hvernig getur Rannís veitt ykkur aðstoð? Kristmundur Þór Ólafsson Alþjóðasvið Rannís Landstengiliður (NCP) fyrir H2020 Hvað er H2020? Rammaáætlun

More information

Leitin að hinu sanna leikhúsi

Leitin að hinu sanna leikhúsi Hugvísindasvið Leitin að hinu sanna leikhúsi Grimmdarleikhús Antonin Artaud og skrif Jean Genet fyrir leiksviðið Ritgerð til BA-prófs í Almennri bókmenntafræði Haukur Hallsson Janúar 2013 Háskóli Íslands

More information

Heimsálfurnar. Námsspil í landafræði og sögu. Edda Rut Þorvaldsdóttir Margrét Ósk Marinósdóttir

Heimsálfurnar. Námsspil í landafræði og sögu. Edda Rut Þorvaldsdóttir Margrét Ósk Marinósdóttir Heimsálfurnar Námsspil í landafræði og sögu Edda Rut Þorvaldsdóttir Margrét Ósk Marinósdóttir Lokaverkefni til B.Ed-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Heimsálfurnar Námsspil í landafræði og sögu

More information

ISBN: Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2014 Menntamálastofnun Kópavogur

ISBN: Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2014 Menntamálastofnun Kópavogur 40114 7370 ISBN: 978-9979-0-2148-3 Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2014 Menntamálastofnun Kópavogur Villta vestrið Ívar Örn Reynisson og Sigrún Elíasdóttir Freydís Kristjánsdóttir teiknaði myndir NÁMSGAGNASTOFNUN

More information

Nr mars 2006 AUGLÝSING

Nr mars 2006 AUGLÝSING AUGLÝSING um gerð sem felur í sér breytingu á samningi sem ráð Evrópusambandsins og Ísland og Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Hinn

More information

Trúðboð sannleiksengla á Íslandi

Trúðboð sannleiksengla á Íslandi Trúðboð sannleiksengla á Íslandi Hefðbundin list trúða fyrr og nú Andrea Elín Vilhjálmsdóttir Lokaverkefni til BA gráðu í Þjóðfræði Félagsvísindasvið Trúðboð sannleiksengla á Íslandi Hefðbundin list trúða

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013 2014:3 9. október 2014 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Árið fengu 8.042 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 306

More information

RAFRÆNN REIKNINGUR. Eiginleikar, ávinningur og kröfur

RAFRÆNN REIKNINGUR. Eiginleikar, ávinningur og kröfur RAFRÆNN REIKNINGUR Eiginleikar, ávinningur og kröfur EIGINLEIKAR REIKNINGUR (HEFÐBUNDINN) Inniheldur/flytur gögn. Viðskiptaaðilar, Hvað er selt, Greiðsluupplýsingar Skattaupplýsingar ofl. Birtir gögn Prentað

More information

UNGT FÓLK BEKKUR

UNGT FÓLK BEKKUR UNGT FÓLK 16 8.. BEKKUR Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun, heilsuhegðun, heilsuvísar, líðan og framtíðarsýn ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. ÆSKULÝÐSRANNSÓKNIR FRÁ 1992 Ungt fólk 16 Grunnskólar

More information

SEPTEMBER 2010 RÁÐSMIÐJA UM FRÆÐANDI FERÐAÞJÓNUSTU - KIÐAGIL

SEPTEMBER 2010 RÁÐSMIÐJA UM FRÆÐANDI FERÐAÞJÓNUSTU - KIÐAGIL SEPTEMBER 2010 RÁÐSMIÐJA UM FRÆÐANDI FERÐAÞJÓNUSTU - KIÐAGIL, forst.m. Þekkingarnets Þingeyinga AKADEMÍSK FERÐAÞJÓNUSTA LEIÐIN FRÁ HUGMYND TIL VERULEIKA Akademísk ferðaþjónusta Yfirferð dagsins... I. Inntak

More information

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Daði Oddberg Einarsson Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Desember 2016 Grafísk hönnun og hip-hop

More information

Gengið og verðlagsmælingar til mjög langs tíma

Gengið og verðlagsmælingar til mjög langs tíma Gengið og verðlagsmælingar til mjög langs tíma Gylfi Magnússon Viðskiptafræðideild Ritstjóri Ingjaldur Hannibalsson Rannsóknir í félagsvísindum XIII. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2012 Reykjavík:

More information

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 I GENERAL INFORMATION ABOUT THE SCHOOL 1. Describe the school and its surroundings very

More information

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Power Point leiðbeiningar Sjónarhorn View Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Outline view - Yfirlitshamur Hér er hægt að rita minnispunkta við hverja glæru fyrir þann sem

More information

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst JÓHANNES BJÖRN Falið vald Kúnst 1979, 2009 Jóhannes Björn Lúðvíksson ISBN 978-9979-70-580-2 IV. Þangað sem auðurinn streymir Þegar talað er um eigendur alþjóðlegra banka og margar undirtyllur þeirra, verður

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011 2012:1 4. október 2012 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Árið fengu 7.715 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 805

More information

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM Skýrsla fyrir skólaárið 2016-2017 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 1. Inngangur... 3 2. Markmið og tilgangur matsins... 3 3. Aðferðir og framkvæmd matsins... 3 4.

More information

Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku

Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku 2011 2015 Ýr Þórðardóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku 2011

More information

Nú ber hörmung til handa

Nú ber hörmung til handa Nú ber hörmung til handa Viðhorf til múslima og áform um mosku í Reykjavík Kolbrá Höskuldsdóttir Lokaverkefni til MA gráðu í Hagnýtri þjóðfræði Félagsvísindasvið Nú ber hörmung til handa Viðhorf til múslima

More information

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum Útg. Dags. Höf. Rýnir Samþykkur Lýsing 3 11/01 2006 GG EH Lokaskýrsla II 2 21/12 2005 GG SvSv Lokaskýrsla I 1 15/12 2005 GG Uppkast 1

More information

ANNUAL SAFETY REVIEW. Þróunar og greiningarstofa Division of Development and Analysis

ANNUAL SAFETY REVIEW. Þróunar og greiningarstofa Division of Development and Analysis ANNUAL SAFETY REVIEW 2012 Þróunar og greiningarstofa Division of Development and Analysis Flugmálastjórn Íslands: Annual Safety Review 2012 Útgefandi: Flugmálastjórn Íslands Skógarhlíð 12 105 Reykjavík

More information

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]!

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]! Hugvísindasvið [fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]! Um skiptihljóðið /f/ í máli stúlku á fimmta ári Ritgerð til B.A.-prófs Rannveig Garðarsdóttir Maí 2012 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Íslenska [fjou:lɪð]

More information

Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2.

Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2. Reykjavík, 15. maí 2017 R17050061 110 Borgarráð Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2. júní 2017 Fyrirhuguð er opinber

More information

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Aðdragandi, framkvæmd og árangur af sameiningu Högskolan på Gotland og Uppsalaháskóla Ágrip Í þessari úttektar er að dreginn lærdómur af nýlegri sameiningu tveggja háskóla

More information

Maðurinn í málverki. eftir Ragnar Þórisson. Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir

Maðurinn í málverki. eftir Ragnar Þórisson. Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir 1 Maðurinn í málverki eftir Ragnar Þórisson Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir 2 Efnisyfirlit INNGANGUR 3 ABSTRAKTMYNDIR 3 Þrír málarar abstrakt

More information

Til að forritið vinni með Word þarf að hlaða niður á tölvuna forritsstubbnum Cite While You Write

Til að forritið vinni með Word þarf að hlaða niður á tölvuna forritsstubbnum Cite While You Write Veflæga heimildaskráningarforritið EndNote Web er notað til að halda utan um tilvísanir og búa til heimildaskrár. Hægt er að flytja tilvísanir úr bókasafnsskrám og gagnasöfnum inn í forritið. EndNote Web

More information

Af vettvangsferð til Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi

Af vettvangsferð til Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi Hug- og félagsvísindasvið Samfélags- og hagþróunarfræði 2011 Af vettvangsferð til Ittoqqortoormiit á Austur-Grænlandi Hjördís Guðmundsdóttir Lokaverkefni við Hug- og félagsvísindasvið Hug- og félagsvísindasvið

More information

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands ÞÓRA BJÖRK HJARTARDÓTTIR Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands 1. Fjöldi erlendra stúdenta Á liðnum áratug hefur erlendum stúdentum fjölgað gríðarlega við Háskóla Íslands. Haustið 2000 voru skráðir

More information