Tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs

Size: px
Start display at page:

Download "Tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs"

Transcription

1 B.Sc. lokaverkefni í íþróttafræði Tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs Maí 2018 Nafn nemanda: Svanfríður Birna Pétursdóttir Kennitala: Leiðbeinendur: Margrét Lilja Guðmundsdóttir og Sveinn Þorgeirsson 12 ECTS eininga ritgerð til B.Sc. í íþróttafræði við Tækni- og verkfræðideild

2 Útdráttur Markmið með þessu verkefni var að bera saman námsárangur nemenda á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla saman við aðra nemendur á bóknámsbrautum skólans. Til þess að fá þær niðurstöður voru skoðaðar rannsóknir bæði íslenskar og erlendar og einnig voru fengin gögn úr Borgarholtsskóla, sem að býður meðal annars upp á nám til stúdentsprófs á afreksíþróttasviði fyrir nemendur. Alls fengust gögn um 53 nemendur sem innritaðir voru í nám árið 2015 á bóknámsbrautir skólans sem og afreksíþróttasvið. Gögnin innihéldu námsframvindu nemendanna á fjórum önnum eða tveimur skólaárum og þar var hægt að finna númer fyrir hvern nemanda, kyn, námsbraut, samanlagðar meðaleinkunnir nemenda úr öllum áföngum, mætingarhlutfall og fjölda lokinna eininga. Niðurstöður voru unnar í Microsoft Excel og tölfræði hugbúnaðinum SPSS. Helstu niðurstöður sem að fengust úr gögnunum voru þær að nemendur á afreksíþróttasviðinu voru að fá hærri meðaleinkunnir en aðrir nemendur á bóknámsbrautum, bæði skólaárin. Þegar að mætingarhlutfallið var skoðað kom í ljós að afreksíþróttasviðið var í öllum tilfellum að mæta betur heldur en aðrir nemendur á bóknámsbrautum. Munurinn á þessum hópum var samt sem áður ekki marktækur. Þessar niðurstöður voru í samræmi við aðrar rannsóknir sem skoðaðar voru í sambandi við nemendur á afreksíþróttasviðum og námsárangur þeirra og áhugavert væri að skoða stærri hóp nemenda afreksíþróttasviða í framtíðinni. 2

3 Formáli Verkefni þetta er 12 ECTS eininga ritgerð sem gildir til B.Sc. gráðu í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Ég kem úr mikilli íþróttafjölskyldu, en afi minn var þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mamma var í íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu, pabbi minn spilaði knattspyrnu til margra ára og amma mín var fyrsta konan í Evrópu sem sat í stjórn knattspyrnusambands. Ég sjálf æfði knattspyrnu í 8 ár þegar að ég var yngri og hef mikinn áhuga á alhliða hreyfingu og íþróttum. Ég vil þakka móður minni Ástu Maríu Reynisdóttur fyrir alla hjálpina og þolinmæðina í gegnum þetta ferli en ég hefði ekki getað klárað þetta án hennar. Ég vil þakka samnemendum mínum fyrir það að gera þessi skrif bærileg. Ég vil þakka Borgarholtsskóla fyrir að veita mér þau gögn sem ég notaði í ritgerðina. Þá vil ég þakka leiðbeinendum mínum þeim Margréti Lilju Guðmundsdóttur og Sveini Þorgeirssyni fyrir alla aðstoðina og fyrir að hvetja mig áfram í ritgerðarsmíðinni. 3

4 Efnisyfirlit Útdráttur... 2 Formáli... 3 Inngangur... 6 Áhrif hreyfingar á nám og námsárangur... 9 Afreksefni í íþróttum Afreksíþróttabrautir Framhaldsskólar með afreksíþróttabrautir Afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla Afreksíþróttastarf í grunnskólum Afreksíþróttir og skólar í öðrum löndum Aðferð og gögn Þátttakendur Rannsóknaraðferð Framkvæmd Úrvinnsla Niðurstöður Umræða Heimildaskrá

5 Töfluyfirlit Tafla 1. Nemendafjöldi eftir kyni á hverri önn fyrir sig á fjórum önnum Tafla 2. Lýsandi tölfræði fyrir mætingu nemenda á mismunandi námsbrautum í prósentum Tafla 3. Lýsandi tölfræði fyrir mætingu afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á fjórum önnum í prósentum Tafla 4. Meðaleinkunnir nemenda á mismunandi námsbrautum á fjórum önnum Tafla 5. Meðaleinkunnir nemenda á mismunandi námsbrautum á tveimur árum. 25 Tafla 6. Meðaleinkunnir afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á fjórum önnum. 25 Tafla 7. Meðaleinkunnir afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á tveimur árum

6 Inngangur Viðfangsefnið sem tekið verður fyrir í þessari ritgerð fjallar um tengsl íþróttaiðkunar og námsárangurs. Skoðað verður hvort að þeir framhaldsskólanemendur sem stunda afreksíþróttir séu almennt betri námsmenn en þeir nemendur sem ekki stunda reglulega íþróttir. Til stuðnings verður notast við gögn frá Borgarholtsskóla um nemendur, einkunnir þeirra, mætingu og fleira, en ekki verður hægt að rekja niðurstöður til einstakra nemenda. Jafnframt verða aðrar rannsóknir um svipað efni skoðaðar. Borgarholtsskóli býður upp á þrjár námsbrautir til stúdentsprófs og þær eru félags- og hugvísindabraut (FHU), náttúrufræðibraut (NÁF) og viðskipta- og hagfræðibraut (VHF). Einnig býður Borgarholtsskóli upp á afreksíþróttasvið fyrir nemendur sem hafa áhuga á því að stunda íþróttir sínar samhliða bóknámi (Borgarholtsskóli, 2016). Í ritgerðinni verður einblínt á skipulagt íþróttastarf, þarf sem nemendurnir æfa með íþróttafélögum. Ástæðan fyrir vali þessa viðfangsefnis er sú að ég tel hreyfingu og íþróttaiðkun mikilvæga fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks og það væri mikilvægt að geta sýnt fram á það að íþróttaiðkun hafi jákvæð áhrif á námsárangur nemenda. Því gæti það verið hvetjandi fyrir ungt fólk að sjá þessar niðurstöður vegna þess að rannsóknir benda til þess að brotthvarf úr íþróttum á Íslandi hefst oft við ára aldur og hlutfallið eykst til 18 ára aldurs (Hrefna Pálsdóttir o.fl., 2014). Skoðað verður hvort að allur þessi tími sem að nemendur eyða í íþróttir sínar hafi jákvæð áhrif á bóklegt nám þeirra, eða neikvæð. Farið verður yfir fræðilegan bakgrunn umfjöllunarefnisins þar sem rannsóknir, bæði íslenskar og erlendar, eru skoðaðar. Einnig verður fjallað um allar þær afreksíþróttabrautir sem eru í boði hér á landi í framhaldsskólum sem og svipað nám á Norðurlöndunum. Sett verður fram rannsóknarspurning og aðferð verður skilgreind. Niðurstöður verða svo settar fram með töflum og ræddar í samanburði við fyrrum rannsóknir. 6

7 Heilsa og hreyfing Það er óumdeilt að öll hreyfing og líkamleg áreynsla stuðlar að bæði góðri líkamlegri og andlegri líðan einstaklings. Það þykir sannað að hreyfing geti komið í veg fyrir eða verið stór þáttur í meðferð gegn þunglyndi, kvíða og almennu stressi. Regluleg hreyfing hefur sýnt fram á betra sjálfsálit og sjálfsímynd fólks og jafnvel hin minnsta hreyfing getuaxr haft góð áhrif á skap einstaklings og svefn (K. R. Fox, 1999). Hreyfing er ekki einungis góð fyrir líðan en einnig getur hún komið í veg fyrir ýmsa sjúkdóma, meðal annars sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, gigt, háan blóðþrýsting, geðræna sjúkdóma, ýmis krabbamein, offitu og stoðkerfisvandamál (World Health Organization, 2018). Við á Íslandi, búum í samfélagi sem er upplýst um að hreyfing sé mikilvæg öllum og aðgengi að íþróttum er gott og flest börn prófa eina og jafnvel fleiri íþróttagreinar strax á unga aldri. Í yfirliti yfir tölfræði um starfsemi Íþróttasambands Íslands frá árinu 2013 má sjá að við 10 ára aldur stunduðu 86,8% drengja í árganginum einhverja íþrótt innan ÍSÍ. Í sama árgangi stunduðu 77,7% stúlkna einhverja íþróttagrein (Kristín Lilja Friðriksdóttir, 2015). Sveitarfélögin styrkja yfirleitt frístundastarf barna og hjá Reykjavíkurborg er styrkurinn kr. á ári. Upphæðin getur svo verið mismunandi eftir sveitarfélögum. Markmiðið með þessum styrk er að gera börnum og unglingum kleift, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum, að taka þátt í frístundastarfi (Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar, e.d.). Mikið er um brotthvarf úr íþróttum á unglingsárunum og eins og nefnt var í inngangi voru gerðar rannsóknir á börnum frá 10 ára aldri upp í 18 ára þar sem brotthvarf úr íþróttum var skoðað. Í niðurstöðum þessara rannsókna kemur meðal annars fram að brotthvarf úr íþróttum hefst oft í 8. bekk og eykst að 18 ára aldri. Þrátt fyrir það er vísbending um að framhaldsskólanemendur séu fleiri að stunda íþróttir eða líkamsrækt heldur en áður, en stór hluti nemendanna hreyfir sig þó lítið sem ekkert (Hrefna Pálsdóttir o.fl., 2014). Einnig kom fram í rannsókn, eftir Viðar Halldórsson, að íþróttaiðkun nemenda nær hámarki í 7. bekk í grunnskóla, en þá eru um 80% nemenda sem stunda íþróttir með íþróttafélagi. Eftir 7. bekk fer hins vegar að draga úr þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi (Viðar Halldórsson, 2014). Samkvæmt rannsókninni, Ungt fólk 2006 þar sem skoðuð voru atriði eins og menntun, menning, tómstundir og íþróttaiðkun ungmenna á Íslandi í 9. og 10. bekk, 7

8 kemur fram að góð tengsl við foreldra stuðli að betri námsárangri ungmennanna og þau neyta síður vímuefna. Þá hefur jafningjahópurinn mikil áhrif á líf unglinga, meðal annars þátttöku þeirra í íþróttum. Stór hluti unglinga sem stunda skipulagðar íþróttir reglulega, eiga vin eða vinkonu sem stunda einnig íþróttir. Þar sem jafningjahópurinn er mikilvægur í lífi unglingsins þá eru meiri líkur á að hann hætti í íþróttum ef að vinirnir hætta (Álfgeir L. Kristjánsson, Inga D. Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, 2006). Þessi ár í framhaldsskóla geta orðið örlagarík varðandi framtíð unglingsins sem stefnir á að ljúka stúdentsprófi til þess að komast í háskóla. Þegar að unglingur hættir skipulögðu íþróttastarfi á þessum aldri er hætt við að kyrrseta verði meiri með slæmum afleiðingum. Jafnvel er þá meiri hætta á að hann hverfi brott frá námi, en brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er meira en á hinum Norðurlöndunum og kemur það fram í nýrri skýrslu frá Norðurlandaráði. Í skýrslunni kemur fram að brotthvarfstölur á Íslandi úr framhaldsskóla eru 19,8% sem er verulega hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum og hærra en meðaltölur í Evrópu (Grunfelder, Rispling og Norlén, 2018). Í skýrslu Menntamálastofnunar um verkefnið,,aðgerðir gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum má finna ástæður brotthvarfs úr framhaldsskólum. Helsta ástæða fyrir brotthvarfi framhaldskólanema haustið 2017 var vegna brota á mætingarreglum, en það voru 28% þeirra nemenda sem hættu þá og þar af voru 80 nemendur yngri en 18 ára. Þá voru um 100 nemendur sem hættu vegna þess að þeim fannst námið tilgangslaust og höfðu engan áhuga á því. Um 19% hættu vegna andlegra veikinda (Menntamálastofnun, 2018). Í sömu skýrslu og nefnd var hér fyrir ofan, frá Norðurlandaráði, kemur fram að niðurstöður nýjustu PISA könnunarinnar frá árinu 2015, í stærðfræði, náttúrufræði og lestri, sýndu að Ísland hafði ekki bætt sig síðan árið 2012 og skoraði lægst af öllum hinum Norðurlandaþjóðunum (Grunfelder o.fl., 2018). Mikilvægt er að nemendur í framhaldsskólum stundi íþróttir eða hreyfi sig reglulega og fram kemur í handbók um hreyfingu, gefin út af Lýðheilsustöð, að hreyfing nemenda hafi jákvæð áhrif á meðal annars einbeitingu og afköst, skil á heimavinnu, hegðun og þar af leiðandi verður minni truflun, veikindadögum fækkar og námsárangur verður yfir höfuð betri (Lýðheilsustöð, 2010). Þetta er jafnvel enn mikilvægara nú á tímum þar sem bent hefur verið á að líkamleg hreyfing hefur minnkað þó nokkuð eftir að internetið varð svona útbreitt og notkun 8

9 mikil. Þá hefur fæði ungs fólks orðið óhollara með skyndibitavæðingu nútímans (Hrefna Pálsdóttir o.fl., 2014). Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er talið æskilegt að börn og unglingar á aldrinum 5-17 ára hreyfi sig með mikilli ákefð í minnst 60 mínútur á dag. Fólk á aldrinum 18 ára og eldri ætti að hreyfa sig með meðal ákefð í minnst 150 mínútur á viku, eða með mikilli ákefð í 75 mínútur á viku (World Health Organization, 2018) Í samanburðarhæfum gögnum úr rannsóknunum Ungt fólk árið 1992, 1997, 2000 og 2006 á nemendum í 9. og 10. bekk í grunnskólum á Íslandi má sjá að aukning hefur orðið í æfingaákefð hjá þeim sem hafa stundað íþróttir áður og sjá má aukningu á þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi hér á landi. Þrátt fyrir þetta fjölgar þeim sem hreyfa sig lítið og yfir 50% unglinga á Íslandi eru ekki að ná lágmarksviðmiðum um hreyfingu þrátt fyrir þessa aukningu (Eiðsdóttir, Kristjánsson, Sigfúsdóttir og Allegrante, 2008). Áhrif hreyfingar á nám og námsárangur Það eru margar rannsóknir sem að sýna fram á að íþróttaiðkun og hreyfing hafi jákvæð áhrif á nám og námsárangur og því er áhugi á þessu málefni vaxandi hjá rannsakendum. Niðurstöður mismunandi rannsókna gefa vísbendingar um að íþróttaiðkun og almenn hreyfing stuðli að vitsmunalegum þroska barna og ungmenna. Þá stuðla íþróttir að betri einbeitingu, betra minni, góðri hegðun og góðum námsárangri í skóla. Einnig eru vísbendingar um að hreyfing hafi góð áhrif á heilsu einstaklings, sé góð fyrir þroska heilatauga, bæti viðbragðstíma og stuðli einnig að betri hæfileikum til að skipuleggja sig. Í einni rannsókninni var nemendum skipt í tvo hópa, annar hópurinn fékk auka íþróttatíma inn í stundatöflu sína en hinn hópurinn fékk aðeins hefðbundna íþróttakennslu. Ári síðar, eftir að hafa fengið auka íþróttatíma þá mældist meðaleinkunn þess hóps þó nokkuð hærri en hópsins sem fékk hefðbundna kennslu. Í annarri rannsókn sem gerð var í Ástralíu var það kannað hve margir íþróttatímar voru í stundatöflum nemenda í mismunandi skólum. Niðurstöður voru þær að þeir nemendur sem höfðu fleiri íþróttatíma í stundatöflu sinni voru ekki með lægri meðaleinkunnir í bóklegu fögunum en þeir sem höfðu meira af bóklegum tímum (Martin, 2010). 9

10 Gerð var rannsókn í University of Kansas sem sýndi fram á það að af þeim nemendum sem að stunduðu íþróttir í háskólanum voru 98% sem að útskrifuðust árin , en af þeim sem að stunduðu engar íþróttir voru 88% sem útskrifuðust. Einnig voru þeir nemendur sem stunduðu íþróttir að fá hærri einkunnir í stærðfræði og náttúrufræði, heldur en þeir sem stunduðu ekki íþróttir. Þá kom í ljós að það voru 15 sinnum meiri líkur á því að þeir nemendur sem stunduðu ekki íþróttir hyrfu brott frá námi, heldur en þeir sem að æfðu íþróttir. Árin féllu burt frá námi alls 1955 nemendur sem ekki æfðu íþróttir, en aðeins 126 nemendur sem að æfðu íþróttir (Lumpkin og Favor, 2012). Niðurstöður svipaðrar rannsóknar sem einnig var gerð í Kansas eru á þá leið að nemendur sem að stunda afreksíþróttir mælast með hærri einkunnir en þeir sem æfa ekki. Sama rannsókn sýndi það að þeir nemendur sem æfa skipulagðar íþróttir með náminu sínu eru líklegri til þess að vera eins kappsfullir í kennslustofunni og í keppni. Íþróttamenn hafa það að markmiði að vera bestir í sinni íþrótt og sigra. Þeir eru því líklegri til þess að vera tilbúnir til að leggja meira á sig og hafa mikla þrautseigju (Heil, 2014). Það hefur einnig komið fram í rannsóknum að íþróttamenn eða nemendur sem stunda íþróttir með skóla eru líklegri til þess að fá hærri einkunnir en aðrir nemendur. Einnig eru þeir líklegri til þess að fá betri vinnu og hærri laun eftir skólagöngu, heldur en þeir nemendur sem stunduðu engar íþróttir með skóla (Brand, 2011; Trudeau og Shephard, 2008). Það geta verið margar ástæður fyrir því hvers vegna nemendum sem stunda íþróttir gengur betur í námi en þeim nemendum sem stunda ekki íþróttir. Sem dæmi má taka að þeir nemendur sem stunda íþróttir hafa lært sjálfsaga og hvernig á að skipuleggja tímann sinn og það geta þeir notfært sér í náminu. Einnig eru þeir með kennara og þjálfara sem að geta haft áhrif og hvatt þá. Ef að nemendur mæta ekki og standa sig ekki vel þá fá þeir ekki að vera lengur í skólaliðinu, eða á afreksbrautinni, og því taka þeir skólanum með meiri alvöru og leggja meira á sig (Lumpkin og Favor, 2012). Margt áhugavert hefur komið fram í niðurstöðum rannsóknanna Ungt fólk sem gerðar eru af Rannsóknum & greiningu. Árið 2013 var gerð könnun á menntun, menningu, tómstundum, íþróttaiðkun, heilsuhegðun og heilsuvísum, líðan og framtíðarsýn ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. Niðurstöður þessarar könnunar sýndu meðal annars að þeir sem stunda íþróttir eru líklegri til þess að lifa 10

11 heilbrigðara lífi, þeim líður betur andlega en þeim sem æfa ekki íþróttir og þeir eru ólíklegri til þess að neyta vímuefna (Hrefna Pálsdóttir o.fl., 2014). Gerðar voru rannsóknir í nokkrum mismunandi löndum í sambandi við annars vegar skólaíþróttir og námsárangur og hins vegar skipulagt íþróttastarf með félagi og námsárangur. Fyrri rannsóknirnar sem voru skoðaðar eru svokallaðar quasi-tilraunir en það er þegar að rannsóknarhópar eru fyrir fram ákveðnir en ekki valdir af handahófi (Iowa State University, 2018). Skoðaðar voru sex mismunandi quasi-tilraunir og niðurstöður þeirra allra benda til þess að með fleiri íþróttatímum í skólum hækkar meðaleinkunn nemenda (Trudeau og Shephard, 2008). Seinni rannsóknin sem var skoðuð sýndi fram á það að hjá stúlkum virðast bæði vera tengsl á milli skólaíþrótta og góðs námsárangurs og skipulagðs íþróttastarfs og góðs námsárangurs. Hjá drengjum skiptir meira máli að vera í skipulögðu íþróttastarfi, þar sem það virtist hafa góð áhrif á námsárangur þeirra, en ekki skólaíþróttirnar (C. K. Fox, Barr-Anderson, Neumark-Sztainer og Wall, 2010). Í Bandaríkjunum var gerð rannsókn á því hve hátt hlutfall nemenda í íþróttum útskrifast úr framhaldsskóla miðað við aðra nemendur. Nemendur úr 252 skólum tóku þátt í rannsókninni og niðurstöður urðu þær að útskriftahlutfall þeirra nemenda sem stunda íþróttir er hærra en þeirra nemenda sem að ekki stunda íþróttir. Munurinn var meiri hjá stúlkum, en 10% fleiri stúlkur sem stunda íþróttir útskrifuðust heldur en þær sem ekki stunda íþróttir. Útskriftarhlutfall drengja í íþróttum var 1% hærra heldur en þeirra sem ekki stunda íþróttir (Rishe, 2003). Troutman og Dufur, félagsfræðingar frá Brigham Young háskóla í Bandaríkjunum, gerðu svipaða rannsókn þar sem þeir könnuðu hvort að stúlkur sem að stunduðu íþróttir í framhaldsskóla væru líklegri til að ljúka háskólagráðu en þær stúlkur sem stunduðu ekki íþróttir í framhaldsskóla. Niðurstöðurnar voru þær að útskriftarhlutfall úr háskóla var hærra hjá þeim stúlkum sem stunduðu íþróttir í framhaldsskóla (Troutman og Dufur, 2007). Þjóðverjar komu á samstarfi milli skóla og íþróttafélaga sem þeir kalla,,verbund system til þess að stuðla að því að nemendur í íþróttum næðu árangri á báðum sviðum. Með þessari samvinnu varð auðveldara að samtvinna skóla og íþróttir sem best mætti vera fyrir nemandann (Borggrefe og Cachay, 2012). Í Þýskalandi höfðu kennarar vaxandi áhyggjur af því að nemendur hefðu minni einbeitingu og athygli í tímum en áður fyrr. Því var ráðist í það að gera könnun á því hvort að líkamleg áreynsla hefði góð áhrif á einbeitingu unglinga í skóla. 11

12 Nemendur á aldrinum ára tóku þátt í könnuninni og tóku þeir svokallað,,d2/test sem er próf til þess að skoða athygli og einbeitingu. Prófið var tekið þrisvar sinnum, í fyrsta skipti eftir bóklegan skólatíma, í annað skiptið eftir 10 mínútna líkamlega áreynslu og í þriðja skiptið eftir heilan íþróttatíma í skólanum. Niðurstöðurnar voru þær að einbeiting og athygli nemenda mældist betri í prófunum eftir bæði 10 mínútna líkamlega áreynslu og íþróttatíma. Þessar niðurstöður studdu það að það ætti að setja hlé inn í skóladag nemenda þar sem þau væru látin gera skipulagðar æfingar (Budde, Voelcker-Rehage, Pietrabyk- Kendziorra, Ribeiro og Tidow, 2008). Gerð var rannsókn á fylgni á milli íþróttaiðkunar og sjálfsálits á 382 nemendum í bekk í Kanada. Þau voru tekin í líkamlegar mælingar og svo var lagður fyrir þau spurningalisti sem innihélt spurningar tengdar sjálfsáliti og sjálfsímynd þeirra. Einnig svöruðu þau spurningum um fjölda íþrótta sem þau höfðu stundað og fjölda ára sem þau höfðu verið að æfa. Niðurstöður leiddu í ljós að því fleiri íþróttir og því lengur sem þau höfðu æft, því jákvæðara var viðhorf þeirra á sitt eigið útlit, líkamlega hæfni og bæði líkamlegt og huglægt sjálfsálit. Sterkasta sambandið var á milli íþróttaiðkunar og líkamlegrar hæfni. Það sýnir okkur að einstaklingur sem æfir íþróttir hefur ekki bara betra sjálfsálit, heldur trúir hann einnig meira á sjálfan sig, að hann geti gert hluti sem aðrir trúa ekki að þeir geti gert (Bowker, 2006). Rannsóknir hafa sýnt að íþróttakennsla hefur þau áhrif á nemendur að þau læra að bera virðingu bæði fyrir sínum eigin líkama og annarra og aukning er á sjálfsáliti og sjálfsímynd og hjálpar við félagslega þætti og námsárangur (Bailey, 2006). Í framhaldsskóla í Þýskalandi var gerð rannsókn á nemendum á aldrinum ára þar sem skoðað var hvort að þátttaka þeirra í íþróttum hefði áhrif á sjálfsímynd, líkamlega og andlega heilsu og lífsstíl. Rannsóknin var gerð til þess að meta meðal annars kvíða, þunglyndi og áfengis- og fíkniefnanotkun. Niðurstöður sýndu greinilega að með þátttöku þeirra í íþróttum höfðu þau betri sjálfsímynd, þau voru ólíklegri til að ánetjast áfengi og fíkniefnum og kvíði mældist ekki eins mikill eins og hjá þeim sem hreyfðu sig minna (Kirkcaldy, Shephard og Siefen, 2002). Í efsta bekk framhaldsskóla í Bandaríkjunum var gerð rannsókn á áhrifum íþrótta á mannleg samskipti unglinga og námsárangur sem sýndi það að nemendur sem að stunda íþróttir af mikilli ákefð voru í betra sambandi við foreldra sína en þeir sem 12

13 stunduðu minni hreyfingu. Eins og kom fram í niðurstöðum úr fyrri rannsókn voru þau ekki eins kvíðin, notuðu síður áfengi og fíkniefni og voru með hærri einkunnir að meðaltali en nemendur sem hreyfðu sig lítið (Field, Miguel og Sanders, 2001). Í rannsókn um íþróttaþátttöku íslenskra unglinga kemur fram að þegar unglingar búa á heimili þar sem báðir foreldrar eru til staðar eru þeir líklegri til þess að stunda íþróttir og fá frekar hvatningu heiman frá sér til þess að æfa íþróttir. Ekki reyndist vera marktækur munur á íþróttaiðkun ungmenna eftir menntun eða efnahag foreldra, sem er annað en erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á (Viðar Halldórsson, 2014). Afreksefni í íþróttum,,afreksmaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþrótta-, keppnis-, list- eða starfsgreinar eða sá sem hefur verið valinn til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót, Ólympíuleika eða önnur sambærileg mót í sinni grein (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls 59). Fjöldi rannsókna hefur verið skoðaður og hvernig þær skilgreina afreksíþróttafólk. Flestar þeirra skilgreina afreksíþróttamann þann einstakling sem hefur verið valinn í landslið, þann sem hefur áralanga reynslu af íþrótt sinni, þann sem er atvinnumaður og í sumum rannsóknanna er skilgreiningin á þann veg að sá sem æfir að minnsta kosti fimm sinnum í viku geti talist afreksíþróttamaður (Swann, Moran og Piggott, 2015) Í afreksstefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kemur fram að sá er afreksmaður sem nær árangri í sinni íþrótt á heimsmælikvarða. Hvert sérsamband setur sér afreksstefnu í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (Íþróttaog Ólympíusamband Íslands, 2017). Meðal annars kemur fram í afreksstefnu Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) að sá er afreksíþróttamaður sem keppir með landsliðum á vegum HSÍ í mótum á vegum evrópska handknattleikssambandsins og alþjóðlega handknattleikssambandsins (Handknattleikssamband Íslands, 2017). Afreksíþróttir eru skilgreindar sem íþróttir sem einstaklingur eða hópar stunda með markmið um hámarksárangur (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2009). Íþróttasamband Íslands hefur það meðal annars að markmiði að stuðla að því að afreksíþróttafólk hafi tök á að stunda nám sitt samhliða því að ná árangri í íþróttum. 13

14 Þær leiðir sem sambandið hyggst nota er til dæmis að ná samningum við Lánasjóð íslenskra námsmanna um meiri sveigjanleika fyrir íþróttamennina, stuðla að góðu aðgengi íþróttafólksins til fjarnáms, að fá skóla til að hliðra til með mætingu afreksíþróttafólks og almennt styðja við þróun afreksíþróttabrauta í framhaldsskólum. Með þessu vonast íþróttasambandið til þess að afreksíþróttafólki verði gert kleift að stunda nám sitt samhliða íþróttaiðkun (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, 2017). Skoðað var hvaða eiginleika þarf til þess að íþróttamaður verði að afreksíþróttamanni. Þátttakendur rannsóknarinnar komust að þeirri niðurstöðu að tólf eiginleikar væru nauðsynlegir afreksíþróttamönnum og þeir eru: að hafa fulla trú á því að þú náir markmiðum þínum, hafa fulla trú á því að þú sért betri en andstæðingurinn, að þú hafir mikla löngun og vilja til að ná árangri, að þú komir sterkur til baka eftir mótlæti, að hafa mikið keppnisskap, að kunna að takast á við frammistöðukvíða, að láta ekki frammistöðu andstæðingsins hafa áhrif á þig, að halda fókus í íþróttinni þrátt fyrir erfiðleika í einkalífi, að geta komið sér í og úr keppnisgír auðveldlega, að halda einbeitingu í keppni þrátt fyrir truflanir, að reyna að gleyma líkamlegum og andlegum sársauka í keppni og endurheimta einbeitingu í keppni eftir óvænta hindrun í keppni eða á æfingum (Jones, 2002). Afreksíþróttabrautir Framhaldsskólar hafa á undanförnum árum farið að bjóða upp á námsbrautir sem höfða til íþróttafólks. Þá geta nemendur nýtt sér íþróttaiðkun sína og fengið hana metna til eininga í námi sínu til stúdentsprófs. Áður gat verið erfitt fyrir afreksíþróttafólk, jafnvel landsliðsmenn, að stunda námið samhliða íþróttaiðkun og mikilli fjarveru frá náminu. Núna bjóða margir skólar upp á brautir svo sem íþróttaakademíur eða afreksíþróttabrautir og þar er jafnvel samvinna skóla og íþróttafélags. Fram kemur í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um afrekssvið í framhaldsskólum:,,tilgangur afreksíþróttasviða er sá að gera ungu afreksfólki kleift að leggja stund á íþrótt sína við sem hagstæðust skilyrði ásamt því að tryggja íþróttafólkinu menntun á viðkomandi námsbraut. (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2009). 14

15 Framhaldsskólar fóru fyrst að bjóða upp á nám á afreksíþróttasviðum sem ljúka með stúdentsprófi árið 2005 og hafa þær brautir þróast og fjölgað síðan þá, en nú eru sex framhaldsskólar sem bjóða upp á slíkt nám. Jafnframt bjóða átta framhaldsskólar upp á nám til stúdentsprófs á íþrótta- og íþróttafræðibrautum (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2009). Á afreksíþróttabrautum er reynt að koma til móts við íþróttafólkið og námið er sett þannig upp að þau geta stundað íþróttirnar sínar á skólatíma, fléttaðar inn í námsbrautir sem þegar eru í boði. Íþróttaakademía er fræðsla og þjálfun afreksíþrótta sem er oft samstarf framhaldsskóla og íþróttafélaga þar sem nemendur fá þátttöku metna sem námseiningar eftir samkomulagi (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2009). Skólagjöld á afreksíþróttabrautum eru hærri en á öðrum námsbrautum skóla, þar sem nemendum er útvegaður fatnaður og fleira. Það eru ýmsar kröfur settar á nemendur sem stunda nám við afreksíþróttabraut, til dæmis þurfa nemendur að vera vímuefnalausir og mætingarskylda er strangari á afreksíþróttabraut en á öðrum brautum skólans. Með lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008 fengu framhaldsskólar meira frelsi til þess að semja námsbrautir en áður. Eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið ákvað að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár úr fjórum, verða allir framhaldsskólar að semja nýjar námsbrautalýsingar og því eru tækifæri fyrir skólana að stofna nýjar íþróttabrautir (Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008). Framhaldsskólar með afreksíþróttabrautir Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi býður upp á afreksíþróttasvið. Þær íþróttagreinar sem eru í boði fyrir nemendur þar eru badmínton, golf, keila, klifur, knattspyrna, körfuknattleikur og sund. Samhliða æfingum með íþróttafélagi fara nemendur í íþróttatíma í skólanum tvisvar sinnum í viku og að auki er þrekþjálfun og fræðsla um íþróttir. Nemendur velja sér bóknámsbraut við skólann en fá metnar fimm feiningar, eða framhaldsskóla einingar, fyrir þátttöku á afreksíþróttasviði og koma þær einingar í stað íþróttatíma í skólanum. Síðan nýta þau valið á brautinni fyrir íþróttirnar sem þau stunda. Brautin er samtals 200 einingar til stúdentsprófs. Nemendur mega ekki neyta vímuefna og mætingarskylda er að minnsta kosti 95% (Fjölbrautaskóli Vesturlands, e.d.). 15

16 Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi, FSu, býður upp á íþróttaakademíur í fimleikum, frjálsum íþróttum, handknattleik, knattspyrnu og körfuknattleik. Þá er skólinn með námsbraut í hestamennsku. Fyrsta akademían við FSu var stofnuð árið 2005 og var það í körfuknattleik og ári síðar hófust handknattleiks- og knattspyrnuakademíur í skólanum. Árið 2008 tók svo til starfa fimleikaakademía og 2015 hófst akademía fyrir frjálsar íþróttir. Í skólanum var stofnað íþróttafélag FSu með nemendum körfuknattleiksakademíunnar og hefur liðið spilað í efstu deildum Íslandsmótsins, þar af þrjú ár í úrvalsdeildinni (Fjölbrautaskóli Suðurlands, e.d.). Námsbrautin kallast íþróttalína og kjarninn er 101 eining, séráfangar á íþróttalínu eru 48 einingar og frjálst val eru 51 eining Við Flensborgarskólann í Hafnarfirði er afreksíþróttasvið í boði fyrir nemendur. Brautin er starfrækt í samstarfi við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar og þarf nemandi samþykki íþróttafélags síns til inngöngu á afreksíþróttasvið. Í boði eru margar íþróttagreinar og afreksíþróttasviðið getur tengst öllum öðrum námsbrautum skólans. Á hverri önn tekur nemandi tveggja eininga afreksáfanga ásamt æfingum og líkamsstyrkþjálfun og einnig taka nemendur tvo íþróttafræðiáfanga þar sem farið er meðal annars í næringarfræði, íþróttasálfræði, þjálffræði, skyndihjálp, markmiðasetningu og meðhöndlun íþróttameiðsla (Flensborg, e.d.). Við Verkmenntaskóla Austurlands er í boði íþróttaakademía fyrir íþróttagreinarnar knattspyrnu, blak og einstaklingsíþróttir. Miklar kröfur eru gerðar við inntöku nemenda á brautina til dæmis þurfa nemendur að mæta á æfingar með sínu félagsliði 4-6 sinnum í viku og hafa að minnsta kosti 95% skólasókn í öllum námsgreinum og á æfingum (Verkmenntaskóli Austurlands, e.d.) Fjölbrautaskóli Norðurlands Vestra og UMF Tindastóll standa fyrir íþróttaakademíu í körfuknattleik og knattspyrnu. Nemendur sem velja sér íþróttaakademíu læra samhliða bóknámi og er boðið upp á fjórar einingar á önn í körfuknattleik og knattspyrnu (Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, e.d.). Borgarholtsskóli býður upp á afreksíþróttasvið og fjallað verður um sviðið í næsta kafla. Þá bjóða Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn í Borgarnesi upp á almennar íþróttabrautir til stúdentsprófs (Fjölbrautaskóli Suðurnesja, e.d.; Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, e.d.; 16

17 Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, e.d.; Fjölbrautaskólinn við Ármúla, e.d.; Framhaldsskólinn á Laugum, e.d.; Menntaskóli Borgarfjarðar, e.d.; Menntaskólinn á Tröllaskaga, e.d.; Verkmenntaskólinn á Akureyri, e.d.). Afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla Afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla var stofnað árið 2008 og eru nú tæplega 150 nemendur sem stunda nám á því sviði (Borgarholtsskóli, 2016). Til þess að komast inn á afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla þarf að hafa lokið grunnskólaprófi og einnig þarf nemandi að stunda íþrótt með félagsliði eða einstaklingsíþrótt sem að flokkast undir einstaklingsíþrótt Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Þær íþróttir sem eru í boði fyrir nemendur eru allar íþróttir innan ÍSÍ, en sérstakar tækniæfingar fá knattspyrna, handknattleikur, körfuknattleikur, golf, borðtennis, fimleikar og íshokkí. Kröfur til nemenda eru meðal annars þær að nemandi þurfi að hafa verið búinn að æfa íþrótt sína í nokkur ár og vera virkur í íþróttastarfinu. Þá þurfa nemendur að vera vímuefnalausir og tilbúnir að tileinka sér lífsstíl og hugarfar afreksíþrótta. Á afreksíþróttasviðinu geta nemendur valið sér eina af þremur námsleiðum sem Borgarholtsskóli býður upp á, en þær eru félags- og hugvísindasvið, náttúrufræðisvið og viðskipta- og hagfræðisvið. Námið er blanda af bóknámi sem að byggir á hefðbundinni bóknámskennslu og námi í verklegum þáttum afreksíþróttamennsku. Nemandinn lýkur öllum áföngum á þeirri bóknámsbraut sem hann velur sér, fyrir utan 14 einingar af kjörsviði sem eru nýttar í viðkomandi íþróttagrein (Borgarholtsskóli, 2018). Námið er skipulagt sem sex anna nám, eða þrjú ár og til þess að ljúka námi á réttum tíma þurfa nemendur að ljúka 204 einingum. Grunnáfangar eru 119 einingar, brautarkjarni eru 35 einingar, afreksíþróttaáfangar eru 30 einingar og valáfangar 20 einingar. Í gömlu áætluninni fengu nemendur nokkrar einingar metnar vegna æfinga fyrir utan skólatíma en í dag mæta þau í tíma fyrir allar einingar (Borgarholtsskóli, 2017). Eins og segir í námsbrautarlýsingu afreksíþróttasviðs/bóknáms Borgarholtsskóla skal nemandi meðal annars hafa hæfni til að: 17

18 Stunda íþrótt sína með álagi afreksmanns og vera fyrirmynd annarra innan vallar sem utan. Auka styrk, tækni og hraða eftir því sem á við í þeirri íþróttagrein sem hann stundar. Þekkja einkenni álags og þreytu og aðferðir við að sporna afleiðingum þeirra. Meta eigin þjálfun með tilliti til ólíkra þátta s.s. álags, ákefðar, magns, hvíldar, næringar, hugarfars og jákvæðra lífsvenja. Þjálfa upp hugarfarslega og líkamlega færni til bætts árangurs í íþróttum (Borgarholtsskóli, 2017, bls 1). Afreksíþróttastarf í grunnskólum Afreksskóli Hauka er fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólum í Hafnarfirði. Tilgangur skólans er að kynna nemendum afreksþjálfun og hvernig þeir geta náð hámarksárangri í sinni íþrótt. Aðalmarkmið skólans er að nemendur læri hvaða hugarfar og viðhorf þarf til þess að ná betri árangri í bæði íþróttum og námi. Gerðar eru kröfur til nemenda en þeir þurfa að vera vímuefnalausir, þeir þurfa að vera tilbúnir að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og þeir þurfa að forgangsraða og sinna grunnskólanámi sínu. Námið er bæði verklegt og bóklegt, en með bóklegum áföngum eru nemendur í verklegum tímum þar sem þau fá sérstaka þjálfun í sinni íþrótt sem að nýtist þeim sem valfag í grunnskóla ( Afreksskóli Hauka - Námskrá, 2016). Íþróttaakademía Fjölnis (ÍAF) er samstarf grunnskóla í Grafarvogi og Ungmennafélagsins Fjölnis. Námið er í boði fyrir grunnskólanemendur í 9. og 10. bekk sem æfa íþróttir með Fjölni. Þetta nám er ætlað unglingum sem hafa mikinn metnað í sinni íþróttaiðkun og geta þeir valið ÍAF sem valgrein í námi sínu í grunnskóla. Auk tækniþjálfunar í íþróttagrein læra nemendur meðal annars þjálffræði, íþróttasálfræði og næringarfræði (Ungmennafélagið Fjölnir, e.d.). Afreksíþróttir og skólar í öðrum löndum Norðurlöndin fóru fyrr af stað en Ísland að huga að bættu námsumhverfi fyrir afreksíþróttafólk sitt, en í Noregi hefur starfað frá árinu 1907, WANG videregående skole, sem er framhaldsskóli og býður hann upp á 26 mismunandi íþróttagreinar fyrir nemendur. WANG skólarnir eru staðsettir í fimm bæjum í Noregi og þá reka þeir einnig tvo grunnskóla með sama sniði. Þeir leggja mikið upp úr því að hafa vel menntaða og reynda þjálfara við störf í skólunum ( WANG, e.d.). Í harðri samkeppni við WANG er Norges Toppidrettsgymnas, sem stofnaður var árið 1981 og er framhaldsskóli eingöngu fyrir afreksíþróttafólk. Skólinn er leiðandi 18

19 í því að samtvinna afreksíþróttir og framhaldsskólanám og er starfræktur í nokkrum borgum í Noregi. Nemandinn fær einstaklingsmiðaða kennslu og æfingar undir handleiðslu vel menntaðra kennara og þjálfara. Skólaárið er undirbúið með æfingar og keppni íþróttamanna ofarlega í huga og þróað hefur verið kerfi fyrir afreksíþróttafólk til að gera þeim kleift að ná hámarks árangri bæði í námi og íþróttum. Nemendur skólans hafa unnið meðal annars 844 verðlaun á heimsbikarmótum og 54 verðlaun á Ólympíuleikum. Sem dæmi um fyrri nemendur skólans er Magnus Carlsen sem er heimsmeistari í skák, Tiril Eckhoff skíðagöngukona, Ólympíumeistari og heimsmeistari og Ole Einar Bjørndalen sem er einn besti skíðagöngumaður Noregs fyrr og síðar (Norges Toppidrettsgymnas, e.d.). Í Noregi er einnig námsframboð fyrir tilvonandi afreksíþróttafólk á grunnskólastigi. Nemendum ára býðst skólavist í Telemark Toppidrett Ungdomsskole þar sem íþróttir, bóklegt nám og frístundir eru samtvinnuð. Norðmenn telja að á þessum aldri sé þegar orðið mikilvægt að huga að því að gera afreksíþróttaunglingnum kleift að stunda nám sitt samhliða mikilli íþróttaiðkun (Telemark Toppidrett Ungdomsskole, e.d.). Team Denmark eru samtök í Danmörku sem í samvinnu við íþróttasambönd og skóla í landinu og vinna að því að gera afreksíþróttamönnum kleift að stunda nám sitt (Team Danmark, e.d.). Í Svíþjóð er starfandi framhaldsskólinn, Jämtlands Gymnasium, og þar er boðið upp á afreksíþróttabraut. Á brautinni getur nemandi sérhæft sig í körfuknattleik, krullu, knattspyrnu, frjálsum íþróttum, fimleikum, íshokkí, skíðaíþróttum, skylmingum og listskautum. Skólinn er í nánu samstarfi við íþróttasérsambönd og í skólanum eru starfandi mjög hæfir þjálfarar og allt er miðað að því að nemendurnir verði afreksmenn. Hver og einn nemandi fær einstaklingsmiðað þjálfunarplan sem er fléttað inn í stundarskrá nemandans (Jämtlands Gymnasium, e.d.). Rannsóknarspurningin er tvíþætt. Eru nemendur afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla með hærri einkunnir en aðrir nemendur í bóknámi? Hvernig hefur einkunn nemenda þróast á fyrstu fjórum önnum skólagöngunnar? Er nemendur afreksíþróttasviðs með betri mætingu en aðrir nemendur í bóknámi? Hvernig hefur mæting nemenda þróast á fyrstu fjórum önnum skólagöngunnar? 19

20 Aðferð og gögn Í þessum kafla verður fjallað um þá rannsóknaraðferð sem notast var við í ritgerðinni, þátttakendur, framkvæmd og tölfræðilega úrvinnslu gagna. Þátttakendur Þátttakendur rannsóknarinnar eru nemendur fæddir árið 1999 sem stunduðu nám við Borgarholtsskóla skólaárin og Nemendurnir eru á öllum stúdentsbrautum skólans, sem eru félags- og hugvísindabraut (FHU), náttúrufræðibraut (NÁF), viðskipta- og hagfræðibraut (VHF) og afreksíþróttasvið (A). Alls fengust upplýsingar um 53 nemendur sem luku fjórum önnum og þar af voru 45 drengir og 8 stúlkur. Af þessum 53 nemendum eru samtals 16 nemendur af afreksíþróttasviðinu, 14 drengir og 2 stúlkur. Tafla 1. Nemendafjöldi eftir kyni á hverri önn fyrir sig á fjórum önnum Fjöldi nemenda eftir önnum og kynferði Námsbraut H.15 kk / kvk (n) V.16 kk / kvk (n) H.16 kk / kvk (n) V.17 kk / kvk (n) FHU 10 / 1 (11) 10 / 1 (11) 10 / 1 (11) 10 / 1 (11) FHU(A) 2 / 0 (2) 2 / 0 (2) 2 / 0 (2) 2 / 0 (2) NÁF 11 / 5 (16) 11 / 5 (16) 11 / 5 (16) 11 / 5 (16) NÁF(A) 8 / 2 (10) 8 / 2 (10) 8 / 2 (10) 8 / 2 (10) VHF 10 / 0 (10) 10 / 0 (10) 10 / 0 (10) 10 / 0 (10) VHF(A) 4 / 0 (4) 4 / 0 (4) 4 / 0 (4) 4 / 0 (4) Samtals Rannsóknaraðferð Rannsóknaraðferðin sem notuð var í þessari ritgerð er megindleg rannsóknaraðferð þar sem unnið var með fyrirliggjandi gögn sem fengin voru frá Borgarholtsskóla. Framkvæmd Nemandi fékk gögn afhend frá starfsmanni Borgarholtsskóla í Microsoft Excel skjali. Í því skjali komu fram upplýsingar um þá nemendur sem voru innritaðir á bóknámsbrautir í skólann árið Gögnin innihéldu númer fyrir hvern nemenda, kyn, samanlagðar meðaleinkunnir úr öllum áföngum eftir hverja önn, mætingarhlutfall eftir hverja önn, fjölda lokinna eininga og námsbrautir. Inni í mætingarhlutfallinu sem skoðað verður, var búið að taka tillit til veikinda og annarra fjarvista nemenda og því unnið með loka mætingarhlutfall eftir hverja önn. 20

21 Úrvinnsla Fjórar annir voru skoðaðar, frá því að nemendur voru innritaðir í skólann haustönnina 2015 til vorannar Úrvinnsla gagna var unnin í tölfræði forritinu IBM SPSS Statistics 24 og notast var við lýsandi tölfræði þar sem skoðuð var mætingarhlutfall og meðaleinkunn á milli ára, námsbrauta, anna og kynja. Notast var við t-próf á tveimur hópum (e. Independent-Samples T Test) til að bera saman meðaltöl. Notast var við einhliða dreifigreiningu (e. One-Way ANOVA) til kanna hvort marktækur munur væri á milli hópa og Tukey eftirá próf notað. Þá varð Kí-kvaðrat notað til að kanna marktækan mun hlutfall. 21

22 Niðurstöður Í þessum kafla verður greint frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Niðurstöður sem snúa að mætingarhlutfalli og meðaleinkunnum nemenda úr öllum áföngum í Borgarholtsskóla. Tafla 2. Lýsandi tölfræði fyrir mætingu nemenda á mismunandi námsbrautum í prósentum Mæting (%) Námsbraut FHU(n=11) % FHU(A)(n=2) % NÁF(n=16) % NÁF(A)(n=10) % VHF(n=10) % VHF(A)(n=4) % Haustönn 2015(n=53) Vorönn 2016(n=53) Haustönn 2016(n=53) Vorönn 2017(n=53) Heild (n=53) 97,64 (2,1) 95,18 (4,8) 90,18 (9,6) 92,27 (6,7) 94,06 (5,4) 99 (0) 95,50 (4,9) 99 (0) 98 (2,8) 97,87 (1,9) 98,19 (2,9) 96,38 (5,2) 95,06 (5,3) 91,94 (8,7) 95,18 (4,7) 99,30 (0,9) 98,90 (1,9) 95,90 (4,2) 92,10 (7,0) 96,55 (3,0) 98,60 (1,4) 92,90 (6,7) 92,90 (6,9) 89,50 (6,6) 93,47 (4,6) 98,42 (2,0) 96 (2,4) 94,13 (2,2) 89 (8,1) 94,56 (2,8) Samtals % 98,52 95,81 94,53 92,13 Tafla 2 sýnir lýsandi tölfræði fyrir mætingu nemenda á FHU, FHU(A), NÁF, NÁF(A), VHF og VHF(A) á haustönn 2015, vorönn 2016, haustönn 2016 og vorönn Í töflu 2 má sjá að nemendur NÁF(A) voru með hlutfallslega bestu mætinguna á haustönn 2015 en hún var 99,30%. Þar á eftir voru nemendur FHU(A) með 99% mætingu. Á vorönn 2016 voru nemendur NÁF(A) með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 98,90% og þar á eftir voru nemendur NÁF með 96,38% mætingu. Á haustönn 2016 voru nemendur FHU(A) með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 99% og þar á eftir voru nemendur NÁF(A) með 95,90% mætingu. Á vorönn 2017 voru nemendur FHU(A) með hlutfallslega bestu 22

23 mætinguna og þar á eftir voru nemendur FHU með 92,27% mætingu. Þegar að heildarmæting er skoðuð á hverri braut fyrir sig voru það nemendur FHU(A) sem voru með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 97,87% og þar á eftir voru nemendur NÁF(A) með 96,55% mætingu. Tafla 3. Lýsandi tölfræði fyrir mætingu afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á fjórum önnum í prósentum Námsbraut Haustönn 2015(n=53) Mæting (%) Vorönn 2016(n=53) Haustönn 2016(n=53) Vorönn 2017(n=53) Heild (n=53) Afreksíþróttasvið 99,06 (0,9) 97,75 (2,7) 96 (3,6) 92,06 (7,1) 96,21 (2,9) (n=16) % Bóknám(n=37) % 98,08 (2,3) 94,94 (5,6) 93,22 (7,3) 91,22 (7,6) 94,36 (4,8) Samtals % 98,57 96,34 94,61 91,64 Tafla 3 sýnir lýsandi tölfræði fyrir mætingu nemenda á afreksíþróttasviði og bóknámsbrautum á haustönn 2015, vorönn 2016, haustönn 2016 og vorönn Í töflu 3 má sjá að á haustönn 2015 voru nemendur afreksíþróttasviðsins með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 99,06% en nemendur í bóknámi voru með 98,08% mætingu. Á vorönn 2016 voru nemendur afreksíþróttasviðsins með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 97,75% og nemendur í bóknámi voru með 94,94% mætingu. Á haustönn 2016 voru nemendur afreksíþróttasviðsins með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 96% en nemendur í bóknámi voru með 93,22% mætingu. Á vorönn 2017 voru nemendur afreksíþróttasviðsins með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 92,06% en nemendur í bóknámi voru með 91,22%. Þegar að heildarmæting er skoðuð hjá nemendum á afreksíþróttasviðinu og nemendum í bóknáminu eru nemendur afreksíþróttasviðsins með hlutfallslega bestu mætinguna en hún var 96,21% og nemendur í bóknámi voru með 94,36% mætingu. 23

24 Tafla 4. Meðaleinkunnir nemenda á mismunandi námsbrautum á fjórum önnum Meðaleinkunnir úr öllum áföngum Námsbraut Haustönn 2015(n=53) Vorönn 2016 (n=53) Haustönn 2016(n=53) Vorönn 2017(n=53) Heild (n=53) FHU (n=11) 7,17 (1,2) 6,3 (1,5) 6,09 (1,5) 6,2 (1,8) 6,44 (1,4) FHU(A) (n=2) 7,1 (0,2) 6,95 (1,3) 6,45 (0,2) 6,5 (0) 6,75 (0,4) NÁF (n=16) 8,11 (0,8) 7,51 (1,3) 7,19 (1,3) 6,59 (1,6) 7,35 (1,1) NÁF(A) (n=10) 7,9 (1,1) 7,61 (1,5) 6,94 (1,3) 6,64 (1,4) 7,27 (1,2) VHF (n=10) 6,83 (0,9) 5,46 (1,5) 5,42 (1,1) 4,89 (1,0) 5,65 (1,0) VHF(A) (n=4) 7,45 (1,0) 6,82 (1,2) 6,55 (1,4) 5,77 (1,3) 6,65 (1,2) Samtals 7,43 6,77 6,44 6,1 Á haustönn 2015 voru það nemendur NÁF sem voru með hæstu samanlögðu meðaleinkunnina, úr öllum áföngum á þeirri önn, en hún var 8,11. Næst voru það nemendur NÁF(A), en þar var 7,9 meðaleinkunn. Á vorönn 2016 voru það nemendur NÁF(A) sem voru með hæstu meðaleinkunnina, en hún var 7,61. Þar á eftir voru nemendur NÁF með 7,51 í meðaleinkunn. Á haustönn 2016 voru það nemendur NÁF sem voru með hæstu meðaleinkunnina en hún var 7,19 og þar á eftir voru nemendur NÁF(A) með 6,94 í meðaleinkunn. Á vorönn 2017 voru það nemendur NÁF(A) sem voru með hæstu meðaleinkunnina en hún var 6,64 og þar á eftir voru nemendur NÁF með 6,59 í meðaleinkunn. Meðaleinkunnir brautanna fara lækkandi en eftir haustönn 2015 var meðaleinkunn allra brauta samanlögð 7,43, vorönn 2016 var hún 6,77, vorönn 2016 var hún 6,44 og svo 2017 var hún orðin 6,1. 24

25 Tafla 5. Meðaleinkunnir nemenda á mismunandi námsbrautum á tveimur árum Meðaleinkunnir úr öllum áföngum Námsbraut 1.ár (n=53) M (±SD) 2.ár (n=53) M (±SD) FHU (n=11) 6,73 (1,3) 6,14 (1,4) FHU(A) (n=2) 7,02 (0,8) 6,47 (1,2) NÁF (n=16) 7,81 (1,1) 6,89 (1,5) NÁF(A) (n=10) 7,75 (1,3) 6,79 (1,4) VHF (n=10) 6,14 (1,4) 5,51 (1,2) VHF(A) (n=4) 7,13 (1,1) 6,16 (1,3) Samtals 7,09 6,32 Á fyrsta árinu voru nemendur NÁF með hæstu samanlögðu meðaleinkunnina úr öllum áföngum á árinu, en hún var 7,81 og þar á eftir voru nemendur NÁF(A) með 7,75 í meðaleinkunn. Á öðru árinu var það eins og á fyrsta árinu en nemendur NÁF voru með hæstu meðaleinkunnina sem var 6,89 og þar á eftir voru það nemendur NÁF(A) með 6,79 í meðaleinkunn. Samanlögð meðaleinkunn þessara tveggja ára er 7,09 á fyrra árinu en lækkar svo niður í 6,32 á seinna árinu. Tafla 6. Meðaleinkunnir afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á fjórum önnum Námsbraut Meðaleinkunnir úr öllum áföngum Haustönn 2015(n=53) Vorönn 2016(n=53) Haustönn 2016(n=53) Vorönn 2017(n=53) Heild (n=53) Afreksíþróttasvið 7,68 (1,0) 7,33 (1,4) 6,78 (1,2) 6,4 (1,3) 7,05 (1,1) (n=16) Bóknám (n=37) 7,45 (1,1) 6,54 (1,6) 6,34 (1,5) 5,97 (1,7) 6,58 (1,3) Samtals 7,56 6,93 6,56 6,18 Tafla 6 sýnir meðaleinkunnir nemenda á afreksíþróttasviði og bóknámsbrautum á hverri önn fyrir sig sem og heildar meðaleinkunn eftir allar annir. Á haustönn 2015 var afreksíþróttasviðið með 7,68 í meðaleinkunn en bóknámið var með 7,45 í meðaleinkunn. Vorönn 2016 var afreksíþróttasviðið með 7,33 í meðaleinkunn en bóknámið var með 6,54 í meðaleinkunn. Haustönn 2016 var afreksíþróttasviðið með 6,78 í meðaleinkunn en bóknámið var með 6,34 í meðaleinkunn og vorönnina 25

26 2017 var afreksíþróttasviðið með 6,4 í meðaleinkunn og bóknámið var með 5,97 í meðaleinkunn. Ekki er marktækur munur á einkunnum á afreksíþróttasviði og bóknámsbrautum (T(50)= -1,186, p > 0,05). Tafla 6 sýnir að afreksíþróttasviðið var með hærri meðaleinkunnir en bóknámið allar annirnar en samanlögð meðaleinkunn þeirra lækkaði með hverri önn. Haustönnina 2015 byrjaði meðaleinkunnin í 7,55, vorönn 2016 var hún 6,94, haustönn 2016 var hún 6,59 og á vorönn 2017 var hún orðin 6,20. Tafla 7. Meðaleinkunnir afreksíþróttasviðs og bóknámsbrauta á tveimur árum Meðaleinkunnir úr öllum áföngum Námsbraut 1.ár (n=53) M (±SD) 2.ár (n=53) M (±SD) Afreksíþróttasvið 7,50 (1,2) 6,59 (1,4) (n=16) Bóknám (n=37) 6,99 (1,4) 6,15 (1,5) Samtals 7,24 6,37 Á fyrsta árinu var afreksíþróttasviðið með 7,50 í meðaleinkunn og bóknámið var með 6,99 í meðaleinkunn. Á öðru árinu var afreksíþróttasviðið með 6,59 í meðaleinkunn og bóknámið var með 6,15 í meðaleinkunn. Samanlögð meðaleinkunn afreksíþróttasviðsins og bóknámsbrauta var á fyrsta ári 7,24 og á öðru ári 6,37 og samkvæmt þessum niðurstöðum má sjá að afreksíþróttasviðið var með hærri meðaleinkunnir bæði árin. 26

27 Umræða Markmið þessarar rannsóknar var að skoða það hvort að nemendur sem stunda reglulega íþróttir og hreyfingu séu almennt að standa sig betur í námi en þeir sem gera það ekki. Til grundvallar lágu rannsóknir bæði íslenskar og erlendar og einnig voru fengin gögn úr Borgarholtsskóla, sem býður upp á afreksíþróttasvið fyrir nemendur. Ekki er hægt að rekja gögnin til einstakra nemenda þar sem hverjum og einum nemanda er gefið sérstakt númer en ekki notuð kennitala eða nafn. Rannsóknarspurningar voru eftirfarandi: Eru nemendur afreksíþróttasviðs Borgarholtsskóla með hærri einkunnir en aðrir nemendur í bóknámi? Hvernig hefur einkunn nemenda þróast á fyrstu fjórum önnum skólagöngunnar? Er nemendur afreksíþróttasviðs með betri mætingu en aðrir nemendur í bóknámi? Hvernig hefur mæting nemenda þróast á fyrstu fjórum önnum skólagöngunnar? Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að nemendur á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla eru með hærri einkunnir og betri mætingu heldur en aðrir nemendur skólans frá haustönn 2015 til vorannar Þegar að meðaleinkunn nemenda er skoðuð eftir árum kemur það í ljós að afreksíþróttasviðið eru í öllum tilvikum með hærri meðaleinkunn á báðum skólaárum. Á fyrsta ári munar einum heilum á milli VHF og VHF(A) en VHF er með 6,14 í einkunn og VHF(A) er með 7,13. Þær niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir sem segja frá því að nemendur sem stunda íþróttir fái hærri einkunnir en aðrir nemendur sem stunda ekki íþróttir (Brand, 2011; Martin, 2010; Trudeau og Shephard, 2008). Niðurstöðurnar sýna að nemendur á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla eru að mæta betur í öllum tilvikum heldur en hinir nemendurnir, fyrir utan fyrstu önn en þá er VHF að mæta 0,18% betur en VHF(A). Á afreksíþróttasviðinu, eins og fram kemur fyrr í ritgerðinni, er 95% mætingarskylda í öll fög og eru nemendur á afreksíþróttasviði að standast þá kröfu allt fyrsta árið í náminu. Á þriðju önn, haustönn 2016, eru FHU(A) og NÁF(A) að standast kröfurnar en VHF(A) er rétt fyrir neðan með 94,13% mætingu. Það má greinilega sjá að á fjórðu önninni, vorönn 2017, er mætingin orðin lakari á öllum brautum nema hjá FHU(A) sem er í 98% sem er til dæmis 9% betri mæting en hjá VHF. Þetta er í samræmi við grein eftir Lumpkin og Favor, en þar kemur fram að þeir nemendur sem stunda íþróttir eru með betri sjálfsaga og kunna að skipuleggja tímann sinn og það geta þeir notfært sér í náminu. Þetta sýnir sig í hærri einkunnum og betri mætingu. Einnig kemur 27

28 fram í sömu rannsókn að það eru mun meiri líkur á því að þeir nemendur sem að stunda ekki íþróttir hverfi brott frá námi heldur en þeir sem stunda íþróttir með skóla (Lumpkin og Favor, 2012). Þegar niðurstöður frá Borgarholtsskóla eru skoðaðar þá kemur ekki fram marktækur munur þegar meðaleinkunn er greind eftir námsbrautum. Þegar skoðuð er þróun einkunna og mætingarhlutfalls nemenda eftir önnum má sjá í töflunum að meðaleinkunn nemenda á brautunum lækkar með hverri önn og mætingarhlutfall verður einnig lakara með hverri önn, með örfáum undantekningum. Miðað við niðurstöður rannsókna hafa íþróttir og hreyfing jákvæð áhrif á einkunnir og skipulag nemenda og því er það umhugsunarefni að með styttingu náms til stúdentsprófs á Íslandi og breytingu á aðalnámsskrá framhaldsskóla, er þó nokkur hætta á því að íþróttatímum í framhaldsskólum fækki almennt á námsbrautum. Það er vonandi að þeir sem semji námsbrautir í framhaldsskólum sjái mikilvægi íþrótta í stundatöflu nemenda en einblíni ekki um of á bóknámsgreinar. Eins og kom fram í rannsókn eftir Martin, voru þeir nemendur sem að fengu fleiri íþróttatíma í stundatöflur sínar að fá hærri meðaleinkunnir en þeir nemendur sem að fengu ekki fleiri íþróttatíma (Martin, 2010). Hugsanlega má sjá þá þróun að álag nemenda í framhaldsskólum við styttingu námsins um eitt ár verði mikið og að þeim finnist þeir þurfi að velja á milli skóla og áhugamála, eða jafnvel íþróttaiðkunar. Það væri þvert á niðurstöður rannsókna sem sýna einmitt fram á það að nemendur sem æfðu íþróttir með skóla voru líklegri til þess að hafa meiri metnað í náminu og tilbúnari að leggja meira á sig en þeir sem að æfa ekki íþróttir (Heil, 2014). Ef ég hefði haft gögn allra nemenda Borgarholtsskóla eða jafnvel fleiri árganga þá hefðu niðurstöðurnar líklega verið marktækar. Aðeins fengust gögn um nemendur í sama árgangi og því er enginn samanburður við annan árgang. Til þess að hægt væri að fullyrða að nemendur á afreksíþróttasviðinu væru að fá hærri einkunnir og væru að mæta betur þyrfti að hafa fleiri nemendur til samanburðar. Ef að það hefðu fengist upplýsingar um fleiri nemendur hefði einnig verið hægt að bera einkunnir og mætingu saman á milli kynja og skoða samanburð milli stúlkna og drengja í námi. Fróðlegt hefði einnig verið að fá upplýsingar um öll þrjú ár nemmenda og sjá hve hátt hlutfall af þeim útskrifast með stúdentspróf. 28

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66 Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66.A.20(b) privileges The holder og an aircraft maintenance licence may not exercise its privileges unless: 1. In compliance

More information

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson Ritstuldarvarnir Sigurður Jónsson sigjons@hi.is Aðgangur að Turnitin 1. Beint í Turnitin á www.turnitin.com 2. Gegnum Moodle-námskeið Kennarar og nemendur halda sig í Moodleumhverfinu Fá frumleikaskýrslu

More information

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Samanburður vindmæla Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Haustþing Veðurfræðifélagsins 2011 Tegundir vindmæla Til eru margar mismunandi gerðir vindmæla sem byggja á mismunandi

More information

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. í sálfræði 103 á vorönn 2008 um viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. Rannsóknin á að gera grein fyrir afstöðu nemenda við Menntaskólanum á Egilsstöðum til nýgerða breytinga á stoðtímakerfi

More information

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Björn Traustason og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá Fagráðstefna 25.mars 2010 Inngangur Landfræðileg greining til að meta útbreiðslu nokkurra

More information

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Ný tilskipun um persónuverndarlög UT Messa SKÝ, 9. febrúar 2012 Hörður Helgi Helgason Um fyrirlesara 1999 2000-03 2003-06 2006- Héraðsdómslögmaður Persónuvernd Ráðgjafi, evrópsk persónuv.lög LM lögmenn -> Landslög munið #utmessan Boligen

More information

UNGT FÓLK BEKKUR

UNGT FÓLK BEKKUR UNGT FÓLK 16 8.. BEKKUR Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun, heilsuhegðun, heilsuvísar, líðan og framtíðarsýn ungmenna í framhaldsskólum á Íslandi. ÆSKULÝÐSRANNSÓKNIR FRÁ 1992 Ungt fólk 16 Grunnskólar

More information

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum Raddir fjölbreyttra kennarahópa Sólveig Karvelsdóttir, lektor, HÍ Hafdís Guðjónsdóttir, dósent, HÍ Rannsóknin er hluti af tveimur rannsóknum Fjölbreyttir kennarahópar

More information

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND INDEX I. Regional Partnerships Official Partners of the OPEN DAYS 2011 East Iceland... 3 Austurlands... 5 2 I. Regional

More information

GRUNNSKÓLAR UNGT FÓLK 2014

GRUNNSKÓLAR UNGT FÓLK 2014 UNGT FÓLK 14 GRUNNSKÓLAR Menntun, menning, félags, - íþrótta- og tómstundastarf, heilsa, líðan og vímuefnaneysla unglinga í 8., 9. og. bekk á Íslandi. ÆSKULÝÐSRANNSÓKNIR FRÁ 1992 Ungt fólk 14 Grunnskólar

More information

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði Eðlisfræðiskor HÍ og Raunvísindastofnun Háskólans Tilraunahúsið p.1/18 Sýnishorn af markmiðum ríkisvalds í menntamálum

More information

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Morgunverðarfundur Ferðamálastofu Grand hótel, Reykjavík 14. apríl 2011 Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Dr. Edward H. Huijbens Forstöðumaður /

More information

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Q1. Ert þú karl eða kona? Karl 229 19.83% Kona 926 80.17% Fjöldi 1155 Q2. Á hvaða aldursbili ert þú? 30 ára eða yngri 190 16.42% 31-40 ára 257 22.21% 41-50 ára 312 26.97%

More information

Hverjir eru valkostir nýnema í framhaldsskólum?

Hverjir eru valkostir nýnema í framhaldsskólum? Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2011 Magnús Þorkelsson Hverjir eru valkostir nýnema í framhaldsskólum? Allt frá árinu 1968 hefur umræðan um framhaldsskóla á Íslandi aðallega snúist

More information

Framhaldsskólapúlsinn

Framhaldsskólapúlsinn Framhaldsskólapúlsinn Mat á líðan og skólabrag í framhaldsskólum Málþing um geðrækt í framhaldsskólum 20. september 2013 Almar M. Halldórsson Skólapúlsinn Skólapúlsinn er veflægt sjálfsmatskerfi fyrir

More information

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila desember 2016 VIÐMIÐ TEGUND FYRIRTÆKIS

More information

Ég vil læra íslensku

Ég vil læra íslensku Ég vil læra íslensku 16 Föt Föt Évlí - 16 föt 1 hlusta Generated by Foxit PDF Creator Foxit Software benda lita teikna klippa líma strákur stelpa ekki stelpa/ekki strákur hugsa Évlí - 16 föt 2 hlusta íslenskur

More information

Einelti íslenskra skólabarna og heilsa

Einelti íslenskra skólabarna og heilsa Einelti íslenskra skólabarna og heilsa Niðurstöður landskönnunnar á heilsutengdum afleiðingum eineltis Helena Rún Pálsdóttir Ritgerð til BS prófs 12 einingar Einelti skólabarna og heilsa Niðurstöður landskönnunnar

More information

Tengsl fæðingardags á brottfall úr knattspyrnu Hjá 4. flokki karla og kvenna

Tengsl fæðingardags á brottfall úr knattspyrnu Hjá 4. flokki karla og kvenna Hjá 4. flokki karla og kvenna Jakob Leó Bjarnason og Vilberg Sverrisson Lokaverkefni lagt fram til fullnaðar B.S. -gráðu í íþróttafræði við Háskóla Íslands, menntavísindasvið maí 2009 Ágrip Aðalmarkmið

More information

Algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttaka og brottfall vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum

Algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttaka og brottfall vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum http://dx.doi.org/10.17992/lbl.2015.10.45 RANNSÓKN Ágrip Algengi íþróttameiðsla, íþróttaþátttaka og brottfall vegna meiðsla hjá 17 og 23 ára ungmennum Margrét H. Indriðadóttir 1 sjúkraþjálfari, Þórarinn

More information

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Einelti og líðan Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014 Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til B.A. gráðu í sálfræði Hug- og félagsvísindadeild

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 8. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Lokaverkefni til B.Ed. prófs Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Eru ánægðir foreldrar bestu bandamenn kennara? Halldóra Gísladóttir 300955-5419 Kennaraháskóli Íslands

More information

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR Ingvar Örn Ingvarsson Verkefnisstjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar Samgöngufundur á Norðurlandi, 19. nóvember 2015 Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir

More information

Andleg líðan og hreyfing Rannsókn meðal framhaldsskólanemenda á Íslandi, hefur hreyfing áhrif á þunglyndi og sjálfsmat?

Andleg líðan og hreyfing Rannsókn meðal framhaldsskólanemenda á Íslandi, hefur hreyfing áhrif á þunglyndi og sjálfsmat? Andleg líðan og hreyfing Rannsókn meðal framhaldsskólanemenda á Íslandi, hefur hreyfing áhrif á þunglyndi og sjálfsmat? Karítas Þórarinsdóttir Kristín Ómarsdóttir Lokaverkefni í íþróttafræði BSc 2015 Höfundar:

More information

Inngangur... 4 Tillögur starfshópsins... 5 Samantekt... 9

Inngangur... 4 Tillögur starfshópsins... 5 Samantekt... 9 Skýrsla starfshóps námsárangur um drengja September 2011 Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir Óttar Proppé Nanna K. Christiansen Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir Jón Páll Haraldsson Bryndís Jónsdóttir Ingveldur Hrönn

More information

Námsval stúlkna með tilliti til stærðfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð RH

Námsval stúlkna með tilliti til stærðfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð RH Námsval stúlkna með tilliti til stærðfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð RH-12-2009 Elínborg Ingunn Ólafsdóttir, Freyja Hreinsdóttir Gunnar Stefánsson og María Óskarsdóttir Útdráttur Tölfræðileg úrvinnsla

More information

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (MFT/MFS) og tannátu í lykiltönnum SVANHVÍT. SÆMUNSÓTTIR*, THR ASPEUN**, SIGURÐUR RÚNAR SÆMUNSSN***, INGA. ÁRNAÓTTIR* HEIRIGÐISVÍSINASVIÐ HÁSKÓA

More information

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst 15. 18. ágúst 21. 25. ágúst 28. ág 1. sept. 15. skipulagsdagur 16. skipulagsdagur 17. Skipulagsdagur 18. skipulagsdagur

More information

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Yfirlit erindis Meginmarkmið og bakgrunnur Nokkrar skilgreiningar Rannsóknaraðferðir

More information

Samanburður á neyslu D-vítamíns í fæðubótarformi milli íþróttafólks og þeirra sem stunda ekki íþróttir

Samanburður á neyslu D-vítamíns í fæðubótarformi milli íþróttafólks og þeirra sem stunda ekki íþróttir BSc í íþróttafræði Samanburður á neyslu D-vítamíns í fæðubótarformi milli íþróttafólks og þeirra sem stunda ekki íþróttir Nafn nemanda: Guðmundur Örn Árnason Kennitala: 300891-3229 Leiðbeinandi: Ólafur

More information

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM Skýrsla fyrir skólaárið 2016-2017 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 1. Inngangur... 3 2. Markmið og tilgangur matsins... 3 3. Aðferðir og framkvæmd matsins... 3 4.

More information

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós XML-þjónustan veitir aðgang að nýjum norðurljósagögnum Veðurstofunnar sem birt eru á www.vedur.is. Slóð XML-þjónustunnar er http://xmlweather.vedur.is/aurora?op=xml&type=index

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar 1 Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar Introduction to rotating machines 2 Grunnhugtök og meginþættir Klassískar gerðir véla Riðstraumsvélar Samfasavél (synchronous machine) Spanvél (induction machine

More information

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2 1 Examples 2 Sýnidæmi 2 2 Example 25-1 Gefið er 3 fasa, 3 teina raforkukerfi samkvæmt meðfylgjandi einlínumynd. Allar stærðir á myndinni eru í einingakerfinu ( per unit ). Seríuviðnám háspennulínanna er

More information

Dagleg hreyfing barna með þroskahömlun

Dagleg hreyfing barna með þroskahömlun Dagleg hreyfing barna með þroskahömlun Ágúst Ólafsson Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Dagleg hreyfing barna með þroskahömlun Ágúst Ólafsson Lokaverkefni til M.Ed.- prófs

More information

Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/ /10

Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/ /10 Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/04-2009/10 Stefán Hrafn Jónsson Háskóli Íslands, Landlæknisembættið Margrét Héðinsdóttir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu

Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu Er hlutfall barna yfir kjörþyngd hætt að aukast? Stefán Hrafn Jónsson Lýðheilsustöð Margrét Héðinsdóttir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins Mars 2010 Líkamsþyngd barna

More information

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Þórólfur Guðnason yfirlæknir Sóttvarnalæknir, Embætti landlæknis Nóvember 2014 Gastegundir frá eldgosum >95% H 2 O, CO 2 SO 2

More information

ÆGIR til 2017

ÆGIR til 2017 ÆGIR3 2016 til 2017 Þríþraut Mikil þróun, sífellt betri árangur, fleiri og betri keppnir Íslandsmetið í Ironman féll tvisvar í sumar Norðurlandameistari kvenna í flokki 23 ára og yngri Þríþrautarsamband

More information

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa Efnisyfirlit Þróun félagsauðs í grannríkjunum Bandaríkin Skandinavía Meginland Evrópu Þróunin á Íslandi Félagsþátttaka Frumtengsl Félagsrof Félagsauður,

More information

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga BSc. ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga Eva Úlla Hilmarsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson Febrúar

More information

Rannsókn á Hjallastefnunni. Unnin á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir Hjallastefnuna á Íslandi,

Rannsókn á Hjallastefnunni. Unnin á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir Hjallastefnuna á Íslandi, Rannsókn á Hjallastefnunni. Unnin á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir Hjallastefnuna á Íslandi, 2014-2016 2 Höfundar: Berglind Gísladóttir og Hrefna Pálsdóttir Háskólinn í Reykjavík 2017 ISBN 978-9935-9147-6-7

More information

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla Læsi til samskipta og náms Ráðstefna MSHA um læsi 13. september 2014 Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla Rúnar Sigþórsson Háskólanum á Akureyri runar@unak.is Örstutt um Byrjendalæsi

More information

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012 Nr. 28/32 EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012 2013/EES/28/07 frá 8. júní 2012 um framkvæmdarreglur vegna beitingar 16. gr.

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Viðhorf sérkennara í grunnskólum til stefnunnar skóli án aðgreiningar Rannveig Klara Matthíasdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Skóli án aðgreiningar

More information

Íþróttakennara- og íþróttafræðinám á Laugarvatni fyrr og nú

Íþróttakennara- og íþróttafræðinám á Laugarvatni fyrr og nú Uppeldi og menntun 21. árgangur 2. hefti 2012 SIGURBJÖRN ÁRNI ARNGRÍMSSON MENNTAVÍSINDASVIÐI HÁSKÓLA ÍSLANDS Íþróttakennara- og íþróttafræðinám á Laugarvatni fyrr og nú Íþróttakennaranám á Íslandi stendur

More information

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Stóra myndin Uppbygging þekkingarsamfélags Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Bakgrunnur Viðskiptaráð Íslands 1 Yfirlit 1. Hvað eru þekkingarkjarnar? 2. Hvað

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services 2011:1 27. maí 2011 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Frá árinu 1987 hefur Hagstofa Íslands leitað upplýsinga frá sveitarfélögum árlega um fjárhagsaðstoð, félagslega heimaþjónustu

More information

Ársskýrsla Fjölbrautaskólans við Ármúla 2016

Ársskýrsla Fjölbrautaskólans við Ármúla 2016 Ársskýrsla Fjölbrautaskólans við Ármúla 2016 Efnisyfirlit Inngangur... 3 Nemendur... 3 Nemendur flokkaðir eftir brautum... 5 Nemendafjöldi eftir kynjum... 6 Meðalaldur nemenda eftir brautum og kyni...

More information

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Power Point leiðbeiningar Sjónarhorn View Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Outline view - Yfirlitshamur Hér er hægt að rita minnispunkta við hverja glæru fyrir þann sem

More information

Fjöldi myndgreiningarannsókna á Íslandi árið 2008.

Fjöldi myndgreiningarannsókna á Íslandi árið 2008. GR 10:03 Fjöldi myndgreiningarannsókna á Íslandi árið 2008. Guðlaugur Einarsson, geislafræðingur Ágúst 2010 Geislavarnir ríkisins Icelandic Radiation Safety Authority Rauðarárstíg 10 150 Reykjavík s. 5528200

More information

Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri.

Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri. Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri. Fræðslufundur fyrir grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu Mánudaginn 18. september 2017 í Skriðu, Menntavísindasviði

More information

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Ingólfur Ásgeir Jóhannesson Hvernig getur málefni sem ekki er skilgreint sem námsgrein í grunnskóla eða námssvið

More information

Umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi á Íslandi 2006

Umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi á Íslandi 2006 Umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi á Íslandi 2006 Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum Rögnvaldur J. Sæmundsson Silja Björk Baldursdóttir Mars 2007 GEM - frumkvöðlastarfsemi 2006

More information

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Freyja Birgisdóttir Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum Kynntar verða niðurstöður langtímarannsóknar á þroska,

More information

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn -

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM Schengen ráðstefna 6. október 2011 - Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - Áherslur - Lögreglan á Suðurnesjum - Framkvæmd landamæraeftirlits - Umhverfið - Álag á Ísland

More information

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 Ingvar Sigurgeirsson Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 details how school climate is associated with and / or promotes safety, healthy relationships, engaged learning

More information

STOÐKERFISVERKIR HJÁ HJÚKRUNARDEILDARSTJÓRUM OG TENGSL VERKJA VIÐ STREITU

STOÐKERFISVERKIR HJÁ HJÚKRUNARDEILDARSTJÓRUM OG TENGSL VERKJA VIÐ STREITU Þórey Agnarsdóttir, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra á Akureyri Hafdís Skúladóttir, Háskólanum á Akureyri Hjördís Sigursteinsdóttir, Háskólanum á Akureyri Sigríður Halldórsdóttir, Háskólanum á Akureyri

More information

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning)

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) Frásagnir úr námsferð fræðslustjóra með skólastjórum í Reykjavík, starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar og fulltrúum úr fræðsluráði á ráðstefnu og í skólaheimsóknir

More information

Notkun tíðahvarfahormóna hjá íslenskum konum árin

Notkun tíðahvarfahormóna hjá íslenskum konum árin Notkun tíðahvarfahormóna hjá íslenskum konum árin 1996-1 Brynja Ármannsdóttir 1 læknanemi Laufey Tryggvadóttir 2 faraldsfræðingur Jón Gunnlaugur Jónasson 1,2,4 sérfræðingur í meinafræði Elínborg J. Ólafsdóttir

More information

Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla

Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla SKÓLAÞRÓUNARSVIÐ KENNARADEILDAR HÁSKÓLANS Á AKUREYRI ÞINGVALLASTRÆTI 23 600 AKUREYRI Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla Mat á skólastarfi Birna María Svanbjörnsdóttir Jenný Gunnbjörnsdóttir

More information

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson Samstarf HR og IGI Ólafur Andri Ragnarsson Leikjaiðnaðurinn 2021 Leikjaiðnaðurinn 2021 5.000 störf 70 milljarðar í heildarútflutningstekjur ef... Photo Ian Parker http://parkerlab.bio.uci.edu/nonscientific_adventures/iceland_man.ht

More information

EKKERT NEMA NET. Lokaverkefni í íþróttafræði BSc. Höfundur/ Sigrún S. Skarphéðinsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Pétur Sigurðsson

EKKERT NEMA NET. Lokaverkefni í íþróttafræði BSc. Höfundur/ Sigrún S. Skarphéðinsdóttir Kennitala: Leiðbeinandi: Pétur Sigurðsson EKKERT NEMA NET UNDIRSTÖÐUATRIÐI Í KÖRFUKNATTLEIK Sigrún S. Skarphéðinsdóttir Lokaverkefni í íþróttafræði BSc 2013 Höfundur/ Sigrún S. Skarphéðinsdóttir Kennitala: 080570-4499 Leiðbeinandi: Pétur Sigurðsson

More information

Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi -

Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi - Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi - Rannveig Björnsdóttir Strandbúnaður 2017, Grand Hótel Reykjavík, 13.-14.mars YFIRLIT erindis Dæmi: doktorsverkefni RBj 2005-2010 BAKGRUNNUR VANDAMÁLIÐ

More information

Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum

Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit Um læsi Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 07. september 016 Yfirlit greina Amalía Björnsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir.

More information

SVEPPASÝKINGAR MEÐAL SUNDGESTA

SVEPPASÝKINGAR MEÐAL SUNDGESTA Læknadeild Háskóla Íslands 4. árs rannsóknarverkefni Vorið 1997 SVEPPASÝKINGAR MEÐAL SUNDGESTA Gunnhildur Guðnadóttir, Bárður Sigurgeirsson, Ingibjörg Hilmarsdóttir Ágrip Inngangur: Sveppasýkingar í tánöglum

More information

Tengsl sálvefrænna einkenna unglinga við sálfélagslega skólaumhverfið

Tengsl sálvefrænna einkenna unglinga við sálfélagslega skólaumhverfið Tengsl sálvefrænna einkenna unglinga við sálfélagslega skólaumhverfið Auður Svansdóttir og Katla Stefánsdóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ Lokaverkefni til BA gráðu í sálfræði Félagsvísindadeild maí 2017

More information

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna Samanburðarrannsókn nóvember 2012 Ari Klængur Jónsson www.mcc.is Árnagötu 2-4 400 Ísafjörður Sími: 450-3090 Fax: 456-0215 mcc@mcc.is 1 Velferðarráðuneytið

More information

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Stillt upp fyrir tískumyndatöku í Hörpu. Samantekt unnin fyrir Höfuðborgarstofu mars 2017 Höfundur: Rögnvaldur Guðmundsson Rannsóknir

More information

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, apríl 2012

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, apríl 2012 EFLA Verkfræðistofa STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin 2002-2011 Reykjavík, apríl 2012 2012, EFLA verkfræðistofa hf - Vinnslu efnis og frágang texta annaðist Kolbrún Reinholdsdóttir fyrir Verkfræðistofuna

More information

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, júní 2014

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, júní 2014 EFLA Verkfræðistofa STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin 2004-2013 Reykjavík, júní 2014 2014, hf - Vinnslu efnis og frágang texta annaðist Kolbrún Reinholdsdóttir fyrir Verkfræðistofuna EFLU hf. ISSN ISBN

More information

Horizon 2020 á Íslandi:

Horizon 2020 á Íslandi: Horizon 2020 á Íslandi: - Árangur Íslands í Horizon2020 - Hvernig getur Rannís veitt ykkur aðstoð? Kristmundur Þór Ólafsson Alþjóðasvið Rannís Landstengiliður (NCP) fyrir H2020 Hvað er H2020? Rammaáætlun

More information

Fæðuvenjur á unglingsárum og miðjum aldri og tengsl við áhættu á brjóstakrabbameini

Fæðuvenjur á unglingsárum og miðjum aldri og tengsl við áhættu á brjóstakrabbameini Fæðuvenjur á unglingsárum og miðjum aldri og tengsl við áhættu á brjóstakrabbameini Verkefni til doktorsprófs í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands Nemandi: Álfheiður Haraldsdóttir Leiðbeinendur: Laufey

More information

Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. September 2018

Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. September 2018 Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu September 2018 Samantekt Íslandsstofa framkvæmdi viðhorfskönnun í júlí og ágúst 2018 meðal erlendra söluaðila sem selja ferðir til Íslands.

More information

Tillaga til þingsályktunar

Tillaga til þingsályktunar 132. löggjafarþing 2005 2006. Þskj. 14 14. mál. Tillaga til þingsályktunar um eflingu náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum. Flm.: Jónína Bjartmarz, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir,

More information

Reykingar, holdafar og menntun kvenna í borg og bæ

Reykingar, holdafar og menntun kvenna í borg og bæ Reykingar, holdafar og menntun kvenna í borg og bæ Ágrip Laufey Steingrímsdóttir 1,2 næringarfræðingur Elínborg J. Ólafsdóttir 3 verkfræðingur Lilja Sigrún Jónsdóttir 4 læknir Rafn Sigurðsson 3, tölfræðingur

More information

Áhrif lofthita á raforkunotkun

Áhrif lofthita á raforkunotkun Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Júlí 2017 Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Orkustofnun Júlí 2017 Útgefandi: Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík Sími: 569 6000, Fax, 568

More information

Skólamenning og námsárangur

Skólamenning og námsárangur Ritrýnd grein Tímarit um menntarannsóknir / Journal of Educational Research (Iceland) 8, 2011, 19.-37. Skólamenning og námsárangur Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen Háskóla Íslands,

More information

Nám í skapandi greinum á framhaldsskólastigi Fýsileikagreining á listmenntaskóla. Rannsóknarmiðstöð Skapandi greina Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

Nám í skapandi greinum á framhaldsskólastigi Fýsileikagreining á listmenntaskóla. Rannsóknarmiðstöð Skapandi greina Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Skólar og menntun í fremstu röð Nám í skapandi greinum á framhaldsskólastigi Fýsileikagreining á listmenntaskóla Rannsóknarmiðstöð Skapandi greina Félagsvísindasvið Háskóla Íslands Þessi skýrsla er hluti

More information

Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði Ársæll Arnarsson Þóroddur Bjarnason

Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði Ársæll Arnarsson Þóroddur Bjarnason Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði 1995 2015 Ársæll Arnarsson Þóroddur Bjarnason Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri Rannsóknastofa í tómstunda- og félagsmálafræðum

More information

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Jón Viðar Jónmundsson 1 og Emma Eyþórsdóttir 2 1 Bændasamtökum Íslands 2 Rannsóknarstofnun landbúnaðarins/lbh á Hvanneyri Inngangur Fyrsta

More information

Málþroski leikskólabarna

Málþroski leikskólabarna Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2015 Yfirlit greina Hrafnhildur Ragnarsdóttir Málþroski leikskólabarna Þróun orðaforða, málfræði

More information

Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar

Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Sólrún Ársælsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Sólrún Ársælsdóttir Lokaverkefni

More information

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrú fjarnám Bókalisti vorönn 2019 2. önn Félagsvísinda- og lagadeild Upplýsingatækni og tölfræði: Kennslubók í Excel 2016. Höfundar: Hallur Örn Jónsson og Óli Njáll Ingólfsson Stærðfræði 3: Stærðfræði

More information

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Svíþjóð - stjórnsýslan Þrjú formleg stjórnsýslustig Sveitarfélög, 290 talsins (Local level) Lén, 20 talsins (Regional level) Landsstjórn, 349 þingmenn (National

More information

Afreksstefna TSÍ

Afreksstefna TSÍ Afreksstefna TSÍ 2016 2020 1 Efnisyfirlit 1 Inngangur... 3 1.1 Ábyrgðaraðilar og hlutverk... 3 1.2 Markmið... 3 2 Almenn þátttaka í tennis og hæfileikamótun... 3 2.1 Tennis í dag... 3 2.2 Hæfileikamótun,

More information

Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum skólaárin 2008/2009 til 2012/2013

Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum skólaárin 2008/2009 til 2012/2013 Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum skólaárin 2008/2009 til 2012/2013 (Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015 2016) 2 Innihald Helstu

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013 2014:3 9. október 2014 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Árið fengu 8.042 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 306

More information

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Aðdragandi, framkvæmd og árangur af sameiningu Högskolan på Gotland og Uppsalaháskóla Ágrip Í þessari úttektar er að dreginn lærdómur af nýlegri sameiningu tveggja háskóla

More information

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu Ágrip Í þessari ritgerð, sem er lokaverkefnið mitt til B.Ed gráðu, mun ég fjalla um samvinnu á milli myndlistarskóla og grunnskóla. Í því samhengi mun ég skoða Billedskolen i Tvillingehallen og Myndlistarskólann

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011 2012:1 4. október 2012 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Árið fengu 7.715 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 805

More information

í lýðheilsu - þáttur Lýðheilsustöðvar

í lýðheilsu - þáttur Lýðheilsustöðvar Rannsóknir í lýðheilsu - þáttur Lýðheilsustöðvar ðvar Laufey Steingrímsdóttir Sviðsstjóri rannsókna Lýðheilsustöð Rannsóknir í lýðheilsu Hvers vegna þurfum við rannsóknir? Er Lýðheilsustöð rannsóknarstofnun?

More information

Rannsókn á viðhorfi starfsmanna Garðabæjar til samræmds Verklags vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna

Rannsókn á viðhorfi starfsmanna Garðabæjar til samræmds Verklags vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna BA ritgerð Félagsráðgjöf Rannsókn á viðhorfi starfsmanna Garðabæjar til samræmds Verklags vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna Karítas Bjarkadóttir Leiðbeinandi Elísabet Karlsdóttir

More information

Heimildir. Boyer, W. (2008). Girl to girl violence: The voice of victims. Childhood Education, 84(6) Proquest Central, bls

Heimildir. Boyer, W. (2008). Girl to girl violence: The voice of victims. Childhood Education, 84(6) Proquest Central, bls Heimildir Allen, K. P. (2010). A bullying intervention system: Reducing risk and creating support for aggressive students. Preventing School Failure, 54(3), 199 209. Almar Miðvík Halldórsson. (2011). Einelti

More information

Stærðfræði við lok grunnskóla

Stærðfræði við lok grunnskóla Stærðfræði við lok grunnskóla Stutt samantekt helstu niðurstaðna úr PISA 2003 rannsókninni Júlíus K. Björnsson Almar Miðvík Halldórsson Ragnar F. Ólafsson Rit nr. 15, 2004 2 Námsmatsstofnun desember 2004.

More information

Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi og íslenskum skólum

Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi og íslenskum skólum Ráðstefnurit Netlu Menntakvika 211 Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 211 Ólöf Garðarsdóttir og Guðjón Hauksson 1 Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan

More information

Vímuefnafíkn, samskipti og fjölskylduánægja

Vímuefnafíkn, samskipti og fjölskylduánægja Vímuefnafíkn, samskipti og fjölskylduánægja Steinunn Hrafnsdóttir, félagsráðgjafi MA, PhD, dósent við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Jóna Margrét Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MA, doktorsnemi og aðjúnkt

More information