Skóli án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám

Size: px
Start display at page:

Download "Skóli án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám"

Transcription

1 Skóli án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám Námsferð kennsluráðgjafa Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Korpuskóla, Víkurskóla og Borgaskóla til New Brunswick október 2003 Ritstjórn: Ágústa Bárðardóttir Birna Sigurjónsdóttir Bryndís Guðmundsdóttir Guðrún Edda Bentsdóttir Margrét Einarsdóttir Lilja M. Jónsdóttir Fræðslumiðstöð Reykjavíkur

2 Sérstakar þakkir til Verkefna- og námsstyrkjasjóðs Kennarasambands Íslands sem veitti hópnum styrk til ferðarinnar. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur maí 2005 Birna Sigurjónsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir 2

3 Efnisyfirlit I. Inngangur Þema ferðarinnar Skipulag og þátttakendur Dagskrá Spurningar sem leitað var svara við um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám... 6 II. Skóli án aðgreiningar og skipulag fræðslumála í New Brunswick Stefna stjórnvalda í New Brunswick varðandi skóla án aðgreiningar Hlutverk skólaskrifstofu og skólayfirvalda... 9 III. Það sem helst styður skóla án aðgreiningar í verki (Best Practises for Inclusion) IV. Helstu þættir í skóla án aðgreiningar - byggt á heimsóknum og heimildum Viðhorf Leiðarljós fyrir kennara (Best Practices for Inclusion) Hlutverk bekkjarkennara gagnvart börnum með sérþarfir Kennsluáætlanir og framkvæmd Kennsluaðferðir í skóla án aðgreiningar Stuðningur við kennara Aðstoðarmenn kennara Símenntun Félagsleg aðlögun eða einangrun Ráðgjöf Lífið að loknu skyldunámi V. Sérkennsluver - sérdeildir sérúrræði Nemendaverndarráð (Resource team-school based Student Services Team) Lausnateymi Dæmi um skipulag sérkennslu: Leo Hayes High School VI. Skólaheimsóknir Priestman Street Elementary School Leo Hayes High School George Street Middle School Keswick Ridge School Harvey Elementary School Harvey High School New Maryland Elementary School South Devon Elementary School Barker s Point Elementary School Nashwaaksis Middle School Fredericton High School VII. Svör við spurningum sem lagt var upp með VIII. Úr dagbókum þátttakenda IX. Heimildir

4 I. Inngangur Farin var námsferð til New Brunswick í Kanada október 2003 með þátttöku deildarstjóra og kennsluráðgjafa á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur ásamt aðstoðarskólastjórum og kennurum úr Korpuskóla, móðurskóla í breyttum kennsluháttum og einstaklingsmiðuðu námi, Víkurskóla og Borgaskóla. Einnig var Lilja M. Jónsdóttir lektor við KHÍ þátttakandi í ferðinni. Námsferðin var skipulögð til að kynnast skólastefnu og framkvæmd skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðaðs náms í fræðsluumdæminu Fredericton í New Brunswick. Skýrslu þessari er ætlað að miðla upplýsingum og reynslu þátttakenda af því sem þeir heyrðu og sáu. 1. Þema ferðarinnar Frá því ný stefnumótun um sérkennslu var samþykkt í fræðsluráði Reykjavíkur 2002 hafa skólar verið að aðlaga skipulag sérkennslu og kennsluhætti þeim áherslum sem þar birtast. Stefnumörkunin kom til framkvæmda í skólum í Reykjavík í áföngum á árunum Því hefur verið og verður væntanlega næstu ár þörf fyrir öfluga ráðgjöf til skóla og kennara um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám. Þar sem stefnan var að hluta mörkuð með hliðsjón af útfærslu og stefnu skóla án aðgreiningar í New Brunswick (Stefna fræðsluráðs um sérkennslu, 2002, s.5) var ákveðið að leita þangað. Meginmarkmið námsferðarinnar var að fræðast um framkvæmd stefnumörkunar um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám í blöndum bekkjardeildum. Undirmarkmið voru að fræðast um nám og kennslu fatlaðra nemenda í almennum bekkjardeildum, fjölþrepa kennsluhætti, ráðgjöf við kennara, ráðgjafarhlutverk stjórnanda sérkennslu og starfshætti lausnateymis. Óskað var eftir að fræðslan yrði í formi vinnufunda (workshops) með ráðgjöfum og kennurum og skólaheimsókna þar sem þátttakendur fylgdu eftir kennara og/eða nemendahópi að starfi í skólanum. Leitast var við að fá góða innsýn í framkvæmd skólastarfsins og fara þá frekar í færri skóla í litlum hópum og dvelja lengur á hverjum stað. 2. Skipulag og þátttakendur Ferðin var farin í lok október Flogið var til Boston 27. október og áfram til New Brunswick sama dag. Dagskráin hófst þriðjudaginn 28. október og lauk á föstudag 31. október. Flogið var til Boston á laugardagsmorgni og flestir úr hópnum héldu heim á sunnudag 1. nóvember. Þátttakendur: Margrét Einarsdóttir Korpuskóla aðstoðarskólastjóri Kristín María Ólafsdóttir Korpuskóla grunnskólakennari Guðríður Sigurðardóttir Korpuskóla grunnskólakennari Rósa Harðardóttir Korpuskóla grunnskólakennari Unnur Berglind Guðmundsdóttir, Korpuskóla grunnskólakennari Ágústa Bárðardóttir Víkurskóla aðstoðarskólastjóri Kristín Halla Þórisdóttir Víkurskóla grunnskólakennari Vilma Ágústsdóttir Víkurskóla myndlistarkennari Árdís Ívarsdóttir Borgaskóla aðstoðarskólastjóri Lilja M. Jónsdóttir Kennaraháskóla Íslands lektor Birna Sigurjónsdóttir Fræðslumiðstöð deildarstjóri kennsludeildar Bergþóra Gísladóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Bryndís Guðmundsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi 4

5 Brynhildur A. Ragnarsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Friðbjörg Ingimarsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Guðrún Edda Bentsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Guðrún Þórsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Hrund Logadóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Hulda Karen Daníelsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Laufey I. Gunnarsdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi Valgerður Janusdóttir Fræðslumiðstöð kennsluráðgjafi 3. Dagskrá Þriðjudagur 28. október 2003, kl Skrifstofa fræðsluumdæmisins í Fredericton High School Dagskrá námsferðarinnar kynnt Kynning á fræðsluumdæmi Fredericton-borgar, District 18, í New Brunswick Skólaheimsóknir eftir hádegi (hver hópur fór í einn skóla): Hópur 1 - Priestman Street Elementary School Hópur 2 Leo Hayes High School Hópur 3 George Street Middle School Miðvikudagur 29. október 2003, kl Skólaheimsóknir fyrir hádegi: Hópur 1 - Priestman Street Elementary School Hópur 2 Leo Hayes High School Hópur 3 George Street Middle School Skólaheimsóknir eftir hádegi: Hópur 1 Keswick Ridge School, Grades K-8 Hópur 2 Harvey Elementary School, Grades K-5 Hópur 3 Harvey High School, Grades 6-12 Fimmtudagur 30. október 2003 kl Skólaheimsóknir fyrir hádegi: Hópur 1 New Maryland Elementary School Hópur 2 South Devon Elementary School Hópur 3 Barker s Point Elementary School Eftir hádegi á skrifstofu Fræðslumdæmisins í Fredericton High School Fyrirlestur um viðbrögð við einelti, Janice Pelkey Skóli án aðgreiningar, Robert Gerard Kl kvöldverður í The Future Chefs Café í boði fræðslustjóra. Föstudagur 31. október 2003 kl Skólaheimsóknir fyrir hádegi: Hópur 1 Barker s Point Elementary School Hópur 2 Nashwaaksis Middle School Hópur 3 Fredericton High School Eftir hádegi í Fredericton University Skóli án aðgreiningar, stefnumörkun fræðsluyfirvalda í New Brunswick um skóla án aðgreiningar, Robert Gerard. 5

6 4. Spurningar sem leitað var svara við í ferðinni um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám: Hvernig er einstaklingsmiðað nám skipulagt? Gera nemendur sér einstaklingsnámskrár? Hvaða leiðir eru nýttar til að koma til móts við ólíkar þarfir og hæfileika nemenda? Hvernig er sérkennslu háttað? Eru nemendur í einhverjum tilvikum teknir út úr tímum og kennt annars staðar? Hvernig er komið til móts við þarfir fatlaðra nemenda? Hvernig er háttað úthlutun fjármagns til skóla? Hvernig er tekið tillit til fatlaðra nemenda og nemenda með miklar sérkennsluþarfir við úthlutun fjármagns? Er tveggja kennara kerfi í einhverjum tilvikum? Hver er reynslan af því skipulagi sem fylgt hefur verið í New Brunswick undanfarin ár, hafa einhverjir þættir verið teknir til endurskoðunar? Hvernig er háttað símenntun kennara? Hvernig er starfslið skóla samansett? Er áhersla á að ráða til starfa fólk með aðra sérfræðiþekkingu til samstarfs með kennurum? Eru stuðningsfulltrúar starfandi eða ígildi þeirra? Ef svo er, hver er menntun þeirra, verksvið og ábyrgð? Hvernig er ráðgjöf til kennara háttað? Hvar eru kennsluráðgjafar staðsettir (í samanburði við hverfavæðingu hér)? 6

7 II. Skóli án aðgreiningar og skipulag fræðslumála í New Brunswick Fylkisstjórinn hefur sett menntun efst á listann yfir forgangsverkefni fylkisins. Undir menntamálaráðherra fylkisins eru 14 skólasvæði (Districts). Í hverju þeirra er fræðsluráð (Educational Council) og yfirmaður menntamála (Superintendent) ásamt fræðslustjóra (Director of Education). Fræðslustjóri er næsti yfirmaður skólastjóranna á svæðinu, með honum starfa sviðsstjórar (Supervisors) fyrir hvert skólastig barnaskóla (Elementary), miðskóla (Middle) og framhaldsskóla (High) svo og fyrir nemendaþjónustu (Student-Services). Hjá menntamálaráðuneytinu er einnig skólaþróunardeild (Curriculum Development). Heimsókn hópsins haustið 2003 var til skóla í School District 18 sem nær yfir borgina Fredericton og nágrannabyggðir hennar. Þar eru alls 34 skólar; 7 framhaldsskólar (high schools), 9 unglingaskólar (middle schools) og 23 barnaskólar (elementary schools). Á skólasvæðinu eru alls um tólf þúsund nemendur. Um 5% nemenda teljast vera með sérþarfir. Þarna eru engir sérskólar heldur ganga allir nemendur í almenna skóla. Skólarnir þjóna nemendum frá 5-21 árs. Almennt útskrifast nemendur 18 ára úr framhaldsskóla en sækja má um áframhaldandi skólavist til 21 árs fyrir nemendur sem ekki fara í framhaldsnám. Þessi menntun er nemendum að kostnaðarlausu. Erindi á kynningarfundi okkar 28. október innihélt upplýsingar um eftirtalda þætti: Stefna og sýn - Policy and vision Bjargir - Resources Kennaramenntun - Teacher Training Stuðningur samfélagsins - Community Support Stuðningur fræðsluyfirvalda - Department Support Aukin þjónusta við nemendur með hegðunarerfiðleika - Expansion of services for children with behavioural problems. 1. Stefna stjórnvalda í New Brunswick varðandi skóla án aðgreiningar Robert Gerard, deildarstjóri í Menntamálaráðuneyti New Brunswick, kynnti hópnum stefnu stjórnvalda í New Brunswick á sérstökum kynningarfundi: Skóli án aðgreiningar snýst um öll börn og þá sem láta sig hag þeirra varða. Inclusion is about all children and those who care for them, sagði hann. Sýn og meginmarkmið stefnunnar er: Að sérhver nemandi fái að þroska þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að læra alla ævina, að njóta persónulegra hæfileika sinna og að leggja sitt af mörkum til samfélags sem er réttlátt og lýðræðislegt. Framkvæmd stefnunnar birtist í því að börn með sérþarfir (exceptionalities) sækja sinn heimaskóla og sitja í bekk með jafnöldrum í skóla án aðgreiningar en það er talinn ómissandi þáttur í nærsamfélaginu þar sem áhersla er á umhyggju fyrir náunganum og innihaldsríkt líf fyrir alla. Þau sjónarmið sem liggja að baki stefnu um skóla án aðgreiningar eru m.a. að menntun er álitin vera sjálfsagður réttur allra en ekki forréttindi. Af því leiðir að öll börn eiga rétt á að 7

8 sækja sinn heimaskóla, vera í almennum bekk með jafnöldrum og fá viðfangsefni sem eru miðuð við aldur og þroska þeirra. Læknisfræðilegu og greiningarmiðuðu líkani fyrir sérkennslu er hafnað. Kennarar skólanna og sérfræðingar á vegum skólaskrifstofa meta þörf hvers einstaklings fyrir stuðning í skólastarfi svo að hann megi taka þátt í skólastarfinu á sínum forsendum. Stuðst er við mat og skýrslur frá sérfræðingum úr heilbrigðiskerfinu við að meta stöðu hvers einstaklings og gera áætlanir um nám í samræmi við þarfir hans. Lögð er áhersla á að útvega nemendum þær bjargir sem þeir þurfa til að stunda nám sitt. Aðskilnaði og stimplun (stigmatizing) er hafnað. Börn með sérþarfir eru þátttakendur í almennu skólastarfi eftir því sem þau ráða við. Unnið er út frá styrk hvers og eins í stað þess að líta stöðugt á veikar hliðar nemandans. Kröfur um skóla án aðgreiningar komu bæði frá foreldrum og fagfólki. Rannsóknir sýna að blöndun hefur ekki hamlandi áhrif á bestu nemendurna heldur hefur jákvæð áhrif á slakari nemendur, sagði Robert Gerard. Rannsóknir og þróun starfsaðferða hafa vikið til hliðar aðskilnaðarstefnu hefðbundinnar sérkennslu að mati skólamanna í fylkinu. Stjórnmálamenn hafa stutt við skóla án aðgreiningar með stefnumörkun og fjárveitingum. Stoðir undir skóla án aðgreiningar: Lög og reglugerðir sem stuðla að og styðja við blöndun. Árið 1986 gengu í gildi lög í New Brunswick sem kveða á um að skólanefndir í fylkinu séu ábyrgar fyrir menntun allra barna í fylkinu. Samkvæmt þeim lögum eiga námstilboð að taka mið af þörfum allra barna og börn með sérþarfir eiga rétt á að sækja almenna bekki. Skýr sýn stjórnenda á öllum stigum með sérstaka áherslu á skólastjóra grunnskólanna. Símenntun skólastjórnenda var t.d. talin lykilatriði við að innleiða breyttar áherslur í skólastarfinu. Vinnubrögð skóla og kennara sem gera þátttöku barna með sérþarfir í almennu skólastarfi æskilega og framkvæmanlega. Kennsluaðferðir sem stuðla að vexti og þroska fyrir alla. 8

9 Markmiðið er að hver skóli leggi metnað sinn í að verða fær um að sjá sérhverju barni í hverfinu fyrir menntun. Sérhvert barn er velkomið í sinn heimaskóla. Sérhvert barn hefur hag af þeirri félagslegu og námslegu örvun sem er fólgin í því að sækja menntun með jafnöldrum. Sérhver skóli þróar eigin vinnuaðferðir til að styðja þessa nálgun í verki. Viðhorf skólasamfélagsins: Öll börn geta lært. Öll börn sækja heimaskóla og eru í bekk með jafnöldrum. Öll börn fá námstækifæri við hæfi. Öll börn fá námsefni við hæfi. Öll börn geta tekið þátt í samstarfi og tómstundastarfi. Öll börn hafa hag af samstarfi heimilis, skóla og samfélagsins. Skóli án aðgreiningar fjallar fyrst og fremst um viðhorf og skoðanir, sagði Robert Gerard í kynningu sinni fyrir hópinn. Ofangreind upptalning ber þess skýr merki að viðhorf þeirra sem að skólamálum koma í New Brunswick miðast við að grunnskólinn sé fyrir öll börn, óháð getu þeirra, þroska eða fötlun. Viðhorf skólayfirvalda í New Brunswick endurspeglast líka í viðhorfum starfsmannanna til hefðbundinna sérskóla: In the long run separate schools cannot move. You build up dependency with those who attend those schools Þegar til lengdar lætur þróast sérskólar ekki. Nemendur sérskóla læra að vera öðrum háðir, voru orð Roberts Gerard. Lykilatriði sem hafa stuðlað að því að blöndun hefur tekist í New Brunswick: Öll börn eiga rétt á að sækja almenna bekki og að taka virkan þátt í skólastarfinu. Börn fá þann stuðning sem þau þurfa til að stunda nám í sínum heimaskóla og vera virkir þátttakendur í almennum bekkjum. Litið er til þess hvað börn geta fremur en hvað þau geta ekki. Viðurkenning og skilningur á því að ekki þurfa öll börn að hafa sömu markmið að leiðarljósi til að stunda saman nám í almennum bekkjardeildum. Styrk stjórn skóla og sveitarfélaga. Áhersla er á nám einstaklingsins og árangur hans. Kennarar og skólafólk öðlast nýja sýn á hlutverk sitt. 2. Hlutverk skólaskrifstofu og skólayfirvalda Það sem m.a. rennir stoðum undir skóla án aðgreiningar í New Brunswick er að hlutverk og ábyrgð allra þeirra aðila sem að skólamálum koma er mjög skýrt dregið fram og hvernig þeir eiga að tryggja jafnan rétt allra nemenda til að fá menntun sem hæfir þroska þeirra og færni. Er það gert m.a. til að skilgreina lagalega ábyrgð hvers aðila. Menntamálaráðuneytið (Department of Education) ber ábyrgð á að móta stefnu fylkisins varðandi skóla fyrir alla. Það á einnig að gefa út leiðbeiningar og eyðublöð til að nota við að vinna og skrá kennsluáætlanir, þjónustu og mat á námstilboðum og þjónustu í skólakerfi fylkisins. Yfirmenn fræðslumála/fræðslustjórar (Superintendents and Directors of Education) hafa vald til að ákveða hvernig sérþarfir nemenda eru skilgreindar. Þeir hafa einnig vald til að taka ákvarðanir um skólavist nemenda og hvers konar þjónustu þeir eiga rétt á. Þeir bera enn 9

10 fremur endanlega ábyrgð á að tryggja að nemendur með sérþarfir fái bestu fáanlega menntun, stuðning í námi og þjónustu sem völ er á. Stjórnendur skólaskrifstofa eiga að vinna í samráði við skólanefndir og samfélagið til að tryggja að stefnu yfirvalda um jafnræði og skóla fyrir alla sé framfylgt. Þeir eiga að hafa miklar væntingar til starfsmanna skólasamfélagsins og stuðla að nýbreytni á sviði skóla án aðgreiningar og skóla fyrir alla. (New Brunswick Department of Education, 1994) Hvert skólasvæði getur haft eigin ferla til að ákveða hvernig sérþarfir barna eru skilgreindar, hvernig einstaklingsnámskrár eru gerðar, hvernig mat á námsframvindu fer fram og hvernig námstilboð og þjónusta fyrir nemendur með sérþarfir eru metin. Öll skólasvæði verða að fylgja lögunum en hafa ákveðið svigrúm til að útfæra ákvæði laganna. (New Brunswick Associaton for Community Living, 2000:26) Einnig er gert ráð fyrir að á vegum skólasvæða séu starfandi nemendaþjónustuteymi (Student Services Teams) sem funda reglulega til að fjalla um námstilboð og þjónustu barna með sérþarfir á hverju skólasvæði. Í teyminu eiga að sitja umsjónarmaður með námstilboðum og þjónustu fyrir börn með sérþarfir, ráðgjafar skólaskrifstofu, sérkennsluráðgjafar (district resource teachers), skólasálfræðingar, atferlisþjálfar, talmeinafræðingar og aðrir sérfræðingar sem koma að þjónustu á vegum skólasvæðisins. Hvert svæði setur saman teymi eftir aðstæðum hverju sinni. Reglulegir fundir eru til að tryggja virkni teymisins. (New Brunswick Department of Education, 2002a) Gert er ráð fyrir að yfirmenn fræðslumála eða fræðslustjórar á hverju skólasvæði tilnefni einn eða fleiri úr starfsliði sínu (Student Services Supervisors) til að hafa umsjón með þeim námstilboðum og þjónustu sem börn með sérþarfir þurfa á að halda í skólunum. Umsjónarmenn nemendaþjónustunnar bera ábyrgð á að tryggja að starfsmenn skólanna fylgi því áætlanaferli og þeim skráningarleiðbeiningum sem ætlast er til að höfð séu til hliðsjónar við gerð einstaklingsnámskráa. Skólaskrifstofur eiga enn fremur að tryggja að meðferð og varðveisla einstaklingsnámskráa sé í samræmi við reglur fylkisins um meðferð slíkra gagna. Skólaskrifstofum ber að nota skýra ferla við að skipuleggja og fylgjast með námstilboðum og þjónustu fyrir börn með sérþarfir sem veitt er í skólum á hverju skólasvæði og hafa nemendur, foreldra, kennara, skólastjórnendur og fulltrúa frá samfélaginu með í gerð ferlanna og eftirfylgd með þeim. Umfjöllun um skóla án aðgreiningar á að ná út í samfélagið allt því skólaskrifstofum ber að halda reglulega almenna fundi til að stuðla að þátttöku samfélagsins og auka stuðning þess við að framfylgja stefnu sinni um skóla fyrir alla. (New Brunswick Department of Education, 1994) Þeir sérfræðingar sem starfa á vegum skólaskrifstofu Fredericton, og kennarar og skólar hafa aðgang að, eru einn sjúkraþjálfari, tveir iðjuþjálfar og fjórir talmeinafræðingar. Að auki eru eftirlitsaðilar (supervisors) og kennsluráðgjafar aðallega í lestri og stærðfræði. Skólaskrifstofur hafa samráð og samstarf við skólana á sínu svæði til að tryggja að námstilboð og þjónusta við nemendur þjóni þörfum kennara og nemenda og sé réttlátlega skipt. Samvinna og samráð milli skólaskrifstofa og skólanna í viðkomandi skólahverfi á að tryggja að utanaðkomandi stuðningur eða sérfræðiaðstoð þjóni sértækum þörfum nemenda. Skólaskrifstofur eiga einnig að gæta hags allra nemenda sem eiga á hættu að falla brott úr skóla. Skólaskrifstofur eiga að standa menntamálaráðuneyti, foreldrum og almenningi skil á því að námstilboð og þjónusta við börn með sérþarfir skili tilætluðum árangri og eiga að hafa áætlun 10

11 um að meta árangur og skila niðurstöðum úr því mati á þriggja til fimm ára fresti. (New Brunswick Department of Education, 1994:6) Skólaskrifstofur leggja árlega fyrir formlegt mat til að tryggja að námsáætlanir og kennsluaðferðir fyrir nemendur með sérþarfir séu að skila tilætluðum árangri og til að móta markmið í umbótaáætlun fyrir næsta ár. (New Brunswick Department of Education, 2002a:13) Skólaskrifstofur eiga að hafa umbótaáætlun sem segir til um hvernig skuli þróa og bæta námstilboð og þjónustu við börn með sérþarfir. Umbótaáætlunin á einnig að ná til símenntunar starfsmanna skólavæðisins og skólanna á viðkomandi svæði. (New Brunswick Department of Education, 1994:6) Skólaskrifstofur eiga að skilgreina hlutverk og ábyrgð sérkennara (resource teachers) í hverju skólahverfi sem starfi í samræmi við stefnu og vinnureglur hvers skólahverfis. (New Brunswick Department of Education, 2002a:13) Skólaskrifstofur bera ábyrgð á að skipuleggja símenntun fyrir kennara og aðra starfsmenn skólanna á viðkomandi skólasvæði til að tryggja sameiginlegan skilning og þekkingu á þeim ferlum og vinnureglum sem notast er við á viðkomandi skólasvæði við að þróa, framkvæma og meta einstaklingsnámskrár. (New Brunswick Department of Education, 2002a:13) 11

12 III. Það sem helst styður skóla án aðgreiningar í verki (Best Practises for Inclusion) Árið 2002 gaf menntamálaráðuneyti New Brunswick úr leiðbeiningaritið Guidelines and Standards, Educational Planning for Students with Exceptionalities (New Brunswick Department of Education, 2002a) um hvernig beri að standa að skipulagningu og námi nemenda með sérþarfir í skólakerfinu. Í ritinu eru hlutverk og ábyrgð allra samstarfsaðilanna í skólasamfélaginu skilgreind og bent á að þeir geti verið kallaðir til lagalegrar ábyrgðar og að einstaklingsnámskrár hafi verið notaðar sem gögn í málaferlum. Á árunum fór fram mat á hvernig til hefði tekist við að innleiða í skólum í New Brunswick þá stefnu sem fram kemur í lögunum frá 1986 um skóla án aðgreiningar. Skólasvæðin söfnuðu saman upplýsingum um stefnu, námstilboð og kennsluaðferðir sem best stuðluðu að skóla fyrir alla. Þessar upplýsingar urðu grunnur að bæklingi sem kallaður er Best Practises for Inclusion en þar eru tekin saman þau meginatriði sem helst eru talin stuðla að og styðja við skóla án aðgreiningar. Bæklingurinn var síðan gefinn út árið 1994 og er að sögn skólamanna einn af helstu leiðarvísum skólafólks um hvernig best sé að tryggja þátttöku allra barna í skólastarfinu. Námsumhverfið. Kennarar vænta mikils af öllum nemendum sínum og skipuleggja námstilboð þar sem allir geta tekið þátt í því sem fram fer á sínum forsendum. Öllum börnum er tryggt aðgengi að skólahúsnæðinu. Stefna skólanna, námstilboð og starfsaðferðir tryggja jafnan rétt allra nemenda til þátttöku í skólastarfinu. Samstarf varðandi skipulagningu og ráðgjöf. Skólasvæðum ber að móta skýra ferla um gerð áætlana og umsjón með námstilboðum og þjónustu við nemendur og hafa nemendur, foreldra, kennara, stjórnendur og fulltrúa samfélagsins með í ráðum við að móta þessa ferla. Starfsmenn skólaskrifstofa funda með fulltrúum skólanna til að tryggja að námstilboð og þjónusta komi til móts við þarfir einstakra skóla og nemenda. Stuðningsteymi í skólunum og samstarf allra fagaðila í skólasamfélaginu á að tryggja að fjármunum sé ráðstafað til þeirra sem þurfa mest á þjónustunni að halda. Um nemendaverndarráð í skólunum (School based student services team) sagði Robert Gerard: Það besta sem hefur gerst í skólunum okkar í mörg ár. Stjórnun. Hlutverk og ábyrgð hvers stjórnunarstigs í skólakerfinu við að tryggja framgang stefnu um skóla án aðgreiningar eru mjög skýrt dregin fram. Í ritinu Guidelines and Standards - Educational Planning for Students with Exceptionalities eru hlutverk og verksvið fræðslustjóra, umsjónarmanna nemendaþjónustu á skólaskrifstofum, nemendaþjónustuteymis, skólastjóra, nemendaverndarráðs og sérkennara (resource teachers) dregin fram. Þetta rit er eins konar leiðarvísir um hvernig beri að standa að blöndun í skólastarfinu. Áhersla er á virkt samstarf skólaskrifstofa og starfsmanna skólanna og að frumkvæði og sérfræðileg þekking starfsmanna skólaskrifstofanna nýtist skólunum í verki. Stjórnendur skipta sköpum á öllum stigum sérstaklega í grunnskólanum. Áhersla er á mikilvægi umsjónarkennarans og skólastjórans, Það verða að vera skólastjórinn og kennararnir sem vinna saman að því að láta hlutina ganga, sagði Robert Gerard í viðtali við hópinn. Félagsleg ábyrgð. Áhersla er á að auka félagslega ábyrgð allra nemenda m.a. með sjálfboðaliðastarfi og þátttöku í nemendaráðum skólanna. Námsaðstæður sem kenna nemendum að meta fjölbreytileika mannslífsins og aðgangur allra nemenda að félags- og tómstundastarfi styðja einnig við samábyrgð nemenda gagnvart öllum í skólasamfélaginu. New Brunswick hefur haft mikinn hag af blönduninni vinsamlegra og betra samfélag hefur skapast að mati Roberts Gerard. Skipulagning og framkvæmd kennslunnar. Einstaklingsnámskrár taka mið af andlegum, félagslegum og líkamlegum þroska nemenda með sérþarfir og eru gerðar með þátttöku nemenda, kennara og foreldra. Tekið er mið af sterkum og veikum hliðum og þörfum ólíkra einstaklinga við gerð einstaklingsnámskrár, framkvæmd hennar og mat á námsframvindu. Gengið er út frá aldri nemenda við val á viðfangsefnum og kennsluaðstæðum. Bæði bráðgerir nemendur og hægfara nemendur verða að fá áskorun og ögrun í skólastarfinu. Við verðum að hafa miklar væntingar til allra barna án tillits til færni þeirra eða getu, sagði einn skólamaðurinn. 12

13 Stuðningsþjónusta. Áhersla er á samstarf innan skóla og milli skóla við gerð kennsluáætlana og þegar ákvarðanir eru teknar um stuðning við einstaka kennara eða nemendur. Stuðningsteymi fræðsluumdæmanna, sérkennarar og námsráðgjafar gegna þar veigamiklu hlutverki. Kennsluaðferðir. Fjölbreyttar kennsluaðferðir eru lykillinn að því að koma til móts við þarfir allra nemenda. Fjölþrepa kennsla er eitt af fimm mikilvægustu atriðunum sem Robert Gerard nefndi að styddu við skólastarfið í New Brunswick. Reglulegt námsmat og miðlun upplýsinga um niðurstöður er einnig mikilvægur liður í matsferlinu. Ákvarðanir um staðsetningu og tilfærslur í skólakerfinu. Þegar nemendur með sérþarfir hefja skólagöngu eða flytjast milli skóla vinnur skólafólk, foreldrar, heilbrigðisyfirvöld og aðrir að því að gera flutninginn sem auðveldastan fyrir viðkomandi nemanda. Sama á við þegar nemandi með sérþarfir fer í framhaldsskóla eða þegar hann lýkur framhaldsnámi og fer út á vinnumarkaðinn. Skólar sjá um að kynna nemendum með sérþarfir þá möguleika sem þeim standa til boða að loknu grunnskólanámi. Samstarf skóla, heimilis og samfélagsins. Skólar gefa foreldrum tækifæri til að taka virkan þátt í samstarfshópum sem gera áætlanir um nám og kennslu, taka ákvarðanir um framkvæmd og tryggja rétt nemenda með sérþarfir. Skólar hafa samráð við nemendur, foreldra, sjálfboðaliða, stuðningsaðila, starfsmenn skólaskrifstofa og aðra úr skólasamfélaginu. Nýbreytni, skólaþróun og símenntun. Skólaskrifstofur gera áætlanir sem miða að stöðugri þróun kennsluhátta og þjónustu við börn með sérþarfir. Símenntunaráætlanir skólaskrifstofa og einstakra skóla taka mið af sama markmiði. Kennarar og aðrir starfsmenn skólanna leita eftir möguleikum til að auka þekkingu sína og færni á þessu sviði og sækja námskeið og fræðslufundi til að efla faglega þekkingu á þeim sviðum sem nemendahópurinn þarfnast hverju sinni. Robert Gerard nefndi starfsþróun sem einn af fimm mikilvægustu þáttunum sem styðja við skólastarfið í New Brunswick. Ábyrgð fræðsluskrifstofa og skólanna á að skila árangursríkri kennslu og þjónustu er skýrt dregin fram. Árangur starfsins er metinn og niðurstöður nýttar til að þróa áfram nám og kennslu í skóla án aðgreiningar. Þessi bæklingur var lauslega þýddur og birtur í skýrslu um ferð skólastjóra, fulltrúa fræðsluráðs og Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur til New Brunswick árið 2000 sem ber yfirskriftina Aðgát skal höfð í nærveru sálar. (Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2000;56-60) Í nýju verkefni sem fræðsluskrifstofan gengst fyrir hafa verið ráðnir sex hegðunarráðgjafar sem fara á milli skóla. Hlutverk þeirra er m.a. að vinna gegn einelti. Gerð hefur verið teiknimyndin Bully Dance til að vekja athygli á því vandamáli sem einelti er. Þá mynd og fleiri teiknimyndir sem hægt er að nota til að efla félagsfærni nemenda er að finna á vefslóðinni 13

14 IV. Helstu þættir í skóla án aðgreiningar Í heimsókninni til New Brunswick varð hópurinn margs vísari um framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar bæði í formlegum kynningum, í viðtölum við þá sem tóku á móti hópnum á skólaskrifstofunni og í þeim skólum sem voru heimsóttir. Einnig fékk hópurinn mikið magn af bæklingum og heftum og hver og einn þátttakandi fékk eintak af bókinni Achieving Inclusion: A Parent Guide to Inclusive Education in New Brunswick sem víða er vísað til. 1. Viðhorf Bekkjarkennarar eða sérgreinakennarar eru taldir vera lykilpersónur við framkvæmd stefnunnar um skóla fyrir alla. (New Brunswick Associaton for Community Living, 2000:71) Hópurinn sá og heyrði víða í heimsókninni að kennarinn er álitinn sérfræðingur og fagmaður og nýtur virðingar sem slíkur. Viðhorf kennara og starfsaðferðir skiptir sköpum við að tryggja þátttöku allra nemenda í skólastarfinu. Allir þeir sem hópurinn ræddi við tóku undir þetta sjónarmið. Blöndun fjallar fyrst og fremst um viðhorf og skoðanir, sagði Robert Gerard. Steve Pierce, skólastjóri New Maryland Elementary School, hefur starfað að skólamálum á þriðja áratug og tekið þátt í þeim breytingum sem gerðar voru þegar blöndunin var innleidd. Hann tók undir mikilvægi viðhorfa kennaranna og sagði kennara trúa að almenni skólinn sé rétti staðurinn fyrir börnin að vera á. Hann taldi ekki að New Brunswick hyrfi nokkurn tíma aftur til tíma sérskólanna. Hann sagði enn fremur að þegar þeir starfshættir sem blöndunin krefst væru teknir upp nýttust þeir öllum nemendum skólans því að þá væri nauðsynlegt að líta til þarfa hvers og eins og byggja á styrk nemendanna. Viðhorf skólastjórnenda skiptir líka miklu máli þegar rætt er um kennslu barna með sérþarfir í almennum grunnskóla. Skólastjórinn og kennararnir verða að vinna saman að því að láta hlutina ganga, sagði Robert Gerard, deildarstjóri í menntamálaráðuneyti New Brunswick. 2. Leiðarljós fyrir kennara (Best Practices for Inclusion) Yfirvöld menntamála í New Brunswick hafa tekið saman leiðarljós varðandi skóla fyrir alla sem kallast Best practices for Inclusion. (New Brunswick Department of Education, 1994) Þar er hlutverk kennara dregið mjög skýrt fram: Kennarar hafa miklar væntingar til allra nemenda. Kennarar gefa öllum nemendum tækifæri til að taka virkan þátt í viðfangsefnum skólastarfsins. Kennarar gefa öllum nemendum námstækifæri við hæfi. Kennarar ætlast við að allir nemendur beri virðingu fyrir námi annarra. Kennarar sjá til þess að skólastofurnar séu öruggar og vel skipulagðar. Í handbók fyrir foreldra, Achieving Inclusion, A Parent Guide to Inclusive Education in New Brunswick (New Brunswick Associaton for Community Living, 2000) er sett fram sú skoðun að skólar verði án aðgreiningar í raun ef kennarar kunna að: Skapa andrúmsloft þar sem allir tilheyra hópnum án tillits til færni og getu einstaklinga. Breyta kennsluaðferðum og aðlaga viðfangsefni og námsefni eftir aðstæðum og þörfum til að tryggja að allir nemendur nái árangri. Hjálpa börnunum í bekkjum sínum að viðurkenna sérstöðu annarra. Hjálpa börnum til að finna leiðir til að styðja þá sem þurfa aðstoð. Taka ábyrgð á menntun allra barnanna í bekknum. 14

15 Kennurum er því greinilega lögð mikil ábyrgð á herðar. Þeir eiga að skapa bekkjaranda sem lætur alla nemendur finna að þeir séu velkomnir og jafngildir í hópnum. Þeir eiga að hafa kennsluaðferðir og námsefni á takteinum við hæfi hvers og eins. Þeir eiga að aðstoða nemendur við að viðurkenna sérstöðu annarra nemenda og hjálpa nemendum til að styðja og leiða hver annan ásamt því að taka ábyrgð á að koma öllum börnum í bekknum til nokkurs þroska. 3. Hlutverk bekkjarkennara gagnvart börnum með sérþarfir Í New Brunswick eru kennarar virkir þátttakendur í að skipuleggja og fylgjast með verkefnum og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir. (New Brunswick Department of Education, 1994:2)Yfirvöld menntamála í New Brunswick hafa mótað mjög skýra stefnu um það hvert sé hlutverk umsjónarkennara í því að sinna börnum með sérþarfir í skólastarfinu og hafa sett fram eftirfarandi lista: Vinna með sérkennara (resource teacher) og foreldrum að því að þróa, framfylgja og meta einstaklingsnámskrár fyrir nemendur með sérþarfir í bekknum. Tryggja að aðferðum, leiðum (strategies), verkefnum og mati sem skráð er í einstaklingsnámskrá sé framfylgt til samræmis við námskrána sjálfa. Taka þátt í að meta árangur/niðurstöður einstaklingsnámskrár. Nota einstaklingsmiðaða eða þrepamiðaða kennslu í bekknum til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Auka þekkingu sína á málefnum sem tengjast því að kenna nemendum með sérþarfir. (New Brunswick Department of Education, 2002a:14) Í viðtölum við kennara og stjórnendur þeirra skóla sem heimsóttir voru kom fram að ofangreind áhersla er í verki í raun. Ákvarðanir um sérkennslu eru teknar í samráði umsjónarkennara, foreldra, viðeigandi sérfræðinga t.d. sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sjónfræðings, heyrnar- og talmeinafræðings, og sérfræðings frá skólaskrifstofu. Þeir sérkennarar sem rætt var við staðfestu að bekkjarkennarar tækju meginábyrgð á að gera einstaklingsnámskrár með aðstoð sérkennara og foreldrum. Þá er m.a. stuðst við matsskýrslur sérfræðinga, s.s. sálfræðinga. Bekkjarkennarar bera ábyrgð á framkvæmd einstaklingsnámskrár, að skipuleggja einstök verkefni, daga og vikur, en aðstoðarmenn kennara eru þeim til aðstoðar. Kennarar taka fullan þátt í að meta árangur og niðurstöður einstaklingsnámskrár. Einstaklingsnámskrár eru endurskoðaðar þrisvar á ári. Þeir kennarar sem rætt var við töldu flestir að árangursríkasta leiðin til að koma til móts við alla nemendur í skólastofunni væri að nota heildstæðar kennsluaðferðir og verkstæði eða vinnusvæði (hringekju). Þeir kennarar sem rætt var við höfðu gjarnan sótt námskeið og fræðslufundi innan skóla og utan til að auka þekkingu sína á málefnum nemenda með sérþarfir og t.d. sótt sumarnámskeið um þær sérþarfir sem væntanlegir nemendur þeirra höfðu. Umsjónarkennarinn sér um að gera kennsluáætlanir fyrir bekkinn og einstaklinga innan hópsins en einstaklingsnámskrár eru gerðar í samráði við foreldra, sérkennara og aðra sérfræðinga. Foreldrar koma að gerð einstaklingsnámskráa með því að gefa upplýsingar og samþykki þeirra þarf til þess að unnið sé eftir einstaklingsnámskrá. Sálfræðingar vinna með kennurum að framkvæmd og skipulagningu kennslunnar en ekki við einstaklingsgreiningar. Deildarstjóri sérkennslunnar í hverjum skóla hefur yfirumsjón með gerð námsáætlana fyrir þá nemendur sem ekki fylgja hjálparlaust námskrá bekkjarins. Í kynningarriti fyrir foreldra eru talin upp helstu verkefni umsjónarkennara og eru þau í fullu samræmi við það sem að ofan greinir: Kennsluáætlanir fyrir hópinn og einstaka nemendur. 15

16 Einstaklingsnámskrár fyrir nemendur með sérþarfir í samstarfi við foreldra og aðra. Hrinda einstaklingsnámskrá í framkvæmd. Meta og skrá framfarir nemenda. Samskipti við foreldra. Samræma áherslur og hafa umsjón með aðstoðarmönnum kennara. (New Brunswick Associaton for Community Living, 2000:73) Ein af þeim spurningum sem hópurinn leitaði svara við var hvernig komið væri til móts við þarfir fatlaðra nemenda í skólastarfinu. Í máli þeirra sem rætt var við í ferðinni kom fram að í skólum New Brunswick er alltaf leitast við að fatlaðir nemendur séu sem mest inni í almennum bekkjum og taki þátt í því sem fram fer á sínum forsendum. Við sáum mörg dæmi þess að nemendur með verulegar sérþarfir voru viðstaddir og tóku þátt í almennu bekkjarstarfi en þurftu t.d. sérstakan útbúnað; heyrnarskertir nemendur með FM-tæki eða hreyfihamlaðir nemendur í hjólastólum eða með þann útbúnað sem þeir þurftu. Nemendur með ýmis konar þroskafrávik voru einnig hluti af almennum bekkjum og tóku þátt í bekkjarstarfinu en voru oft að vinna með aðra námsþætti en flest börnin í bekknum. Þó sáum við einnig nokkur dæmi um fatlaða nemendur sem voru mjög lítið inni í almennum bekkjum. Fjölfatlaða stúlkan sem er lítil eftir aldri, situr fremst í stofunni ásamt aðstoðarkonu sinni og þær halla sér hvor upp að annarri. Aðstoðarkonan útskýrir og endurtekur fyrir hana það sem fram fer. Hennar framlag í tímanum var að svara einföldum spurningum kennarans um Hrekkjavvöku. (Leo Hayes High School) Tónlistartími 18 ára nemendur. Hluti af hópnum fylgdist með tónlistartíma þar sem fram fóru kynningar. Kennslan fór fram í mjög stórri stofu sem var tvískipt. Borð með hljómborðum var öðru megin í stofunni en sæti hinum megin á pöllum. Ekki voru mörg hljóðfæri sjáanleg. Í stofunni var upptökubúr eða diskóbúr og píanó. 16

17 Tónlist hljómaði undir. Nemendur lásu texta og lýstu því sem þau sjá fyrir sér þegar tónlistin hljómaði undir. Þeir áttu að teikna tákn fyrir tónlistina (rythmann). Einn úr hópnum fylgdist með Chloe og aðstoðarmanni hennar í tónlistartímanum. Chloe er í hjólastól. Chloe hlustaði á tónlistina og hafði greinilega gaman af. Tónlistartímarnir eru uppáhalds tímar hennar. Chloe tjáir sig ekki að öðru leyti en því að hún gefur frá sér hljóð. Unnið er með að fá hana til að klappa í takt við tónlistina og hafa ekki truflandi áhrif á hópinn. Einnig að benda henni á það sem er að gerast og fá hana til að fylgjast með. Tónlistarkennarinn hafði engin afskipti af Chole eða aðstoðarmanninum. Sá var ekki með neitt skipulag yfir kennsluna í höndum frá kennaranum. (Leo Hayes High School). 4. Kennsluáætlanir og framkvæmd Sérkennslustefna fylkisins gerir ráð fyrir þrenns konar sérkennsluáætlunum: Aðlögun vegna aðgengis eða aðstæðna (accommodation). Þá er um að ræða nemendur sem þurfa sérstakan búnað eða bjargir til að geta fylgt námskrá bekkjarins. Sem dæmi má nefna búnað vegna heyrnarskerðingar eða hreyfihömlunar. Aðlögun í einstökum námsgreinum (modification) þegar nemandi getur ekki fylgt námskrá bekkjarins í einstökum námsgreinum s.s. sérkennsla í lestri eða stærðfræði. Einstaklingsnámskrá sem gerðar eru fyrir þá nemendur með verulegar sérþarfir sem gerir kröfur um aðlögun í öllu skólastarfi (individualized/modified plan). Menntamálaráðuneytið hefur síðan gefið út hefti með þeim eyðublöðum sem á að nota við gerð sérkennsluáætlana ásamt leiðbeiningum um hvernig beri að haga áætlanagerðinni - Guidelines and Standards, Educational Planning for Students With Exceptionalities. Í máli þeirra sérkennara sem rætt var við í ferðinni kom mjög skýrt fram að þeir fóru í einu og öllu eftir þeim leiðbeiningum og tilmælum sem þarna koma fram og flestir höfðu undir höndum snjáð og notuð eintök af þessu hefti. Um undirbúning og framkvæmd kennslunnar er m.a. fjallað í handbók fyrir foreldra, Achieving Inclusion, A Parent Guide to Inclusive Education in New Brunswick ( New Brunswick Associaton for Community Living, 2000). Þar kemur fram mjög skýr áhersla um hlut foreldra í gerð einstaklingsnámskráa og að taka eigi mið af aldri og þroska allra nemenda: Kennarar virkja nemendur og foreldra í að skipuleggja og framkvæma námskrár sem taka mið af vitsmunalegum, félagslegum, tilfinningalegum og líkamlegum þroska nemenda með sérþarfir. Kennara taka mið af mismunandi styrk og þörfum nemenda þegar þeir skipuleggja skólastarf, hrinda því í framkvæmd og meta. Kennarar nota viðfangsefni, námsefni og aðstæður sem hæfa aldri einstaklinganna. (sama:137) Sama áhersla kemur fram í stefnu skólayfirvalda um fjölbreyttar kennsluaðferðir, mismunandi samsetningu námshópa og fjölbreytt og reglulegt námsmat. 17

18 Bekkjarkennarar nota fjölbreyttar kennsluaðferðir og aðferðir við námsmat til að mæta mismunandi námsstíl nemenda. Bekkjarkennarar nota fjölbreyttar aðferðir við að blanda nemendum í námshópa til að tryggja að nemendur með sérþarfir taki virkan þátt í starfi bekkjarins. Bekkjarkennarar tryggja að nám nemenda sé metið reglulega og bjóða reglulega endurgjöf sem er hluti af símati. (New Brunswick Department of Education, 1994:5) 5. Kennsluaðferðir í skóla án aðgreiningar Í heimsókn hópsins kom víða mjög skýrt fram að umsjónarkennararnir eru lykilpersónur í að skapa aðstæður fyrir einstaklingsmiðað nám. Kennarar sérhæfa sig gjarnan í að kenna ákveðnum aldurshópi í stað þess að fylgja bekkjum eins og algengt er í skólum hér á landi. Athygli vakti að fyrirmæli kennaranna voru alltaf mjög skýr, gjarnan skráð á töflu eða gerð sýnileg með öðrum hætti og markmiðin með vinnu nemenda hverju sinni voru oftast skráð eða sýnileg. Mat á verkefnum var einnig mjög skýrt og nemendur vissu fyrir fram hvaða þætti ætti að meta og hvernig. Hópnum fannst áberandi hve mat á stöðu nemenda virtist byggt á sterkum forsendum og viðfangsefnin við hæfi bæði formleg og óformleg. Hópurinn fylgdist með getublönduðum hóp í móðurmálsnámi í 1. bekk. 6 nemendur í hópnum voru læsir og sjálfbjarga en breiddin í hópnum var mikil og allt niður í mjög getulitla. Markviss vinna var í gangi þar sem kennarinn fylgdist með hverjum einum. Innlögn og verkefnavinna voru í góðu flæði. Kennarinn virtist mjög meðvitaður um stöðu hvers og eins og verkstýrði líka aðstoðarmanni sínum. (Priestman Street Elementary School) Í handbók fyrir foreldra er lýsing á þeim kennsluaðferðum sem kennarar geta beitt til að tryggja sem bestan árangur í að koma til móts við þarfir allra nemenda í hópnum. Þar er m.a. bent á eftirtalin atriði: Uppröðun í kennslustofu; í stað raða er borðum raðað á þann hátt sem hentar og hvetur til samskipta og samvinnu t.d. skipað í hring. Samvinna nemenda; litlir hópar, viðfangsefni sem krefjast samvinnu, hver nemandi hefur hlutverk, markmið fyrir nemendur með sérþarfir samkvæmt einstaklingsnámskrá. Viðfangsefni byggð á reynslu nemenda; hlutverkaleikur, frásagnir, líkanagerð, teikning og notkun upplýsinga- og tæknimenntar, verkleg vinna. Þemaverkefni; þátttakendur með sérþarfir fá önnur markmið, vinna með ákveðna þætti í samstarfi við önnur börn. Jafningjafræðsla og stuðningur; börnin læra hvert af öðru, eldri nemendur hjálpa yngri, nemendum er kennt að hjálpa öðrum, börn eru oft góð í að hjálpa öðrum, gefa nemendum tækifæri til að mynda og þróa tengsl og auka félagsfærni sína. Fjölbreytt námsmat; Moving away from the standard tests for all children ; munnleg skil, kynningar, sýningar, venjulega heppilegra fyrir börn að sýna hvað þau hafa lært. (New Brunswick Associaton for Community Living, 2000:95) Í skólaheimsóknunum mátti víða sjá að kennarar höfðu tileinkað sér þessi vinnubrögð, sérstaklega á yngsta stigi. Kennslustofurnar voru gjarnar skipulagðar í vinnusvæði þar sem möguleikar voru á samvinnu nemenda. Hópurinn var sammála um að í flestum tilvikum var borin mikil virðing fyrir kennaranum og að kennararnir beittu mjög markvissri bekkjarstjórnun, s.s. jákvæðri styrkingu, klöppuðu til að 18

19 ná athygli barnanna, nöfn barnanna voru skrifuð á mislit geometrisk form sem límd voru á gólfið í heimakrók og kennarinn notaði formin til að raða nemendum upp í röð þegar fara átti út úr stofunni í yngri bekkjum. Þegar innlagnir fóru fram var annað hvort allur bekkurinn kallaður saman eða hópnum skipt upp á milli kennara. Ákveðin gildi um samskipti virtust gjarnan vera í heiðri höfð og í einum skólanum voru nöfn nemenda sem höfðu verið tilnefndir fyrir jákvæð samskipti á stórri töflu við inngang skólans. Reglur virtust afar skýrar í hugum allra. Að mati hópsins virtist skólahúsnæði og aðbúnaður oftast lakara en við eigum að venjast í skólum hér heima. En á móti kom að í flestum stofum var mikið af ýmis konar námsgögnum, verkum nemenda, verklýsingum, tilbúnum myndum eða veggspjöldum og fleira sem gerði námsumhverfið meira aðlaðandi. Stofur yngstu barnanna voru þannig skipulagðar að í flestum þeirra var heimakrókur þar sem kennarinn gat talað við allan hópinn í einu, en þegar börnin sátu við borð voru þau oftast í hópum að vinna að ákveðnu verkefni þannig að uppröðun húsgagna virtist hafa námslegan tilgang. Stofur eldri nemenda virtust að öllu jöfnu hafa hefðbundna uppröðun. Sú leið sem töluvert virtist notuð til að miða námið við þarfir einstakra nemenda var stöðvavinna eða hringekja. Nemendur unnu í hópum og gjarnan voru notaðar sjónrænar vísbendingar um hvaða hópur átti að fara í hvaða verkefni. Nemendur voru þá ýmist að vinna við sama viðfangsefnið en á mismunandi hátt í fjölþrepa námi eða vinna við mismunandi viðfangsefni. Hluti verkefna var þá undir leiðsögn en önnur sjálfstýrð. Merki var gefið þegar skipta átti um verkefni með hljóðgjafa t.d. klukku eða bjöllu. Hópurinn heimsótti líka 5 ára bekk (Kindergarten) með 24 nemendum og 2 aðstoðarmönnum auk umsjónarkennarans. Á meðan dvalist var í bekknum var í gangi hringekja eða stöðvavinna. Meðal annars var verið að búa til afmæliskort fyrir nemanda sem átti afmæli. Nemendur áttu að teikna mynd og skrifa Happy Birthday, Han (nafn afmælisbarnsins) from.... Búið var að skrifa á miða Happy Birthday, Han, from til að auðvelda nemendunum vinnuna. (Priestman Street Elementary School) Dæmi um stöðvavinnu: Í stofunni voru 4 þemasvæði þar sem nemendur gátu gengið að verkefnum á svæðunum þegar kennarinn leyfði. Á svæði 1 (borð og sæti fyrir 3) var allt um grasker, þar sem nemendur skoðuðu myndir, teiknuðu/máluðu, sömdu sögur og fl. Svæði 2 (hillur og motta á gólfinu) spil/þrautir, þar var hægt að spila spil, púsla, eða leysa þrautir. Svæði 3 (stór bókahilla og teppi fyrir framan þar sem nemendur unnu liggjandi á gólfinu) lestur/lesvinna, nemendur lásu stuttan texta og svöruðu spurningum í vinnubókina sína. Svæði 4 (segulband, heyrnartól og gólfmotta) þarna gátu nemendur hlustað á sögur, leikrit og tónlist. Að sögn þeirra kennara sem rætt var við eru heildstæð verkefni eða þemaverkefni mikið notuð til að koma til móts við þarfir hvers og eins í skólastofunni. Á þeim tíma sem heimsóknir okkar stóðu yfir var hrekkjavaka á næstu grösum en sú hátíð er mjög spennandi í augum barna. Skólastarfið bar þess skýr merki og víða mátti sjá dæmi þess að kennararnir notuðu tækifærið og komu ýmsu á framfæri í gegnum þemað um hrekkjavökuna. Hvarvetna voru útskorin grasker til skrauts í stofunum og verkefnin tengdust á einn eða annan hátt þessum 19

20 degi. Litlir límmiðar með myndum af graskerjum, nornum og ýmsum verum sem minna á þennan tíma voru notuð í stærðfræðiverkefnum og yngri nemendur unnu ýmis konar myndverk og föndur sem tengdist hrekkjavökunni. Þeir eldri unnu stærðfræðiverkefni um fjölda fræja í graskerjum, bökuðu kökur eða bökur úr graskerjunum, viktuðu, mældu o.fl. Í fimm ára bekk í Priestman Street skólanum voru nemendur t.d. að teikna grasker og áttu að búa til andlit með því að teikna þríhyrninga. Síðan áttu þeir á bakhlið myndarinnar að skrá hve marga þríhyrningar þeir höfðu notað til að búa til andlitið, þar var búið að skrifa: Ég notaði þríhyrninga til að búa til graskerið. Um leið og nemendur teikna grasker sem er eitt af táknum fyrir þennan dag eru nemendur að æfa hugtakið þríhyrningur og telja þríhyrninga. Í öðrum skóla hafði kennarinn hreinsað fræin innan úr graskeri og nemendur áttu að geta sér til um fjölda fræjanna og síðan telja fræin. Þar var verið að kenna börnunum vísindaleg vinnubrögð með því fyrst að setja fram tilgátu og síðan gera stutta könnun til að sannreyna tilgátu sína. Í öðrum skóla, South Devon Elementary School, höfðu kennarar skipulagt vinahópa þar sem öllum skólanum var skipt í fjóra hópa og jafningjavinnu (Peer work) í frímínútum þar sem eldri nemendur hafa umsjón með yngri nemendum, þeir hafa meira að segja sérstaka búninga til aðgreiningar. Kennarar og starfsfólk skólanna leggur sig þannig eftir því að hlutast til um að börnin kenni hvert öðru og aðstoði hvert annað. Úr dagbókum þátttakanda: Hluti hópsins heimsótti 9. bekk þar sem var fötluð stúlka og aðstoðarkona hennar. Í bekknum stóðu yfir verkefnaskil eftir þemaverkefni um hrekkjavöku. Í bekknum eru auk stúlkunnar sex sérkennslunemendur en hún þarf mesta aðstoð og er því með stuðning með sér. Nemendurnir hafa verið að vinna í hópvinnu og valið sér fjölbreyttar leiðir til að skila verkefninu. Markmið með hópastarfinu voru skráð á spjald á vegg einnig námsleiðir og upplýsingar um verkefnaskil. Einn hópur flutti ljóð, annar hópur leikrit og aðrir stuttar lýsingar, allt eftir getu. Nýbúi frá Gambíu kom fram og sagði örstutt frá sinni upplifun af hrekkjavöku en hann kom til landsins fyrir tveimur mánuðum. (Leo Hayes High School) Lífsleiknitími fyrir mjög fatlaða nemendur. Fimm nemendur voru í kennslustundinni og jafn margir aðstoðarmenn kennara. Einn aðstoðarmaðurinn stjórnaði. Nemendur voru að skreyta grasker. Lagt var inn hvaða mánuður væri og hvaða merkisdagur væri fyrir höndum. Einn nemandinn var með þroska á við 18 mán. barn að sögn starfsmanna. Nemendurnir virtust hafa gaman af því sem þeir voru að gera en höfðu jafnvel meiri áhuga á sælgætinu sem þeir áttu að fara að vinna með. (Leo Hayes High School). Kennarar þurfa að skila kennsluáætlunum og gera grein fyrir byrjun og lok kennslustundar. Nemendur fá skýrar leiðbeiningar um hvernig á að vinna verkefni. Klárir verkferlar alls staðar. Fengu einkunnablöð. Átta skref sem kennarar eiga að fara eftir. Getublandaður hópur í móðurmálsnámi, 6 nemendur læsir og sjálfbjarga og allt niður í mjög getulitla. Markviss vinna þar sem kennarinn fylgdist með hverjum einum. Innlögn og verkefnavinna í góðu flæði. Kennarinn meðvitaður um stöðu hvers og eins og stýrði líka aðstoðarmanni sínum. Í öðrum bekk skólabókardæmi um samvinnu kennara og aðstoðarmanna. Eftir innlögn þar sem skýrt var hvað hver og einn átti að 20

21 gera fóru nemendur í hópa og gengu hver að sínu verki. Stofan var vel nýtt, mikið af gögnum og upplýsingum og fyrirmælum á veggjum. Ein kennslustofa bar af, þar var unnið í hópavinnu. Nemendur skiptu með sér verkum, markvisst unnið með stöðvar. Unnið með sjálfsmynd nemenda og félagsfærni (social skills). Bekkjarfundir þar sem einn nemandi stjórnaði fundi. Einu sinni í viku æfð félagshæfni, í þetta skipti hafði nemandinn fundið leik og sögu til að skýra hugtakið sharing. Bréf til foreldra með stafsetningarverkefni nemandans (3. bekkur) til að skýra út verkefnið síðan fyrirmæli til nemandans. Verið að nota hrekkjavöku/grasker í kennslunni, baka og líka að reikna. Þema og heildstæð vinna. Mjög markviss bekkjarstjórnun; jákvæð styrking, kennarar gefa merki til að ná athygli barnanna, hvert barn átti sinn stað í heimakrók sem merktur var á gólfið með geometrískum formum og kennarinn notaði síðan formin til að raða nemendum upp í röð þegar fara átti út úr stofunni. Aðrir voru ekki eins hrifnir af því sem fyrir augu bar: Tveir fatlaðir annar með þroska á við 2ja ára og er aðeins í bekknum nokkrar mínútur á dag en er annars sér. Var í atferlismótun (súkkulaðikúlur sem umbun ef hann gerði það sem hann átti að gera). Aðstaða hans var frekar óvistleg og lítil þar sem hann vann einn með stuðningfulltrúa eftir plani sem sem kemur frá háskólanum. Aðstoðarkennarinn hafði farið í fræðslu vegna nemandans en ekki nám. Eftir hádegi, sveitaskóli, samkennsla árganga, 49 nemendur tveir kennarar, þröngt og illa nýtt rými. Kennslan innlögn og ekki helmingur að hlusta, annar kennarinn óvirkur áhorfandi. Samkennsla vegna trúar á samvinnu í skólastarfi. Börnin þurfa fyrirmyndir. Ef þau eiga að læra að vinna saman þurfa þau að sjá fullorðna vinna saman. Andi samvinnu meðal nemenda. 6. Stuðningur við kennara Kennarar eiga þó ekki að standa einir heldur fá þeir ýmis konar stuðning til að tryggja þátttöku allra barna með sérþarfir. Yfirvöld í hverju skólahverfi hafa samstarf við skóla til að tryggja að verkefni og stoðþjónusta þjóni hagsmunum kennara og nemenda og sé réttlátlega dreift. Áhersla skólasamfélagsins á starfsþróun kennara og símenntun til að styrkja þá í að sinna öllum nemendum skólans styður við kennara til að framfylgja stefnu yfirvalda. Kennarar taka þátt í og geta leitað til lausnateyma í skólum sem hittast reglulega til að meta og forgangsraða þörfum og miðla stuðningi. Stofnun nemendaverndarráða og lausnateyma í skólunum hefur þannig stutt við bakið á kennurum við að tryggja öllum börnum nám við hæfi í skólum New Brunswick. Jafningjastuðningur (peer collaboration) er þannig notaður til að tryggja gagnkvæma aðstoð, faglegan stuðning og til að leita lausna við þeim málum sem upp koma. Kennarar fá líka stuðning frá starfsfólki skólaskrifstofa sem kemur út í skólana til að leiðbeina og aðstoða og frá sérfræðingum á vegum heilbrigðisyfirvalda s.s. sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, heyrnar- og talmeinafræðingum o.fl. 7. Aðstoðarmenn kennara Við flesta skóla fylkisins starfa aðstoðarmenn kennara (teachers assistants) og starfa þeir í nánu samstarfi við bekkjarkennarana. Verkaskipting milli umsjónarkennara og aðstoðarmannanna er mjög skýr, bekkjarkennarinn ber ábyrgð á öllum nemendum í sínum bekk og er því verkstjóri yfir þeim aðstoðarmönnum sem ráðnir eru til að sinna börnum með sérþarfir í hans bekk. Að sögn skólastjórans í New Maryland Elementary School voru slíkir starfsmenn 21

22 upphaflega kallaðir aðstoðarmenn nemenda (students assistents) en starfsheitinu var breytt. Þessi breyting er til marks um þá áherslubreytingu sem hefur orðið á starfi þeirra að þeir eru ekki lengur bara að aðstoða einstaka nemendur heldur eru til að aðstoða kennarana við þeirra starf. Skólastjórinn lagði áherslu að að aðstoðarmennirnir væru ekki kennarar þeirra barna sem þeir aðstoðuðu heldur ynnu þeir í nánu samstarfi við umsjónarkennara barnanna og styddu bekkjarkennarana í samræmi við þarfir viðkomandi barna. Þessi áhersla kom fram í öðrum skólum einnig. Aðstoðarmaður kennara má ekki grípa inn í eða breyta kennsluáætlun bekkjarkennarans heldur vinnur að því að framkvæma hana með nemandanum. Nemendaverndarráð hvers skóla skilgreinir þörf skólans fyrir aðstoðarmenn kennara og sendir beiðni til skólaskrifstofu Fredericton. Aðstoðarmenn kennara í skólum borgarinnar eru ráðnir í 25 klst. á viku eða nákvæmlega þann tíma sem nemendur eru í skólanum. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum samstarfs- eða undirbúningstíma með kennurunum. Víða er vel haldið utan um starf aðstoðarmannanna og í sumum skólum hefur verið útbúin sérstök handbók fyrir þá með leiðarljósum, siðareglum og leiðbeiningum um mat á hegðun. Til starfsins er víða valið fólk með ólíkan bakgrunn úr atvinnulífinu og hefur ákveðna grunnmenntun, a.m.k. lokið skyldunámi, en fær síðan símenntun miðað við þau verkefni sem það tekur að sér í skólunum. Dæmi voru um að aðstoðarmennirnir væru listamenn sem væru að vinna fyrir salti í grautinn eða fólk úr tölvugeiranum sem hafði ákveðið að breyta til. Aðstoðarmenn kennara sem sinna einhverfum nemendum fá fræðslu um þarfir einhverfra og þeir sem sinna fjölfötluðum fá fræðslu um þarfir þeirra nemenda sem þeir eiga að sinna. Í öðrum bekk sáum við skólabókardæmi um samvinnu kennara og aðstoðarmanns hans. Eftir innlögn þar sem skýrt var hvað hver og einn átti að gera fóru nemendur í hópa og gengu hver að sínu verki. Stofan var vel nýtt, mikið af gögnum og upplýsingum og fyrirmælum á veggjum. (Priestman Street Elem. School) Margir aðstoðarmannanna virtust vinna mjög sjálfstætt eftir áætlunum sem þeir höfðu fengið frá sérkennurum eða sérfræðingum á vegum háskólans. Í öðrum tilvikum virtust aðstoðarmennirnir ekki hafa neitt skipulag yfir kennsluna í höndum frá kennaranum. Í 5 ára bekknum var einhverfur drengur sem var með aðstoðarmann. Drengurinn var að búa til kubbakastala og átti að herma eftir öðrum dreng sem var líka að búa til kastala. Drengurinn setti einn kubb í einu og einhverfi drengurinn átti að búa til eins kastala. Hann fékk óspart hrós fyrir hvern kubb sem fór á réttan stað. Aðstoðarmaðurinn var með miklar upplýsingar og ítarlega kennsluáætlun í stórri möppu vegna einhverfa drengsins m.a. ABA (Applied Behavior Analysis) sem einnig er 22

23 unnið með sérstaklega milli kl. 7:30 og þangað til skóli hefst að morgni og er það sérstaklega greitt af foreldrum einhverfa drengsins. Drengurinn fær síðan merki í möppuna þegar hann gerir rétt. ABA-sérfræðingur utan skólans skipuleggur áætlunina en aðstoðarmaðurinn útfærir. (Priestman Street Elementary School) Við sáum einn mjög fatlaðan nemanda sem bara hlustaði á tónlist. Aðstoðarmaður kennara sá um hann og spastískan nemanda. Sá er menntaður úr tölvugeiranum. (New Maryland Elementary School) Einnig voru dæmi um að háskólanemendur ynnu sem aðstoðarmenn kennara í ákveðnum verkefnum samhliða námi. Aðstoðarmennirnir geta einnig tekið að sér að sinna fötluðum framhaldsskólanemendum í námi sem fer fram utan skóla eða eftir að skólatíma lýkur s.s. í starfstengdu námi eða vinnu með stuðningi. Þar var m.a. drengur sem var 19 ára. Fyrir tveimur árum sagði hann ekkert nú er hann að vinna utan skólans og á góð samskipti við starfsmenn í vinnunni. Hann er í skóla fyrir hádegi en vinnu eftir hádegi. Sama stúlkan sem er háskólanemi hefur fylgt honum í þessi tvö ár. Við það að fá verkefni við hæfi hefur hann smám saman opnað sig. Áður var hún með honum allan daginn en nú aðeins hálfan daginn til að hann fái tækifæri til að mynda samskipti við aðra. Pilturinn vinnur launavinnu á sama stað á sumrin. (Leo Hayes High School) 8. Símenntun Í samtölum við kennara og skólafólk í Fredericton kom fram að símenntun starfsmanna er eitt af lykilatriðum þess að styðja við skóla fyrir alla í borginni og að öll börn fái notið sín í skólastarfinu. Skólahverfi eiga að hafa umbótaáætlun þar sem fjallað er um hvernig bæta má þjónustu fyrir börn með sérþarfir í skólunum og þar er símenntun kennara talin vera lykilatriði. Kennarar eiga þannig að leita tækifæra til að læra meira um blöndun í kennslu barna með sérþarfir. (New Brunswick Department of Education, 1994:6) Í máli þeirra sem við var rætt í skólaheimsóknunum kom fram að kennarar fara á námskeið til að styrkja sig í starfi t.d. vegna sérþarfa nemanda. Námskeið geta verið bæði valfrjáls og skylda. Námskeið eru starfsmönnum að kostnaðarlausu og flestir kennarar skólans fara á þrjú til fjögur námskeið á vetri. Að mati kennara er nóg framboð á námskeiðum og fræðslufundum fyrir starfsmenn bæði á vegum skólanna og einnig háskólans í New Brunswick. Sérstakir símenntunartímar eru fyrir kennara í hverjum skóla t.d. 2 klst. á viku á miðvikudögum að lokinni kennslu en þann dag er skóladagur nemenda styttri en aðra daga. Einnig er boðið upp á sérstaka námskeiðsdaga á sumrin; 2 dagar í ágúst og 2 sinnum hálfur dagur í nóvember og mars eftir foreldraviðtöl. Þeir skólastjórar sem rætt var við tóku undir þessa áherslu á gildi símenntunar og sem dæmi má nefna að skólastjóri New Maryland Elementary School sagði að kennurum stæðu til boða 1-5 daga sumarnámskeið sem þeir hefðu val um að sækja. Kennarar sæki þó gjarnan námskeið og fræðslufundi um ýmsa námserfiðleika, athyglisbrest/einbeitingarskort, einhverfu, allt eftir því hvað nemendahópurinn kalli á. Þessi skólastjóri nefndi einnig að kennarasamtökin á svæðinu væru sterk bæði faglega og sem stéttarfélag sem legði áherslu á starfsþróun kennara. Kjarasamningar kennara hefðu til að mynda leitt til þess að einingar í háskólanámi gefa kennurum möguleika á launahækkun. 23

24 Á fundi með kennurum í Priestman Elementary School kom fram að kennarar og aðstoðarmenn fara á námskeið bæði á sumrin og einnig í starfsþróunartímum á miðvikudögum. Námskeiðsdagar eru tveir dagar í ágúst, tveir hálfir dagar í nóvember og í mars eftir foreldraviðtöl. Námskeið geta bæði verið valfrjáls og skylda en eru starfsmönnum að kostnaðarlausu. Flestir fara á þrjú til fjögur námskeið á vetri. Nóg framboð er af námskeiðum og fræðslufundum bæði á vegum skólans og einnig háskólans í New Brunswick. 9. Félagsleg aðlögun eða einangrun Í heimsóknum hópsins til Fredericton bar félagslega hlið skóla án aðgreiningar einnig á góma. Spurt var um hvernig nemendum með verulegar sérþarfir tækist að aðlagast félagslega. Fram kom að starfslið skólanna virtist mjög meðvitað um þessa hættu á félagslegri einangrun t.d. þegar skólaganga nemenda er stopul af heilsufarsástæðum en skólafólkið vann oft markvisst að því að koma á og vinna að samskiptum nemenda með sérþarfir og venjulegra nemenda. Litið var svo á að það væri hluti af skólagöngunni og náminu í skólanum að læra að umgangast fólk með ólíkar þarfir og ólíkan bakgrunn en ekki bara sinna bóklegum greinum. Í heimsókninni í George Street Middle School var m.a. rætt um félagslega einangrun nemenda með sérþarfir og kom fram að helst gætir hennar eftir að skóla lýkur á daginn, á sumrin, o.s.frv. Nefnd voru dæmi um að einstaklingar úr nemendahópnum taki fatlaða nemendur að sér. Einn nemandi, stúlka með Down-syndrome í 5. bekk og með þroska á við 5-6 ára barn kemur aðeins í skólann á miðvikudögum vegna líkamlegs atgervis en fær annars sjúkrakennslu heima við. Skólinn er eina félagslífið sem þetta barn á, sagði sérkennarinn. Bekkjarkennarinn hefur skipulagt símtöl þar sem bekkjarfélagarnir hringja til stúlkunnar þá daga sem hún ekki kemur í skóla. Þá daga sem stúlkan kemur í skólann tilheyrir hún ákeðnum bekk og hefur aðstoðarmann til liðsinnis. Sérkennari aðstoðar kennara við að skipuleggja starfið. Hver nemandi vinnur með stúlkunni í 30 mín. í einu svo að enginn missir neitt úr skólanum á meðan. (Barker s Point Elementary School) Í 4. bekk var einhverf stúlka. Nemendur komu fram við hana eins og aðra nemendur. Þeir voru með henni í frímínútum og pössuðu vel upp á að hún væri ekki útundan. (South Devon Elementary School) 10. Ráðgjöf Gert er ráð fyrir að á vegum skólasvæða séu starfandi s.k. nemendaþjónustuteymi. Í því eiga sæti umsjónarmaður skólaþjónustunnar, ráðgjafar skólaskrifstofunnar, sérkennsluráðgjafar, skólasálfræðingar, atferlisþjálfar, talmeinafræðingar og aðrir sérfræðingar sem koma að þjónustu á vegum skólasvæðisins. Á skólaskrifstofum í New Brunswick eru starfandi ráðgjafar sem hafa samstarf og samráð við starfsmenn skólanna um þau námstilboð og þjónustu sem skólarnir veita öllum börnum í fylkinu. Hver skólaskrifstofa ræður til sín þá ráðgjafa sem talið er að þjóni best þörfum þeirra barna sem sækja skólana í fylkinu hverju sinni. Á vegum skólaskrifstofu Fredericton starfa eftirfarandi sérfræðingar: einn sjúkraþjálfari, tveir iðjuþjálfar og fjórir talmeinafræðingar. Enn fremur starfa þar kennsluráðgjafar sem aðallega liðsinna skólum í sambandi við lestur og stærðfræði. Ráðgjafarnir fara út í skóla með efni eða ábendingar fyrir kennara sem þess óska. Við hittum lestrarráðgjafana í nokkrum skólum þar sem þeir voru gjarnan sex vikur í senn til að liðsinna viðkomandi skóla varðandi lestrarkennsluna. 24

25 Heyrnarlaus stúlka og greindarskert er með með táknmálstúlk. Ein úr hópnum sat fund með teymi þar sem fjallað var um hvernig gengi og hvað hún vildi gera á næsta ári. Þennan fund sat einnig sérkennsluráðgjafi frá skólaskrifstofu. Athygli vakti að ekki verið að tala um hana heldur verið að tala við hana. Stúlkan vinnur við aðstoð eftir hádegi með yngri börnum og var verið að ræða hvort hún vildi vera áfram í skólanum og vinna með námi til 19 ára aldurs. Hún var einnig að kenna táknmál með skólanum. (Leo Hayes High School) 11. Lífið að loknu skyldunámi. Þegar nemendur í Fredericton ljúka skyldunámi er reynt að tryggja að þeir geti nýtt hæfileika sínum eftir föngum í samfélaginu, ýmist með því að halda áfram í námi eða taka þátt í atvinnulífinu. Þegar komið er að því að taka ákvarðanir um framtíð nemenda með sérþarfir koma að ákvarðanatökunni allir þeir aðilar sem málið varðar. Ein úr hópnum sat einnig í þessum skóla foreldrafund (APSEA-meeting). Heyrnarskert stúlka með góða námshæfileika er að útskrifast úr skólanum í vor og var á fundinum verið að undirbúa hvað tekur við, hvert hún stefnir og ræða hvaða aðstoð hún þarf til að geta stundað nám á háskólastigi. Hún er með heyrnarleifar og notar heyrnartæki en ekki táknmál. Fundinn sátu auk stúlkunnar, foreldrar hennar og núverandi aðstoðarmaður, ráðgjafi frá nemendaþjónustu háskólans og ráðgjafi frá menntamálaráðuneytinu (transition facilitator) sem stýrði fundinum. Háskólinn í Fredericton hefur nemendaþjónustu fyrir fatlaða nemendur. Á fundinum var farið yfir í hvaða háskóla hún vildi fara og hvert hún stefnir í náminu, út frá því rætt hvaða hjálpartæki hún þarf. Hún getur fengið með sér aðila sem aðstoðar hana við að glósa (notetaker), henni stendur til boða aðgangur að ráðgjafa (tutor). Rætt er um hljóðdempandi hlífar á stóla, hljóðkerfi í stofur og heyrnartæki sem dregur úr umhverfishljóðum og breytir tíðni. (Leo Hayes High School) 25

26 V. Sérkennsluver - sérdeildir - sérúrræði 1. Nemendaverndarráð (Resource team School-based Student Services Team) Í því eiga sæti skólastjóri, sérkennari, bekkjarkennari/umsjónarkennari, námsráðgjafi og/eða þeir í skólanum sem bera ábyrgð á þjónustu og skipulagningu fyrir nemendur sem víkja frá. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist reglulega, mælt er með einu sinni í viku, en minnst tvisvar í mánuði. Ef skólastjóri kemur ekki til fundar er nauðsynlegt að hann/hún fái upplýsingar um hvað fór fram á fundinum, umræður og ákvarðanir. Einn úr teyminu tekur að sér að þróa/gera einstaklingsnámskrá og ber ábyrgð á að ritstýra henni, vera í sambandi við foreldra, fylgja eftir að markmiðum sé náð og gefa skýrslu um árangur. Teymið er einnig mikilvægt í að aðstoða skóla við að þróa fyrirmyndaraðferðir við að koma á skóla á aðgreiningar og til að stuðla að, þróa, framkvæma og stjórna gerð einstaklingsnámskráa fyrir nemendur sem taka til allra þátta skólastarfsins. (New Brunswick Department of Education, 2002a:8) 2. Lausnateymi Víða í heimsókninni var minnst á lausnateymi í skólum. Grunnhugmyndin að baki lausnateymunum er sú að kennarar hjálpi hver öðrum og styðji hver við annan. Lausnateymin eru mynduð til að styðja við kennara við að leysa ákveðin vandamál, vinna með sértæk mál eða til að taka á vanda einstakra starfsmanna eða nemendahópa og reynir þá hópur allra þeirra starfsmanna sem tengist viðkomandi máli að meta styrk og veikleika í stöðunni og koma með tillögur til lausnir á vandanum. Í flestum tilvikum voru sérkennarar skólanna í lausnateymunum, viðkomandi umsjónarkennari og svo aðrir sem höfðu til að bera faglega þekkingu sem nýtast myndi við að vinna að viðkomandi máli á farsælan hátt. Fundum lausnateymis er gjarnan skipt í nokkur stig: Stig 1: Stjórnandi greinir frá tilgangi fundarins, útskýrir vinnuferlið og hvaða vandamál er við að etja. Stig 2: Sá kennari sem óskaði eftir fundinum gerir stutta grein fyrir eðli vandamálsins. Stig 3: Þátttakendur spyrja kennarann um það sem er óljóst eða gæti varpað ljósi á málið. Hér er reynt að afmarka vandamálið og skýra það sem best. Stig 4: Þankahríð til að fá fram sem flestar tillögur um leiðir til úrbóta og lausnar á vandanum. Stig 5: Stjórnandi og kennarinn fara yfir tillögurnar og meta þær. Gjarnan er gripið til þess að flokka þær í þrennt; það sem hægt er að gera strax, aðgerðir sem má reyna síðar og aðgerðir sem þegar hafa verið reyndar og koma ekki til greina. Stig 6: Stjórnandinn gerir áætlun um hvað skuli gera og byggir á þeim hugmyndum og aðgerðum sem kennarinn valdi. Stig 7: Fundarlok - stjórnandi þakkar fundarsetu og kannar hvort allir fari með jákvæðu hugarfari af fundinum. (Porter, G.L. o.fl.:2001) 3. Dæmi um skipulag sérkennslu: Leo Hayes High School Hlutverk sérkennara er bæði að vera stjórnendur og veita kennurum leiðsögn. Í þeirra verkahring er m.a.: Beint Viðbót við efni námskrár. Undirbúnar einingar við breytta námskrá. Meðlimir í lausnateymum. 26

27 Formleg/óformleg próf. Skoðun á þörfum nemenda. Aðstoðarkennsla kynning í skólastofu. Ráðgjöf um þarfir nemenda, kennsluaðferðir, undirbúning fyrir próf. Ákvæði um upplýsingar um einstaka nemendur til að aðstoða kennara við skipulagningu. Ákvæði um þróun kennara í starfi með upplýsingum um lesefni. Undirbúningur og skipting kennara í þjónustu við nemendur með sérþarfir/þjónusta eftir beiðni. Óbeint Staðsetja aðstoðarmenn kennara í kennslustofum (skipuleggja). Halda utan um/þjálfa/gefa fyrirmæli til aðstoðarmanna kennaranna. Taka þátt í nemendaverndarráði. Samstarf við utan að komandi aðila. Skipuleggja áætlun/prógramm fyrir nemendur með sérþarfir. Samstarf við stjórnendur og fagstjóra um gerð efnis fyrir nemendur. Gagnvart nemendum og foreldrum er hlutverk sérkennara m.a.: Beint Próf aðstoð. Einstaklingsráðgjöf. Námsáætlun. Finna húsnæði og hugsa um nemendur með sérþarfir sem geta ekki verið öllum stundum í kennslustofum. Maður á mann aðstoð (lestrarkennsla). Óbeint Ráðgjöf við nemendur sem þurfa sér aðstæður. Gerð stundatöflu fyrir nemendur, setja saman í hópa nemendur vegna TA aðstoðar. Undirbúningur og skipulag á einstaklingsnámskrá. Setja fram sérstakt skipulag vegna elds/skóli yfirgefinn/gerð rýmingaráætlunar. Sérkennsluteymi í Leo Hayes High School gengur út frá því að hvert barn sé einstakt og búi yfir styrk til breytilegra verka. Starf teymisins byggir líka á því að öll börn geti náð fullum möguleikum með því að fá tækifæri, réttar leiðbeiningar og nauðsynleg gögn. Teyminu er falið að skapa námstækifæri fyrir nemendur með frávik í umhverfi sem er hvetjandi og vinna að tveimur aðalmarkmiðum: halda áfram að vinnu við skóla án aðgreiningar þar sem allir nemendur eru í bekk með sínum vinum/jafnöldrum. að sjá fyrir aðstoð við kennara og nemendur. Til að ná settum markmiðum vinna kennarar í námsveri náið með bekkjarkennurum við skipulagningu og sjá fyrir aðstoð miðað við einstaklingsþarfir nemenda s.s.: 27

28 aðstoð og ráðgjöf við alla kennara, aðstoðarmenn kennara, nemendur sem víkja frá, foreldra þeirra og annað fagfólk aðstoð við kennara við áætlanagerð, framkvæmd og mat á þörfum nemenda sem víkja frá viðeigandi tæki/efni og upplýsingar til kennara og aðstoðarmenn kennara til að mæta þörfum nemenda formleg/óformleg próf á þörfum nemenda og getu til að meta niðurstöður prófanna leiðbeiningar fyrir einstaklinga eða litla hópa þar sem það er nauðsynlegt skipuleggja starf aðstoðarmenn kennara til að það skili sem mestum árangri undirbúning og gerð skýrslna um nemendur sem víkja frá, miðla upplýsingum innan skólans og vegna áframhaldandi náms 4. Tutorial Assistance Program (einnig Alternative Education Centres) Þetta úrræði þjónar nemendum á stór-frederictonsvæðinu í bekk. Nemendum er vísað í þetta úrræði þegar þeir hafa verið reknir úr heimaskóla í lengri tíma eða þeim hefur verið vísað þangað af lausnateymi viðkomandi skóla vegna alvarlegra námserfiðleika sem ekki er hægt að koma til móts við í skóla og þeir þurfa að skipta um skólaumhverfi ( change of placement ). Þá getur nemendum verið vísað þangað af Félagsþjónustunni eða Public Safety leggur það til en fyrst verður beiðni frá þessum aðilum að fara um hendur viðkomandi skólastjóra. Nemendum er ekki vísað í þetta úrræði nema í samvinnu við foreldra. Nemendur dvelja í þessu úrræði í daga að meðaltali. 5. Enterprise - An Alternative Education Service Þetta úrræði er fyrir ungt fólk, á aldrinum18-20 ára, sem er í hættu á að hverfa frá námi eða er ekki í skóla en óskar eftir því að ljúka formlegri menntun. Æskilegt er að nemendur útskrifist árið sem þeir sækja um. 6. Transition Programs (Innherjaverkefni) Tækifæri fyrir nemendur í bekk (high school students) að taka þátt í atvinnulífinu, sem ungliðar (Youth Apprenticeship and Cooperative Education) í því skyni að öðlast hagnýta reynslu samhliða námi. 7. Behavioural Support Program Boðið er upp á skammtíma stuðning við nemendur sem eiga við hegðunarvanda að stríða (short term behavioral intervention strategies) til að hjálpa þeim að ná árangri í venjulegri skólastofu. 8. Lesver fyrir ólæsa eða treglæsa nemendur í bekk. 9. Matarver fyrir nemendur ekki fá að borða heima hjá sér. 10. Sjúkrastofa fyrir nemendur sem ekki geta verið í venjulegri skólastofu um tíma. 11. Time-out herbergi fyrir nemendur sem missa stjórn á sér í kennslustund 12. Acceleration - Enrichment fyrir nemendur sem skara fram úr. Þá koma kennarar/ nemendur frá háskólanum í New Brunswick og kenna þessum nemendum í skólunum. Mjög fatlaðir nemendur eru oft í séraðstöðu meiri hluta skólatímans og koma aðeins inn í bekk í heimsókn stutta stund í einu. Hversu lengi fer eftir því hvaða úthald þeir hafa. Þátttakan virðist aðeins táknræn en skiptir þó nemandann og foreldra miklu máli. 28

29 VI. Skólaheimsóknir 1. Priestman Street Elementary School Priestman Street Elementary School, 363 Priestman Street Fredericton, New Brunswick, E3B 3B5 s. (506) bs. (506) vefsíða: Aldur nemenda: 5-11 ára Nemendafjöldi: 450 Kennarastöður: Frönskubekkir: bekkur (Early Immersion). Priestman Street Elementary School er fremur lítill barnaskóli með 5-11 ára nemendur (Kindergarten-5th grade). Skólinn er á einni hæð og er mjög aðgengilegur fyrir þá sem eru í hjólastólum. Hópurinn skoðaði skólann undir leiðsögn aðstoðarskólastjórans. Skólastjórinn var vant við látin því að hún var að kenna íþróttir þennan dag en báðir skólastjórnendur hafa 20% kennsluskyldu. Nemendur og starfslið Í skólanum eru 440 nemendur í 20 bekkjardeildum. Kennarar eru 31 þ.m.t. tónlistarkennari, enskukennari fyrir þá sem eru í frönskubekkjum, þrír sérkennarar og tveir lestrarsérfræðingar. Einn bekkur er með aldursblöndun í 1. og 2. bekk og var það eingöngu af hagkvæmnisástæðum sem sá hópur var búinn til. Við skólann er starfandi nemendaráð sem er skipað fulltrúum úr hverri bekkjardeild í bekk. Nemendaráð fundar vikulega og hlutverk þess er einkum að skipuleggja uppákomur og viðburði í félagslífi nemenda. Nám og kennsla Daglegur skólatími er frá kl. 8:15 til 2:10 fyrir K - 2. bekk en til kl. 3:20 fyrir nemendur í bekk. Frímínútur eru kl. 10:00-10:20 og í 20 mín. að loknum hádegisverði. Á miðvikudögum lýkur skóla kl. 12 en þá hafa kennarar tíma til samstarfs og endurmenntunar (professional development). Boðið er upp á kennslu á frönsku (french immersion) í bekk og fer þá öll kennsla viðkomandi bekkjardeildar fram á frönsku. Foreldrar hafa val um hvort börnin þeirra fara í bekki þar sem námið fer fram á ensku eða frönsku. Blöndun/sérkennsla Á tveimur fundum með deildarstjóra sérkennslunnar var rætt um skipulag sérkennslunnar í skólanum. Þrír sérkennarar starfa við skólann. Í september er ákveðið hvaða kennari sinnir hvaða verkefnum eða bekkjum. Við skólann var á þeim tíma sem heimsóknin átti sér stað var í skólanum lestrarsérfræðingur (literacy specialist) á vegum fræðsluskrifstofunnar sem fer inn í bekki til að aðstoða kennara við lestrarkennsluna. Lestrarkennarinn var að vinna með ákveðna hópa í lestrarátaki sem stóð yfir í sex vikur, tvisvar í viku. Lestrarkennarinn fer á milli skóla á svæðinu og liðsinnir kennurum vegna lestrarkennslunnar á ýmsan hátt. Nemendaverndarráð (resource team) skilgreinir þörf skólans fyrir aðstoð og sendir umsóknir til skólaskrifstofu. Við skólann starfa níu aðstoðarmenn kennara/stuðningsfulltrúar (teachers 29

30 assistants). Aðstoðarmenn kennara eru ráðnir í 25 klst. á viku eða nákvæmlega í þann tíma sem nemendur eru í skólanum. Undirbúningstími með kennara er ekki fyrir hendi. Aðstoðarmenn kennara vinna undir leiðsögn kennara og sérkennara. Að mati kennara skólans er blöndun og námsaðlögun einkum náð með því að vinna mikið að heildstæðum verkefnum og þemaverkefnum. Námsaðgreining er aðallega í lestri og stærðfræði þar sem nemendur fylgja ákveðnum bókaflokkum. Bækur eru flokkaðar eftir þyngdarstigi í ákveðna flokka og hver flokkur merktur með lituðum límmiðum til aðgreiningar. Lausnateymi (problem solving team) er starfandi við skólann og er það skipað viðkomandi umsjónarkennara, sérkennara og öðrum kennurum sem kallaðir eru til. Sérstakur starfsmaður á skólaskrifstofu er kallaður til vegna sérstakra hegðunarerfiðleika (behavior intervention referral person) og er erfiðum hegðunarfrávikum vísað til hans en hann kemur í skólann vikulega. Aðspurðir um time-out aðstöðu í skólanum kom fram hjá kennurum skólans að það er venjulega í skólastofunum sjálfum en getur verið annars staðar s.s. í öðru herbergi eða hjá skólastjóra, fer eftir aðstæðum hverju sinni. Síðari heimsóknardaginn fram að hádegi var hópnum var skipt á bekki til að fylgjast með kennslu og sjá þátttöku fatlaðra nemenda í skólastarfinu. Nánari lýsingar er að finna síðar í skýrslunni. Undir lok heimsóknar var aftur fundað í sérkennsluverinu (resource room) til að fjalla um það sem fyrir augu bar og svara spurningum gestanna. 30

31 2. Leo Hayes High School. Leo Hayes High School 499 Cliffe Street Frederiction, New Brunswick E3A 9P5 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: ára Nemendafjöldi: Kennarastöður: 90 Frönskubekkir: bekkur.. Hópur 2 fór í Leo Hayes High School sem tók til starfa árið Um er að ræða nýjasta framhaldsskólann í borginni sem státar af 53 kennslustofum, 4 tölvustofum, 3 tæknistofum, 3 íþróttasölum, 4 listasmiðjum, 2 tónlistarstofum, skólasafni og kaffiteríu sem einnig nýtist sem hátíðarsalur með sviði. Í skólanum er gagnaveita (resource center). Það er bókasafn og tölvustofa. Nemendur afla sér mest upplýsinga af neti. Ekki eru sendar hópar heldur fara kennarar með þeim. D. Theed stjórnandi sérkennsluvers (department of resources) tók á móti hópnum og skipulagði heimsóknir út í bekki. Sérkennari gekk með hluta hópsins um skólann og sýndi aðstöðuna. Þá kom fram að tilboð nemenda varðandi tómstundastarf er mikið og fjölbreytt en kennarar sjá um þetta starf ólaunað. Nemendur og starfslið Leo Hayes skólinn er rúmlega 1700 nemenda framhaldsskóli fyrir nemendur í bekk eða frá ára nemendur eru í hverjum bekk. Við skólann starfa 95 almennir kennarar, sex sérkennarar og 19 aðstoðarmenn kennara. Allir nemendur voru inni á skónum. Hver nemandi hafði sinn skáp fyrir gögn. Í byrjun skólaárs fá nemendur í hendur eins konar dagbækur. Þar er fært inn allt sem viðkemur nemandanum. Ef hann þarf að fara út úr kennslustund þarf hann skriflegt leyfi kennara. Þetta fyrirkomulag var tekið upp eftir að vandræði höfðu skapast vegna ráps á göngum.vopnaður lögregluvörður er á göngum skólans. Almennir kennarar útbúa kennsluáætlanir fyrir veturinn og síðan skipulag fyrir dagana. Þegar kennari er að fara að vinna einhver ákveðin verkefni fyrir nemendur með sérþarfir fær hann aðstoð sérkennara við skipulagið. Sérkennarar halda utan um þá nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða sem og fatlaða nemendur. Þeir eru kennurum innan handar við skipulag námsins fyrir nemendur með sérþarfir en kenna nánast ekkert sjálfir. 31

32 Í Leo Hays skólanum eru starfandi þrír námsráðgjafar og einn félagsfræðingur. Þessir starfsmenn sjá um að aðstoða nemendur við skipulag á náminu og skipulag heimaverkefna. Þeir safna saman upplýsingum um styrki og skólaframboð og raða nemendum niður á þá skóla sem þeir hafa möguleika á að sækja um. Þeir skipta öllum nemendum á milli sín og ræða við þá að a.m.k. einu sinni á hverju skólaári. Nám og kennsla Skóladagurinn í Leo Hays skiptist í 5 tímabil sem eru 65 mín. hvert. Nemendur byrja morguninn á því að fara í sína heimastofu. Þar hitta þeir umsjónarkennara sína. Þá fá þeir t.d. í hendur bréf sem þeir þurfa að fara með heim til foreldra og ræða við þá um framgang námsins. Skóladagurinn skiptist þannig: 8:30: Viðvörunarhringing (warning bell) 8:35 8:50: Heimastofa (homeroom) 8:55 10:00: 1. tími 10:05 11:10: 2. tími 11:15 12:20: 3. tími 1:05 Viðvörunarhringing (warning bell) 1:10 2:15: 4. tími 2:20 3:25: 5. tími Í 9. bekk eru nemendur í sama bekknum en eftir það eru þeir í mismunandi hópum eftir námsgreinum. Nemendur verða að ná 60% námsárangri í ensku og stærðfræði í 9. bekk svo þeir geti haldið áfram í 11. og 12. bekk. Ef þeir ná ekki þessum árangri taka þeir sumarnám. Í skólanum eru ekki bekkjarstofur heldur fara nemendur á milli stofa eftir greinum. Skólaárið skiptist í tvær annir. Skipt er um greinar í janúar. Enska og stærðfræði er kennd allt árið. Heimavinna er u.þ.b. klukkutími á dag fyrir meðalnemandann. Blöndun/sérkennsla Sérkennsluverið í Leo Hayes skólanum er meginhlekkur í því að skapa jákvætt námsumhverfi fyrir nemendur. Sérkennsluteymið er að sögn skipað völdu starfsfólki ásamt utanaðkomandi sérfræðingum. Hlutverk og verksvið starfsmanna getur verið ólíkt en allir starfa að sama markmiði, það er að styðja við nám allra nemenda í skólanum við aðstæður sem eru sem minnst takmarkandi eða hindrandi (least restrictive environment possible). Sex deildarstjórar sérkennslu eru starfandi við skólann. Hver þeirra hefur um nemendur á sinni könnu. Í skólanum eru nemendur með mikla örðugleika sem eru mikið inni í bekkjum með aðstoðarmenn sér til liðsinnis. Fagleg vinna aðstoðarmanna kennara fer fram undir undir stjórn sérkennara/ deildarstjóra sérkennslu. Deildarstjóri heldur utan um starf aðstoðarmannanna og hefur með þeim sérstaklega hálftíma fund einu sinni í mánuði. Til starfsins er valið gott fólk sem hefur fengið grunnmenntun og fær símenntun miðað við verkefni í skólastarfinu og sérþarfir þeirra nemenda sem þeir liðsinna hverju sinni. Aðstoðarmenn kennara verða að hafa lokið grunnmenntun (K-12) en kröfur um nám þeirra eru alltaf að aukast. Vel er haldið utan um starf aðstoðarmannanna, t.d. hefur verið útbúin handbók fyrir þá, með leiðarljósum og siðareglum (sjá gögn). Aðstoðarmenn kennara hafa ekki leyfi til að grípa inn í eða breyta áætlun kennara. Aðstoðarmenn kennara í Leo Hays High School hafa aðeins leyfi til að sinna þeim nemendum sem þeir eru með í kennslustundum. Umsjónarkennari/greinakennari skipuleggur námið með aðstoð sérkennara fyrir þessa nemendur og leggur það í hendurnar á aðstoðarmönnunum. Nemendurnir eru fyrst og fremst á ábyrgð umsjónarkennara. 32

33 3. George Street Middle School George Street Middle School 575 George Street Fredericton, New Brunswick E3B 1K2 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: ára Nemendafjöldi: 687 Kennarastöður: Frönskubekkir: bekkur (Early Immersion). Hópurinn fór í George Street Middle School en þar var ekki skipulögð móttaka. Byggingin er komin til ára sinna og hefur ekki verið vel haldið við á íslenskan mælikvarða. Skólastofurnar eru stórar og rúmgóðar. Að sögn starfsmana skólans hefur tölvuvæðing hans m.a. farið þannig fram að skólarnir fá til afnota tölvur sem opinbera kerfið er hætt að nota. Boðið er upp á sérstök verkefni (acceleration/enrichment) fyrir nemendur sem skara fram úr í námi. Þá koma kennarar/nemendur frá háskólanum og kenna þessum nemendum. Nemendur og starfsmenn Í skólanum eru tæplega 690 nemendur í bekk (11-13 ára). Skólinn er með hóp af nemendum af indíánaættum en börn innflytjenda eða nýbúa eru fá. Kennarar eru 66, þar af þrír sérkennarar, einn fyrir hvert aldursstig. Í skólanum eru einnig starfandi námsráðgjafi og kennari með annast móðurmálskennslu fyrir börn af indíánaættum. Aðstoðarmenn kennara eru 13. Nám og kennsla Krakkarnir fara á milli stofa, kennararnir eiga sínar stofur. Kennslustundir eru frá mínútur. Fimm mínútur eru á milli tíma og 50 mínútna hlé í hádegi. Að mati hópsins virtust að mestu vera ríkjandi hefðbundnir kennsluhættir og hefðbundin verkefni sem nemendur voru að fást við. Þetta er annar af tveimur skólum sem er með early immersion í frönsku en þá fer öll kennsla fram á frönsku. Mismikið er kennt á frönsku á hverjum degi. Vinna með gildi og siðfræði er áberandi og sett á veggi til áminningar. Kennarar þurfa að skila kennsluáætlunum og gera grein fyrir byrjun og lok kennslustundar. Nemendur fá skýrar leiðbeiningar um hvernig á að vinna verkefni. Skýrir verkferlar eru alls staðar. Frá þessum skóla fékk hópurinn eintök af einkunnablöðum. Þar er að finna átta skref sem kennarar eiga að fara eftir. Lítil umræða virtist vera í skólanum um lesblindu. Hópurinn fékk hér líka gögn um námskrár, matsviðmiðanir og provincial portfolios. Blöndun/sérkennsla Sérkennsluver eða lesver er í skólanum og koma nemendur þangað ýmist sem einstaklingar eða hópar. Nemendur sem víkja frá eru nokkrir og sumir mikið fatlaðir og/eða með mikla lyfjagjöf. Þeir nemendur eru aðallega inni í bekkjum en eru líka teknir út úr almennum kennslustundum. Skólinn hefur time out herbergi sem er tímabundið úrræði fyrir nemendur sem ekki geta verið einhverra hluta vegna með sínum nemendahópi. Í heimsókninni var þátttakendum var skipt niður á bekki. Tveir þátttakendur fóru í bekk þar sem var verið að kynna bækur sem nemendur höfðu lesið. Gestirnir hrifust þar af ákveðnu skipulagi á verkefnum. Matið á verkefnum var skýrt og aðgengilegt og nemendur vita hvers er krafist af þeim. Einnig kom hópurinn inn í myndlistartíma þar sem athygli vakti mjög hljóðleg vinna. Verkefni dagsins fólst í lista með 25 hlutum þar sem nemendur áttu að teikna 5 hluti sem þeir gátu valið sjálfir. Heyrnarskertir nemendur voru í hópnum og nemendur með Down syndrome. Þeir voru stilltir í tímanum en samt virkir. 33

34 4. Keswick Ridge School Keswick Ridge School 166 McKeen Drive Keswick Ridge, New Brunswick E6L 1N9 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: 5-13 ára Nemendafjöldi: 200 Kennarastöður: Frönskubekkir: Nei. Keswick Ridge School er sveitaskóli sem staðsettur er í útjaðri Fredericton svæðisins. Í skólanum er samkennsla árganga, yfirleitt tveir eða þrír aldurshópar saman í námshópi; K-2. bekkur, bekkur, bekkur; fjórir umsjónarhópar í hverri aldursblöndun. Markmið skólans er að skapa styðjandi námsumhverfi þar sem allir í skólasamfélaginu vinna með öðrum aldurshópum á jákvæðan hátt (in a caring manner) og að sérhver nemandi styrkist í sjálfstæðum vinnubrögðum og lausnavinnu (problem solving skills) til að nýta sem best hæfileika sína sem þjóðfélagsþegnar. Áherslan er einnig á teymisvinnu kennara þar sem allir kennarar vinna með öllum nemendum í nemendahópnum, sveigjanlegar hópaskiptingar, einstaklingsmiðað nám, sjálfstæð vinnubrögð og samvinnunám. Skólinn tók þátt í sjálfsmati skólaárið þar sem áhersla er á að endurskoða markmið í lestri og stærðfræði og frumkvæði skólans innan veggja hans og utan. Skólastjórinn Ms. Barb Corbett tók á móti hópnum og var leiðsögumaður um skólann ásamt því að setjast niður með hópnum í lok heimsóknar og svara spurningum um skólastarfið. Nemendur og starfslið Nemendur eru um 200 í bekk. Umsjónarkennarar eru tólf fyrir jafnmarga aldursblandaða umsjónarhópa. Nám og kennsla Í samkennsluhópi K-2 sáum við vinnustund þar sem hver var að vinna að sínu verkefni eftir innlögn kennarans. Í öðrum K-2 námshópi var verið að undirbúa ritunarverkefni. Kveikjan að verkefninu var sagan Where the wild things are eftir Maurice Sendak og börnin höfðu búið til eigin villidýr. Kennarinn hafði falið villidýrin á ýmsum stöðum í stofunni og börnin áttu að finna eigin villidýr. Verkefnið sem fylgdi var sem hér segir: 1. Spurningar: Hver - hvað - hvar - hvenær - hvers vegna - hvernig? 2. Kennarinn sýnir tilbúna bók sem á að skrifa í og skrifar og hljóðar titil bókar 3. Bendir á hvar á að skrifa höfundur og myndskreytir: eigið nafn 4. Hlustun, leikræn tjáning, leikfimi, myndlist, ritun Ritun sbr. ofangreindar spurningar. Í umræðum við starfsmenn skólans kom fram að samkennsla er ríkjandi í skólanum vegna trúar á samvinnu í skólastarfi. Börnin þurfi fyrirmyndir. Ef nemendur eiga að læra að vinna saman þurfa þeir að sjá fullorðna vinna saman. Starfsmenn skólans telja að andi samvinnu ríki meðal nemenda. Skólinn hefur einnig fengið viðbrögð frá framhaldsskóla um að nemendur komi betur undirbúnir í að taka frumkvæði og og vera leiðtogar. Í handbók skólans vöktu athygli skráðar væntingar til nemenda, starfsmanna skólans og foreldra: 34

35 Væntingar til nemenda: Virða rétt annarra Bera ábyrgð á eigin hegðun í skóla og á leið til og frá skóla Stuðla að öruggu umhverfi Fara eftir skólareglum Væntingar til starfsmanna skólans: Stuðla að hegðun í samræmi við eigin stöðu sem byggist á trausti og áhrifum á ungt fólk Vera fyrirmynd varðandi umburðarlyndi, samhygð og virðingu fyrir öllum Hafa samskipti við foreldra um leið og nemendur eiga í erfiðleikum í skólanum Væntingar til foreldra: Að samskipti um menntun barnanna einkennist af gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja Að veita börnum námsumhverfi heima sem styður nám barnanna í skólanum Að taka virka afstöðu varðandi aga og hegðun eigin barns. (Keswick Ridge School, Parents Handbook ) Einnig var þar að finna leiðbeiningar til foreldra um samskipti við skólann, nám barnanna og öryggismál. Enn fremur var þar að finna reglur um klæðnað nemenda sem fá að fylgja með til upplýsingar: Forðast klæðnað sem er ber í bakið, án hlýra eða með mjóum hlýrum. Forðast klæðnað sem sýnir beran naflann. Stuttbuxur eiga að ná niður á mið læri. Nærföt eiga ekki að vera sýnileg. Forðist skyrtur sem eru með orðljótum skilaboðum, vísa til áfengis eða tóbaks í myndum eða máli eða tvírætt orðfæri. 5. Harvey Elementary School Harvey Elementary School 1908 Route 3 Harvey Station, New Brunswick E6K 2P4 S. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: 5-11 ára (K-5th grade) Nemendafjöldi: 236 Kennarastöður: 13.9 Frönskubekkir: 1. og 2. bekkur (Early Immersion) Hópur 2 fór í Harvey Elementary School eftir hádegi miðvikudaginn 29. okt. Skólinn er í litlu þorpi fyrir utan Fredericton. Nemendur og starfslið Í skólanum eru um 280 nemendur á aldrinum 5-10 ára (K-5th grade) sem koma úr nágrannabyggðum Fredericton. Mikið er af börnum af indíánaættum (first nation) í 35

36 nemendahópnum. Við skólann eru 14 stöðugildi kennara og aðstoðarmenn kennara eru fimm. Skólastjórinn kennir hálfan daginn og aðstoðarskólastjórinn kennir allan daginn. Nám og kennsla Í skólanum virtist vera mikil áhersla á hugareikning (mental math). Þegar hópinn bar að garði voru nemendur ekki með neinar bækur heldur þurftu að leita lausna. Höfðu áður verið að vinna í stærðfræðibækur. Þau röðuðu sér um stofuna og unnu þar sem þau vildu. Kennslan var þó frekar kennarastýrð. Við sáum vísindaborð í stofum. Mikil samþætting virtist vera milli námsgreina ef marka mátti það sem var að gerast t.d. í kringum hrekkjavöku. Ekki var mikið um hefðbundnar námsbækur nema lestrarbækur. Heimatilbúin spil og fleira virtist nokkuð notað í skólastarfinu. Í þessum skóla er mikil áhersla á umhverfismennt og m.a. var útigarður eða kennslugarður í skólanum sem nemendur sáu um að rækta. Skólayfirvöld fengu foreldra í lið með sér til að ryðja landið og koma upp garði. Foreldrar ásamt nemendum plöntuðu blómum og trjám, settu upp fuglahús og útbjuggu tjörn. Á vorin koma þau og telja fuglana og greina. Garðurinn er þannig á ýmsan hátt nýttur í umhverfismennt og útikennslu. Öllu því sem til fellur í garðinum er safnað í safnhaug. Við gengum um skólann og skoðuðum bekki þar sem meðal annars á einum stað var lítill drengur með Down syndrome miðpunktur athyglinnar í söng og hreyfingu. Sáum líka hugarreikning í 2. bekk. Einnig var farið í frönskutíma hjá nemendum í 2. bekk en franskan er kennd sem annað tungumál í skólanum. Í stofunni var setið í röðum og kennsluhættir virtust mjög hefðbundnir. 6. Harvey High School Harvey High School 2055 Route 3 Harvey Station, New Brunswick E6K 2P4 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: ára (6-12th grade) Nemendafjöldi: 330 Kennarastöður: Frönskubekkir: bekkur (Intermediate Immersion) Hópur 3 fór í Harvey High School eftir hádegi. Um er að ræða skóla með um 330 nemendur í bekk (11-17 ára) sem staðsettur er um 30 km. suðvestur af Fredericton. Skólinn er verkmenntaskóli og selur vörur og þjónustu t.d. bílaviðgerðir og skúra sem eru framleiddir eftir pöntunum. Stuðningur foreldra er mikilvægur í skólastarfinu. 36

37 Athygli hópsins vakti hvað nemendur skólans virtust hegða sér vel. Skólastjórar höfðu tekið á hegðun á s.l. árum og árangur er að sjást núna. Nemendur og starfslið Skólinn er unglingaskóli (6.-8. bekk) og framhaldsskóli ( bekkur). Kennarar eru 22 og stuðningsaðilar 11. Starfsmaður á skólaskrifstofu ákveður hver fær hvaða fjármagn vegna aðstoðarmanna kennara en indíánahöfðingi í borginni borgar kostnað vegna fjögurra aðstoðarmanna sem starfa við Harvey High School. Einnig er við skólann starfandi kennari sem kennir native literacy læsi innfæddra, sem er viðleitni til að varðveita menningu innfæddra. Mikið er lagt upp úr íþróttaiðkun og tómstundastarfi nemenda. Þegar kennarar eru ráðnir að skólanum þurfa þeir að gefa upp á hvern hátt þeir geta auðgað félagsstarf nemenda. Nám og kennsla Uppröðun í stofur virtist frekar hefðbundin en athygli vakti hve vel kennarar nýttu þær stoðir (scaffolding) sem voru á veggspjöldum; ferlar um að leysa þrautir og dæmi, hvað þarf alltaf að vera með þegar rita á tiltekna gerð af texta eða skýrslu. Kennarinn vísaði markvisst í þessar stoðir og spurði nemendur hvar þeir væru staddir í ferlinu ef þeir leituðu aðstoðar hennar. Stoðirnar nýttust þannig til að ýta undir ákveðið sjálfstæði við úrlausn verkefna svo að nemendur geti farið á sínum hraða. Blöndun/sérkennsla Ekki var hópnum bent sérstaklega á frávikstilfelli. Þau sáust samt flest. Rætt var lítillega um stefnumörkun og að í upphafi átti að fylgja manneskja með mikið fötluðum nemendum. En nú er umræða um að breyta því. Sérkennslunni í skólanum er ætlað að vera stuðningur við almenna kennslu. Sérkennsluverið er hugsað sem vinnustöð fyrir nemendur sem greinast með formlegum aðferðum eða nemendur með námsþarfir sem hindra eða koma í veg fyrir að þeir nýti námshæfileika sína til fullnustu. Í sérkennsluteymi eru almennir kennarar, sérkennari og aðstoðarmenn kennara sem gera áætlanir til að mæta þörfum sérhvers nemanda. Þetta er gert með því að nýta fjölbreytt námsefni og kennsluaðferðir til að styrkja námsferil sérhvers nemanda. 7. New Maryland Elementary School New Maryland Elementary School 75 Clover Street New Maryland, New Brunswick E3C 1C5 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: 5-11 ára (K-5th grade) Nemendafjöldi: 697 Kennarastöður: 37.3 Frönskubekkir: bekkur (Early Immersion) Skólastjórinn, Steve Pierce, tók á móti hópnum og sagði frá því helsta sem einkenndi skólann. Um er að ræða einn af nýjustu skólum skólasvæðisins og að sögn kunnugra í félagslega og fjárhagslega vel stæðu hverfi. Skólinn var byggður fyrir 10 árum síðan og er talinn vera fyrirmyndarskóli. Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki sem miðstöð í samfélaginu og samstarf við heimilin er mikið og gott. Um 60% kennslunnar fer fram í enskumælandi bekkjum en um 40% í frönskumælandi. Skólastjórinn var greinilega ekki alls kostar ánægður með matsalinn, 37

38 þar er mikill hávaði og ýmis konar hegðunarvandkvæði. Næringarfræði matarins hefur verið tekin fyrir og batnað mikið. Nemendur og starfslið Nemendur í skólanum eru um 575 og skiptast í 23 bekki svo að meðalfjöldi nemenda í bekk er um 25 nemendur. Að sögn skólastjórans eru 97% af börnum með mestar sérþarfir í enskumælandi bekkjum. Kynjahlutfall nemenda með sérþarfir er um 66% drengir og 33% stúlkur sem er víst mjög svipað og hér á landi. Við skólann starfa níu aðstoðarmenn kennara. Skólastjórinn lagði áherslu að að aðstoðarmennirnir væru ekki kennarar þeirra barna sem þeir aðstoðuðu heldur ynnu þeir í nánu samstarfi við umsjónarkennara barnanna og styddu kennarana í samræmi við þarfir viðkomandi barna. Nám og kennsla Skólinn er hannaður þannig að hver aldurshópur hefur ákveðið svæði eða gang með kennslustofum og sameiginlegu miðrými. Í miðrýminu voru einnig snyrtingar sem litu út eins og litlir kofar. Skólasafn er staðsett í miðju skólans og var opið aðgengi að því úr öllum áttum en hægt að loka með hliðum. Á kennslusvæði yngstu barnanna voru skólastofurnar að hluta til á tveimur hæðum. Í stofum 5 ára barnanna (Kindergarten) voru loft með dúkkukrók og leiksvæði en undir því var leskrókur og heimakrókur. Vinnurými kennara yngstu barnanna var á miðsvæði í eins konar torghugsun. Hægt að opna á milli stofa en það hafði ekki reynst vel að sögn kennaranna. Blöndun/sérkennsla Í máli skólastjórans kom fram að hann var vel að sér í þróun blöndunar í skólahverfinu út frá sjónarhóli stjórnandans. Hann kvaðst hafa starfað að skólamálum á þriðja áratug og tekið þátt í þeim breytingum sem gerðar voru þegar blöndunin var innleidd. Um viðhorf kennara til blöndunar sagði hann að kennarar trúi að barnaskólinn sé rétti staðurinn fyrir börnin. Hann teldi ekki að New Brunswick hverfi nokkurn tíma aftur til tíma sérskólanna. Blöndunin hafi verið undirbúin vel af yfirvöldum og skólastjórar m.a. tekið þátt í endurmenntun vegna þessa. Að sögn skólastjóra New Maryland Elementary School er það áskorun fyrir skólann að veita öllum nemendum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Stuðningskerfi skólans er í meginatriðum tvíþætt: Þjónusta við nemendur (Student services) sem tengist þjónustu skólaskrifstofu s.s. aðstoð við einstaka nemendur (staffing). Við skólann starfa tveir sérkennarar í fullu starfi sem ýmist aðstoða kennara vegna barna með sérþarfir, sjá um umsóknir og skýrslur, skipulagningu og/eða kennslu. Samstarfsfundir eru haldnir vegna einstakra barna (case conferences) og taka þátt í þeim allir starfsmenn sem tengjast viðkomandi börnum. Lausnateymi eru mynduð til að taka á vanda einstakra starfsmanna eða nemendahópa og reynir þá hópur allra þeirra starfsmanna sem tengist viðkomandi máli að meta styrk og veikleika í stöðunni og koma með tillögur til lausnar á vandanum. Stuðningsþjónusta s.s. félagsþjónusta, sálfræðingar, sérhæfðir starfsmenn heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu, en til þessara aðila geta starfsmenn skólans leitað til að fá upplýsingar og ráðgjöf eða þjálfun vegna einstakra nemenda. Bráðger börn eru ekki talin með í skilgreiningu á börnum með sérþarfir. 38

39 Skólastjórinn sagði enn fremur að þegar starfshættir skóla án aðgreiningar væru teknir upp þá nýttust þeir öllum nemendum skólans því að þá væri nauðsynlegt að líta til þarfa hvers og eins og byggja á styrk hvers og eins. If you are going to do inclusion - differentiated instruction - it works for all students in the classroom. You have to look at students individually and find out their needs. It is a model that goes for all students. Í viðtali við umsjónarmann sérkennslu í skólanum kom fram að hún hafði unnið sem slíkur við skólann frá upphafi. Hennar helstu verkefni eru m.a. að skipuleggja og stjórna þeim fundum þar sem lagður er grunnur að einstaklingsnámskrám samkvæmt stefnu fylkisins í sérkennslumálum. Hún aðstoðar við framkvæmd læsisstunda í fyrsta tíma á morgnana og er kennurum til ráðgjafar vegna barna með sérþarfir. Einnig framkvæmir hún mat á stöðu einstakra nemenda. Varðandi börn með dyslexíu sagði hún að þau væru metin af sérkennurum skólans en stundum kæmi til mat sálfræðinga einnig. Reynt væri að finna lesefni við hæfi fyrir þessi börn eða laga það efni sem verið er að nota að þeirra þörfum. Þessi kennari kvaðst hafa svigrúm til að að stjórna því hve stór hluti starfsins væri bein kennsla eða mat á nemendum og hve stór hluti starfsins væri fólginn í ráðgjöf til kennara og kvaðst álíta að ráðgjafarhlutinn tæki um helming vinnutímans og kennsla og mat helmingur. Við mat á þörfum nemenda fyrir sérkennslu sagðist kennarinn styðjast við þær leiðbeiningar sem skólayfirvöld hefðu gefið út þ.e. Guidelines and Standards, Educational Planning for Students with Exceptionalities gefið út af menntamálaráðuneyti New Brunswick. 8. South Devon Elementary School South Devon Elementary school 778 MacLaren Avenue Fredericton, New Brunswick E3A 3L7 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: 5-11 ára (K-5th grade) Nemendafjöldi: 240 Kennarastöður: 21 Frönskubekkir: Nei South Devon Elementary School er með um 250 nemendur á aldrinum 5-10 ára (K-5th grade). Skólinn fékk verðlaun fyrir bestan árangur á svæðinu varðandi blöndun. Við skólann var mjög gott útileiksvæði. Vinahópar og jafningjaaðstoð (Peer work) var í gangi í frímínútum þar sem eldri nemendur hafa umsjón með yngri nemendum, þeir hafa meira að segja sérstaka búninga eða jakka til aðgreiningar frá öðrum nemendum. Janice Pelkey sem fylgdi hópnum okkar var aðstoðarskólastjóri við skólann áður en hún fór til starfa á fræðsluskrifstofunni. 39

40 Nemendur og starfslið Stór hluti nemenda er af indíánaættum innfæddir, kennsla fer fram á þeirra máli. Samkvæmt upplýsingum frá Janice Pelkey fara innfæddu börnin heim í hádeginu til að létta álagið og að ósk foreldra. Þetta er kostað af indíánahöfðingja einum en kostnaður liggur ekki fyrir. Í skólanum er 1½ staða sérkennara fyrir 250 nemendur eða 40 nemendur á sérkennara. Í sérkennsluveri er rúm fyrir fjóra nemendur. Tólf aðstoðarmenn kennara eru við skólann. Tónmenntakennari kemur í skólann og kennir 1 ½ dag í viku og íþróttakennari 1 dag í viku. Nám og kennsla Rætt var um kennslu í þeim bekkjum þar sem öll kennsla fer fram á frönsku og kennsluaðferðir í þeim tímum. Mikil áhersla er á hugarreikning. Bekkjarkennarar kenna allt nema frönsku og tónlist. Áberandi í skólanum er umhyggja fyrir nemendum og lögð er áhersla á jákvætt andrúmsloft Í skólanum eru gjarnan notaðar atferlismótandi aðferðir, , við 3 fer nemandi úr stofu í fimm mínútur. Ef nemandi fær þrjár lokaviðvaranir sama daginn er hann sendur heim í einn dag og síðan er haldinn fundur með skólastjóra og foreldrum daginn eftir. Blöndun/sérkennsla Kennsluáætlanir eru gerðar fyrir allan hópinn, en frávik eru gerð bæði fyrir duglega og slaka nemendur. Skólinn fylgir tilmælum fylkisins um 4 stig við áætlanagerð (Curriculum Planning); Accomodation, Modification og Individual Plan, síðan er einstaklingsnámskrá (Special Education Plan). Fræðsluskrifstofan fær afrit af einstaklingsnámskrám. Umsjónarkennari er ábyrgur fyrir áætlunum nemanda en sérkennari aðstoðar við gerð þeirra fyrir nemendur með sérþarfir. Um er að ræða eins konar samning og staðan er síðan metin þrisvar á ári. Nemendur með sérþarfir eru sem mest inni í bekknum, en eru teknir út t.d. til að fara í sjúkraþjálfun. Sérkennari greindi okkur m.a. frá því að í skólanum væri starfandi nemendaverndarráð (School Based Team) þar sem sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, sérkennari, hegðunarráðgjafi (behavioural specialist) og sálfræðingur. Mál sem eru tekin fyrir eru skráð á sérstök eyðublöð. Nemendur með hegðunarerfiðleika fá önnur verkefni og ábyrgð, gjarnan utan skólastofu. Við fórum í heimsókn í 1. bekk þar sem eru 15 nemendur, aldursblandaður árgangur, fimm nemendum hefur verið seinkað um ár. Í bekknum er kennari og aðstoðarkennari ásamt aðstoðarmanni með fjölfötluðum nemanda. Við fylgdum hópnum í tónmenntatíma, en þá var aðstoðarmaðurinn til hliðar með fjölfatlaða nemandann í hjólastól, þegar hann tók að ókyrrast fór aðstoðarmaðurinn með hann út. Gott skipulag var í kringum einhverfan dreng, stundaskrá fyrir hann er sett á lyklakippu sem fylgir honum. Talað var um að The Teacher Chooses his Battles sem þýðir að ekki þarf endilega alltaf að gera athugasemdir við hvaðeina. Unnið er eftir uppbyggingarstefnunni og nemendum kennt að leysa árekstra og ágreining. 40

41 9. Barkers Point Elementary School Barkers Point Elementary School 39 Carmen Avenue Fredericton, New Brunswick E3A 3W9 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: 5-11 ára (K-5th grade) Nemendafjöldi: 320 Kennarastöður: Frönskubekkir: bekkur (Early Immersion) Barkers Point er tiltölulega nýr skóli í norðurhluta Fredericton. Að sögn er um að ræða barnaskóla í einu af erfiðari hverfum borgarinnar. Tveir hópar sóttu þennan skóla heim og er umfjöllunin byggð á frásögn beggja hópanna. Mikið var að vera í skólanum daginn sem hóparnir heimsóttu skólann því hrekkjavaka var í fullum gangi. Nemendur, kennarar og annað starfsfólk voru í búningum og tók þátt í skemmtuninni. Hefðbundið bekkjarstarf var brotið upp t.d. með myndlistarkeppni milli árganga. Nemendur og starfslið 350 nemenda skóli á aldrinum 5-10 ára (K-5th grade). Við skólann starfa 18 kennarar og 9 aðstoðarmenn kennara. Samkennsla er í einum hópi í 2. og 3. bekk og er einn kennari með þann hóp. Nám og kennsla Ein kennslustofa bar af að mati hópsins, þar var unnið í hópavinnu þegar hópinn bar að garði. Nemendur skiptu með sér verkum og markvisst unnið með stöðvar. Unnið með sjálfsmynd nemenda og félagsfærni (social skills). Bekkjarfundir eru haldnir þar sem einn nemandi stjórnar fundi. Einu sinni í viku er æfð félagshæfni, í þetta skipti hafði nemandinn fundið leik og sögu til að skýra hugtakið að deila með einhverjum, sharing. Við sáum athyglisvert bréf til foreldra með stafsetningarverkefni nemenda (3. bekkur) til að skýra út verkefnið síðan fylgdu fyrirmæli til nemandans. Í tilefni af hrekkjavökunni var víða verið að nota grasker í kennslunni, baka og reikna. Þema og heildstæð vinna var víða sýnileg t.d. með límmiðum af leðurblökum og graskerjum og ýmsu öðru sem tengdist hrekkjavökunni. Nemandi með táknmál í einum bekk, fær 3 tíma á viku í táknmálskennslu. Enrichment, kennari vinnur aukaverkefni með hæfileikaríkum nemendum. Blöndun/sérkennsla Fundur með sérkennara með 7 ára háskólamenntun og 25 ára kennslureynslu. Á fundinum kom fram að einstaklingsnámskrár eru gerðar af sérkennara. Sérkennarinn segist gera 50 námskrár á ári; 6 einstaklingsnámskrár, 10 aðlagaðar aðstæður og 35 aðlagaðar í einstökum námsgreinum. Í nokkrum tilfellum þarf að taka börn með sérþarfir út úr almennum bekk og verða þau þá að vinna sér inn að fá að vera í samvistum með börnunum í bekknum. Sem dæmi nefndi hún stúlku með geðræna erfiðleika sem fékk verkefni til að vinna heima þar sem henni var ekki treyst til að koma í skólann. 41

42 Í viðtalinu kom m.a. fram að hún taldi afstöðu foreldra almennt jákvæða gagnvart stefnunni um skóla án aðgreiningar enda reyni starfsfólk að tryggja að börn með sérþarfir trufli ekki eða taki neitt frá öðrum börnum. Foreldrum er boðið að undirbúa einstaklingsnámskrá með því að mæta á fund en oftast lesa foreldrarnir áætlunina yfir sem kennarinn hefur útbúið og skrifa undir en geta gert athugasemdir á þessu stigi. Matsfundir eru haldnir í lok skólaárs með foreldrum. Rætt um aðstoðarmenn kennara. Sérkennarinn þjálfar þá. Kennararnir eru ábyrgir fyrir að gera daglega kennsluáætlun fyrir aðstoðarmennina og skólastjóri fær eintak af áætluninni. Aðspurður sagði sérkennarinn að helstu verkefni skólasálfræðings í skólanum væru m.a.: Tilvísanir Mat á vitsmunaþroska; skyrk og veikleika nemenda Fundir með foreldrum Eftirfylgni. Lestrarkennslan er það sem mestur tími fer í að mati deildarstjórans. Reynt er að byggja verkefnin á sterkum hliðum nemendanna. Sem dæmi um verkefni sem börn með sérþarfir hafi tekið þátt í nefndi kennarinn barn af indíánaættum sem hafði mikinn áhuga á örnum og bjó til arnarvængi, og lærði arnardans frá innfæddum og sýndi í bekknum sínum og vann síðan skriflega skýrslu um verkefnið. Sjálfstraust þessa nemanda styrktist til muna og þátttaka í bekkjarstarfinu jókst. Nemandinn fékk að bjóða öðrum nemendum í bekknum til samstarfs og fékk því þjálfun í félagsfærni og undirbjó sýningu til að fara með inn í bekkinn sinn. 10. Nashwaaksis Middle School Nashwaaksis Middle School 324 Fulton Avenue Fredericton, New Brunswick E3A 5J4 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: ára ( bekkur) Nemendafjöldi: 762 Kennarastöður: 40.1 Frönskubekkir: bekkur (Early Immersion) Skóli fyrir nemendur í bekk. Um er að ræða stærsta unglingaskólann í New Brunswick. Í Nashwaaksis Middle School er mikil samnýting á húsnæði skólans fyrir grenndarsamfélagið. Bókasafnið er t.d. bæði almennings- og skólabókasafn. Íþróttasalur skólans er mjög stór með þremur íþróttavöllum og er í notkun allan daginn og er síðan leigður út til miðnættis. Einnig eru í skólanum lyftingasalur, sundlaug og leikhússalur sem notuð eru af almenningi. Leikhússalur er t.d nýttur af áhugaleikfélögum á svæðinu. Hægt er að kaupa kort í íþróttaaðstöðuna á 10 dollara og 5 dollara fyrir nemendur. Kaffitería skólans er bæði fyrir nemendur og almenning. Sérstakt tölvuherbergi er til afnota fyrir almenning. Leiga fyrir húsnæði til almenningsafnota stendur undir kostnaði vegna gæslu og þrifa. Nemendur og starfslið Nemendur eru um 760 í þremur árgöngum, bekk. Við skólann starfa um 60 starfsmenn, kennarar og aðrir starfsmenn. Þar af eru þrír sérkennarar. 42

43 Nám og kennsla Að mati hópsins voru þarna mjög fjölbreyttir kennsluhættir og innra starf. Í skólanum er lögð mikil áhersla á þemavinnu, samvinnu nemenda í hópum og sjálfstæði í vinnubrögðum. Í sérstöku hópvinnuherbergi voru öll gögn til reiðu til að útbúa veggspjöld og tölvur, bæði PC og makkar. Nemendur voru á ferð um skólann með upptökuvélar til að taka upp myndir og aðrir unnu í tölvu við að klippa myndir og útbúa til sýningar. Í skólanum eru 300 tölvur eða 2.5 á nemanda. Blöndun/sérkennsla Við sátum fund í nemendaverndarráði. Fundinn sátu skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, þrír sérkennarar og námsráðgjafi. Þar var farið yfir mál nemenda sem þurftu aðstoð eða einhvers konar inngrip t.d vegna mætinga, stöðu í námi eða félagslegra aðstæðna. Í einu máli stakk skólastjóri upp á því að kallað yrði til fundar lausnateymis til að taka fyrir mál eins nemanda til að fá hugmyndir um leiðir til lausnar. Einnig var rætt á þessum fundi um TAP sem lausn í máli eins nemanda. TAP stendur fyrir Tutorial Assisting Program, sérúrræði fyrir nemendur sem er í Fredericton High School. Nemendur fara úr sínum heimaskóla í það úrræði í 20 daga vistun eftir þann tíma til baka í heimaskóla (skráð eftir upplýsingum frá Janice Pelkey). 11. Fredericton High School Fredericton High School 300 Priestman Street Fredericton, New Brunswick E3B 6J8 s. (506) bs. (506) veffang: Aldur nemenda: ára ( bekkur) Nemendafjöldi: Kennarastöður: Frönskubekkir: bekkur Fredericton er elsti enski framhaldsskólinn í Kanada. Núverandi bygging er frá því um Húsnæði skólans er nú nýtt að hluta fyrir ýmsa aðra starfsemi. Til að mynda er skólaskrifstofa borgarinnar í einum hluta skólabyggingarinnar. Nemendur og starfslið Fredericton High School var áður 3 þúsund nemenda skóli er nú með um nemendur. Kennarar skólans eru tæplega 140. Sérkennarar skólans eru sex og þar af eru tveir sem sinna þörfum barna innfæddra. Námsráðgjafar eru fjórir. Aðstoðarmenn kennara eru tólf. Skólinn hefur hjúkrunarfræðing sem sinnir heilsugæslu og forvörnum. Lögregluþjónn hefur fast aðsetur í skólanum og sinnir löggæslu og forvarnarstarfi með nemendum skólans. Nám og kennsla Um er að ræða framhaldsskóla með möguleika á fjögurra ára námi sem skipulagður er á svipaðan hátt og íslensku fjölbrautaskólarnir. Helstu námsbrautir skólans eru: viðskipta- og tölvubraut, enska, listabraut, tæknibraut, fjölskyldubraut, heilbrigðis- og íþróttabraut, náttúrufræði- og vísindabraut, málabraut og stærðfræðibraut. Boðið er upp á átta starfstengdar greinar s.s. smíðar, bílaviðgerðir og tölvuviðgerðir. Náminu er skipt í kjarnagreinar og valgreinar. Kjarnagreinar eru enska, stærðfræði, samfélagsfræði, franska, raungreinar, tónlist og listir og tölvu- og upplýsingatækni og eru 43

44 skyldunámsgreinar fyrstu tvö árin en enska er skyldugrein öll fjögur námsárin. Vægi valgreina og námsbrauta eykst eftir því sem líður á námstímann. Mikil áhersla virtist vera á verklegt nám og var skólinn vel búinn til að sinna þeim greinum sem kenndar voru. Meðal þess sem sjá mátti var: verkgreinastofa, járnsmíði, bílaverkstæði þar sem gert var við bíla, trésmíðaverkstæði þar sem voru unnir hlutir sem nemendur selja eða vinna eftir pöntun, nuddstofa þar sem hægt var að panta tíma í nuddi og tölvuviðgerðasvæði þar sem nemendur læra að gera við tölvur. Að kvöldi fimmtudagsins 30. október var hópnum boðið til kvöldverðar í kaffihúsi skólans, The Future Chefs Café, sem er verklegi hluti matartækninámsbrautar skólans. Um er að ræða lítinn veitingastað sem búið er að innrétta innan skólans og er opinn almenningi í hádeginu og leigður út til samkomu- og veisluhalda á kvöldin og um helgar. Nemendur skólans fá aðeins aðgang í fylgd með foreldrum eða kennurum skólans. Starfsmenn veitingastaðarins eru í verklegu námi á matartæknibrautinni, bæði matreiðslumenn og framreiðslufólk. Þarna fengum við fram borinn mjög gómsætan mat af starfsmönnum sem virkilega lögðu sig alla fram í sínu starfi. Margir nemendur þessarar námsbrautar halda síðan áfram námi á þessu sviði og gerast matreiðslumenn eða framreiðslufólk. Að sögn Roberts Gerard, fylgdarmanns okkar í ferðinni, er veitingahúsið afrakstur af vinnu eins matreiðslumanns sem hefur haft það að áhugamáli og aðalatvinnu í 18 ár. Blöndun/sérkennsla Flestir nemendur með sérþarfir virtust vera þátttakendur í almennum námshópum. Þó kom hópurinn í sjúkrastofu þar sem var m.a. drengur sem hafði fengið veirusýkingu sem barn og var verulega veikur þannig að hann var alveg bundinn við sjúkrarúm sem var í stofunni. Annar piltur var þarna sem var einhverfur og gekk fram og til baka og virtist vera alveg sambandslaus við umheiminn, einnig var þar einhverf stúlka. Aðrir nemendur voru úti í bekkjum. Í skólanum sáum við deild fyrir nemendur sem brotið hafa af sér. Í deildinni eru 4-5 nemendur núna, fá ekki að vera úti í frímínútum né fara neitt út fyrir deildina. Á einum stað var athvarf þar sem nemendur geta komið og fengið sér að borða morgunmat án endur-gjalds. Fyrirtæki í borginni sjá um að leggja athvarfinu til matvæli eða fjármagn til matvæla-kaupa. Athvarfið er ætlað nemend-um sem búa við þannig félagslegar aðstæður að ekki er tryggt að þeir fái mat heima hjá sér á morgnana. Athvarfið er án skráningar, krakk-arnir bara koma og bjarga sér sjálf í það sem þar er. TAP prógram fyrir nemendur sem af ýmsum ástæðum eru utan skóla, hafa verið reknir eða eru að koma úr fangelsum. Enterprise fyrir nemendur sem eru í áhættu að detta út úr skóla. (sjá pésa) Lesver er fyrir ólæsa nemendur þar sem notast er við blandaðar aðferðir við að þjálfa nemendur í lestri. Sjö nemendur voru í lestrarprógrammi á þeim tíma sem heimsóknin fór fram. 44

45 VII. Svör við spurningum um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám í New Brunswick sem lagt var upp með í ferðina: Hvernig er einstaklingsmiðað nám skipulagt? Umsjónarkennarar eru lykilpersónur í að skapa aðstæður fyrir einstaklingsmiðað nám. Áhersla er á að allir nemendur fái kennslu við hæfi í almennum bekkjardeildum. Gera nemendur sér einstaklingsnámskrár? Umsjónarkennarar gera námsáætlanir fyrir allan bekkinn og einstaklinga innan hópsins en einstaklingsnámskrár eru gerðar í samráði við foreldra, sérkennara og aðra sérfræðinga. Nemendur taka þátt í gerð einstaklingsáætlana eftir því sem aðstæður leyfa. Foreldrar koma að gerð einstaklingsáætlana með því að gefa upplýsingar og samþykki þeirra þarf til þess að unnið sé eftir einstaklingsnámskrá. Hvaða leiðir eru nýttar til að koma til móts við ólíkar þarfir og hæfileika nemenda? Misjafnt er eftir skólum hvaða leiðir eru nýttar. Heildstæð þemaverkefni og stöðvavinna voru að mati kennaranna áhrifaríkustu leiðirnar til að koma til móts við ólíkar þarfir og hæfileika nemenda. Nemendur unnu í hópum og gjarnan voru notaðar sjónrænar vísbendingar um hvaða hópur átti að fara í hvaða verkefni. Nemendur unnu að sama verkefni en á mismunandi hátt í fjölþrepa námi eða unnu að ólíkum verkefnum. Hluti verkefna var unnin undir leiðsögn kennara eða aðstoðarmenn kennara en önnur sjálfstýrð. Hvernig er sérkennslu háttað? Fram kom að sérkennslan skiptist í þrjú stig; 1. Aðlögun (modified plan) fyrir einstakar námsgreinar s.s. lestur eða stærðfræði. Um er að ræða úrræði fyrir nemendur sem geta tekið þátt í öllu starfi og námskrá bekkjarins en þurfa lítillega aðlögun t.d. á námsefni, námsgögnum, tækjum o.þ.h. 2. Aðlögun vegna aðstæðna, námsefnis eða búnaðar (accommodation). 3. Einstaklingsnámskrár (individual program) fyrir mikið fatlaða nemendur sem víkja frá sínum aldurshópi og eru algerlega með sérsniðna námskrá. Ákvarðanir um sérkennslu eru teknar í samráði umsjónarkennara, foreldra, viðeigandi sérfræðinga, t.d. sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sjónfræðings, heyrnar- og talmeinafræðings og sérfræðings frá skólaskrifstofu. Umsjónarkennarar gera námskrár fyrir einstaklinga en fá til þess aðstoð, foreldrar koma að gerð þeirra með upplýsingum. Á grundvelli mats kennarans fær nemandi aðstoð en ekki á grundvelli greiningar en þó er stuðst við matsskýrslur þeirra sem og annarra sérfræðinga. 45

46 Eru nemendur í einhverjum tilvikum teknir út úr tímum og kennt annars staðar? Áhersla er á að allir nemendur fái kennslu við hæfi inni í almennum bekkjum og taki þátt í bekkjarstarfinu að svo miklu leyti sem kostur er en þó sáum við einnig nokkur dæmi um fatlaða nemendur sem voru mjög lítið inni í almennum bekkjum. Hvernig er komið til móts við þarfir fatlaðra nemenda? Í skólum New Brunswick er alltaf leitast við að fatlaðir nemendur séu sem mest inni í almennum bekkjum og taki þátt í því sem fram fer á sínum forsendum. Við sáum mörg dæmi þess að nemendur með verulegar sérþarfir voru viðstaddir og tóku þátt í almennu bekkjarstarfi en þurftu t.d. sérstakan útbúnað. Nemendur með ýmiss konar þroskafrávik voru einnig hluti af almennum bekkjum og tóku þátt í bekkjarstarfinu en voru oft að vinna með aðra námsþætti en flest börnin í bekknum. Hvernig er háttað úthlutun fjármagns til skóla? Fjármagn til sérkennslunnar er ákvarðað út frá fjölda nemenda sem þurfa á sérúrræðum að halda. Í maí meta sérkennarar þörf skólans fyrir sérkennslu næsta skólaár og senda umsókn til skólaskrifstofu sem metur sérkennsluþörfina út frá matsgreinargerðum skólans. Hvernig er tekið tillit til fatlaðra nemenda og nemenda með miklar sérkennsluþarfir við úthlutun fjármagns? Kennarar skólanna og sérfræðingar á vegum skólaskrifstofa meta þörf hvers einstaklings fyrir stuðning í skólastarfi svo að hann megi taka þátt í skólastarfinu á sínum forsendum. Stuðst er við mat og skýrslur frá sérfræðingum úr heilbrigðiskerfinu við að meta stöðu hvers einstaklings og gera áætlanir um nám í samræmi við þarfir hans. Lögð er áhersla á að útvega nemendum þær bjargir sem þeir þurfa til að stunda nám sitt. Er tveggja kennara kerfi í einhverjum tilvikum? Í heimsókn hópsins sáum við ekki dæmi um tveggja kennara kerfi eins og það hefur verið framkvæmt hér á landi. Reglan var sú að umsjónarkennari bekkjarins bar höfuðábyrgð á öllum nemendum í bekknum en þegar nemendur með sérþarfir voru inni í almennum bekkjum voru aðstoðarmenn kennara (teachers assistants) sem unnu undir leiðsögn umsjónarkennara og sérkennara. Í einstaka tilvikum voru sérkennarar að störfum inni í almennum bekkjum en virtust þá vera í tímabundnum verkefnum. Hver er reynslan af því skipulagi sem fylgt hefur verið í New Brunswick undanfarin ár, hafa einhverjir þættir verið teknir til endurskoðunar? Á árunum fór fram mat á hvernig til hefði tekist við að innleiða í skólum í New Brunswick stefnuna um skóla án aðgreiningar. Skólasvæðin söfnuðu saman upplýsingum um stefnu, námstilboð og kennsluaðferðir sem best stuðluðu að skóla fyrir alla. Þessar upplýsingar urðu grunnur að bæklingnum Best Practises for Inclusion en þar eru tekin saman þau meginatriði sem helst eru talin stuðla að og styðja við skóla án aðgreiningar. Bæklingurinn kom út árið 1994 og er að sögn skólamanna einn helsti leiðarvísir skólafólks um hvernig best sé að tryggja þátttöku allra barna í skólastarfinu. Þeir þættir sem þar er fjallað um eru námsumhverfið, samstarf varðandi skipulagningu og ráðgjöf, stjórnun, félagsleg ábyrgð, skipulagning og framkvæmd kennslunnar, stuðningsþjónusta, kennsluaðferðir, ákvarðanir um staðsetningu og tilfærslur í skólakerfinu, samstarf skóla, heimilis og samfélagsins og nýbreytni, skólaþróun og símenntun. 46

47 Hvernig er háttað símenntun kennara? Símenntunartímar (professional development) eru fyrir kennara í hverjum skóla en einnig eru námskeiðsdagar á sumrin, tveir dagar í ágúst og tvisvar sinnum hálfur dagur í nóvember og mars eftir foreldraviðtöl. Kennarar fara á námskeið til að styrkja sig í starfi t.d. vegna sérþarfa nemanda. Námskeið geta verið bæði valfrjáls og skylda. Námskeið eru starfsmönnum að kostnaðarlausu og flestir kennarar fara á þrjú til fjögur námskeið á vetri. Að mati kennara er nóg yfirleitt nóg framboð af námskeiðum og fræðslufundum fyrir starfsmenn bæði á vegum skóla og einnig á vegum háskólans í New Brunswick. Hvernig er starfslið skóla samansett? Í þeim barnaskólum (elementary schools) í New Brunswick sem heimsóttir voru eru 11,4-18,7 nemendur pr. stöðugildi kennara en að meðaltali voru 16,3 nemendur á hvert stöðugildi kennara. Í unglingaskólum (middle school) og framhaldsskólum (high schools) voru um 19 nemendur á hvert stöðugildi kennara. 1. október 2003 voru um 10,8 nemendur á hvert stöðugildi kennara í grunnskólum Reykjavíkur þannig að hlutfallið hér á landi er sambærilegt við þann skóla sem hafði lægsta hlutfall nemenda pr. stöðugildi kennara og mun lægra en meðaltalið í New Brunswick. Sérkennarar (methods & resource teachers) eru um 8% af kennarahópnum. Athygli vakti að skólastjórnendur í barnaskólum voru með 20% kennsluskyldu og þurftu því að kenna sem svaraði einum kennsludegi í viku og leystu þá hvor annan af við stjórnunina þá daga. Er áhersla á að ráða til starfa fólk með aðra sérfræðiþekkingu til samstarfs með kennurum? Sálfræðingar vinna með kennurum að framkvæmd og skipulagningu kennslunnar en ekki við einstaklingsgreiningar. Deildarstjóri sérkennslunnar í hverjum skóla (resource and materials teacher) hefur yfirumsjón með gerð námsáætlana fyrir þá nemendur sem ekki fylgja hjálparlaust námskrá bekkjarins. Eru stuðningsfulltrúar starfandi eða ígildi þeirra?ef svo er hver er menntun þeirra, verksvið og ábyrgð? Aðstoðarmenn kennara (Teachers' assistants) í skólum borgarinnar eru ráðnir í 25 klst. á viku eða þann tíma sem þeir nemendur sem þeir eiga að sinna sérstaklega eru í viðkomandi skóla. Aðstoðarmenn kennara vinna með bekkjarkennurum og sérkennurunum og undir leiðsögn þeirra. Til starfsins er víða valið fólk með ólíkan bakgrunn úr atvinnulífinu sem hefur ákveðna grunnmenntun, a.m.k. lokið skyldunámi, en fær síðan símenntun miðað við þau verkefni sem það tekur að sér í skólunum. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum samstarfs- eða undirbúningstíma með kennurunum. Hvernig er ráðgjöf til kennara háttað?hvar eru kennsluráðgjafar staðsettir (í samanburði við hverfavæðingu hér)? Gert er ráð fyrir að á vegum skólasvæða séu starfandi s.k. nemendaþjónustuteymi (Student Services Team). Í því eiga sæti umsjónarmaður skólaþjónustunnar, ráðgjafar skólaskrifstofunnar, sérkennsluráðgjafar, skólasálfræðingar, atferlisþjálfar, talmeinafræðingar og aðrir sérfræðingar sem koma að þjónustu á vegum skólasvæðisins. Á skólaskrifstofum í New Brunswick eru starfandi ráðgjafar sem hafa samstarf og samráð við starfsmenn skólanna um þau námstilboð og þjónustu sem skólarnir veita öllum börnum í fylkinu. Hver skólaskrifstofa ræður til sín þá ráðgjafa sem talið er að þjóni best þörfum þeirra barna sem sækja skólana í fylkinu hverju sinni. 47

48 VIII. Úr dagbókum þátttakenda. Elli. Í dag var ég 4 kennslustundir með 8 ára bekk. Fyrstu tvær stundirnar fylgdi ég Ella sem er mikið fatlaður 9 ára drengur með þroska á við 2-3 ára barn. Seinni tvær stundirnar var ég með bekknum hans þar sem nemendur unnu verkefni, aðallega tengd móðurmáli (ensku). Í upphafi hvers dags mætir Elli og aðstoðarkennarinn hans í bekkjarstofuna. Ella fyrsta verk er að fara með mætingalista bekkjarins til skólaritarans. Eftir það fer hann inn í litla stofu/herbergi þar sem hann dvelur lengst af með aðstoðarmenn kennaranum sem fylgir honum alla daga. Þar vinnur hann eftir prógrammi sem kennari/sálfræðingur í háskólanum útbýr fyrir hann. Í herberginu hans Ella var stór tölvuskápur með blikkandi ljósum sem malaði eins og gamall ísskápur. Stundum gaf hann frá sér smelli og önnur óhljóð. Þessi skápur náði að fanga athygli mína og truflaði einbeitingu mína. Fyrir utan þennan stóra skáp voru þarna borð og stólar sem virtust vera þarna í geymslu. Á borði í horninu var tölva með stórum miða sem á stóð out of order Í öðru horni stofunnar var upprúlluð dýna sem Elli notaði þegar hann lék sér eða hvíldi sig. Einnig var þar plastkassi með leikföngum fyrir hann. Í frjálsum tímum og þegar leikjaval er í bekknum fer Elli inn í bekkjarstofuna. Þar liggur hann á teppi í einum króknum. Hann hjalar og vælir lengst af. Tilgangurinn með þessari blöndun er að hann læri hegðun af bekkjarfélögunum. Síðustu 5 10 mínúturnar var hann skorðaður af á stól og hlustaði á sögu af snældu með heyrnartólum. Elli fer í frímínútur með hinum börnunum en stendur eða situr einn allan tíman þar sem hann getur/kann ekki að leika sér eins og hin börnin. Í bekknum hans Ella eru 24 nemendur. Kennslustofan var mjög rúmgóð og frábærlega búin. Kennarahjartað í mér sló hraðar og mér leið eins og ég væri stödd í draumalandi. Ég settist niður og skrifaði hjá mér það sem fyrir augu bar. Í stofunni voru 4 þemasvæði þar sem nemendur gátu gengið að verkefnum á svæðunum þegar kennarinn leyfði. Á svæði 1 (borð og sæti fyrir 3) var allt um grasker, þar sem nemendur skoðuðu myndir, teiknuðu/máluðu, sömdu sögur og fl. Svæði 2 (hillur og motta á gólfinu) spil/þrautir, þar var hægt að spila spil, púsla, eða leysa þrautir. Svæði 3 (stór bókahilla og teppi fyrir framan þar sem nemendur unnu liggjandi á gólfinu) lestur/lesvinna, nemendur lásu stuttan texta og svöruðu spurningum í vinnubókina sína. Svæði 4 (segulband, heyrnartól og gólfmotta) þarna gátu nemendur hlustað á sögur, leikrit og tónlist. Í stofunni voru líka flettitöflur sem nemendur gátu unnið á eða voru með leiðbeiningum frá kennaranum, orðateppi þar sem var verið að vinna ritunarverkefni, 8 auka borð og stólar, 2 kennaraborð, bókahillur og bækur í kössum á gólfinu og 1 tölva. Hér var allur ytri aðbúnaður til fyrirmyndar. Nemendaborðunum var raðað saman í hópborð og hafði hver hópur sinn lit. Aðstoðarkona kemur inn og fer yfir heimalestur nemenda og skiptir um lestrarbækur hjá þeim. Lestrarbókum er skipt í flokka og þeim er raðað eftir þyngd. Lestrarsérfræðingurinn (kennari með sérþekkingu) kemur einnig inn í stofuna og vinnur með nemendum. Hún fer á hópborðið sem er laust og kallar til sín átta nemendur (þá sem þurfa mesta aðstoð). Þar vinnur hún með þeim út tímann. Hún segir kennaranum eftir tímann hvað gott er að gera með þessum nemendum og hvernig. 48

49 Þetta var frábær tími og skemmtilegt að sjá. Nemendur voru greinilega vanir að vinna saman og hjálpuðust að. Þeir færðu sig milli svæða og völdu sér að hluta til verkefni sjálfir. Mér var nú hugsað til Ella og hans aðstæðna. Kristín María Korpuskóla Kennslustund í New Brunswick Ég kom inn í kennslustund þar sem nemendur í 7. bekk voru að kynna bækur sem þau höfðu lesið. Kynningin var þegar hafin þegar ég kom inn og drengurinn sem var að kynna sína bók var með leikræna tilburði fyrir framan bekkinn. Hurðin á stofunni var á sama vegg og taflan sem drengurinn stóð upp við og snéru nemendur allir að töflunni. Stofan var stór og rúmgóð. Ég fór að svipast um eftir kennaranum, hann sat aftast í stofunni og hafði yfirsýn yfir allan bekkinn. Ég hef ekki séð svona uppröðun í stofu áður. Annað sem vakti athygli mína strax var hvað nemendur hlustuðu vel á fyrirlesarann. Þegar drengurinn hafði lokið máli sínu, fékk hann stutta umsögn frá kennaranum og nemendur klöppuðu. Þegar drengurinn var á leið í sætið sitt kom ég auga á táknmálstúlkinn og heyrnarlausa nemandann sem hún túlkaði fyrir. Ég fór að skoða nemendahópinn betur og tók þá eftir tveimur nemendum með Downs heilkenni sem sátu saman við borð. Þetta var dæmigerður blandaður bekkur í skóla í New Brunswick. Ég hlustaði á fleiri kynningar og dáðist að hve nemendur voru skipulagðir í kynningum sínum, þeir héldu líka á litlum spjöldum sem þeir kíktu á af og til á meðan á kynningunum stóð. Eftir kennslustundina spjallaði ég við kennarann og hann gaf mér ljósrit af fyrirmælum sem nemendur fengu í þessu verkefni. Þetta var allt saman mjög skýrt og skilmerkilegt. Nemendur fengu að vita nákvæmlega til hvers var ætlað af þeim, t.d. ekki segja frá hvernig bókin endar og að nota 10 setningar til að lýsa persónum bókarinnar. Þeir fengu að,,velja sér hvernig þau fluttu sína kynningu, t.d. semja ljóð og lag og syngja fyrir bekkinn, leika hluta úr bókinni eða búa til vefsíðu um bókina og sýna bekknum. Matið var líka mjög skýrt og nemendur fengu að vita fyrirfram hvaða þættir yrðu metnir, t.d. flutningur og skipulagið á litlu spjöldunum sem þau notuðu við kynninguna. Guðríður S. Sigurðardóttir, Korpuskóla Dagbók Leo Hayes High School 28. okt. '03 Heimsókn í bekk þar sem voru tveir fatlaðir nemendur. Skólinn er stór með milli 1700 og 1800 nemendur. Að utan að sjá er hann næstum eins og skrifstofubygging, eiginlega ekki margt sem minnir á skóla. Nemendur eru frá ára. Eftir kynningu á starfi deildarstjórans í sérkennslu kom fylgdarkona og gekk með mér í bekkinn. Fyrst fórum við eftir gangi þar sem voru nemendaskápar beggja vegna gangsins, breiðir gangar, ekkert á veggjum, við fórum upp stiga upp á aðra hæð. Á leiðinni spjölluðum við um veðrið og haustlitina. Sums staðar var hálfopið inn í stofur og glitti í nemendur sem grúfðu sig yfir verkefni, annars voru gangarnir auðir. Inni í stofunni kynnti hún mig fyrir stuðningfulltrúanum sem ég átti að vera með þennan tíma. Hún var að aðstoða tvær fatlaðar stelpur inni í bekknum. Tíminn var stærðfræðitími (modified mathematics) fyrir nemendur í 10. og 11. bekk. 25 nemendur sátu í hópum kringum borð sem 49

50 voru grúppuð saman fyrir fjóra sem sneru hver á móti öðrum. Fötluðu stelpurnar sátu tvæt einar við borð. Kennarinn kom og kynnti sig, sagðist vera forfallakennari því Mr. Robertson var veikur í dag. Þetta var ung stúlka með tagl, grönn og lítil. Annar kennari sem reyndist vera kennaranemi, var að ræða við nemendahóp hinum megin í stofunni. Aðstoðarkennarinn kynnti mig fyrir stelpunum og þær tóku feimnislega undir. Tjáðu sig annars ekki mikið. Önnur var stór og feitlagin hún virtist hreyfihömluð vinstra megin, notaði aðeins aðra höndina, hin lítil og grönn, fölleit og talaði ekki mikið. Verkefni tímans var að búa til sólpall úr pappakassa og drykkjarstráum. Aðstoðarkennarinn var að undirbúa verkefnið fyrir þær og ræddi stöðugt við þær á meðan. Hún sagði afsakandi við mig að þær gætu ekki gert mikið sjálfar fyrr en síðar. Frekar en ekkert bauðst ég til að aðstoða við að búa til göt í kassann fyrir stráin sem áttu síðan að bera uppi pallinn. Ég sá engin samskipti stelpnanna við bekkjarfélagana og áður en tímanum lauk fóru þær af stað á undan til að forðast þrengslin á göngunum. Annar aðstoðarkennari bættist í hópinn um miðjan tímann hún sagðist vera listakona en koma hér til að vinna fyrir salti í grautinn og líka vegna þess að henni þætti gaman að vinna með unglingum. Hún var í almennri aðstoð. Birna Sigurjónsdóttir, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur Atvinnuhæfing fatlaðra nemenda í Leo Hayes High School - Sagan af Jamie Allir hafa sinn rétt... eru einkunnarorð skólans og út frá þeirri stefnu er lögð mikil áhersla á að atvinnuhæfa fatlaða nemendur. Þeir útskrifast tveim árum síðar en heilbrigðu nemendurnir og er það til þess að koma þeim tryggilega af stað í vinnu. Skólinn er í samvinnu við mörg stór fyrirtæki í grenndinni sem taka við nemendunum og hefur það samstarf gengið mjög vel. Nemendur eru yfirleitt í tvo tíma á morgnana að vinna og læra handtök og vinnubrögð. Allan tímann fylgir þeim TA, Teacher s assistant sem leiðbeinir þeim stöðugt og TA-inn fylgir þeim líka í skólanum og leiðbeinir við þau verkefni sem þau vinna þar. Þessi saga er af Jamie Atkinson, sem var 19 ára ungur maður og átti að útskrifast úr Leo High School næsta vor. Aðstoðarkennarinn hans, Shannon Marshall hafði nú fylgt honum í tvö ár. Shannon er um 25 ára kona. Jamie er með einhverfu. Þegar Jamie var 17 ára hafði hann engin samskipti við skólafélagana. En umbyltingin í lífi hans varð þegar ákveðið var að finna honum starf og hæfa hann til þátttöku í atvinnulífinu. Aðstoðarkennarinn, Shannon var fengin til að leiða hann fyrstu skrefin. Eitt af samstarfsfyrirtækjum skólans er Nashwaaksis Superstore og þangað fóru Jamie og Shannon. Í stórmörkuðum má finna nokkur létt verkefni. Og það ótrúlega gerðist að Shannon náði strax sambandi við Jamie. Smám saman fór hann að tjá sig við annað fólk en allt til dagsins í dag lítur hann til Shannon um hvort og hvernig hann eigi að svara. 50

51 Það stóð aldrei til að Shannon yrði aðstoðarkennari fyrir Jamie í tvö ár en hann batt svo mikið traust við hana og tók svo miklum framförum að ákveðið var að taka tillit til þess. Shannon æfir Jamie á hverjum degi í að eiga samskipti við aðra án hennar milligöngu og það gengur samkvæmt bestu vonum. Shannon fylgir Jamie allan tímann í stórmarkaðinum þessa tvo tíma sem hann er að vinna 5 daga vikunnar. Verkefni Jamie er að umraða og færa vörur til á réttan stað. Viðskiptavinir gera ótrúlega mikið af því að skilja vörur eftir hér og þar þegar þeir hafa skipt um skoðun og ætla ekki að kaupa eitthvað. Og það eru langar vegalengdir í stórmörkuðum. Jamie er með innkaupakörfu fulla af vörum sem þarf að raða rétt inn og saman ganga þau Shannon og Jamie marga kílómetra á hverjum degi. Jamie er mjög öruggur við þetta og klárar allt rétt. Það sem gerir sögu Jamie svo einstaka er sú opnun sem varð á persónuleika hans við að fá vinnu sem höfðar til hans og þetta fallega samband milli hans og Shannon sem dró Jamie út úr einangrun. Afraksturinn er geislandi ungur maður sem heilsar öllum og margir finna sig knúna til þess að heilsa honum innilega og jafnvel að faðma. Það jákvæða flæði sem skapast í návist Jamie er mannbætandi og í dag á Jamie sérlega góð samskipti bæði í skólanum og á vinnustaðnum. Framkoma hans er bæði blíðleg og glaðvær og þannig vinnur hann sitt verk segir fátt en brosir mikið og framkallar geislablik. Jamie Atkinson útskrifast í vor úr Hayes High School og að því loknu verður séð til þess að hann fái áfram vinnu. Saga Jamie minnir með afdráttarlausum hætti á að allir hafa sinn rétt! Rétt til að taka þátt og hafa hlutverk í lífinu. Brosið hans Jamie var ógleymanlegt og mun fylgja mér. Guðrún Þórsdóttir, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur 51

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson Ritstuldarvarnir Sigurður Jónsson sigjons@hi.is Aðgangur að Turnitin 1. Beint í Turnitin á www.turnitin.com 2. Gegnum Moodle-námskeið Kennarar og nemendur halda sig í Moodleumhverfinu Fá frumleikaskýrslu

More information

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66 Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66.A.20(b) privileges The holder og an aircraft maintenance licence may not exercise its privileges unless: 1. In compliance

More information

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum Raddir fjölbreyttra kennarahópa Sólveig Karvelsdóttir, lektor, HÍ Hafdís Guðjónsdóttir, dósent, HÍ Rannsóknin er hluti af tveimur rannsóknum Fjölbreyttir kennarahópar

More information

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði Eðlisfræðiskor HÍ og Raunvísindastofnun Háskólans Tilraunahúsið p.1/18 Sýnishorn af markmiðum ríkisvalds í menntamálum

More information

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. í sálfræði 103 á vorönn 2008 um viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. Rannsóknin á að gera grein fyrir afstöðu nemenda við Menntaskólanum á Egilsstöðum til nýgerða breytinga á stoðtímakerfi

More information

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Q1. Ert þú karl eða kona? Karl 229 19.83% Kona 926 80.17% Fjöldi 1155 Q2. Á hvaða aldursbili ert þú? 30 ára eða yngri 190 16.42% 31-40 ára 257 22.21% 41-50 ára 312 26.97%

More information

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Morgunverðarfundur Ferðamálastofu Grand hótel, Reykjavík 14. apríl 2011 Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Dr. Edward H. Huijbens Forstöðumaður /

More information

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Ingólfur Ásgeir Jóhannesson Hvernig getur málefni sem ekki er skilgreint sem námsgrein í grunnskóla eða námssvið

More information

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Ný tilskipun um persónuverndarlög UT Messa SKÝ, 9. febrúar 2012 Hörður Helgi Helgason Um fyrirlesara 1999 2000-03 2003-06 2006- Héraðsdómslögmaður Persónuvernd Ráðgjafi, evrópsk persónuv.lög LM lögmenn -> Landslög munið #utmessan Boligen

More information

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND INDEX I. Regional Partnerships Official Partners of the OPEN DAYS 2011 East Iceland... 3 Austurlands... 5 2 I. Regional

More information

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Samanburður vindmæla Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Haustþing Veðurfræðifélagsins 2011 Tegundir vindmæla Til eru margar mismunandi gerðir vindmæla sem byggja á mismunandi

More information

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR Ingvar Örn Ingvarsson Verkefnisstjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar Samgöngufundur á Norðurlandi, 19. nóvember 2015 Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 8. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla Læsi til samskipta og náms Ráðstefna MSHA um læsi 13. september 2014 Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla Rúnar Sigþórsson Háskólanum á Akureyri runar@unak.is Örstutt um Byrjendalæsi

More information

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Björn Traustason og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá Fagráðstefna 25.mars 2010 Inngangur Landfræðileg greining til að meta útbreiðslu nokkurra

More information

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning)

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) Frásagnir úr námsferð fræðslustjóra með skólastjórum í Reykjavík, starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar og fulltrúum úr fræðsluráði á ráðstefnu og í skólaheimsóknir

More information

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst 15. 18. ágúst 21. 25. ágúst 28. ág 1. sept. 15. skipulagsdagur 16. skipulagsdagur 17. Skipulagsdagur 18. skipulagsdagur

More information

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Lokaverkefni til B.Ed. prófs Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Eru ánægðir foreldrar bestu bandamenn kennara? Halldóra Gísladóttir 300955-5419 Kennaraháskóli Íslands

More information

Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla

Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla SKÓLAÞRÓUNARSVIÐ KENNARADEILDAR HÁSKÓLANS Á AKUREYRI ÞINGVALLASTRÆTI 23 600 AKUREYRI Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla Mat á skólastarfi Birna María Svanbjörnsdóttir Jenný Gunnbjörnsdóttir

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Skóli án aðgreiningar

Skóli án aðgreiningar Skóli án aðgreiningar Viðhorf sérkennara í grunnskólum til stefnunnar skóli án aðgreiningar Rannveig Klara Matthíasdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Háskóli Íslands Menntavísindasvið Skóli án aðgreiningar

More information

GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM. Viðmið og framkvæmd ytra mats grunnskóla

GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM. Viðmið og framkvæmd ytra mats grunnskóla GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM og framkvæmd ytra mats grunnskóla GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM og framkvæmd ytra mats grunnskóla ISBN 978-9979-0-2314-2 Ritstjóri: Þóra Björk Jónsdóttir Málfarsyfirlestur: Ingólfur Steinsson

More information

Stefnumótun. tun Rf. Hlutverk (Mission) Why we exist. Gildi (Core values) What we believe in. Framtíðarsýn (Vision) What we want to be

Stefnumótun. tun Rf. Hlutverk (Mission) Why we exist. Gildi (Core values) What we believe in. Framtíðarsýn (Vision) What we want to be Stefnumótun tun Rf Hlutverk (Mission) Why we exist Gildi (Core values) What we believe in Framtíðarsýn (Vision) What we want to be Stefna (Strategy) Our Game plan Stefnumiðað árangursmat Balanced Scorecard

More information

GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM. Viðmið og framkvæmd ytra mats grunnskóla

GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM. Viðmið og framkvæmd ytra mats grunnskóla GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM og framkvæmd ytra mats grunnskóla GÆÐASTARF Í GRUNNSKÓLUM og framkvæmd ytra mats grunnskóla ISBN 978-9979-0-??????? Ritstjóri: Þóra Björk Jónsdóttir Málfarsyfirlestur: Ingólfur

More information

Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá. 3. bekkjarnámskrá. Skólanámskrá Hraunvallaskóla

Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá. 3. bekkjarnámskrá. Skólanámskrá Hraunvallaskóla Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá 3. bekkjarnámskrá Skólanámskrá Hraunvallaskóla Skólaárið 2018-2019 Skólanámskrá Hraunvallaskóla. Útgefin 2016. Skólanámskrá er útgefin á rafrænu formi

More information

Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá. 8. bekkjarnámskrá skólanámskrá Hraunvallaskóla

Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá. 8. bekkjarnámskrá skólanámskrá Hraunvallaskóla Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Skólanámskrá 8. bekkjarnámskrá skólanámskrá Hraunvallaskóla Skólaárið 2017-2018 Skólanámskrá Hraunvallaskóla. Útgefin 2017. Skólanámskrá er útgefin á rafrænu formi

More information

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Svíþjóð - stjórnsýslan Þrjú formleg stjórnsýslustig Sveitarfélög, 290 talsins (Local level) Lén, 20 talsins (Regional level) Landsstjórn, 349 þingmenn (National

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Framhaldsskólapúlsinn

Framhaldsskólapúlsinn Framhaldsskólapúlsinn Mat á líðan og skólabrag í framhaldsskólum Málþing um geðrækt í framhaldsskólum 20. september 2013 Almar M. Halldórsson Skólapúlsinn Skólapúlsinn er veflægt sjálfsmatskerfi fyrir

More information

Ég vil læra íslensku

Ég vil læra íslensku Ég vil læra íslensku 16 Föt Föt Évlí - 16 föt 1 hlusta Generated by Foxit PDF Creator Foxit Software benda lita teikna klippa líma strákur stelpa ekki stelpa/ekki strákur hugsa Évlí - 16 föt 2 hlusta íslenskur

More information

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Stóra myndin Uppbygging þekkingarsamfélags Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Bakgrunnur Viðskiptaráð Íslands 1 Yfirlit 1. Hvað eru þekkingarkjarnar? 2. Hvað

More information

Samstarf leik- og grunnskóla Um mat og upplýsingamiðlun milli skólastiganna

Samstarf leik- og grunnskóla Um mat og upplýsingamiðlun milli skólastiganna Samstarf leik- og grunnskóla Um mat og upplýsingamiðlun milli skólastiganna Starfshópurinn: Hildur Skarphéðinsdóttir, formaður Hrönn Pálmadóttir, ritstjóri skýrslunnar Anna Bára Pétursdóttir Guðrún Edda

More information

Tungumálatorgið - fræðin og veruleiki á vettvangi. Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir: kennsluráðgjafi og verkefnastjóri Tungumálatorgsins,

Tungumálatorgið - fræðin og veruleiki á vettvangi. Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir: kennsluráðgjafi og verkefnastjóri Tungumálatorgsins, Tungumálatorgið - fræðin og veruleiki á vettvangi Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir: kennsluráðgjafi og verkefnastjóri Tungumálatorgsins, tobba@hi.is Menntakvika 2013 Erindið Segja sögur Sýna myndir Setja í

More information

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila desember 2016 VIÐMIÐ TEGUND FYRIRTÆKIS

More information

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós XML-þjónustan veitir aðgang að nýjum norðurljósagögnum Veðurstofunnar sem birt eru á www.vedur.is. Slóð XML-þjónustunnar er http://xmlweather.vedur.is/aurora?op=xml&type=index

More information

Aðalnámskrá grunnskóla, hæfni og hæfnimiðað námsmat

Aðalnámskrá grunnskóla, hæfni og hæfnimiðað námsmat Aðalnámskrá grunnskóla, hæfni og hæfnimiðað námsmat Hæfnimiðað nám og námsmat Málþing í Brekkuskóla 12. ágúst 2016 Rúnar Sigþórsson prófessor kennaradeild HA OECD: Þrjú meginsvið hæfni 2 Sjálfstæði í persónulegum

More information

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson Samstarf HR og IGI Ólafur Andri Ragnarsson Leikjaiðnaðurinn 2021 Leikjaiðnaðurinn 2021 5.000 störf 70 milljarðar í heildarútflutningstekjur ef... Photo Ian Parker http://parkerlab.bio.uci.edu/nonscientific_adventures/iceland_man.ht

More information

Stjórnun og fagleg forysta í grunnskólum

Stjórnun og fagleg forysta í grunnskólum n Fræðigreinar STJÓRNMÁL Stjórnun og fagleg forysta í grunnskólum Trausti Þorsteinsson, dósent við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri Amalía Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla

More information

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu Ágrip Í þessari ritgerð, sem er lokaverkefnið mitt til B.Ed gráðu, mun ég fjalla um samvinnu á milli myndlistarskóla og grunnskóla. Í því samhengi mun ég skoða Billedskolen i Tvillingehallen og Myndlistarskólann

More information

Menntun til sjálfbærni og samstarf skóla og samfélags

Menntun til sjálfbærni og samstarf skóla og samfélags Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Eygló Björnsdóttir og Stefán Bergmann Menntun til sjálfbærni og samstarf skóla og samfélags Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst áratuginn 2005 2014

More information

Hlutverk skólastjóra í menntun til sjálfbærni

Hlutverk skólastjóra í menntun til sjálfbærni Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Auður Pálsdóttir og Allyson Macdonald Hlutverk skólastjóra í menntun til sjálfbærni Reynsla af þróunarstarfi í fjórum grunnskólum

More information

Sæmundarskóli heildarmat á skólastarfi

Sæmundarskóli heildarmat á skólastarfi Sæmundarskóli heildarmat á skólastarfi Janúar 2014 Skóla og frístundasvið Reykjavíkur Ritstjóri: Birna Sigurjónsdóttir Ritun skýrslu og fylgiskjala: Birna Sigurjónsdóttir Guðrún Edda Bentsdóttir Hildur

More information

Leiðbeinandi á vinnustað

Leiðbeinandi á vinnustað Work Mentor Leiðbeinandi á vinnustað Leonardo da Vinci, Transfer of Innovation verkefni sem VMA sótti um að stýra. Kynning maí 2011. Jóhannes Árnason 1 Work Mentor Leonardo da Vinci Transfer of Innovation

More information

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM Skýrsla fyrir skólaárið 2016-2017 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 1. Inngangur... 3 2. Markmið og tilgangur matsins... 3 3. Aðferðir og framkvæmd matsins... 3 4.

More information

Skólanámskrá og Starfsáætlun Dalvíkurskóla

Skólanámskrá og Starfsáætlun Dalvíkurskóla Dalvíkurbyggð 2017 Skólanámskrá og Starfsáætlun Dalvíkurskóla Þekking og færni Virðing og vellíðan 2017-2018 Efnisyfirlit Saga og þróun skólahalds... 5 Stefna skólans... 5 Grunnþættir menntunar... 6 Læsi...

More information

Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur?

Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur? Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur? Málþing um byggðamál og svæðasamvinnu 14. mars 2014 Stefanía Traustadóttir Heimsókn til Norðurbotns (Oulu) apríl 2012 Þátttakendur: Ragnheiður

More information

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Sérfræðingur í persónurétti Yfirlit Stóra myndin Skyldur GDPR Aðlögunarferli Áskoranir og praktísk ráð 2 3 Yfirlit: Hvað er GDPR?» GDPR

More information

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 Ingvar Sigurgeirsson Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011 details how school climate is associated with and / or promotes safety, healthy relationships, engaged learning

More information

Reykjavík, 30. apríl 2015

Reykjavík, 30. apríl 2015 Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara Sigurjón Mýrdal formaður Sólrún Harðardóttir starfsmaður Námsmatsstofnun Borgartúni 7a 105 Reykjavík Reykjavík, 30. apríl 2015 Efni: Svör Kennarasambands Íslands

More information

Könnunarverkefnið PÓSTUR

Könnunarverkefnið PÓSTUR Könnunarverkefnið PÓSTUR Þáttakenndur í verkefninu UM PÓST Rauði hópur Vor 2010 Börn fædd 2005 Hópstjóri: Tatjana Lind Jónsson Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina

More information

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2 1 Examples 2 Sýnidæmi 2 2 Example 25-1 Gefið er 3 fasa, 3 teina raforkukerfi samkvæmt meðfylgjandi einlínumynd. Allar stærðir á myndinni eru í einingakerfinu ( per unit ). Seríuviðnám háspennulínanna er

More information

Milli steins og sleggju

Milli steins og sleggju Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Menntavísindasvið Háskóli Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2017 Yfirlit greina Guðbjörg Ólafsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir Milli steins og sleggju Hugmyndir

More information

Íslenskir skólar og erlend börn? Skólaþróun í fjölmenningarlegu samfélagi

Íslenskir skólar og erlend börn? Skólaþróun í fjölmenningarlegu samfélagi 147 Íslenskir skólar og erlend börn? Skólaþróun í fjölmenningarlegu samfélagi Hanna Ragnarsdóttir lektor Kennaraháskóla Íslands: Málefni barna af erlendum uppruna á Íslandi hafa verið ofarlega á baugi

More information

Fjölbreyttir kennarahópar og fjölbreyttir nemendahópar

Fjölbreyttir kennarahópar og fjölbreyttir nemendahópar Fjölbreyttir kennarahópar og fjölbreyttir nemendahópar Hanna Ragnarsdóttir dósent Menntavísindasviði HÍ Menntakvika 22. okt. 2010 1 Skipulag erindis Alþjóðlega rannsóknaverkefnið Diverse Teachers for Diverse

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services 2011:1 27. maí 2011 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Frá árinu 1987 hefur Hagstofa Íslands leitað upplýsinga frá sveitarfélögum árlega um fjárhagsaðstoð, félagslega heimaþjónustu

More information

VIÐMIÐ OG VÍSBENDINGAR. fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs

VIÐMIÐ OG VÍSBENDINGAR. fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs VIÐMIÐ OG VÍSBENDINGAR fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs 2 VIÐMIÐ OG VÍSBENDINGAR fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs September 2014 3 Útgáfa: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur

More information

Námsumhverfi 21. aldar byggingar og tæki

Námsumhverfi 21. aldar byggingar og tæki Starfshættir í grunnskólum: Námsumhverfisstoð Fyrstu niðurstöður Námsumhverfi 21. aldar byggingar og tæki Anna Kristín Sigurðardóttir, aks@hi.is Menntavísindasvið Með námsumhverfi er átt við húsnæði og

More information

Starfsþróun eflir nemendamiðaða faglega forystu. (Professional Development for Student Centered Leadership) Lokaskýrsla Erasmus+ verkefnis

Starfsþróun eflir nemendamiðaða faglega forystu. (Professional Development for Student Centered Leadership) Lokaskýrsla Erasmus+ verkefnis Starfsþróun eflir nemendamiðaða faglega forystu (Professional Development for Student Centered Leadership) Lokaskýrsla Erasmus+ verkefnis 2017-2018 Menntaskólinn við Sund Project Summary The main elements

More information

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012 Nr. 28/32 EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012 2013/EES/28/07 frá 8. júní 2012 um framkvæmdarreglur vegna beitingar 16. gr.

More information

Horizon 2020 á Íslandi:

Horizon 2020 á Íslandi: Horizon 2020 á Íslandi: - Árangur Íslands í Horizon2020 - Hvernig getur Rannís veitt ykkur aðstoð? Kristmundur Þór Ólafsson Alþjóðasvið Rannís Landstengiliður (NCP) fyrir H2020 Hvað er H2020? Rammaáætlun

More information

HUGPRÓ Betw Be ar tw e ar QA & Agile

HUGPRÓ Betw Be ar tw e ar QA & Agile HUGPRÓ Betware QA & Agile 26.02.2010 Head Quarters Betware Reykjavík Betware DK Copenhagen Denmark Betware Solutions CA Kamloops, BC Betware Madrid Spain Certus Odense Denmark Betware Sp. z o.o. Warsaw

More information

Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri.

Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri. Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri. Fræðslufundur fyrir grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu Mánudaginn 18. september 2017 í Skriðu, Menntavísindasviði

More information

Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku

Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku 2011 2015 Ýr Þórðardóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku 2011

More information

Nemendur með einhverfu í almennum grunnskólum. Greinargerð samstarfshóps um samhæfða þjónustu við nemendur með einhverfu

Nemendur með einhverfu í almennum grunnskólum. Greinargerð samstarfshóps um samhæfða þjónustu við nemendur með einhverfu Nemendur með einhverfu í almennum grunnskólum Greinargerð samstarfshóps um samhæfða þjónustu við nemendur með einhverfu Júní 2010 Tillögur um samhæfða þjónustu við nemendur með einhverfu í grunnskólum.

More information

Kennarinn í skóla án aðgreiningar

Kennarinn í skóla án aðgreiningar Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2010 Hermína Gunnþórsdóttir Kennarinn í skóla án aðgreiningar Áhrifavaldar á hugmyndir og skilning íslenskra og hollenskra grunnskólakennara

More information

Efnahagshrunið og skólastarf í tveimur íslenskum sveitarfélögum

Efnahagshrunið og skólastarf í tveimur íslenskum sveitarfélögum Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 2012 Sigurlína Davíðsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Arna H. Jónsdóttir, Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson

More information

Skólamenning og námsárangur

Skólamenning og námsárangur Ritrýnd grein Tímarit um menntarannsóknir / Journal of Educational Research (Iceland) 8, 2011, 19.-37. Skólamenning og námsárangur Amalía Björnsdóttir, Baldur Kristjánsson og Börkur Hansen Háskóla Íslands,

More information

Námsmat í þágu hvers? Skýrsla um þróunarverkefni um einstaklingsmiðað námsmat í Ingunnarskóla og Norðlingaskóla

Námsmat í þágu hvers? Skýrsla um þróunarverkefni um einstaklingsmiðað námsmat í Ingunnarskóla og Norðlingaskóla Ingvar Sigurgeirsson Ágúst Ólason Guðlaug Erla Gunnarsdóttir Námsmat í þágu hvers? Skýrsla um þróunarverkefni um einstaklingsmiðað námsmat í Ingunnarskóla og Norðlingaskóla 2006 2009 Lokaskýrsla Október

More information

Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar

Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Sólrún Ársælsdóttir Lokaverkefni til B.Ed.-prófs Kennaradeild Tölvu- og upplýsingatækni í fjórum grunnskólum Garðabæjar Sólrún Ársælsdóttir Lokaverkefni

More information

LESTRARSTEfnA LEik- og grunnskóla BoRgARByggðAR

LESTRARSTEfnA LEik- og grunnskóla BoRgARByggðAR LESTRARstefna Leik- og Grunnskóla Borgarbyggðar 2017-2021 Starfshópur um lestrarstefnu Borgarbyggðar Aðalheiður Kristjánsdóttir leikskólanum Andabæ Ásta Björk Björnsdóttir skólaþjónustu Borgarbyggðar Elín

More information

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum Menntavísindasvið Háskóla Íslands Grein birt 31. desember 2010 Freyja Birgisdóttir Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum Kynntar verða niðurstöður langtímarannsóknar á þroska,

More information

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Power Point leiðbeiningar Sjónarhorn View Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Outline view - Yfirlitshamur Hér er hægt að rita minnispunkta við hverja glæru fyrir þann sem

More information

SMIÐJUR Í NORÐLINGASKÓLA Samþætt nám í list- og verkgreinum, náttúrufræði og samfélagsgreinum í bekk

SMIÐJUR Í NORÐLINGASKÓLA Samþætt nám í list- og verkgreinum, náttúrufræði og samfélagsgreinum í bekk Ingvar Sigurgeirsson Ágúst Ólason Sif Vígþórsdóttir Áfangaskýrsla um þróunarverkefnið SMIÐJUR Í NORÐLINGASKÓLA Samþætt nám í list- og verkgreinum, náttúrufræði og samfélagsgreinum í 5. 10. bekk Efnisyfirlit

More information

- Samvinna um tónlistarnám - Kennaralaun í alþjóðlegu samhengi - Something old, something new... Félagsfærni lærist ekki af sjálfu sér

- Samvinna um tónlistarnám - Kennaralaun í alþjóðlegu samhengi - Something old, something new... Félagsfærni lærist ekki af sjálfu sér Félagsfærni lærist ekki af sjálfu sér BLS 18 Spjaldtölvur í skólastarfi? BLS 32 3.TBL. 11.ÁRG. 2011 - Samvinna um tónlistarnám - Kennaralaun í alþjóðlegu samhengi - Something old, something new... VIÐ

More information

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands Yfirlit erindis Meginmarkmið og bakgrunnur Nokkrar skilgreiningar Rannsóknaraðferðir

More information

Handbók Laugargerðisskóla starfsáætlun

Handbók Laugargerðisskóla starfsáætlun Handbók Laugargerðisskóla starfsáætlun 2015-2016 Efnisyfirlit Inngangur... 3 1. Grunnupplýsingar... 3 2. Hlutverk skólans... 3 3. Stefna og markmið Laugargerðisskóla... 4 4. Útfærsla skólans á grunnþáttum

More information

Guðný Sigríður Ólafsdóttir

Guðný Sigríður Ólafsdóttir Upplýsingatækni og samvirkar aðferðir í læsiskennslu Gagnvirka rafbókin Gula sendibréfið Guðný Sigríður Ólafsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Náms- og kennslufræði Upplýsingatækni og miðlun Upplýsingatækni

More information

Starfsáætlun Þrúður Hjelm Skólastjóri Krikaskóla

Starfsáætlun Þrúður Hjelm Skólastjóri Krikaskóla Starfsáætlun 2014-17 Þrúður Hjelm Skólastjóri Krikaskóla Formáli Samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla skal setja fram starfsáætlun á hverju ári. Hér í Mosfellsbæ hefur verið unnið með form starfsáætlunar

More information

Kennarasamband Íslands, 15. desember 2016

Kennarasamband Íslands, 15. desember 2016 Kennarasamband Íslands, 15. desember 2016 Skýrsla KÍ um ráðstefnu Alþjóðasamtaka kennara um menntun flóttabarna. Stokkhólmi, 21. 22. nóvember 2016. Education of refugee children fast track to equal opportunities

More information

Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum

Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum Netla Veftímarit um uppeldi og menntun Sérrit Um læsi Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 07. september 016 Yfirlit greina Amalía Björnsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir.

More information

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík Notkun merkis Veðurstofu Íslands Veðurstofa Íslands Bústaðavegur 9 150 Reykjavík +354 522 60 00 +354 522 60 01 vedur@vedur.is Maí 2009 2 Efnisyfirlit Merki 3 Litanotkun 5 Merki í fleti 6 Stærð merkisins

More information

Starfsáætlun Áslandsskóla

Starfsáætlun Áslandsskóla Hafnarfjörður Grunnskólar Hafnarfjarðar Starfsáætlun SAMVINNA ÁBYRGÐ TILLITSSEMI TRAUST Starfsáætlun Áslandsskóla Skólaárið 2018-2019 Ágúst 2018 Starfsáætlun Áslandsskóla. Útgefin 2018. Starfsáætlun er

More information

Dagskrá Menntakviku 2018 Menntavísindasvið Háskóla Íslands v/stakkahlíð, 105 Reykjavík

Dagskrá Menntakviku 2018 Menntavísindasvið Háskóla Íslands v/stakkahlíð, 105 Reykjavík Dagskrá Menntakviku 2018 Menntavísindasvið Háskóla Íslands v/stakkahlíð, 105 Reykjavík Haltu í höndina á mér og ekki sleppa. Gefandi samskipti ungt fólk, foreldrar og vinir Stofa H-001 9:00 10:30 Rannsóknastofan

More information

Mat á stuðningsþörf barna: Supports Intensity Scale for Children: SIS-C Innleiðing á Íslandi

Mat á stuðningsþörf barna: Supports Intensity Scale for Children: SIS-C Innleiðing á Íslandi Mat á stuðningsþörf barna: Supports Intensity Scale for Children: SIS-C Innleiðing á Íslandi Dr. Tryggvi Sigurðsson, faglegur ábyrgðarmaður SIS-C Mat á stuðningsþörf barna 1. Inngangur: forsaga SIS-C hér

More information

LISTGREINAKENNSLA Í GRUNNSKÓLUM REYKJAVÍKUR

LISTGREINAKENNSLA Í GRUNNSKÓLUM REYKJAVÍKUR LISTGREINAKENNSLA Í GRUNNSKÓLUM REYKJAVÍKUR Starfshópur um listgreinakennslu September 2009 Skýrsla starfshóps um listgreinakennslu í grunnskólum Reykjavíkur September 2009 Formaður hóps: Anna Margrét

More information

Erindi. Skriða 9:.00 til 9:15 Setning ráðstefnu Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

Erindi. Skriða 9:.00 til 9:15 Setning ráðstefnu Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands Erindi Skriða 9:.00 til 9:15 Setning ráðstefnu Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands 9:15 til 10:15 Application of the Componential Model of Reading for Assessment and Intervention R. Malatesha Joshi,

More information

Námskrá fyrir elstu börnin í leikskólum Kópavogs

Námskrá fyrir elstu börnin í leikskólum Kópavogs Námskrá fyrir elstu börnin í leikskólum Kópavogs Starfshópur um Námskrá fyrir elstu börnin í leikskólum Kópavogs Sesselja Hauksdóttir Efnisyfirlit 1. Inngangur Námskrá fyrir elstu börnin í leikskólum Kópavogs...

More information

Hugarhættir vinnustofunnar

Hugarhættir vinnustofunnar Uppeldi og menntun 21. árgangur 1. hefti 2012 RÓSA KRISTÍN JÚLÍUSDÓT TIR KENNARADEILD HÁSKÓLANS Á AKUREYRI Hugarhættir vinnustofunnar Lois Hetland, Ellen Winner, Shirley Veenema og Kimberly M. Sheridan.

More information

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (MFT/MFS) og tannátu í lykiltönnum SVANHVÍT. SÆMUNSÓTTIR*, THR ASPEUN**, SIGURÐUR RÚNAR SÆMUNSSN***, INGA. ÁRNAÓTTIR* HEIRIGÐISVÍSINASVIÐ HÁSKÓA

More information

Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum

Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum Kristján Erlendsson læknir dósent kennslustjóri læknadeildar HÍ, yfirlæknir á vísinda- og þróunarsviði Landspítala krerlend@landspitali.is Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum Á síðustu þremur áratugum

More information

Menntakvika Hugmyndir kennara um hlutverk útiumhverfis skóla í menntun barna

Menntakvika Hugmyndir kennara um hlutverk útiumhverfis skóla í menntun barna Menntakvika 2011 Erindunum er ekki raðað upp í þeirri röð sem þau verða flutt. Röðun sést í dagskrá á netinu og í dagskrárbæklingi sem verður afhentur á ráðstefnudegi. Listsköpun og umhverfi skóla í menntun

More information

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð

Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Sameining tveggja háskóla í Svíþjóð Aðdragandi, framkvæmd og árangur af sameiningu Högskolan på Gotland og Uppsalaháskóla Ágrip Í þessari úttektar er að dreginn lærdómur af nýlegri sameiningu tveggja háskóla

More information

Skólastarf á Fljótsdalshéraði. Úttekt á grunn- og tónlistarskólum

Skólastarf á Fljótsdalshéraði. Úttekt á grunn- og tónlistarskólum Skólastarf á Fljótsdalshéraði Úttekt á grunn- og tónlistarskólum Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir Helga Rún Traustadóttir Sólveig Zophoníasdóttir Apríl 2015 Efnisyfirlit Megin niðurstöður... 2 Styrkleikar...

More information

Valgreinar fyrir 8. bekk skólaárið

Valgreinar fyrir 8. bekk skólaárið Valgreinar fyrir 8. bekk skólaárið 2016-2017 1 Efnisyfirlit Kennslulýsingar... 3 Valgreinar utan skóla (félagsstörf eða sérskólanám)... 3 Valgreinar í Síðuskóla... 4 Bíó, bókmenntir og menning... 4 E-twinning...

More information

Rannsóknin sem hér er lýst og nefnd hefur verið

Rannsóknin sem hér er lýst og nefnd hefur verið I INNGANGUR Gerður G. Óskarsdóttir Rannsóknin sem hér er lýst og nefnd hefur verið Starfshættir í grunnskólum var samstarfsverkefni fjölda aðila á árunum 2008 2013 með aðsetur á Menntavísindasviði Háskóla

More information

Greinum þarfir! Íhlutun og vinnulag út frá grunnskóla án aðgreiningar. Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Ph.D. Sálfræðingur Þjónustumiðstöð Breiðholts

Greinum þarfir! Íhlutun og vinnulag út frá grunnskóla án aðgreiningar. Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Ph.D. Sálfræðingur Þjónustumiðstöð Breiðholts Greinum þarfir! Íhlutun og vinnulag út frá grunnskóla án aðgreiningar Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Ph.D. Sálfræðingur Þjónustumiðstöð Breiðholts Skóli fyrir ALLA Tekur löggjöf og heilbrigðis- og menntastefna

More information

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir Myndlistardeild, lektor Vegna þátttöku í listfræðiráðstefnunni [no title] í Kaupmannahöfn í október.

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir Myndlistardeild, lektor Vegna þátttöku í listfræðiráðstefnunni [no title] í Kaupmannahöfn í október. STARFSÞRÓUNARSJÓÐUR AKADEMÍSKRA STARFSMANNA - úthlutun haustönn 2018 Auglýst var eftir umsóknum um styrkveitingar með umsóknarfrest til 3. september 2018. Alls bárust sjóðnum 12 umsóknir: 7 frá hönnunar-

More information

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 I GENERAL INFORMATION ABOUT THE SCHOOL 1. Describe the school and its surroundings very

More information

Skýrsla starfshóps um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum

Skýrsla starfshóps um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum Skýrsla starfshóps um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum Janúar 2011 Hópinn skipa: Dawid Marek (2009) Þorsteinn Hjartarson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, hópstjóri Helgi Viborg, deildarstjóri

More information

Leikskólinn Álfaheiði

Leikskólinn Álfaheiði Leikskólinn Álfaheiði Náms - og kynnisferð til Toronto apríl 2012 Skýrsluna unnu: Rakel Ýr Ísaksen og Elísabet Eyjólfsdóttir 1 Inngangur Í apríl 2012 lögðu 23 starfsmenn leikskólans Álfaheiði land undir

More information