Hilary spilar Prokofiev. Benjamin Shwartz, hljómsveitarstjóri Hilary Hahn, einleikari 2009/10

Similar documents
Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Paul Lewis áritar geisladiska sína í hléi fyrir framan Eldborg á 2. hæð.

Drumming. Slagverkshópurinn Kroumata Félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands 2010/11

Beethoven og tæknikröfur. píanósónötu nr. 26 Les Adieux. Elín Arnardóttir

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Tónleikagestir eru beðnir um að klappa aðeins í lok tónverka.

Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

Anna-Maria stjórnar Sibeliusi. 12. mars 2015 í Hörpu 13. mars 2015 í Hofi

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Stríð og friður. Baldur Brönniman, hljómsveitarstjóri Ari Þór Vilhjálmsson, einleikari 2010/11

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

Dafnis og Klói. Eva Ollikainen, hljómsveitarstjóri Hamrahlíðarkórarnir Þorgerður Ingólfsdóttir, kórstjóri 2009/10

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Listaháskóli Íslands Tónlistardeild Tónsmíðar. Tónlist Leifs Þórarinssonar

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ

Ashkenazy á Listahátíð. 25. maí 2016

Ég vil læra íslensku

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Ravel og Dvořák. 7. apríl 2016

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

Sinfóníuhljómsveit Íslands (IS) Sæunn & Víkingur Eldborg, Harpa 19:30. Efnisskrá / Program. Sebastian Fagerlund Drifts (2017) 11

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

Könnunarverkefnið PÓSTUR

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Áætluð tímalengd: Fyrri hluti: 48 Seinni hluti: 48

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Áætluð tímalengd: Sálmasinfónía: 22 Scheherazade.2: 50

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

Einhvers staðar á milli Schuberts og Sigvalda Kaldalóns

Norrænir músíkdagar. Nordic Music Days

Aðventutónleikar. Nicholas Kraemer, hljómsveitarstjóri Katherine Watson, einsöngvari James Gilchrist, einsöngvari 2010/11

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB

Að störfum í Alþjóðabankanum

Saga fyrstu geimferða

Háskólabrú- staðnám. Bókalisti - Vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur.

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir Myndlistardeild, lektor Vegna þátttöku í listfræðiráðstefnunni [no title] í Kaupmannahöfn í október.

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11

3 Bjarki Már Viðarsson 12 Íþróttabandalag Reykjanesbæjar NT 1:53,54. 1 Óskar Rafael Karlsson 11 Íþróttabandalag Reykjanesbæjar 1:51,58 1:47,33

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Áætluð tímalengd verka: Forleikur: 10 Fimm söngvar: 22 Sinfónía: 28

Áhrif lofthita á raforkunotkun

Fjallkrækill Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi?

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg.

Summer Concerts 2007

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]!

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

VELKOMIN. Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum meðan á tónleikum stendur. Lengd tónleikanna er um það bil 2 klukkustundir með hléi.

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

Íslenzkar Gramóphón-plötur

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

VESTANPÓSTUR. Munið Sólarkaffið, 25. janúar á Broadway! sjá nánar á bls. 13. Janúar 2008 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 20. árg.

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Hin grátandi kona. Kynjafræðileg aðferðafræði og verk Doru Maar og Picasso. Ritgerð til BA- prófs í listfræði

Welcome to Reykjavík Gay Pride 2005 Velkomin á Hinsegin daga í Reykjavík

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

Umhyggja. Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns. Brýtur þjónustukerfið mannréttindi?

Enginn maður hér á landi, annar en ég, hefur rétt til að lesa Der Tod in Venedig

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist

ANNUAL SAFETY REVIEW. Þróunar og greiningarstofa Division of Development and Analysis

EKKI SIRKUS KLÁMSTJARNA KÖRFUBOLTAKONA EINHLEYPUR Á ÍSLANDI TINNA HRAFNS OPNAR KISTUNA LÁRA RÚNARS MEÐ AÐALHLUTVERK Í VEÐRAMÓTUM JOSÉ GONZALES

gigtin Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf GIGTARFÉLAG ÍSLANDS 2. tölublað 2017

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst

Notkun á dýrum í listsköpun: Dýr sem list og list sem dýr

Listaháskóli Íslands Tónlistardeild Hljó!færaleikur. Kóngur vill sigla... Benny Goodman og sígilda tónlistin

Aðventutónleikar. Daníel Bjarnason, hljómsveitarstjóri Ingibjörg Guðjónsdóttir, einsöngvari Gissur Páll Gissurarson, einsöngvari 2009/10

17. MARS 2006 I 11. VIKA UNG OG ÓHRÆDD

STOÐKERFISVERKIR HJÁ HJÚKRUNARDEILDARSTJÓRUM OG TENGSL VERKJA VIÐ STREITU

Tónlistin í þögninni

Ólafur Björnsson HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

Viftur. Það borgar sig að nota það besta! Bíla- og vélavörur...sem þola álagið! Höfundar efnis í þessu blaði: Bogi Baldursson.

Eyjar í álögum. Galápagos-eyjar rísa úr hai nær eitt. Söguleg ferð til Galápagos-eyja sumarið Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Forseti Íslands á. 9. tölublað 2009 Fimmtudagur 14. maí Blað nr. 304 Upplag

Könnunarverkefnið. Ljón. Þáttakenndur í Ljónaverkefninu. Rauði hópur. Haust 2009 Börn fædd 2005

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

FÖSTUDAGUR. Það lærir enginn að vera hugmyndaríkur. Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt:

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum

Fjölmenning á Íslandi Maí Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir

Transcription:

Hilary spilar Prokofiev Benjamin Shwartz, hljómsveitarstjóri Hilary Hahn, einleikari 2009/10

aðalstyrktaraðilar

Tónleikar í Háskólabíói 4. mars 2010 kl. 19:30 Benjamin Shwartz, hljómsveitarstjóri Hilary Hahn, einleikari Hilary spilar Prokofíev Franz Schubert Sinfónía nr. 5 í B-dúr, D. 485 (1816) Allegro Andante con moto Menuetto. Allegro molto Allegro vivace Sergei Prokofíev Fiðlukonsert nr. 1 í D-dúr, op. 19 (1917) Andantino Scherzo vivacissimo Moderato Hlé Wolfgang Amadeus Mozart Sinfónía nr. 39 í Es-dúr, K. 543 (1788) Adagio Allegro Andante con moto Menuetto. Allegretto Finale. Allegro Tónleikarnir eru haldnir í samvinnu við Bandaríska sendiráðið. Hilary Hahn veitir eiginhandaráritanir í anddyri Háskólabíós að tónleikunum loknum. Tónleikarnir eru í beinni útsendingu á Rás 1 og síðan aðgengilegir í 4 vikur á www.ruv.is Vinsamlegast hafið slökkt á farsímum á meðan tónleikum stendur. 3

Benjamin Shwartz hljómsveitarstjóri Þótt hann sé enn á þrítugs aldri hefur bandaríski hljóm sveitarstjórinn Benjamin Shwartz þegar vakið athygli víða um lönd fyrir hæfileika sína. Hann ólst upp í Los Angeles og Ísrael, og lærði við Curtis-tónlistarháskólann í Fíladelfíu þar sem hann starfaði náið með Christoph Eschenbach. Hann nam einnig tónsmíðar hjá James Primrosch við Pennsylvaniu-háskóla, hjá Karlheinz Stockhausen í Þýskalandi og við IRCAMstofnunina í París. Shwartz vakti verulega athygli þegar hann komst á verðlaunapall í Gustav Mahlerhljóm sveitar stjórakeppninni árið 2007, og hefur nú nýlokið þriggja ára samningi sem aðstoðar stjórnandi við Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco, auk þess sem hann stýrði einnig hljómsveitarstarfi ungs fólks í sömu borg. Shwartz hefur þegar stjórnað ýmsum hljómsveitum í Evrópu, meðal annars BBC-hljómsveitinni í Skotlandi, Sinfóníuhljómsveitinni í Þrándheimi, og Sinfóníuhljómsveitinni í Tókýó. Hann stjórnaði SÍ í fyrsta sinn í mars 2009 í efnisskrá með verkum eftir George Gershwin og Leonard Bernstein. 4

Hilary Hahn einleikari Hilary Hahn (f. 1979) hefur þrátt fyrir ungan aldur verið meðal fremstu fiðluleikara heims af yngri kynslóðinni í meira en áratug. Hún er fædd í Virginíu-fylki og hóf tónlistarnám þriggja ára gömul. Hún innritaðist í Curtis-tónlistarháskólann 10 ára að aldri og lærði þar hjá hinum víðfræga Jascha Brodsky, sem hafði sjálfur numið hjá belgíska fiðlu leikaranum Eugene Ysaÿe. Hún debúteraði í Þýskalandi 15 ára gömul og lék fiðlukonsert Beethovens með Lorin Maazel og Bæversku útvarpshljómsveitinni. Hún hlaut Avery Fischer-verðlaunin í New York sama ár, og debúteraði í Carnegie Hall með Philadelphiahljómsveitinni þegar hún var sextán ára. Hilary Hahn hlaut nýverið önnur Grammy-verðlaun sín og var valin Listamaður ársins af tímaritinu Gramophone árið 2008. Hún er samningsbundin hjá Deutsche Grammophon og hefur gefið út fjölda hljómdiska, meðal annars fiðlukonserta Sibeliusar og Schönbergs, og nýjan disk þar sem hún flytur verk eftir Bach ásamt Matthias Goerne og Christine Schäfer. Hún hlaut fyrstu Grammy-tilnefningu sína 18 ára gömul fyrir disk með konsertum eftir Beethoven og Bernstein. Hilary Hahn hefur komið fram í öllum helstu tónleikasölum heims. Hún lék á Last Night of the Proms í Royal Albert Hall árið 2000; lék einleik í kvikmyndatónlistinni við The Village eftir M. Night Shyamalan, og var einleikari í þriðja fiðlukonserti Mozarts á 80 ára afmælistónleikum Benedikts XVI páfa í Vatíkaninu árið 2007. Hilary Hahn hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir leik sinn, meðal annars nokkur Diapason-verðlaun, Preis der deutschen Schallplattenkritik (verðlaun þýskra tónlistargagnrýnenda), MIDEM-verðlaunin, ECHO Klassik listamaður ársins, o.fl. Tímaritið Time valdi hana besta unga klassíska tónlistarmann ársins 2001. Í haust er væntanlegur nýr geisladiskur hennar hjá Deutsche Grammophon, þar sem hún leikur fiðlukonserta eftir Tsjajkovskíj og bandaríska tónskáldið Jennifer Higdon. 5

Tónlistin á Íslandi Fimmta sinfónía Schuberts heyrðist oft á fyrstu árum Sinfóníuhljómsveitarinnar en þótt ótrúlegt megi virðast hefur hljómsveitin ekki flutt hana í rúma tvo áratugi. Fyrst hljómaði hún árið 1957 undir stjórn Páls Ísólfssonar, en síðast á tónleikum SÍ á Sauðárkróki 1989 undir stjórn Anthonys Hose. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna lék verkið undir stjórn Olivers Kentish árið 1997. Franz Schubert Sinfónía nr. 5 Við upphaf 19. aldarinnar var Vínarborg tónlistarhöfuðborg Evrópu. Þar voru áheyrendur vel menntaðir og gerðu miklar kröfur, Beethoven var enn í fullu fjöri og minningin um Mozart vart tekin að fölna. Líklega var hvergi betra umhverfi fyrir ungan og alvörugefinn tónlistarmann til að ná fullum þroska en einmitt þar. Franz Schubert (1797 1828) fæddist í heiminn í litlu tvílyftu húsi sem stendur enn í níunda hverfi Vínarborgar. Hann hlaut tilsögn í tónlist hjá föður sínum og var ekki nema sjö ára gamall þegar sjálfur Antonio Salieri sem stýrði kirkjutónlist við hirðina og var eitt helsta óperutónskáld borgarinnar tók hann upp á arma sína. Salieri tryggði piltinum námsstyrk og kenndi honum bæði hljómfræði og tónsmíðar, enda árangurinn lét ekki á sér standa; varla eru dæmi um það í tónlistarsögunni að nokkurt tónskáld hafi náð jafn djúpum þroska á fyrri hluta unglingsáranna. Schubert lauk við fimmtu sinfóníu sína í október 1816. Þótt enn væru nokkrir mánuðir í tvítugsafmælið bjó hann þegar yfir áralangri reynslu og hafði meðal annars þegar samið sönglag sitt við Álfakóng Goethes (Erlkönig) sem hann gaf síðar út sem ópus 1. Að nítján ára stráklingur skyldi geta samið slíkt verk sem B-dúr sinfóníuna á innan við mánuði hlýtur að teljast kraftaverki líkast. Segja má að andi Mozarts svífi hér yfir vötnum. Hvort sem er í umfangi, hljómsveitarstærð eða sjálfu inntaki tónlistarinnar á B-dúr sinfónía Schuberts meira skylt með tærleika klassíska tímans en þeirri rómantísku ólgu sem einkenndi verk Beethovens. Fimmta sinfónía Schuberts er sú eina sem vitað er til að hafi verið flutt opinberlega meðan tónskáldið lifði. Hún var samin fyrir hljómsveit áhugafólks sem hittist reglulega á heimili Ottos Hatwig, sem lék á fiðlu í leikhúshljómsveitinni við Burgtheater. Það að í verkinu sé aðeins þörf fyrir eina flautu, en hvorki klarínett, trompet né pákur, á sennilega rætur að rekja til þess hvernig hópurinn var samansettur einmitt þær vikur sem Schubert vann að verkinu. Allar fjórar fyrri sinfóníur unglingsins hefjast á hægum inngangi, en hér vindur Schubert sér svo að segja beint í aðalstefið; aðeins nokkrir ljúfir inngangstaktar hljóma líkt og tjaldið sé dregið frá. Þroski Schuberts opinberast líklega hvergi jafnvel og í hæga kaflanum. Hér töfrar hann fram tvö ægifögur stef, hið fyrra í strengjum og hið seinna í tréblásurum, og fer síðan með þau um víðan völl hvað hljómana snertir. Menúettinn 6

Tónlistin á Íslandi Argentínski fiðluleikarinn Ricardo Odnoposoff lék fyrri konsert Prokofíevs með SÍ í Háskólabíói árið 1963 og hafði hann þá ekki heyrst áður hér á landi. Síðan hafa fjórir fiðlarar fylgt í fótspor hans: Einar G. Sveinbjörnsson (1979), Joshua Bell (1989), Judith Ingólfsson (1999) og Vadim Gluzman (2001). er óvenju dökkur, tóntegundin er g-moll sem er fremur óvenjulegt því að yfirleitt eru menúettar í heimatóntegund verksins sem hér ætti að vera B-dúr. Hugsanlega hefur Schubert verið með hugann við hina frægu g-moll sinfóníu Mozarts, þar sem ólgandi krómatík ræður einnig ríkjum. Í glaðværu tríóinu er öllum áhyggjum hins vegar kastað fyrir róða. Í lokaþættinum er kátínan við völd og minnir stundum helst á meistara Haydn; aðeins í örskamma stund bregður fyrir dekkri tónum sem minna helst á storm í vatnsglasi. Sergei Prokofíev Fiðlukonsert nr. 1 Sergei Prokofíev (1891 1953) hóf að semja fiðlukonsert árið 1915 en lagði hann á hilluna um tveggja ára skeið þegar tækifærið kom til að semja óperu við sögu Dostojevskíjs, Fjárhættuspilarann. Sumarið 1917 hefur varla verið hentugur tími fyrir rússneskt tónskáld til að einbeita sér að skapandi störfum. Verkföll og mótmælafundir voru undanfari þess sem koma skyldi; í nóvember féll stjórnin, Lenín tók við taumunum og skrifað var undir friðarsamninga við Þýskaland. Þó var 1917 eitt frjósamasta ár Prokofíevs: hann samdi ekki aðeins fyrri fiðlukonsert sinn heldur einnig fyrstu sinfóníuna, þriðju og fjórðu píanósónöturnar auk Visions fugitives fyrir píanó, og vann auk þess að þriðja píanókonsertinum. Jafnvel konsertinn stækkaði umfram það sem upphaflega var áformað. Það sem átti að vera lítið og ljúft konsertínó í einum þætti var orðinn fullgildur konsert þegar upp var staðið. Það liðu sex ár þar til konsertinn heyrðist opinberlega. Frumflutningi í St. Pétursborg var slegið á frest vegna ástandsins þar, og að lokum fór svo að verkið var frumflutt í París í október 1923 undir stjórn Sergeis Koussevitzky og með Marcel Darrieux í einleikshlutverki. Á sömu tónleikum steig Ígor Stravinskíj á stjórnandapall í fyrsta sinn og stýrði flutningi á oktett sínum fyrir blásara. Ekki er heldur úr vegi að geta þess að þremur dögum síðar var konsertinn frumfluttur í Moskvu af Nathan Milstein, með Vladimir Horowitz á píanóið í stað hljómsveitar. Milstein skrifaði síðar í 7

endurminningum sínum: Mér hefur ávallt fundist að hljómsveitin væri óþörf ef maður er svo lánsamur að hafa snilldar píanista eins og Horowitz til að spila með sér! Viðtökurnar voru fremur dræmar og ekki víst að einleikarinn hafi verið fyllilega vandanum vaxinn; hvað sem því líður var það ekki fyrr en ári síðar að konsertinn fékk vængi í flutningi ungverska fiðlusnillingsins Josephs Szigeti, sem lék hann á tónleikaferðum víða um heim og tókst að tala forstöðumenn Columbia inn á að leyfa sér að hljóðrita verkið með Sir Thomas Beecham árið 1935. Kannski stafaði takmörkuð hrifning Parísarbúa einnig af því að þeir bjuggust við einhverju meira krassandi frá rússnesku nútímatónskáldi, einhverju í líkingu við Skýþísku svítuna sem sver sig í ætt við Vorblót Stravinskíjs. Sjálfum fannst Prokofíev sem lagræna æðin í verkum sínum hefði verið vanmetin lengi framan af, og ekki síst í einmitt fiðlukonsertinum nr. 1. Upphafskaflinn er ágætt dæmi: einleikarinn leikur hrífandi hendingu sem flýtur um í draumkenndu ástandi tónskáldið merkti fiðluröddina sognando eða dreymandi áður en hlutirnir komast á flug. Annar þáttur er scherzo sem bókstaflega þýtur hjá á fljúgandi ferð, enda ekki nema fjórar mínútur að lengd. Hér hljóma sterkar andstæður; þátturinn er til skiptis ágengur, fyndinn, jafnvel illskeyttur, en ávallt snilldarlega vel saminn fyrir fiðluna þótt strengirnir séu þandir til hins ítrasta. Í lokaþættinum er aftur slakað á, og tónskáldið töfrar fram hverja snilldartaktana á fætur öðrum; undir lokin er snúið aftur í friðsælan draumaheim upphafsins. 8

Tónlistin á Íslandi Sinfónía Mozarts hljómaði fyrst á tónleikum hér á landi árið 1950, undir stjórn Victors Urbancic. Síðan hefur hún hljómað margoft í flutningi SÍ, síðast undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar árið 2004. Mozart Sinfónía nr. 39 Menn hafa löngum velt því fyrir sér hvaða félagslegu eða sálfræðilegu kringumstæður leiddu til þess að Wolfgang Amadeus Mozart (1756 1791) samdi þrjár mestu sinfóníur sínar á innan við 8 vikum sumarið 1788. Lengi var það trú manna að á þessum tíma hafi hinn misskildi snillingur verið hvað verst leikinn af meðbræðrum sínum og því séð sig knúinn til að semja verk sem gætu gefið eitthvað í aðra hönd. Víst voru þetta erfiðir tímar í lífi hans, en það stafaði einkum af því að veldi Habsborgara átti í gríðarmiklum vandræðum á þessum tíma og afleiðingin var kreppa sem snerti alla íbúa austurríska keisaradæmisins. Jósef II Austurríkiskeisari háði stríð við Tyrki í nafni Katrínar, keisaraynju Rússa, en ekki fór betur en svo að herinn sneri heim árið 1790 eftir þriggja ára dýrkeypta niðurlægingu. Kreppan í Vínarborg hafði afleit áhrif á listalíf borgarinnar: aðalsfólk dvaldi heldur í Ungverjalandi, einkahljómsveitir lögðust af og tónleikum fækkaði. Mozart varð einnig fyrir barðinu á kreppunni, til dæmis var engin ópera pöntuð frá honum á stríðsárunum, og áform um tónleikahald í Vínarborg urðu öll að engu. Í júlí 1788 mánuði eftir að hann lauk við Es-dúr sinfóníuna ritaði hann vini sínum Michael Puchberg nokkur örvæntingarfull bréf þar sem hann biður Puchberg um að lána sér fé þangað til eftirspurn eftir tónlist sinni taki að glæðast á nýjan leik. Hægir inngangar eru furðu sjaldgæfir í sinfóníum Mozarts. Þá er aðeins að finna í þremur: Linz-, Prag-, og Es-dúr sinfóníunum, og af þeim er sá síðastnefndi hvað dramatískastur. Hann byrjar tignarlega, með þykkum og voldugum hljómum. Smám saman verða hljómarnir dekkri, hnígandi fiðluskalarnir ekki alveg jafn fyrirsjáanlegir og áður, og þegar minnst varir kemur Mozart okkur gjörsamlega í opna skjöldu með skerandi ómstríðu. Tónlist Mozarts gerist ekki öllu meira krassandi en í lokatöktum inngangsins. Í hugljúfum upphafstöktum Allegro-þáttarins er sem öllum skýjum hafi verið svipt í burtu, en þó eru nokkur atriði sem vísa aftur í stormasama fortíð, til dæmis hnígandi fiðluskalar og krómatík í neðri strengjum. Andante-kaflinn gefur heldur ekki allt uppi við fyrstu heyrn. Stefið er einfalt, þokkafult, sakleysislegt en í síðustu töktunum verður það öllu þungbúnara: As-dúr verður að as-moll, og nú tekur við stormasamur og átakamikill millikafli þar sem Mozart nýtir sér hæfileika sína til fulls og skapar stórfenglegan þátt úr einföldum efniviði. 9

Menúettinn er þróttmikill en um leið sveitalegur, ekki síst í tríókaflanum. Þar notar Mozart ekta ländler-stef í klarínettum, en þau voru algeng danshljóðfæri í austurrískum alpaþorpum á 18. öld. Lokaþátturinn er fullur af ósviknum húmor. Hér sést greini lega hvílík áhrif Joseph Haydn hafði á yngri kollega sinn. Kaflinn er í einstefja sónötuformi, sem var sérgrein eldri meistarans; glaðvært og skoppandi upphafs stefið er hið eina sem heyrist í öllum kaflanum. Þegar kemur að úrvinnslunni bregður Mozart á leik og leyfir stefinu að gægjast fram í nánast hverri einustu tóntegund sem hægt er að hugsa sér. Að loknum nokkrum rússíbanaferðum um hin ýmsu hljómasvæði lendum við aftur á upphafsreit, og Mozart leiðir okkur að lokatöktunum með að því er virðist óþrjótandi glaðværð og kátínu. Árni Heimir Ingólfsson 10

Á döfinni 60 ára afmælistónleikar 18. mars Upprisusinfónían eftir Gustav Mahler er eitt mikil fenglegasta og áhrifamesta tónverk tónlistarsögunnar. Hún tekur ríflega 80 mínútur í flutningi og tónlistin er eins litrík og hugsast getur: jarðarfarartónar, sveitadansar, sönglög, heimspekilegar hugleiðingar um stöðu mannsins í heiminum, og að lokum glæsilegur upprisusálmurinn þar sem Mahler staðfestir trú sína á líf eftir dauðann. Þar bætast 100 kórsöngvarar við hljómsveitina sem telur ríflega hundrað spilara, og auk þess tveir einsöngvarar sem gefa verkinu enn tilþrifameiri blæ. Það verður semsagt öllu tjaldað til á 60 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudagskvöldið 18. mars. Mótettukór Hallgrímskirkju kemur til liðs við SÍ, og auk þess tvær heimsþekktar söngkonur sem mikill fengur er að. Sarah Connolly er ein fremsta söngkona Breta um þessar mundir, hefur meðal annars hlotið Olivier- og Grammy-verðlaun, söng á Last Night of the Proms í Royal Albert Hall í fyrra, og hlaut heiðursorðu Elísabetar Bretadrottningar nú á nýársdag. Hillevi Martinpelto hlaut heimsfrægð þegar John Eliot Gardiner bauð henni að syngja hlutverk greifynjunnar á margrómaðri hljóðritun sinni af Brúðkaupi Fígarós, þar sem Bryn Terfel var í einu aðalhlutverkanna. Hún hefur sungið við afhendingu Nóbelsverðlaunanna og þess má einnig geta að þegar Sir Simon Rattle hélt kveðjutónleika sína með Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham valdi hann Martinpelto til að syngja einsöng í Upprisusinfóníu Mahlers. Auk þess verður frumflutt á tónleikunum nýtt hljómsveitarverk, Norðurdjúp, eftir Hafliða Hallgrímsson. Hljómsveitarstjóri er Rumon Gamba. Þessir tónleikar verða tvímælalaust meðal stórviðburða ársins í íslensku tónlistarlífi. 11

Á döfinni dafnis og Klói 25. mars Flestir eru á einu máli um að balletttónlistin við Dafnis og Klói sé með því besta sem Maurice Ravel samdi um ævina, og er þó af nógu að taka. Goðsögnin um elskendurna ungu sem lenda í hremmingum þegar hin yndisfagra Klói er numin á brott af sjóræningjum, er allt í senn: ástleitin, spennandi, hrífandi fögur. Það er líka sérstakt ánægjuefni að hinir frábæru Hamrahlíðarkórar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur skuli taka þátt í flutningnum að þessu sinni, en ballettinn hefur ekki heyrst í heilu lagi hér á landi svo áratugum skiptir. Æskubjartur hljómur þeirra fer einkar vel í þessu verki sem lýsir ungum ástum með svo mögnuðum hætti. Auk þess hljómar á tónleikunum hin geysifagra Mathis der Maler-sinfónía eftir Paul Hindemith, annað lykilverk í hljómsveitartónlist 20. aldarinnar. Hindemith samdi sinfóníuna árið 1934 upp úr samnefndri óperu sinni um þýska málarann Matthias Grünewald, sem meðal annars gerði meistaralega altaristöflu í Isenheim. Hvorki sinfónían né óperan féllu yfirvöldum í geð í Þýskalandi á sinni tíð, nasistar lögðu hart að stjórnandanum Wilhelm Furtwängler að aflýsa flutningnum og að endingu flýði tónskáldið land undan ógnarstjórninni. Verkið hefur þó ávallt verið talið eitt það besta sem Hindemith samdi um ævina og sérstakt ánægjuefni að það skuli hljóma á tónleikum SÍ. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen. 12

Á döfinni árstíðirnar fjórar Langholtskirkju 23. og 24. apríl Það er leitun að tónverki sem nýtur meiri hylli en yndislegur óður Antonios Vivaldi til náttúrunnar og lífsins, Árstíðirnar fjórar. Nú er komið að því að einn hæfileikaríkasti fiðluleikari Íslands, Elfa Rún Kristins dóttir, spreyti sig á þessu stórvirki og hún lætur sig ekki muna um að leika annað verk fyrir fiðlu og hljómsveit á sömu tónleikum. Argentínski tangósnillingurinn Astor Piazzolla var svo innblásinn af Árstíðum Vivaldis að hann samdi sínar eigin; fjóra fiðlukonserta með tangósveiflu sem lýsa árstíðunum hinum megin á jarðarkringlunni. Það er óþarfi að kynna Elfu Rún fyrir íslenskum tónleikagestum. Hún hlaut fyrstu verðlaun í Johann Sebastian Bach-tónlistarkeppninni í Leipzig 2006 og Íslensku tónlistarverðlaunin sem bjartasta vonin sama ár, auk þess sem hún var tilnefnd til hvatningarverðlauna Evrópska menningarsjóðsins Pro Europa. Elfa er fastur meðlimur Kammersveitarinnar Ísafoldar og Solistenensemble Kaleidoskop í Berlín en hefur einnig leikið með Balthasar Neumann Ensemble, Freiburger Bachorchester, Feldkirch Festivel Orchester og Camerata Stuttart auk fleirri kammerhópa í Þýskalandi. Stjórnandi á tónleikunum er Wolfram Christ, sem var um árabil leiðandi víóluleikari í sjálfri Berlínarfílharmóníunni, undir stjórn Herberts von Karajan og Claudios Abbado. Kristalstærir barokktónarnir í bland við ljúfsáran tangó munu ekki láta neinn ósnortinn. Við bendum á að þegar er uppselt á tónleikana 23. apríl, en nokkur sæti eru enn laus á tónleikana laugardaginn 24. apríl kl. 17:00. Því er um að gera að tryggja sér miða sem fyrst! 13

HLJÓMSVEIT Á TÓNLEIKUM 4. mars 2010 1. fiðla Sigrún Eðvaldsdóttir Sif Tulinius Andrzej Kleina Zbigniew Dubik Bryndís Pálsdóttir Una Sveinbjarnardóttir Lin Wei Sigríður Hrafnkelsdóttir Hildigunnur Halldórsdóttir Rósa Guðmundsdóttir Mark Reedman Margrét Kristjánsdóttir Olga Björk Ólafsdóttir Martin Frewer 2. fiðla Greta Guðnadóttir Ari Þór Vilhjálmsson Joanna Bauer Christian Diethard Margrét Þorsteinsdóttir Dóra Björgvinsdóttir Sigurlaug Eðvaldsdóttir Kristján Matthíasson Roland Hartwell Pálína Árnadóttir Ólöf Þorvarðsdóttir Þórdís Stross Víóla Þórunn Ósk Marinósdóttir Sarah Buckley Kathryn Harrison Sesselja Halldórsdóttir Guðrún Þórarinsdóttir Þórarinn Már Baldursson Svava Bernharðsdóttir Herdís Anna Jónsdóttir Eyjólfur Alfreðsson Selló Sigurgeir Agnarsson Sigurður Bjarki Gunnarsson Auður Ingvadóttir Bryndís Björgvinsdóttir Lovísa Fjeldsted Margrét Árnadóttir Ólöf Sesselja Óskarsdóttir Bassi Hávarður Tryggvason Páll Hannesson Dean Ferrell Jóhannes Georgsson Richard Korn Þórir Jóhannsson Flauta Hallfríður Ólafsdóttir Áshildur Haraldsdóttir Óbó Matthías Nardeau Peter Tompkins Klarinett Rúnar Óskarsson Sigurður I. Snorrason Fagott Brjánn Ingason Hafsteinn Guðmundsson Horn Joseph Ognibene Emil Friðfinnsson Stefán Jón Bernharðsson Lilja Valdimarsdóttir Trompet Ásgeir Steingrímsson Guðmundur Hafsteinsson Túba Tim Buzbee Harpa Katie Buckley Pákur Eggert Pálsson Slagverk Frank Aarnink Árni Áskelsson samstarfsaðilar

Sónata í A fyrir bragðlaukana PI PAR SÍA 90157 Komdu á Skrúð áður en þú ferð á tónleikana og kvöldið verður ógleymanlegt. Hótel Sögu / S: 525 9970 / www.skrudur.is

Stórfengleg afmælishátíð 60 ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR SÍ Fim. 18.03.10» 19:30 Hafliði Hallgrímsson: Norðurdjúp (frumflutningur) Gustav Mahler: Sinfónía nr. 2 Sinfónía þarf að vera eins og heimurinn. Hún þarf að innihalda allt. Gustav Mahler Rumon Gamba hljómsveitarstjóri Hillevi Martinpelto einsöngvari Sarah Connolly einsöngvari Mótettukór Hallgrímskirkju Hörður Áskelsson kórstjóri Á hátíðartónleikunum verður Sinfónía nr. 2 eftir Gustav Mahler, einnig kölluð Upprisusinfónían, flutt af rúmlega tvö hundruð flytjendum, þar á meðal tveimur heimsfrægum söngkonum. Þá verður flutt stórglæsilegt nýtt verk eftir Hafliða Hallgrímsson. Tryggðu þér miða á þessa einstöku tónleika á www.sinfonia.is eða í síma 545 2500.