Skólaskraf. reynsla af skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd Fanney Jónsdóttir. Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild

Similar documents
Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2013 Municipal social services 2013

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 Municipal social services 2011

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Ég vil læra íslensku

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur?

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Aðalnámskrár grunnskóla og samræmd könnunarpróf í íslensku

Rannsókn á Byrjendalæsi: Markmið, snið, gögn og úrvinnsla

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Greinabundin kennsla greinabundið nám í Hvassaleitisskóla

Nemendur og foreldrar af erlendum uppruna í íslenskum grunnskólum: Áskoranir og tækifæri.

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Lotukerfi í list- og verkgreinum

Skóli án aðgreiningar

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

Háskólabrú fjarnám. Bókalisti vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn -

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

JANÚAR 2016 Karl Sigurðsson

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning)

Hlutverk skólastjóra í menntun til sjálfbærni

Hagvísir Vesturlands. Börn í sveitum á Vesturlandi

Efnahagshrunið og skólastarf í tveimur íslenskum sveitarfélögum

Ingvar Sigurgeirsson. Skólabragur sem geðrækt Heilsueflandi skólar Grand hótel, 2. september 2011

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Háskólabrú- staðnám. Bókalisti - Vorönn önn. Félagsvísinda- og lagadeild

- Samvinna um tónlistarnám - Kennaralaun í alþjóðlegu samhengi - Something old, something new... Félagsfærni lærist ekki af sjálfu sér

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu

Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi og íslenskum skólum

Kennarinn í skóla án aðgreiningar

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd

Íþróttakennara- og íþróttafræðinám á Laugarvatni fyrr og nú

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar

Útvarpssendistaður á Úlfarsfelli Tæknilegar forsendur

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands

Inngangur... 4 Tillögur starfshópsins... 5 Samantekt... 9

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Virk námskrá í íslensku í 6. og 7. bekk grunnskóla í ljósi samræmda íslenskuprófsins

Milli steins og sleggju

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Tölvu- og netnotkun einstaklinga 2011 Computer and Internet usage by individuals 2011

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/ /10

Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, júní 2014

Notkun tíðahvarfahormóna hjá íslenskum konum árin

Hverjir eru valkostir nýnema í framhaldsskólum?

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ

Áhrif lofthita á raforkunotkun

Saga fyrstu geimferða

Fóðurrannsóknir og hagnýting

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna

HAGFRÆÐISTOFNUN HÁSKÓLA ÍSLANDS. Hagstærðir Verzlunarmannafélags Reykjavíkur

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016

SMIÐJUR Í NORÐLINGASKÓLA Samþætt nám í list- og verkgreinum, náttúrufræði og samfélagsgreinum í bekk

Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum

Umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi á Íslandi 2006

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur. Multicultural Council of Reykjavik Candidates

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands

Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu

Ársskýrsla 2013 HRAFNSEYRI

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum

EFLA Verkfræðistofa. STUÐLAR UM AFHENDINGU RAFORKU Árin Reykjavík, apríl 2012

Rannsókn á Hjallastefnunni. Unnin á vegum Háskólans í Reykjavík fyrir Hjallastefnuna á Íslandi,

RANNSÓKNASTOFNUN HÁSKÓLANS Á AKUREYRI

Félags- og mannvísindadeild

UNGT FÓLK BEKKUR

Vaasa Ostrobothnia nóv. 2012

Skóli án aðgreiningar og einstaklingsmiðað nám

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist

Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2.

Gengið og verðlagsmælingar til mjög langs tíma

Transcription:

Skólaskraf reynsla af skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd 1964-2004 Fanney Jónsdóttir Júní 2017 Lokaverkefni til M.Ed.-prófs Kennaradeild

Skólaskraf reynsla af skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd 1964-2004 Fanney Jónsdóttir Lokaverkefni til M.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði Leiðbeinandi: Ólöf Garðarsdóttir Kennaradeild Menntavísindasvið Háskóla Íslands Júní 2017

Skólaskraf: reynsla af skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd 1964-2004 Ritgerð þessi er 30 eininga lokaverkefni til M.Ed.-prófs í grunnskólakennarafræði við kennaradeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2017, Fanney Jónsdóttir Lokaverkefni má ekki afrita né dreifa rafrænt nema með leyfi höfundar. Reykjavík, 2017

Formáli Þessi ritgerð er 30 eininga lokaverkefni til M.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði með samfélagsfræði sem kjörsvið frá kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ég vil þakka leiðbeinandanum mínum, Ólöfu Garðarsdóttur, fyrir góðar ráðleggingar og leiðsögn við gerð verkefnisins. Sérstakar þakkir fá viðmælendur mínir, Guðrún Finnbogadóttir, Kristján Finnbogason, Snæbjörn Kristjánsson og Þórhildur Kristjánsdóttir, fyrir að hafa tekið þátt í rannsókninni og deilt með mér reynslu sinni af skólahaldinu í Birkimelsskóla og þar með gert þetta verkefni að veruleika. Eins þakka ég Steinunni Kristjánsdóttur fyrir yfirferð ritgerðarinnar og góðar ábendingar, Kára Ingasyni fyrir hjálp við enska þýðingu og móður minni fyrir ómælda trú og stuðning við gerð verkefnisins og fyrir yfirlestur þess. Ég vona að þetta verkefni muni nýtast þeim sem hafa áhuga á sögu skólahalds í Birkimelsskóla á Barðaströnd. Þetta lokaverkefni er samið af mér undirritaðri. Ég hef kynnt mér Vísindasiðareglur Háskóla Íslands. Ég hef gætt viðmiða um siðferði í rannsóknum og fyllstu ráðvendni í öflun og miðlun upplýsinga, og túlkun niðurstaðna. Ég vísa til alls efnis sem ég hef sótt til annarra eða fyrri eigin verka, hvort sem um er að ræða ábendingar, myndir, efni eða orðalag. Ég þakka öllum sem lagt hafa mér lið með einum eða öðrum hætti en ber sjálf ábyrgð á því sem missagt kann að vera. Þetta staðfesti ég með undirskrift minni. Reykjavík, 8. maí 2017 Fanney Jónsdóttir 3

Ágrip Markmið verkefnisins var að komast að því hvernig skólahaldi í Birkimelsskóla í Barðastrandarhreppi var háttað frá stofnun hans árið 1964 og til 2004 og hvernig reynslu fyrrverandi nemendur skólans hafa af því. Rannsóknarspurningarnar sem hafðar voru að leiðarljósi voru Hvernig var skólahaldi háttað í Barðastrandarhreppi á árunum 1964 2004 og hvaða reynslu hafa fyrrum nemendur af því? Alls voru fjórir þátttakendur í rannsókninni, sem var eigindleg rannsókn. Tekin voru fjögur viðtöl við fyrrum nemendur Birkimelsskóla. Viðmælendurnir voru fæddir á mismunandi áratugum, elsti fæddist 1954 og sá yngsti 1988. Auk þess var rituðum heimildum safnað um skólann m.a. á Þjóðskjalasafni Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að töluverður munur var á milli skólagöngu viðmælenda og vel sést á niðurstöðunum hvernig Birkimelsskóli þróast í gegnum árin auk þess hvernig ný lög og reglugerðir hafa áhrif á skólastarfið. Sem dæmi um þetta allt má nefna að eldri viðmælendur rannsóknarinnar voru skemur í skólanum heldur en börn í þéttbýli og yngri viðmælendurnir. Vel sést hvernig viðhorf til barna breytist með tímanum en eldri viðmælendurnir léku t.d. sjaldnar við vini sína heima eftir skóla og voru hálf eftirlitslausir í frímínútum. Þessi fátæki sveitaskóli leitast við að bæta aðstöðu nemenda sinna þar til kennslan er orðin á við það sem gerist í þéttbýlinu. Þetta verkefni er mikilvægt því hætt var að kenna í Birkimelsskóla vorið 2016. Nú fara þeir tveir nemendur sem eftir eru í gamla Barðastrandarhreppi í skóla á Patreksfirði og óvíst er hvort þar muni einhverjir nemendur stunda nám í framtíðinni. Það er því vel við hæfi að skrá niður minningar fyrrum nemenda skólans um skólahaldið þar. 4

Abstract Skólaskraf (School Chats): experiences of schooling in Birkimelsskóli, Barðaströnd from 1964 2004 The objective of the assignment was to determine how schooling in Birkimelsskóli in Barðastrandarhreppur was operated from its establishment in 1964 until 2004, and what kind of experiences former students of the school had during their time there. The questions on which my research was based were How was schooling operated in Barðastrandarhreppur in 1964 2004 and what kind of experience do former student have from it? In total there were four participants in this qualitative study. Four interviews were conducted with former students of Birkimels-skóli. The participants were all born in different decades, the oldest in 1954 and the youngest in 1988. Written sources were gathered from different places, among them the National Archives of Iceland. Key findings of the study were that noticeable difference could be seen between the experiences had by each interviewee of their stay at Birkimelsskóli. Based on the results of the study, the development of the school over time with new rules and regulations can clearly be seen over time. An example of this is that the older people that were interviewed were at the school for fewer years than their urban counterparts as well as the younger people interviewed. Views on children have also changed with time, the older interviewees for example seldom met with their friends to play after school and were more or less unsupervised during recess. Additionally, it is evident from the findings of the study how this poorly funded rural school sought to improve its facilities and, with time, its students education until it was on par with what students were getting in urban areas. This study is important because schooling was suspended in Birkimelsskóli in the spring of 2016. At present, the two students who remain in Barðastrandarhreppur attend school in Patreksfjörður and it is still unclear whether any students will attend school there in the future. It is, therefore, important to document the memories of the school s former students. 5

Efnisyfirlit Formáli... 3 Ágrip... 4 Abstract... 5 Efnisyfirlit... 6 Myndaskrá... 8 1 Inngangur... 9 2 Barðaströnd... 12 2.1 Barðastrandarhreppur... 12 2.2 Íbúaþróun... 13 2.3 Samgöngur, samskipti og rafmagn... 15 2.4 Atvinnuvegir... 16 2.5 Verslun og þjónusta... 18 2.6 Félagslíf... 19 3 Skólahald á Íslandi... 20 3.1 Þróun skólahalds og fræðslulög... 20 3.2 Námsgreinar og námsefni... 24 3.3 Kennsluhættir og námsmat... 26 3.4 Breytt samfélag, breytt skólahald... 28 3.5 Samstarf heimila og skóla... 30 4 Skólahald á Barðaströnd... 31 4.1 Farskólinn í Barðastrandarhreppi... 31 4.2 Stofnun Birkimelsskóla... 32 4.3 Fyrstu árin og unglingakennsla... 32 4.4 Nýr skóli byggður... 34 4.5 Nemendafjöldi... 35 4.6 Sameining og hnignun... 36 4.7 Eftir grunnskólagönguna... 37 5 Aðferðafræði og viðmælendur... 38 6

5.1 Rannsóknaraðferð... 38 5.2 Viðmælendur... 39 5.2.1 Snæbjörn Kristjánsson... 39 5.2.2 Þórhildur Guðbjörg Kristjánsdóttir... 40 5.2.3. Guðrún Finnbogadóttir... 40 5.2.4. Kristján Finnbogason... 40 5.3 Rannsóknargögn og úrvinnsla... 41 5.4 Réttmæti, áreiðanleiki og siðfræði... 41 6 Reynsla af skólahaldi í Birkimelsskóla... 44 6.1 Daglegt skólastarf... 44 6.2 Frímínútur og skólalóðin... 46 6.3 Samskipti á milli nemenda... 48 6.4 Námsgreinar og námsefni... 49 6.5 Kennslan... 51 6.6 Skólaskraf... 54 6.7 Kennarar... 55 6.8 Þjónusta við nemendur... 56 6.9 Samstarf heimilis og skóla... 57 6.10 Lífið utan skólans og vinirnir... 58 6.11 Félagslífið... 60 6.12 Skólaferðalög og samstarf við aðra skóla... 61 6.13 Veganesti... 62 7 Umræður... 66 8 Lokaorð... 75 Heimildaskrá... 77 Viðauki A: Viðtal við Guðrúnu Finnbogadóttur... 85 Viðauki B: Viðtal við Kristján Finnbogason... 107 Viðauki C: Viðtal við Snæbjörn Kristjánsson... 129 Viðauki D: Viðtal við Þórhildi Kristjánsdóttur... 155 Viðauki E: Spurningalisti... 183 Viðauki F: Samþykkisbréf... 186 7

Myndaskrá Mynd 1. Kort af Barðastrandarhreppi frá 1933 (Geodætisk Institut, 1933, blað 13).... 11 Mynd 2. Íbúafjöldi í Barðastrandarhreppi 1901-2010 (Hagskinna, 1997, bls. 78 og Birgir Þórisson, 2011, bls. 42 43).... 12 Mynd 3. Þróun fólksfjölda í prósentum á hverjum áratugi fyrir sig 1900 2010 (Hagstofa Íslands (e.d.), Birgir Þórisson, 2011 og Hagskinna, 1997).... 13 Mynd 4. Nemendafjöldi í farskóla Barðastrandarhrepps, 1955-1964, og Birkimelsskóla, 1965-1996 og 2014-2016 (Hagstofa Íslands, 1967, Fræðslumálaskrifstofan, 1967-1970, Menntamálaráðuneytið, 1972-1996, Kristján Finnbogason, 8. október 2016 og Kristján Már Unnarsson, 2014).... 37 8

1 Inngangur Árla morguns, á ósköp venjulegum þriðjudagsmorgni, vakna systkini upp við vekjaraklukku. Þau bursta tennurnar, klæða sig og fá sér morgunmat. Þau gera sig tilbúin til að fara í skólann, setja það sem á að fara með í skólann í töskurnar sínar og bíða svo eftir að verða sótt. Kennarinn sækir þau snemma á morgnana því það er smá spotti í nýja skólann. Systkinin setjast upp í bílinn og þau leggja af stað. Fljótlega keyra þau fram hjá byggingu sem á stendur stórum stöfum, Birkimelur. Þarna fóru systkinin í skólann síðasta vetur en nú hefur hann verið lagður niður sökum fámennis. Systkinin tvö eru einu börnin á grunnskólaaldri í allri sveitinni og nú fara þau í skóla á Patreksfirði. Þegar Birkimelsskóli var lagður niður hafði hann starfað í rúm sextíu ár eða allt frá því um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar (ÞÍ. Skj. mnr, Barð.shv. Ba-25). Birkimelsskóli hafði þó sameinast hinum grunnskólunum í Vesturbyggð árið 1999 og hafði því verið deild innan Grunnskóla Vesturbyggðar og átt í nánu samstarfi við Patreksskóla síðan þá (Birgir Þórisson, 2011, bls. 101). Skólabyggingin var byggð fyrir rúmlega fimmtíu nemendur á sínum tíma og í nokkur ár á áttunda áratugnum voru nemendur u.þ.b. svo margir (Bjarni Hákonarson, 1979a; Menntamálaráðuneytið, 1974, 1975, 1976 og 1977). Skólahaldið í gamla Barðastrandarhreppi hefur því væntanlega verið töluvert líflegra en það er í dag og markmið þessarar ritgerðar er m.a. að komast að því hvernig var að vera nemandi í Birkimelsskóla áður fyrr. Sömu sögu er að segja um svæðið sjálft. Íbúum í Barðastrandarhreppi gamla hefur fækkað stöðugt frá því á fjórða áratug síðustu aldar, úr því að vera um þrjú hundruð í það að vera um fimmtíu árið 2010 (Hagskinna, 1997, bls. 78; Birgir Þórisson, 2011, bls. 42 43). Það er þó ekki hægt að segja að Barðstrendingar hafi setið aðgerðalausir hjá á meðan fólksstraumurinn lá úr sveitinni yfir í kauptúnin og seinna suður til höfuðborgarinnar. Um og eftir miðja síðustu öld var margs konar starfsemi í hreppnum og m.a. stofnaði hreppurinn saumastofu til að skapa störf fyrir konur (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 226 og 253), ásamt því að reyna að bjóða börnum og unglingum sveitarfélagsins upp á góða menntun. Fyrir fámennar og dreifbýlar sveitir var ekki alltaf auðvelt að hætta hinu hefðbundna farskólafyrirkomulagi og stofna fastan skóla, hvað þá að byggja nýjar dýrar skólabyggingar (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 207). Farskólafyrirkomulagið var ódýr 9

kostur og því hélst það fyrirkomulag fram yfir miðja 20. öld í mörgum sveitum og í Barðarstrandarhreppi var farskóli allt fram á miðjan sjöunda áratuginn (ÞÍ. Skj. mnr, Barð. skhv. Ba-25). Einnig fengu skólar í sveitum oft undanþágu frá fræðslulögum sem voru í gildi og fengu að hafa skólaárið og skólaskylduna styttri en í þéttbýli (Jón Torfi Jónasson, 2008b, bls. 106 108). Ein ástæða þessa var sú að börn voru mikilvægur starfskraftur á bæjum áður fyrr (Jón Torfi Jónasson, 2008a, bls. 177). Það var í rauninni ekki fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar sem skólar í dreifbýli gátu boðið upp á menntun sambærilega því sem gerðist í þéttbýlinu. Markmið þessarar rannsóknar er að kynnast reynslu fólks af skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd frá síðari hluta 20. aldar og fram á þessa öld og því hvernig skólahaldinu var háttað. Leitað verður svara við því hvernig fólkinu fannst að vera í litlum skóla, hvað það lærði og hvernig, hvaða leiki nemendur fóru í í frímínútum og fleira í þeim dúr. Rannsóknarspurningarnar sem hafðar voru að leiðarljósi voru hvernig var skólahaldi í Birkimelsskóla á Barðaströnd háttað frá 1964-2004 og hvaða reynslu hafa fyrrum nemendur af því. Rannsóknin á að varpa ljósi á mismunandi tímabil í sögu skólans og voru viðmælendur voru því valdir með hentugleikaúrtaki. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa alist upp á bænum Breiðalæk á Barðaströnd og eru fæddir hver á sínum áratug, sá elsti árið 1954, sá næstelsti 1964, þriðji 1978 og sá fjórði 1988. Upplifun þessara einstaklinga ætti að gefa nokkuð góða mynd af breytingum af skólahaldi í Birkimelsskóla á árunum 1964 2004. Gögn rannsóknarinnar eru bæði ritaðar og munnlegar heimildir. Stuðst er við fréttir af atburðum í Barðastrandarhreppi en einnig við ýmis rit um svæðið. Heimilda var einnig aflað á Þjóðskjalasafni Íslands en þar eru varðveittar heimildir frá skólayfirvöldum og skólanefnd Barðastrandarhrepps sem nýttust vel við gerð kaflans um Birkimelsskóla. Þá var ritið Almenningsfræðsla á Íslandi notað við gerð kaflans um skólahald á Íslandi. Munnlegu heimildunum var safnað í október og nóvember 2016 með hálfopnum einstaklingsviðtölum. Stuðst var við nánast sama spurningalista fyrir alla viðmælendur. Viðtölin voru svo afrituð og þau greind í þemu. Niðurstöðunum er skipt niður í þessi þemu og innan hvers kafla eru þær í tímaröð, frá elsta þátttakenda til þess yngsta. Ritgerðin er þannig upp byggð að í öðrum kafla er gerð grein fyrir staðháttum, íbúaþróun, atvinnuvegum og samfélagsháttum í Barðastrandarhreppi. Því næst kemur kafli um skólahald á Íslandi almennt og í fjórða kafla er fjallað um sögu skólahalds í Barðastrandarhreppi allt frá aldamótum 1900. Í fimmta kafla er sagt frá rannsókninni og aðferðafræði og í sjötta kafla er fjallað um niðurstöður rannsóknarinnar. Loks eru 10

umræður um niðurstöður rannsóknarinnar og þær settar í samhengi við sögu skólahalds á Íslandi og sögu Barðastrandarhrepps. 11

2 Barðaströnd Barðaströnd er strandlengja á suðurströnd Vestfjarða sem einkennist af gulum sandströndum, melum og grænum túnum (Erla B. Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). Ólíkt því sem margir halda er Barðaströnd aðeins lítill hluti af allri suðurströnd Vestfjarða en Barðaströnd nær einungis frá Vatnsfirði til Sigluneshlíða. Í þessum kafla ritgerðarinnar verður fjallað um staðhætti í Barðastrandarhreppi og sagt frá íbúaþróun í hreppnum. Eins verður sagt frá atvinnuháttum, samgöngum, samfélagsháttum, verslun og þjónustu þar auk rafmagns- og hitaveitumálum. 2.1 Barðastrandarhreppur Á Barðaströnd var einn hreppur áður fyrr, Barðastrandarhreppur (Kristján Jónsson, 1942, bls. 66). Hreppurinn náði frá Skiptá í Kjálkafirði til Stálfjalls á Sigluneshlíðum. Þann 11. júní 1994 sameinaðist hreppurinn Patrekshreppi, Rauðasandshreppi og Bíldudalshreppi og fékk hið nýja sveitarfélag heitið Vesturbyggð (Vesturbyggð, e.d.). Land Barðastrandar þótti ágætt til landbúnaðar en byggðin í hreppnum var mun þéttari en ella vegna nálægðar við gjöful fiskimið (Birgir Þórisson, 2011, bls. 12, 43 og 117). Bæirnir urðu því margir og fremur litlir en oft var margbýli á stærstu jörðunum. Fólki tók að Mynd 1. Kort af Barðastrandarhreppi frá 1933 (Geodætisk Institut, 1933, blað 13). fækka þegar leið á 20. öldina, bæir urðu færri en stækkuðu og bændur hófu að 12

framleiða fyrir markað í stað þess að stunda sjálfsþurftarbúskap. Í upphafi 20. aldarinnar voru þannig 36 bæir í byggð í Barðastrandarhreppi en árið 2010 ekki nema 15. Þeir voru, í röð frá austri til vesturs, Auðshaugur, Brjánslækur, Seftjörn, Arnórsstaðir, Rauðsdalur, Hvammur, Hamar, Vaðall, Kross, Grænhóll, Hagi, Breiðilækur, Innri-Múli, Ytri-Múli og Innri-Miðhlíð. Eins er búið í litlu þéttbýli í miðri sveitinni sem nefnist Krossholt. 2.2 Íbúaþróun Barðastrandarhreppur var með fjölmennari hreppum í Vestur-Barðastrandarsýslu lengi framan af (Hagskinna, 1997, bls. 78). Á 19. öld var íbúafjöldinn í hreppnum yfirleitt um eða yfir 350 manns og það hélst þannig allt til ársins 1930. Mynd 2 sýnir íbúaþróun frá 1901 2010. Árið 1930 bjuggu 338 manns í hreppnum en tíu árum seinna var búið að fækka í byggðinni, en þá voru íbúarnir orðnir 277 og 1950 eru þeir komnir niður fyrir Mynd 2. Íbúafjöldi í Barðastrandarhreppi 1901-2010 (Hagskinna, 1997, bls. 78 og Birgir Þórisson, 2011, bls. 42 43). 200 og orðnir 199. Á næstu tíu árum fækkaði ekki nema um fimm manns í hreppnum en árið 1960 voru íbúar 194 og raunar fjölgaði íbúum á sjöunda áratugnum. Eftir það fækkaði íbúum töluvert. Árið 1990 bjuggu 150 manns í Barðastrandarhreppi. Jafnt og þétt hefur fækkað síðan þá. Íbúar voru í kringum 100 árið 2000 og árið 2010 bjuggu einungis 56 einstaklingar á Barðaströnd. 13

Í Barðastrandarhreppi var allt til aldamótanna 1900 frekar þétt byggð vegna mikillar sjósóknar frá bæjunum (Birgir Þórisson, 2011, bls. 42). Sjórinn var matarkista og bætti kjör fólks. Fátækt var þó fremur mikil í hreppnum miðað við margar aðrar sveitir. En í stað þess að flytja til Ameríku eins og margir gerðu í öðrum landshlutum flutti fólkið í Barðastrandarhreppi frekar í kauptúnin. Helst voru það Patreksfjörður og Bíldudalur, sem voru í miklum vexti um aldamótin 1900 og mikil eftirspurn var þar eftir vinnuafli (Jón Guðnason, 1993, bls. 22). Þegar leið á öldina fór fólk heldur að flytja suður (Birgir Þórisson, bls. 14 og 42 43). Árin 1950 1990 var tímabil uppbyggingar á Barðaströnd að því leyti að þar var mikið unnið í að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk og við það myndaðist vísir að þéttbýli á Krossholtum. Með bættum samgöngum var hægt að selja mjólk á Patreksfjörð og á sjöunda áratugnum hófst grásleppuveiði á Ströndinni auk þess sem smábátaútgerð til þorskveiða varð til á svæðinu. Þessar tilraunir og uppbygging í atvinnumálum dugðu þó ekki til halda fólkinu í hreppnum en hægði þó sjálfsagt á fólksfækkuninni fram á miðjan níunda áratuginn eins og sjá má á mynd 3 en þar sést að íbúafjöldinn í hreppnum hélst nokkuð stöðugur til a.m.k. 1980. Á mynd 3 má sjá að fólksfjöldaþróun í Barðastrandarhreppi sinni var töluvert frábrugðin íbúaþróun á landsvísu. Á landsvísu hefur verið talsvert mikil fólksfjölgun, mest á sjötta áratugnum. Líkt og í öðrum strjálum byggðum á landinu hefur íbúum fækkað í Barðastrandarhreppi á undanförnum áratugum. Framan af 20. öldinni fjölgaði Mynd 3. Þróun fólksfjölda í prósentum á hverjum áratugi fyrir sig 1900 2010 (Hagstofa Íslands (e.d.), Birgir Þórisson, 2011 og Hagskinnu, 1997). 14

íbúum í hreppnum en frá því um 1940 hefur íbúum fækkað ef frá er talinn sjötti áratugurinn. Frá lokum 20. aldarinnar hefur íbúum í Barðastrandahreppi fækkað mun meir en íbúum í strjálbýlinu í heild. Sú mikla fækkun íbúa sem átti sér stað á Barðaströnd varð einnig annars staðar í sýslunni (Birgir Þórisson, 2011, bls. 14). Á Patreksfirði fækkaði fólki t.d. um 40% frá árinu 1990 til 2010 (Hagstofa Íslands, e.d.). Botninum var náð í Vesturbyggð árið 2011 þegar þar bjuggu ekki nema 890 manns. Síðan þá hefur hins vegar fjölgað í sveitarfélaginu á hverju einasta ári og voru íbúar orðnir 1.013 talsins árið 2016, sem er á við fólksfjöldann árið 2005. Ef þéttbýlisstaðirnir tveir eru sérstaklega skoðaðir kemur í ljós að 9% fjölgun varð á Patreksfirði á milli áranna 2011 og 2016 og um 30% fjölgun á Bíldudal. Þessa fjölgun má m.a. rekja til uppbyggingar laxeldis á svæðinu (Erla B. Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). 2.3 Samgöngur, samskipti og rafmagn Áður en vélaöldin hófst og farið var að ryðja vegi í Barðastrandarhreppi á fimmta áratug 20. aldar þótti hreppurinn afskekktur (Kristján Þórðarson, 2006, bls. 5) og lengi vel voru samgöngur á sjó mun betri en á landi ( Samgöngumál Vestfjarða, 1938). Fólkið á svæðinu notaðist mikið við flóabáta og strandferðaskip framan af 20. öldinni ( Brot af sögu 2002). Árið 1948 komst á vegasamband milli Barðastrandarhrepps og Patreksfjarðar þegar Kleifaheiði var opnuð ( Þjóðvegakerfi landsins er nú um 5000 km, 1948). Á sjötta áratugnum var gerður vegur innan sveitar í hreppnum (Birgir Þórisson, 2011, bls. 45) en vegirnir voru ekki malbikaðir fyrr í byrjun þessarar aldar (Vegagerðin, 2014 og Erla Bryndís Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). Seint á fimmta áratug síðustu aldar hófst vegagerð til annarra landshluta (Kristján Þórðarson, 2006, bls. 68). Árið 1954 opnaðist leiðin suður inn með Breiðafirði. Vegurinn lá í fyrstu um Þingmannaheiði (Birgir Þórisson, 2011, bls. 45). En árið 1969 opnaði vegur um firðina í Austur- Barðastrandarsýslu ( Nokkur héraðsmál, 1979). Dynjandisheiði var opnuð árið 1959 og þar með kom tenging norður í Ísafjarðarsýslur ( Akvegasamband, 1959). Í dag er Vestur-Barðastrandarsýsla sennilega einn af þeim landshlutum sem býr við hvað verstu samgöngurnar (Birgir Þórisson, 2011, bls. 38). Árið 2010 var enn ekki hægt að keyra á bundnu slitlagi til nokkurs annars landshluta. Síðustu áratugi hefur Breiðafjarðarferjan Baldur, sem hefur hafnaraðstöðu á Brjánslæk, verið aðalleiðin suður (Kristján Þórðarson, 2006, bls. 68). Allt frá 1948 og til dagsins í dag hefur þó verið hægt að fljúga 15

til annarra staða, ýmist frá Patreksfirði eða Bíldudal (Jón Guðnason, 1993, bls. 95 96 og Strjálbýli, 1974). Rafmagn kom frekar seint í Barðastrandarhrepp. Það var ekki fyrr en árið 1972 sem allir bæir í Barðastrandarhreppi voru komnir með rafmagn ( Raforkusæstrengur, 1972). Áður en rafmagnið kom höfðu margir bændur þó komið sér upp díselrafstöðvum (Birgir Þórisson, 2011, bls. 46). Víða í Mórudal er heitt vatn að finna (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 113 116 og 236-238). Stuttu eftir seinna stríð byggði Ungmennafélag Barðstrendinga sundlaug í Laugarnesi en þar var um 30 C heitt vatn að finna. Árið 1976 var ákveðið að bora eftir heitu vatni við sundlaugina. Hvergi fannst þó háhitasvæði en tvær uppsprettur fundust, önnur með 36 stiga heitu vatni og hin með 44 stiga vatni. Þessar uppsprettur voru notaðar til að hita sundlaugina og til húshitunar á Krossholtum (Bjarni Hákonarson, 1979b). Símasamband komst á í Barðastrandarhreppi árið 1927 ( Frá Landssímanum, 1927). Símstöðvar voru settar upp í Haga og á Brjánslæk (Birgir Þórisson, 2011, bls. 45 46). Sveitasími var kominn á flesta bæi árið 1954 og árið 1982 kom svo sjálfvirkur sími í hreppinn. Mjög stutt er hins vegar síðan farsímasamband kom á Barðaströnd, ekki meira en áratugur (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Sambandið þykir ekki gott og netið næst víðast hvar ekki í símum. Netið í tölvum hefur verið aðeins lengur á Ströndinni en þykir heldur ekki mjög gott. 2.4 Atvinnuvegir Barðaströnd var lengi vel fyrst og fremst landbúnaðarhérað en sjávarútvegurinn var þó alltaf mikilvæg aukabúgrein. Jarðir voru litlar og margar, bústofninn fremur lítill (Birgir Þórisson, 2011, bls. 42) og sjórinn sóttur víða af bæjum (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 75). Vélvæðing á svæðinu varð hröð og hófst fljótlega eftir stríðslok og húsakostur lagaðist smám saman (Birgir Þórisson, 2011, bls. 43 45). Miklar framfarir urðu í Barðastrandarhreppi þegar mjólkurstöð opnaði á Patreksfirði seint á sjöunda áratugnum ( Mjólkurstöð á Patreksfirði, 1967). Bændur gátu þá farið að framleiða mjólk til að selja á Patreksfjörð ( Rætt við fulltrúa, 1967). Þetta stórbætti afkomu bænda á svæðinu og gerði áfallið mikla 1984 bærilegra en þá kom upp riða í sveitinni og allt fé var skorið niður (Bjarni Hákonarson, 1979a; Kristján Þórðarson, 2005, bls. 258). Hreppurinn var fjárlaus í tvö ár áður en nýr stofn var fenginn. Þetta varð til þess að sumir brugðu búi en nokkur bú héldu velli og eftir aldamót hafa þau heldur stækkað (Birgir Þórisson, 2011, bls. 43). Um og eftir 2000 fækkaði búum í 16

Barðastrandarhreppi en skepnum fjölgaði, sérstaklega sauðfé. Á Barðaströnd eru í dag bæði kúabú og sauðfjárbú (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Þau eru þó ekki mörg enda hafa margir bæir farið í eyði en tún þeirra eru nytjuð frá öðrum bæjum. Margar jarðir eru nú orðnar að sumardvalarstöðum. Þótt Barðaströnd sé að mestu leyti landbúnaðahérað hefur sjósókn verið stunduð þar í langan tíma, fyrst á árabátum en síðar á smábátum. Það er grásleppan sem hefur gefið mest af sér fyrir svæðið síðustu áratugi og hún hefur aukið hag bænda talsvert. Í upphafi 20. aldar var sjórinn sóttur á árabátum og frá þeim stöðum sem næstir voru fiskimiðunum (Birgir Þórisson, 2011, bls. 42). Fljótlega á 20. öld fóru bændur að setja vélar í báta sína eins og farið var að gera í þorpunum. Á fjórða áratugnum voru þær komnar í flesta báta (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 75 76). Á Brjánslæk var ágætis höfn frá náttúrunnar hendi, þaðan sem róið var (Elva Björg Einarsdóttir, 2016, bls. 228). Frá sjöunda áratugnum hefur Brjánslækur síðan verið miðstöð útgerðar í Barðastrandarhreppi. Bæði hafa verið þar handfæra- og grásleppuveiðar og þegar mest var voru um 15 20 bátar gerðir út frá Brjánslæk (Ágúst I. Jónsson, 1976). Fiski er enn í dag landað á Brjánslæk og aflinn hefur aukist frá aldamótum með tilkomu strandveiðikerfisins árið 2009 (Hagstofa Íslands, e.d.). En það var ekki bara þorski sem var landað á Brjánslæk. Árið 1978 byrjuðu hrefnuveiðimenn frá Ísafirði að koma með og skera veiði sína á Brjánslæk ( Vantar höfn, 1986). Alls voru gerðir út þrír bátar til hrefnuveiða frá Brjánslæk (Birgir Þórisson, 2011, bls. 61). Þessar veiðar voru stundaðar allt þar til hvalveiðar voru bannaðar árið 1985. Fyrirtækið byrjaði að vinna skel meðfram hrefnuveiðinni í janúar 1984 en án hrefnunnar reyndist ekki rekstrargrundvöllur fyrir því ( Nauðungaruppboð, 1991; Birgir Þórisson, 2011, bls. 61). Ýmis önnur fyrirtæki hafa reynt að halda úti rekstri við Brjánslækjarbryggju en ekkert hefur gengið (Birgir Þórisson, 2011, bls. 61). Saumastofan Strönd var stofnuð árið 1978 til þess að auka atvinnumöguleika kvenna í hreppnum ( Hefur staðið, 1999; Kristján Þórðarson, 2005, bls. 251, 253 og 255-256). Á saumstofunni var unninn klæðnaður af ýmsu tagi fyrir þó nokkuð mörg fyrirtæki, sem flest urðu svo gjaldþrota á endanum. Í desember 2004 voru svo flest saumaverkefni landsins send til Eystrasaltslandanna, þar sem vinnuafl var ódýrara, og dróg þá verulega úr starfseminni á stofunni. Í örfá ár í viðbót framleiddi Saumastofan Strönd þó jólasveinahúfur fyrir innanlandsmarkað. Nýjasta atvinnugreinin á Barðaströnd er ferðamannaiðnaðurinn (Birgir Þórisson, 2011, bls. 43). Enn sem komið er stoppa að vísu ekki margir ferðamenn á svæðinu en fólki finnst það hafa heldur aukist undanfarin ár (Kristján Þórðarson og Valgerður 17

Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Flestir keyra þó bara í gegn á leið sinni á Látrabjarg eða Rauðasand því ekki er mikið á svæðinu sem fær þá til að stoppa. Sveitamarkaður, með afurðum bænda af svæðinu, var þó stofnaður sumarið 2016 í gamla saumastofuhúsinu (Erla B. Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). Vonast er til að hann komi til með að fá ferðafólk til að staldra aðeins við á svæðinu á leið sinni um Vestfirði. Á ýmsum stöðum geta ferðamenn fengið gistingu, svo sem í Flókalundi, Rauðsdal og á Krossholtum ( Flókatindur í Vatnsfirði, 1968; Ný gistiaðstaða, 1994; Erla B. Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). 2.5 Verslun og þjónusta Lítið er um þjónustu á Barðaströnd nú á dögum og ekkert almennilegt þéttbýli hefur myndast á svæðinu. Nánast alla þjónustu þarf að sækja til Patreksfjarðar, Ísafjarðar eða suður til Reykjavíkur. Allt til sjötta áratugarins sóttu Barðstrendingar alla helstu þjónustu til Flateyjar enda voru samgöngur á sjó þá mun auðveldari en á landi (Birgir Þórisson, 2011, bls. 34). Flestir Barðstrendingar færðu sig yfir í Kaupfélag Patreksfjarðar árið 1951, þegar vegasamband komst á yfir til Patreksfjarðar (H.J.K., 1952; Birgir Þórisson, 2011, bls. 34). Kaupfélag Vestur-Barðastrandarsýslu, sem var stofnað árið 1980 þegar nokkur kaupfélög runnu saman í eitt, rak um tíma verslun á Krossholtum en árið 1986 þurfti að loka þeirri verslun vegna fjárhagsörðugleika ( Hættir rekstri, 1986). Félagið varð svo gjaldþrota ári seinna ( Lítið eða ekkert, 1988). Verslunin á Krossholtum hafði þá verið rekin af heimamönnum um hríð (Birgir Þórisson, 2011, bls. 36 37). Einkareknar verslanir komu í stað kaupfélaga í lok síðustu aldar en þær hafa þó átt erfitt uppdráttar í sýslunni. Meðal verslana sem Barðstrendingar versla við eru Albína og Fjölval á Patreksfirði. Í þeim er vöruúrvalið takmarkað og vörurnar almennt dýrari en gengur og gerist í lágvöruverslunum. Mörgum finnst jafnvel borga sig að keyra alla leið í Bónus á Ísafirði. Flestir versla einnig í lágvöruverslunum áður en lagt er af stað heim úr Reykjavík (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Í Flókalundi er starfrækt veitingahús, hótel, lítil sjoppa, sundlaug og bensínafgreiðsla (Erla B. Kristjánsdóttir, 24. ágúst 2016). Það er helsta þjónustan sem er staðsett innansveitar í gamla Barðastrandarhreppi í dag. Áður fyrr voru tvær kirkjusóknir í Barðastrandarhreppi, Brjánslækjarsókn og Hagasókn (Ágúst Sigurðsson, 2005, bls. 45-46, 54 og 58). Hagasókn náði frá Vaðli og að Siglunesi en Brjánslækjarsókn náði frá Auðnum í Kjálkafirði og að Vaðli. Síðasti presturinn í Barðastrandarhreppi fór frá Brjánslæk árið 1935 og þar með varð prestlaust 18

í hreppnum. Árið 1991 var Tálknafjarðarprestakall stofnað og presturinn þar þjónaði einnig Haga- og Brjánslækjarsókn ( Fyrsti sóknarprestur, 1991). Þannig er það enn í dag (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Aldrei hefur verið læknir í Barðastrandarhreppi og hafa Barðstrendingar alltaf þurft að leita læknishjálpar annað (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Fyrst var það til Flateyjar en seinna til Patreksfjarðar eða til Reykjavíkur. 2.6 Félagslíf Oft er það talinn mikill kostur lítilla samfélaga hversu samheldið það getur verið. Í Barðastrandarhreppi hafa í gegnum tíðina verið starfandi ungmennafélag og kvenfélag. Félögin eru enn starfandi í dag þrátt fyrir fámennið. Í Barðastrandarhreppi voru og eru starfrækt bæði ungmennafélag og kvenfélag (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Bæði félögin hafa verið virk í félagslífi hreppsins. Meðal verka Ungmennafélagisins var að byggja sundlaugina í Laugarnesi (H.J.K., 1953). Það hélt einnig lengi samkomur og dansleiki (H.J.K., 1953). Ungmennafélagið er enn starfandi í dag og skipuleggur reglulega bingó í félagsheimilinu (Kristján Þórðarson og Valgerður Kristjánsdóttir, 3. ágúst 2016). Kvenfélagið starfar sömuleiðis enn í dag með miklum blóma. Það hittist reglulega og skipuleggur viðburði. Um tólf konur eru í félaginu í dag og eru þær duglegar við að baka fyrir skemmtanir. Eins taka þær að sér að útbúa mat fyrir fundi. Árið 1955 kom fyrst upp sú tillaga að byggja nýtt félagsheimili fyrir hreppinn (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 123-124). Hafist var handa við að byggja það sumarið 1957 ( Byggingaframkvæmdir á Patreksfirði, 1957). Það var svo vígt 12. ágúst 1961 ( Hjá Hákoni í Haga, 1961). Fékk það nafnið Birkimelur eftir að skoðanakönnun fór fram í sveitinni (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 128). Félagsheimilið hefur verið mikið notað undir alls kyns skemmtanir og var notað sem skóli fyrir börnin í sveitinni frá 1964 og þar til skólabygging var reist árið 1977 (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 130 131 og 227; Þjóðskrá Íslands, e.d.). Á Krossholtum, fyrir miðri sveitinni og þar sem grunnskólinn var staðsettur, byggðist upp lítill byggðakjarni á áttunda áratugnum (Ágúst I. Jónsson, 1976). Þegar mest var, árið 1986, bjuggu þar 40 manns (Birgir Þórisson, 1986). 19

3 Skólahald á Íslandi 3.1 Þróun skólahalds og fræðslulög Árið 1880 voru sett lög á Íslandi sem skylduðu börn til að læra skrift og reikning (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 209). Oft er talað um að þessi lög hafi verið kveikjan að farskólahaldi á Íslandi sem tók þá við af hinni hefðbundnu heimafræðslu. Lögin leiddu jafnframt til þess að eftirspurn eftir barnakennurum jókst mikið í sveitum. Fræðslulögin 1907, sem voru fyrstu almennu lögin sem voru sett um fræðslu barna hér á landi, skipuðu svo fyrir að skólaskylda ættu að vera fyrir öll börn á aldrinum 10 14 ára í sex mánuði á ári (Loftur Guttormsson, 2008c, bls. 83 84). Hægt var að fá undanþágu frá þessu væri ekki fastur skóli í skólahéraðinu og með þessum sömu lögum fékk farskólinn lögformlega stöðu. Í flestum sveitum landsins var farskólahaldið enda var það mun ódýrara fyrir fátæka hreppi en að reisa skólabyggingar og stofna fastan skóla (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 207). Farskólahald var þó með mjög mismunandi hætti á milli hreppa (Loftur Guttormsson, 2008b, bls. 118 119). Í sumum hreppum voru húsráðendur tregir til að leyfa farskólann á sínum bæ enda var það mikið álag á húsfreyjuna að hafa skólann. Oft var því málum þannig háttað að nokkrir bæir í hreppnum skiptust á að hafa skólann yfir veturinn. Árlegur kennslutími í farskólum var mun styttri en í föstum skólum í þéttbýli (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 213 214). Fastir skólar áttu að sinna sex mánaða fræðslu á ári samkvæmt fræðslulögunum 1907 en í farskólum átti skólaárið þó ekki að vera styttra en tveir mánuðir og lágmarkskröfur um kunnáttu voru gerðar við lok skólaársins. Árið 1926 voru lögin endurskoðuð og nú máttu skólar taka inn nemendur frá 7 ára aldri ásamt því sem auknar kröfur voru gerðar í lesgreinum (Loftur Guttormsson, 2008b, bls. 111). Áfram var gert var ráð fyrir að þau sveitarfélög sem ekki höfðu fastan skóla væru með farkennslu (Sigmar Ólafsson, 1983, bls. 230). Farskólinn var skyldugur til að kenna í a.m.k. tólf vikur ár ári (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 215). Í kjölfar þessara laga kom út fyrsta námsskráin hér á landi Námsskrá fyrir barnaskóla árið 1929 og með henni kom landsprófið, sem var samræmt próf fyrir allt landið. 20

Árið 1936 voru lögin endurskoðuð aftur og eftir það urðu öll 7 14 ára börn skólaskyld á Íslandi (Loftur Guttormsson, 2008b, bls. 111). Þegar þessi lög voru samþykkt voru heimavistarskólar farnir að rísa á nokkrum stöðum á landinu (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 216). Lítið var talað um farskóla í þessum nýju lögum sem bendir til þess að ráðamenn hafi ekki verið hrifnir af því formi skóla. Jafnvel var gert ráð fyrir að farskólahald legðist niður þrátt fyrir að helmingur allra skóla í landinu væru farskólar (Sigmar Ólafsson, 1983, bls. 230). Skólahverfi utan kaupstaða gátu fengið undanþágu frá skólaskyldunni í þessum nýju fræðslulögum og gátu fengið að kenna aðeins frá 8, 9 eða 10 ára aldri til 14 ára aldurs og kenna þurfti nemendum í minnst 16 vikur (Loftur Guttormsson, 1992, bls. 216 218). Heimavistarskólar voru á þessum tíma að taka við af farskólunum víða um land. Heimavistarskólum fjölgaði hratt á tímabili í kjölfarið. Þeir voru tveir talsins skólaárið 1927 1928 en voru orðnir 17 áratug síðar og 34 skólaárið 1947 1948. Á sama tíma fjölgaði heimangönguskólum jafn og þétt um landið. Allt frá því að lög voru sett um fræðslu barna árið 1880 hafði menntakerfið á Íslandi orðið sífellt miðstýrðara, skipulagðara og samræmdara (Hlynur Ómar Björnsson, 2008, bls. 24). Enn eitt skrefið í þá átt var tekið þann 5. apríl 1946 en þá voru ný fræðslulög samþykkt (Hlynur Ómar Björnsson, 2008, bls. 29). Þessi lög höfðu það að markmiði að búa til heildstætt skólakerfi hér á landi. Skólakerfið var í fjórum stigum sem tóku við hvert af öðru. Stigin skiptust í barnafræðslustig, gagnfræðastig, mennta- og sérskólastig og háskólastig. Á barnafræðslustigi var hlutverk skólanna að starfa í þágu nemenda sinna og hjálpa þeim m.a. að temja sér hollar lífsvenjur, heilbrigð lífsviðhorf og stuðla að líkamshreysti (Hlynur Ómar Björnsson, 2008, bls. 30). Þarna áttu því barnaskólar að ýta undir þroska og félagsmótun nemenda. Barnaskólum átti svo að skipta í tvær deildir, yngri og eldri deild. Í yngri deild voru 7 10 ára nemendur og í eldri deild voru börn eldri en tíu ára. Skólar í bæjum áttu að starfa í níu mánuði á ári en skólar í minni þorpum og sveitum í sjö mánuði. Þetta var vegna þess að börn í bæjum höfðu mun minni reynslu af störfum heldur en sveitabörn. Gagnfræðastigi tilheyrðu unglingaskólar, miðskólar og gagnfræðaskólar (Hlynur Ómar Björnsson, 2008, bls. 29). Þessir skólar skiptust svo niður í bóknámsdeild og verknámsdeild. Þetta stig náði til 13 17 ára unglinga og skólaskyldu lauk með unglingaprófi sem lagt var fyrir 15 ára nemendur. Þeir nemendur sem luku gagnfræðaprófi, sem tekið var við 17 ára aldur, máttu halda áfram og fara í framhaldsskóla, en þó ekki í menntaskóla. Nám í menntaskóla var fjögur ár og lauk með 21

stúdentsprófi. Á eftir mennta- og sérskólastiginu kom háskólastig fyrir þá sem höfðu lokið stúdentsprófi. Lögin höfðu lítið að segja um farskólana en í þeim sveitum sem heimangöngu- eða heimavistarskólar voru áttu þeir að reyna að starfa eins nákvæmlega eftir nýju lögunum og þeir mögulega gætu. Framkvæmd þessara laga tók þó sinn tíma á ýmsum svæðum á Íslandi (Helgi Skúli Kjartansson, 2008c, bls. 44). Það tók yfirleitt nokkur ár í þéttbýlinu en oft áratugi í dreifbýlinu. Þetta stafaði fyrst og fremst af því að sveitirnar þurftu fyrst að ná að fylgja fræðslulögunum frá 1936 eftir áður en þau gátu hafist handa við að fylgja nýju lögunum. Þar til sveitirnar gátu fylgt þessum lögum eftir voru þær oft með sín eigin skólakerfi. Eftir barnafræðsluna var oft lítið í boði fyrir börn í sveitum. Helstu möguleikar þeirra voru að fara í héraðsskóla, hætta í skóla, reyna að komast inn í menntaskóla í kaupstöðunum eða fara í bænda- eða húsmæðraskóla sem voru einmitt ætlaðir til þess að undirbúa æsku sveitanna fyrir lífið þar. Víða fóru sveitarfélög nú að sameinast um skólahald og farið var að flytja börnin á milli staða í stað kennarans áður (Pétur Bjarnason, 1992, bls. 232 233). Farskólum fækkaði hratt en heimavistarskólum fjölgaði að sama skapi. Eftir 1970 fækkaði heimavistarskólum því með bættum samgöngum og betri ökutækjum fjölgaði föstum skólum í sveitum. Fræðslulögin 1974 jöfnuðu rétt barna til skólagöngu (Alþingistíðindi, 1973 1974, bls. 208). Allir áttu nú rétt á því að fara í skóla og mikil áhersla var lögð á það að sem flestir kæmust í skóla nálægt heimili sínu. Smám saman lögðust heimavistarskólar af og í dag er enginn heimavistarskóli starfandi á landinu á skyldunámsstiginu. Hátindur farskólahalds var á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Flestir voru farskólarnir um 130 140 talsins en farskólum fækkandi eftir það (Sigmar Ólafsson, 1983, bls. 231). Skólaárið 1965 1966 voru aðeins 34 hreppir á Íslandi með farskóla og síðasti farskólinn á Íslandi hætti starfsemi árið 1978. Sá var í Fells- og Óspakseyrarhreppum í Strandasýslu og þar með lauk sögu farskólahalds á Íslandi. Við lok 20. aldarinnar voru margar sveitir orðnar það fámennar að sveitarfélögum þótti ekki lengur ástæða til að halda skóla þar (Pétur Bjarnason, 1992, bls. 233). Margir sveitaskólar hafa núorðið sameinast stærri skólum. Grunnskólum á Íslandi fækkaði þannig um 28, úr 196 í 168, á árunum 1998 2015 (Hagstofa Íslands, e.d.). Grunnskólalögin 1974 mörkuðu mestu kerfisbreytingu sem orðið hafði í íslensku skólakerfi síðan 1946 (Helgi Skúli Kjartansson, 2008a, bls. 85). Lögin gjörbreyttu enn fremur námsefni og kennsluháttum íslenskra skóla. Stórt skref var tekið í átt til jafnréttis. Nú áttu allir nemendur að fá tækifæri til að fá sömu menntun óháð búsetu, 22

kyni, sérþörfum og efnahag. Lengi höfðu börn í dreifbýli fengið mun styttri skólavist en börn í þéttbýli (Jón Torfi Jónasson, 2008b, bls. 106 108). Þetta gilti bæði um lengd skólaársins og fjölda ára í skóla. Þetta átti að laga með nýju lögunum. Stuttu áður, árið 1971, hafði umræða hafist á Alþingi um svokallað grunnskólafrumvarp. Þar er skyldunámsstigið skilgreint sem ein heild og kallað grunnskóli. Það átti að lengja það um eitt ár, hafa það níu ár í stað átta. Þetta átti að búa alla undir framhaldsskóla. Einnig áttu allir skólar að kenna jafnmargar kennslustundir á ári. Mikil togstreita var á milli tveggja stórra afla í þessari umræðu, hvort vinna ungmenna eða skólaganga væri mikilvægari. Deilan endaði á því að skólaskyldan var enn aðeins átta ár og var ekki lengt í níu ár fyrr en 1985 (Jón Torfi Jónsson, 2008a, bls. 176). Í lögunum frá 1974 var lögð áhersla á skólaakstur og reglur voru settar um styrki til náms (Jón Torfi Jónasson, 2008b, bls. 109 111). Stjórn skóla var jafnframt færð yfir á sveitarfélögin og þótti þetta góð breyting fyrir landsbyggðina með tilliti til jafnréttis. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu átti að koma á í skólakerfinu og byggja átti upp skólabókasöfn í skólum landsins. Hið síðarnefnda var liður í hugmyndinni um einstaklingsmiðað nám, þar sem nemendur urðu ábyrgir fyrir námi sínu. Það var með þessum lögum sem skólar áttu að hætta að raða nemendum í bekki og hópa eftir getu og öll börn áttu að fá að fara í skóla þrátt fyrir sérþarfir þeirra. Í kjölfar grunnskólalaganna 1974 kom út ný aðalnámskrá grunnskóla og var hún sú fyrsta með því heiti (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008a, bls. 120 123). Námskráin var gefin út á árunum 1976 1977 og var í mörgum heftum, eitt hefti fyrir hverja námsgrein. Alls voru þetta níu hefti, fyrir tónmennt, kristinfræði, erlend mál, eðlis- og efnafræði, móðurmál, mynd- og handmennt, íþróttir, heimilisfræði og samfélagsfræði. Í þetta safn vantaði þó stærðfræði og líffræði. Áður höfðu komið út þrjár aðrar námsskrár, árið 1929, 1948 og 1960 en þetta var sú fyrsta sem var með umfjöllun um kennslufræði og námsmat og lýsti markmiðum kennslu ítarlega. Með grunnskólalögum árið 1991 var skólaskyldualdurinn lengdur í tíu ár (Jón Torfi Jónasson, 2008a, bls. 177). Munurinn á skólahaldi í dreifbýli og þéttbýli var enn nokkur á þessum tíma. Skólaskyldualdurinn hafði reyndar verið að lengjast smám saman alla öldina en fjölmargar undanþágur voru gerðar fyrir skólana í dreifbýli. Það sama átti við um fjölda kennslustunda nemenda. Það var á tíunda áratug síðustu aldar sem nemendur í dreifbýli fengu sömu menntun í heimahögum og nemendur í þéttbýli. Síðustu tvo til þrjá áratugi hefur ný hugmyndafræði rutt sér til rúms í skólum hér á landi (Jón Torfi Jónasson, 2008c, bls. 272). Hún nefnist Skóli fyrir alla. Hugmyndafræðin byggist á því að allir eigi sama rétt og að allir eigi að fara í sams konar skóla. Börn skulu 23

ekki vera flokkuð eftir kyni, kynþætti, búsetu, getu eða nokkru öðru. Þetta þýddi að börn sem ekki höfðu verið í hefðbundnum skóla og töldust vart skólahæf áratugina á undan fengu nú að fara í sama skóla og aðrir. Öll sérúrræði skólakerfisins voru nú sett undir einn hatt og nefndist nú sérkennsla. Á þessari öld hefur kennarastarfið orðið margþættara og flóknara og meiri kröfur eru gerðar til kennara um að vinna af fagmennsku í starfi sínu (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008, bls. 294). Foreldrar uppgötvuðu rétt sinn og skyldur í sambandi við skólastarfið og fóru að hafa meiri áhrif á það. Ný námskrá sem kom út árið 1999 var allt öðruvísi í sniðum en fyrri námskrár. Nýja námskráin hafði árgangabundin markmið og samræmd próf til að mæla hvort þessum markmiðum hefði verið náð. Eftir aldamótin 2000 varð nemendahópur íslenskra grunnskóla mun fjölbreyttari en áður og áherslan á skóla án aðgreiningar varð skýrari. 3.2 Námsgreinar og námsefni Ekki hafa alltaf sömu námsgreinar verið kenndar í íslenskum skólum. Kristindómsfræðsla og lestur eru námsgreinar sem lengsta hefðin er fyrir hér á landi (Ólafur Rastrick, 2008, bls. 164). Lestrarnám var nátengt kristindómsfræðslunni lengi framan af (Loftur Guttormsson, 1993, bls. 9 og 12). Börn lærðu oft að lesa með því að lesa fyrir heimilisfólkið úr nýja testamentinu. Lestur var því ekki alveg sjálfstæð námsgrein heldur kunnátta sem þurfti til að læra kverið. Með fræðslulögunum frá 1880 var börnum gert að læra skrift og reikning, auk hefðbundinnar kristindómsfræðslu og lesturs (Ólafur Rastrick, 2008, bls. 166 167). Fræðslulögin 1907 kváðu svo um að kenna ætti börnum móðurmál, reikning, landafræði, náttúrufræði og söng. Þar er í fyrsta sinn talað um móðurmál sem sérstaka kennslugrein (Loftur Guttormsson, 1993, bls. 9 og 11 12). Eins og áður sagði var lestur áður álitin kunnátta sem þurfti til að læra kristin fræði. Bókum sem voru ekki trúarlegs efnis hafði fjölgað inn á heimilum og nú höfðu börn tækifæri til að læra að lesa efni sem féll betur að áhuga þeirra og skilningi en t.d. nýja testamentið. Í fræðslulögunum voru lestur og kristindómsfræðsla slitin í sundur en lesturinn tengdur þjóðlegum fræðum, sögu og bókmenntum í staðinn. Nokkrar lestrarbækur handa börnum koma út á þessum árum. Þær voru margar þjóðernislegar en voru þó fræðandi fyrir börnin, sem fengu nú að læra um hinn veraldlega heim. Námsefni við upphaf 20. aldar var mjög þjóðernismiðað enda stóð þjóðin í sjálfstæðisbaráttu (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008b, bls. 144 145). Námsefnið var því valið út frá þörfinni fyrir samkennd og sjálfstæðisvilja. Námsgreinar þar sem þetta átti 24

við voru t.d. íslenska, náttúrufræði og alveg sérstaklega í sögukennslan. Ein þrautseigasta námsbók allra tíma er Íslandssögubók Jónasar frá Hriflu. Sú bók kom fyrst út á öðrum áratug síðustu aldar og var notuð lengi fram eftir öldinni og hafði mikil áhrif á sýn Íslendinga á sögu sína. Á fyrri helmingi síðustu aldar var fræðslulögunum breytt alls fjórum sinnum, 1907, 1926, 1936 og 1946 (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 66). Síðasta breytingin stóð svo frekar lengi. Á þessum tíma þróuðust viðfangsefni skóla mikið og hlutföll námsgreina og námsefnið sömuleiðis. Árið 1966 hóf Skólarannsóknadeild, sem starfrækt var innan Menntamálaráðuneytisins, að endurskoða nokkrar námsgreinar (Helgi Skúli Kjartansson, 2008a, bls. 92-96). Markmið þeirra en líka kennsluaðferðir og námsgögn voru öll tekin til endurskoðunar. Fyrstu námsgreinarnar sem voru endurskoðaðar voru stærðfræði og eðlisfræði. Kennsluhættir í þessum greinum voru orðnir mjög úreltir miðað við nágrannalöndin á þessum tíma. Nýtt námsefni var í kjölfarið gefið út og mikil áherslubreyting varð í stærðfræðikennslu. Farið var að leggja áherslu á skilning á aðferðum í stærðfræði og nokkur ný hugtök voru kynnt til sögunnar í námsbókum. Hið sama gerðist í mörgum öðrum greinum, þ.e. að nýtt og endurbætt námsefni kom út. Ýmsar tilraunir með upphaf dönsku- og enskukennslu í grunnskólum voru gerðar á áttunda áratugnum. Sumar námsgreinar voru sameinaðar, t.d. dýrafræði, grasafræði og heilsufræði í líffræði. Eðlisfræði breyttist í eðlis- og efnafræði. Ein stærsta og umdeildasta sameiningin á þessum tíma var þó sameining Íslandssögu, mannkynssögu og landafræði. Sú námsgrein fékk heitið samfélagsfræði og miklar deilur urðu vegna þessarar sameiningar (Loftur Guttormsson (ritstj.), 2013, bls. 11). Deilt var harkalega um þetta mál á Alþingi og í fjölmiðlum einkum veturinn 1983 1984 en deilurnar hafa verið nefndar sögukennsluskammdegið. Með grunnskólalögunum 1974 bættust ekki við neinar nýjar námsgreinar (og raunar fækkaði þeim) en lögin höfðu engu að síður sín áhrif (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008a, bls. 127). Árin í kringum 1970 var tími gjörbreytts hugsunarháttar hvað varðar jafnrétti, sérstaklega jafnrétti kynjanna. Í grunnskólalögunum 1974 breyttist handavinna, sem í dag kallast textílmennt, úr því að vera skyldunámsgrein fyrir stúlkur eingöngu í það að vera skylda fyrir bæði kynin. Sömu sögu er að segja um smíði sem áður hafði aðeins verið fyrir drengi. Í kjölfar grunnskólalaganna kom út ný námskrá á árunum 1976 og 1977 (Helgi Skúli Kjartansson, 2008a, bls. 94). Sú námskrá lýsti flestum námsgreinum ítarlega og gerði grein fyrir markmiðum þeirra, fjallaði mikið um námsmat og var mun lengri en sú fyrri, sem var frá árinu 1960 (Ingólfur Ásgeir 25

Jóhannesson, 2008a, bls. 125 129). Fækkun námsgreina, vegna sameininga námsgreina, var eitt af því sem breyttist í námskránni. Einnig ber að nefna að í stað kristinfræði átti samkvæmt námskránni að vera kennsla í siðfræði en einnig áttu nemendur að fá að kynnast öðrum trúarbrögðum heimsins. Það var einnig nýmæli að nú átti að kenna báðum kynjum saman í skólaíþróttum. Í námskránni kemur fram að nemendur hafi mismunandi þroska á ýmsum sviðum, t.d. líkamsþroska, vitsmunaþroska, siðgæðisþroska og félagsþroska og taka þurfi tillit til þess því skólinn eigi að koma til móts við allar þarfir nemenda sinna (Menntamálaráðuneytið, 1976, bls. 7 14). Árið 1979 var Námsgagnastofnun stofnuð við sameiningu Ríkisútgáfu námsbóka og Fræðslumyndasafns ríkisins (Jón Torfi Jónasson, 2008d, bls. 228). Þessi stofnun hafði það verkefni að útbúa fjölbreytt námsefni fyrir tíu árganga nemenda í grunnskólum sem uppfyllti kröfur námskrárinnar. Stofnunin vann náið með sérfróðum kennurum að samningu námsefnisins. Almennt var starfsfólk grunnskólanna ánægt með námsbækur og starf stofnunarinnar. Þær list- og verkgreinar sem kenndar eru í grunnskólum núorðið voru allar lögboðnar í grunnskólalögum 1991 (Gerður G. Óskarsdóttir o.fl., 2014, bls. 241 242). Flestar eiga þær sér þó lengri sögu. Í fræðslulögunum 1907 kom fram að öll 14 ára börn ættu að kunna nokkur einföld sönglög. Í námsskránni frá árinu 1929 áttu börn enn að kunna nokkur sönglög en líka að geta teiknað eitthvað. Árið 1936 urðu handavinna og leikfimi að lögboðnum námsgreinum. Handavinna þýddi þá að stelpur lærðu að sauma, prjóna o.fl. þess háttar en strákar lærðu smíði. Áratug seinna átti einnig að kenna börnum teikningu, söng og sund. Árið 1974 kom heimilisfræði fyrst fram. Áður hét námsgreinin matreiðsla og hússtjórn og hafði verið lögboðin fyrir stúlkur síðan 1960. Í þessum fræðslulögum kom í fyrsta sinn fram námsgreinin tónmennt þó tónlist hafði lengi verið kennd. Loks bættust dans og leiklist við námsgreinaflóru landsins í lögunum 1991. 3.3 Kennsluhættir og námsmat Fjölmargar kennsluaðferðir hafa verið notaðar í gegnum árin. Hefðbundna leiðin við kennslu er mjög kennaramiðuð (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008b, bls. 145). Nemendur sátu einir við borð sem snéru að töflunni og hlustuðu á kennarann tala. Stundum voru þeir spurðir spurninga eða voru jafnvel teknir upp á töflu til að svara spurningum kennarans. Formleg próf voru oftast höfð við lok hverrar annar eða skólaárs (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 70). Námsefnið gaf kannski ekki tilefni til 26

annars en þar var yfirleitt aðeins um að ræða kennslubækur sem voru lesnar í gegn. Helstu námsgögn voru kennslubókin, krít og taflan. Námsmat var vissulega mjög einhæft lengi framan af öldinni, miðað við það sem nú er (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008b, bls. 145). Fyrst voru nemendur að mestu leyti prófaði í munnlegu prófi og það var ekki fyrr en á öðrum áratug aldarinnar sem skrifleg próf komu til sögunnar. Landsprófum hafði verið komið á um 1930 og fljótlega var það orðin venja að hafa skrifleg próf og einkunnir í tölustöfum. Í byrjun fjórða áratugarins kom fram ný stefna í skólamálum sem kallaðist nýskólastefnan sem gagnrýndi það að skólar færu með börn eins og smækkaða útgáfu af fullorðnum (Loftur Guttormsson, 2008a, bls. 220-221). Skólar ættu ekki að troða þekkingu í börnin eins og þau hefðu sama áhuga og skilning og fullorðnir. Nýskólastefnumenn vildu að börn lærðu það sem myndi gagnast þeim sem best og höfðaði til áhuga þeirra ásamt því sem líðan þeirra, þarfir og langanir væru virtar. Um miðjan áratuginn tók Samband íslenskra barnakennara þessa stefnu upp og gerði að yfirlýstri skólastefnu sinni. Með þessu breyttist viðhorf til barna töluvert og hugað var meira að leikþörf barna og þörfum vangæfra barna. Um miðja síðustu öld var farið að huga að fjölbreyttari kennsluháttum til að höfða betur til áhuga nemenda og gera þá virkari (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 70). Ekki þýddi lengur að yfirheyra nemendur, hafa aðeins skrifleg próf, þjóðernisstefnu og aðgreindar námsgreinar (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008b, bls. 146). Ólíkir nemendur þurftu mismunandi kennsluaðferðir (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 70 71). Fyrir yngri nemendur þýddi þetta meira föndur en fyrir eldri fleiri vinnubækur sem áttu að mynda mótvægi við lexíur og yfirheyrslu. Ýmis ný námsgögn komu til skjalanna eftir miðja síðustu öld, t.d. voru það segulband, kvikmyndir og skyggnur. Ríkisútgáfa námsbóka fór að gefa út bækur með myndum og þær fóru að verða nemendamiðaðri og fjölbreyttari. Sömu kennslubækurnar höfðu verið notaðar árum saman en nú breyttist það. Árið 1958 varð fyrsta litprentaða kennslubókin til, Gagn og gaman. Eftir það urðu námsbækur mun vandaðri. Sjöundi og áttundi áratugurinn voru tímar mikilla átaka á milli þeirra sem vildu umbætur í kennsluháttum og þeirra sem vildu halda í gamlar hefðir (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2008b, bls. 148). Að þekking væri ferli voru helstu rök umbótasinna en andstæðingarnir höfðu áhyggjur af því að þekkingu myndi hraka við breyttar kennsluaðferðir. Nokkrar umbætur urðu í kjölfar þessara deilna. Nokkrir nýir skólar voru stofnaðir sem opnir skólar, t.d. Fossvogsskóli sem var stofnaður 1971. Skólastarf varð allt mun sveigjanlegra og margir skólar komu sér upp opnum rýmum. 27

Í rannsókn sem gerð var árin 1987 1988 kom í ljós að kennsluhættir í íslenskum grunnskólum samanstóðu einkum af vinnubókavinnu (Ingvar Sigurgeirsson o.fl., 2014, bls. 116 118). Nemendur sátu þá í sætum sínum og unnu í vinnubókum og tóku svo formleg próf í lok annar. Nemendur unnu oftast einir, sjaldan í hópum. Áratug síðar var staðan áþekk. Námsbækur stýrðu enn kennslunni, nemendur unnu mest einir og voru oftast á sama stað í námsefninu. Sömu eða svipaða sögu hafa fjölmargar aðrar rannsóknir sem gerðar voru undanfarinn áratug sagt. Það er þrátt fyrir að í Aðalnámskrá grunnskóla 2006 sé talað um einstaklingsmiðaða kennslu í fyrsta sinn í íslenskri námskrá og þar er lögð áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná ólíkum markmiðum (Menntamálaráðuneytið, 2006, bls. 15). 3.4 Breytt samfélag, breytt skólahald Samfélagið hefur tekið gífurlegum breytingum á síðustu 100 árum. Flestir íbúar búa nú í þéttbýli, atvinnuhættir hafa tekið róttækum breytingum og hlutverk fjölskyldunnar er annað en það var áður. Skólinn hefur þurft að aðlaga sig að þessum breytingum. Eitt af því sem breyttist til mikilla muna í íslensku skólastarfi á 20. öld var sálfræðiþjónustan (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 69 70). Hana höfðu nemendur á Íslandi raunar ekki fengið fyrr en hún komst fyrst á dagskrá á sjötta áratugnum. Fyrsti skólasálfræðingurinn var Jónas Pálsson en hann var ráðinn árið 1956 af Kópavogskaupstað fyrir barnaskólann þar. Reykjavík stofnaði síðan sálfræðideild fyrir sína skóla árið 1960. Sálfræðingarnir sinntu geðrænum þörfum nemenda, ekki síst nemenda með sérþarfir. Oft voru þeir nemendur mældir með hinum ýmsu prófunum til að sjá hvar þeir ættu að vera staðsettir innan skólakerfisins. Starfsemi sálfræðinga hjá grunnskólum fékk skýra lagastoð í grunnskólalögunum 1974 og kerfisbundin uppbygging á starfi þeirra hófst (Jón Torfi Jónasson, 2008d, bls. 223 og 226 7). Fjárskortur hamlaði þó uppbyggingunni fyrst um sinn. Árið 1980 kom reglugerð sem skýrði betur skipulag þjónustunnar og það breytti miklu. Þá átti einn sérhæfður starfsmaður að vera fyrir hverja þúsund nemendur og fræðsluumdæmin urðu þó að hafa minnst tvö og hálft stöðugildi. Lögin frá 1995 kváðu um að sveitarfélög skyldu kosta sálfræði- og námsráðgjafaþjónustu grunnskóla. Eftir það fjölgaði sálfræðingum og námsráðgjöfum í skólum. Árið 1998 voru t.d. 1500 nemendur á hvert stöðugildi og árið 2006 var það komið niður í 500 nemendur. Aukin atvinnuþátttaka kvenna hafði sín áhrif á skólastarfið og ekki síst það að fleiri nemend-ur bjuggu hjá einstæðu foreldri (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008, bls. 294 295). Þetta kallaði allt á aukið uppeldishlutverk skóla. Á níunda áratugnum 28

fóru yfirvöld menntamála að huga að því að lengja skóladaginn og gera hann samfelldan. Einsetja átti skóla. Einsetning náði aðeins til um 25% nemenda um miðjan áratuginn og voru þeir flestir í skólum í dreifbýli. Margir skólar voru hins vegar ekki tilbúnir í þessar breytingar. Ástæðurnar voru helst þær að skólahúsnæði var á mörgum stöðum mjög lítið, aðstaða list- og verkgreina var ekki nógu góð og að skólar gátu ekki boðið nemendum upp á mat í mötuneyti en það var ein af forsendum samfellds skóladags. Í grunnskólalögunum 1991 var svo stefnt að því að allir skólar skyldu einsetnir og að nemendur ættu að fá mat í skólanum (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008, bls. 295). Þetta var staðfest árið 1995, allir skólar áttu að verða einsetnir fyrir 1. september 2004. Mörg sveitarfélög byggðu við skólana sína. Skólaárið lengdist á sama tíma en í lögunum frá 1991 var í fyrsta sinn kveðið á um að skólaárið skyldi vera níu mánuðir. Fjórum árum seinna, í lögunum 1995, var samþykkt að kennsludagar skyldu ekki vera færri en 170 í skólaárinu. Þetta var stuttu seinna lengt í 180 daga. Þó búið væri að lengja skóladaginn var það ekki nóg fyrir marga foreldra (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008, bls. 296). Sveitarfélög fóru þá að bjóða upp á lengda viðveru yngstu nemendanna gegn gjaldi. Fyrsta sveitarfélagið sem tók þetta upp var Hafnarfjörður árið 1986. Fleiri sveitarfélög fylgdu í kjölfarið. Önnur afleiðing þess að grunnskólar voru einsetnir voru þær að sveitarfélög fóru nú að sameinast um skólahald og að lokum sameinast alveg. Margir fámennir skólar í sveitum voru þá lagðir af. Það var víða mjög sársaukafull aðgerð. Önnur víðtæk breyting á skólastarfi er af tæknilegum toga. Tölvuvæðing hófst á áttunda áratug síðustu aldar en var þá bundin við stórar stofnanir (Helgi Skúli Kjartansson, 2008b, bls. 246 251). Eftir 1980 urðu tölvur minni og ódýrari og fleiri fyrirtæki fóru að nota þær og stuttu síðar hinn almenni borgari. Tölvur urðu síðan að algjörri nauðsyn í margskonar starfsemi. Nokkuð fljótt varð ljóst að tölvufærni yrði mjög eftirsóknarverð á atvinnumarkaði framtíðarinnar og nauðsynlegt var fyrir skólana að svara því kalli. Fyrst fengu elstu nemendur grunnskólans kennslu á tölvur um miðjan níunda áratuginn en svo var reynt að kenna yngri börnunum einnig. Helst átti ekki að gera þetta í sérstökum tölvutíma því helst átti að kenna nemendum að nýta sér tölvur sem kennslutæki. En vegna slakrar tölvukunnáttu margra kennara varð það svo að sérstakir tölvutímar urðu til. Viðhorf landsmanna til fötlunar og ýmissa námsörðugleika breyttust mikið á síðustu öld og síðustu áratugi 20. aldarinnar fór hugtakið skóli fyrir alla að heyrast æ oftar (Kristín Aðalsteinsdóttir, 1992, bls. 196 198). Hugtakið spratt út frá þeirri hugmynd að 29

allir hafi jafnan rétt til að njóta lífsins. Þegar fólk fór að átta sig á þeirri einangrun sem fylgdi því að vera í sérskóla eða á stofnun varð krafan um blöndun hópa sífellt háværari. Allir nemendur áttu að fá að vera saman í sama skólanum óháð hæfni hvers og eins. Áður en þetta hugtak kom til sögunnar voru nemendur, líkt og áður getur, oftast flokkaðir í hópa og nemendur með sérþarfir voru oft í sérbekkjum eða í sérskólum. Sumir nemendur voru teknir úr tíma til að fara í sérkennslu en nú er reynt að skapa svigrúm fyrir börn með sérþarfir og reynt að kenna þeim inn í bekknum og þá fá þau oft einstaklingsnámsskrá, stuðning og önnur kennslugögn en hinir nemendurnir. Fyrir tíma þessara hugmynda var börnum oftast raðað í bekki eftir námsgetu þar sem nemendafjöldinn leyfði (Helgi Skúli Kjartansson, 2008d, bls. 67). Þetta var m.a. gert með því að meta lestargetu nemenda við upphaf skólagöngunnar og svo eftir árangri á barnaprófi. Sum börn þurftu þá að endurtaka bekki ef þau stóðu sig ekki nægilega vel en önnur fengu að sleppa bekk ef þau stóðu sig vel. Vel er hægt að ímynda sér hvers lags niðurbrot þetta var fyrir nemendur með slaka námsgetu og tilefni til stríðni og eineltis að vera í tossabekknum. 3.5 Samstarf heimila og skóla Frá árinu 1974 hefur staðið í grunnskólalögum að samvinna skuli vera milli heimila og skóla. Uppeldishlutverk skólans hafði verið að þróast og aukast alla 20. öld. Sjálfsögð krafa foreldra var komin um að fá að hafa áhrif á skólastarf og styðja við það (Hrólfur Kjartansson, 1992, bls. 137 138 og 140). Það var gert með því að stofna foreldrafélög. Voru þau fyrstu stofnuð árið 1947 í Laugarnesskóla og í Melaskóla árið 1954. Bæði félögin lögðust þó fljótt af og næsta tilraun var gerð um 1970. Það var í Hlíðaskóla og það félag er enn starfandi í dag. Í kjölfar Hlíðaskóla fóru aðrir skólar að stofna foreldrafélög og lög foreldrafélags Hlíðaskóla urðu fyrirmynd að lögum annarra félaga. Árið 1981 voru foreldrafélög í tveimur af hverjum þremur skólum í Reykjavík. Samstarf heimila og skóla hefur jafnframt aukist og í lögum um skóla frá 1991 var komið ákvæði um skólaráð. Í skólaráði eru þrír meðlimir, skólastjóri, fulltrúi kennara og fulltrúi foreldra. Árið 1992 voru stofnuð landssamtök foreldra, Heimili og skóli (Rúnar Sigþórsson og Rósa Eggertsdóttir, 2008, bls. 308 309). Þessi samtök áttu að stuðla að bættum menntunar- og uppeldiskilyrðum barna og unglinga. Um og eftir aldamót fóru foreldrar svo að uppgötva rétt sinn og skyldur til að hafa áhrif á skólagöngu barna sinna og skólastarfið og foreldrafélög urðu öflugari. 30

4 Skólahald á Barðaströnd Þessi kafli ritgerðarinnar fjallar um sögu skólahalds í Barðastrandarhreppi frá aldamótunum 1900 og til dagsins í dag. Sagt verður frá farskólanum, stofnun Birkimelsskóla, þróun nemendafjöldans, byggingu skólahúsnæðisins, sameiningunni við hina skólana í Vesturbyggð, ástandinu í skólamálum í dag og loks hvað ungir Barðstrendingar taka sér oft fyrir hendur eftir grunnskólagönguna. 4.1 Farskólinn í Barðastrandarhreppi Líkt og víða annars staðar í strjálum byggðum hér á landi var lengi farskóli í Barðastrandarhreppi en föstu skólahaldi var komið á árið 1964. Tveir farkennarar skiptu með sér sveitinni í innri og ytri hluta (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 17 og 225). Þeir kenndu svo hvor í sínum hluta allan veturinn en fóru á milli bæja og voru í tvær vikur á hverjum bæ sem tók þátt í farskólakennslunni. Kennarinn hélt yfirleitt til í stofunni á bæjunum og fékk að borða þar. Allt það besta, sem húsfreyjurnar á bæjunum áttu, var borið fyrir hann. Framan af 20. öldinni var farkennsla mjög stopul, sem dæmi má nefna var enginn kennari skráður á Barðaströnd árin 1904 1907 og hreppurinn fékk ekkert framlag til farkennslu frá 1908 1918 (Birgir Þórisson, 2011, bls. 101). Að minnsta kosti frá árinu 1953 voru komnar fram hugmyndir um að byggja þyrfti skóla í Barðastrandarhreppi (Jóhann Skaptason, 1954, bls. 69 og 72). Þetta þótti sérstaklega mikilvægt til að halda bæjum á svæðinu í byggð. Þá þegar þótti Barðastrandarhreppur standa illa í skólamálum. Um tíma voru uppi hugmyndir um að stofna héraðsskóla með heimavist fyrir börn af allri norðurströnd Breiðafjarðar á Brjánslæk (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá menntamálaráðuneytinu 11. janúar 1957). Menntamálaráðuneytið tók þó ekki vel í þær hugmyndir m.a. annars vegna vegalengda á milli staða. Héraðsskóli hefði þó aldrei komið í stað barnaskóla. Skólaárið 1959-1960 var enn farskóli í Barðastrandarhreppi og starfaði hann í sex mánuði á ári (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá menntamálaráðuneytinu 13. janúar 1960). Þá voru 25 nemendur í skólanum á aldrinum 8 14 ára og ráða þurfti auka kennara til að sinna öllum þessum nemendum. Innan örfárra ára breyttist þó ástandið. 31

4.2 Stofnun Birkimelsskóla Árið 1963 var ástandið í skólamálum í Barðastrandarhreppi orðið slæmt (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 226). Aðeins var einn kennari í sveitinni í stað tveggja, því erfitt reyndist að fá fólk til að taka að sér kennslu. Eins var erfitt að fá pláss á bæjunum til að hafa skólann í. Kennslan var aðeins helmingurinn af því sem áður var og börn fengu því að sama skapi minni kennslu. Mörg börn voru í hreppnum og ljóst var að það þurfti að finna húsnæði fyrir almennilegan skóla. Góð lausn þótti að hafa farskólann í nýja félagsheimilinu ( Hjá Hákoni í Haga, 1961; Kristján Þórðarson, 2005, bls. 226). Þann 24. mars 1963 var fræðslumálastjóra sent formlegt bréf þar sem skólanefnd óskaði þess að stofnaður yrði fastur skóli í nýbyggðu félagsheimili sveitarinnar (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf skólanefndar til fræðslumálastjóra, 24. mars 1963). Auk þess bað skólanefndin um að keyptur yrði skólabíll til að flytja nemendur í og úr skólanum. Einn galli var þó á gjöf Njarðar og hann var sá að skólinn var staðsettur í miðri sveitinni og 20 km leið var í hvora átt til fjærstu bæjanna. Tillögur að lausnum voru þær að keyrt yrði á víxl annan hvern dag eða jafnvel hálfsmánaðarlega í hvora átt. Nemendahópnum yrði því skipt í tvennt eftir búsetu. Annars vegar nemendur sem bjuggu utan við Birkimel og hins vegar þau sem bjuggu innan við hann. Aldrei kom upp sú tillaga að hafa heimavist. Þetta var samþykkt af fræðsluyfirvöldum í lok árs 1964 og ákvörðunin var m.a. byggð á því hve afskekktur hreppurinn þótti á þessum tíma (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá Þórleifi Bjarnasyni, 1. desember 1964). 4.3 Fyrstu árin og unglingakennsla Í lok apríl 1964 tóku nemendur vorpróf í fyrsta skipti í Birkimel. Haustið eftir byrjaði skólinn aftur með farskólafyrirkomulaginu en áður en árið var liðið samþykkti Menntamálaráðuneytið ósk skólanefndar Barðastrandarskólahverfis að heimanakstri yrði komið á fyrir nemendur sveitarinnar (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá Menntamálaráðuneytinu til fræðslumálastjóra, 21. desember 1964). Þann 1. febrúar 1965 var endanlega ákveðið að farskólinn skyldi vera færður í Birkimel (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 227) og sama ár var yfirbyggður rússajeppi keyptur til heimanakstursins og bílstjóri ráðinn til starfans (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba- 25. Bréf frá Kristjáni Þórðarsyni til fræðslumálastjóra, 14. nóvember 1965). Fyrsta árið var aðeins einn skólabíll notaður til heimanaksturs í sveitinni og nemendum var því aðeins kennt aðra hvora viku (Snæbjörn Kristjánsson, 12. nóvember 2016). Ári síðar bættist annar skólabíll við. Öll kennsla í sveitinni fór fram nú í félagsheimilinu Birkimel árið 1966 (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 227). Enda þótt skólinn væri enn ekki formlega 32

orðinn að föstum skóla fór skólahaldið fram líkt og í hefðbundum föstum skólum. Skólinn starfaði því í anda skólakerfisins frá 1936 en ekki frá 1946, sem þá voru í gildi. Það var síðan 18. október 1968 sem Mennamálaráðuneytið samþykkti að farskólinn í Barðastrandarskólahverfi yrði gerður að föstum heimangönguskóla frá 1. september 1968 (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Skeyti frá Menntamálaráðuneytinu til fræðslumálastjóra, 18. október 1968). Kennari farskólans á Barðaströnd, Unnar Þór Böðvarsson, varð skólastjóri í hinum nýja Birkimelsskóla. Kennt var í félagsheimilinu þar til nýr skóli var byggður á áttunda áratugnum (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 227). Skólinn hafði á þessum fyrstu árum sínum ekki leyfi til að kenna 9. bekk, efsta bekk þáverandi skólakerfis, en mikill áhugi var þó greinilega fyrir því í sveitinni (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá fræðslumálaskrifstofu, 2. desember 1967). Foreldrar nemenda í Birkimelsskóla og skólanefnd báðu fræðsluyfirvöld um að fá að kenna þennan síðasta bekk barnaskólastigsins strax árið 1967. Því var hafnað vegna skipulagsatriða en lagt var til að halda uppi frjálsum unglingaskóla þess í stað. Kröfurnar sem settar voru til að kenna 9. bekk gat Birkimelsskóli ekki uppfyllt að svo stöddu. Veturinn 1968 1969 stofnuðu svo foreldrar barna fæddum 1954 og 1955 frjálsan unglingaskóla (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 229). Þessi börn höfðu þegar tekið fullnaðarpróf. Jón Steingrímsson frá Miðhlíð ytri á Barðaströnd sá um kennsluna. Kostnaðinum var deilt á milli foreldra allra átta nemendanna um veturinn. Ári seinna kom styrkur frá Menntamálaráðuneytinu. Afgangur varð af honum og var hann notaður til þess að kaupa sprittfjölritara og myndvarpa með 25 skyggnum af Barðastrandarsýslu. Skólanum var svo gefið þetta. Skólanefnd Barðastrandarskóladæmis reyndi áfram ítrekað að fá leyfi fyrir kennslu 9. bekkjar. Fljótlega eftir að frjálsa unglingaskólanum lauk, árið 1969, bað skólanefnd enn á ný um að fá að kenna 9. bekk (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá skólanefnd til fræðslumálastjóra, 13. ágúst 1969). Miðað við bréf fræðslustjóra frá sama ári virðist þetta hafa verið leyft til eins árs reynslu skólaárið 1969 1970 (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25). Um þetta var beðið aftur 1970 (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf til fræðslumálastjóra, 1. júlí 1970) en ljóst er að 9. bekkur var ekki kenndur skólaárið 1972-1973 (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf til Menntamálaráðuneytisins frá oddvita hreppsins og skólastjóra, 10. ágúst 1976). Á næstu árum bað skólanefnd nokkrum sinnum um að hafa 9. bekk, en án árangurs (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25., ÞÍ. Skj. mnr. 2010-B/68. Barð. skh. B-82. Ýmis skeyti og bréf frá 1976 1988). Formlega fékk Birkimelsskóli svo að lokum leyfi til að 33

starfrækja elsta bekk grunnskólans skólaárið 1991 1992 (Menntamálaráðuneytið, grunnskóladeild, e.d.). 4.4 Nýr skóli byggður Ekki var hægt að hafa skólann að eilífu í félagsheimilinu Birkimel því það þótti ófullnægjandi sem skólahúsnæði (ÞÍ. Skj. mnr. 1986-BB/6. Barð.skh. Ba-25. Frásögn af kennslufyrirkomulagi á Barðaströnd). Það þurfti að byggja íbúðir fyrir kennarana og skólastjórabústað en skólastjórinn og fjölskylda hans höfðu búið í einu herbergi félagsheimilisins í nokkurn tíma. Það var ekki fyrr en 1970 að það verk gat hafist. Fyrst var byggðakjarni á Krossholtum skipulagður af Skipulagsstjórn ríkisins og fyrir veturinn náðist að útibyrgja íbúðirnar (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 232 233). Sumarið 1971 voru íbúðirnar tilbúnar. Því næst var hafist handa við að byggja nýtt skólahúsnæði (Bjarni Hákonarson, 1979a). Það var árið 1974 og átti skólahúsnæðið að vera fyrir rúmlega 50 nemendur. Skólinn var sambyggður félagsheimilinu, sem seinna notað í leikfimikennslu. Nokkur ár tók aftur á móti að byggja nýja skólahúsið vegna fjárskorts ( Ekkert unnið, 1978). Byrjað var að kenna í nýja skólahúsnæðinu áður en verkinu var lokið (ÞÍ. Skj. mnr. 2010-B/68. Barð.skh. B-82. Bréf skólastjóra til skólanefndar, 1978). Fram kemur í bréfi skólastjóra til skólanefndar að aðbúnaði hafi verið ábótavant skólaárið 1978 1979. Ekki var búið að ganga frá hreinlætisaðstöðu í skólanum og þurftu nemendur og kennarar því að nota hreinlætisaðstöðuna í félagsheimilinu. Gólfkuldi var töluverður í skólanum enda gólf aðeins dúkalögð að hluta til. Ýmislegt skorti af búnaði í skólanum s.s. gluggatjöld, borð og stóla og lýsingu var ábótavant. Engin aðstaða var fyrir kennara í skólanum, geymslur vantaði og einnig fleiri kennslustofur. Þá þurfti að hreinsa skólalóðina og útbúa leiksvæði fyrir nemendur. Sama ár skoðaði Hallgrímur Magnússon, heilsugæslulæknir á Patreksfirði, nýja húsnæði skólans (ÞÍ. Skj. mnr. 2010-B/68. Barð.skh. B- 82. Bréf heilsugæslulæknisins á Patreksfirði). Samkvæmt skýrslunni sem hann gerði eftir heimsóknina þótti honum salernisaðstaða skólans ófullnægjandi og sömuleiðis lýsingin í skólanum. Þá var hann ósáttur með það að steypan væri enn hrá og órykbundin og taldi það óhjákvæmilegt að börn önduðu að sér rykugu lofti. Loks taldi hann hitann í húsinu of lágan enda væru, að sögn skólastjóra, aðeins 15 16 stig innandyra í miklum frostum. Hallgrímur skrifaði að ef salernisaðstaðan lagaðist ekki fljótlega neyddist heilsugæsluembættið í Barðastrandasýslu til að loka húsinu en að sjálfsögðu þyrfti að laga öll atriðin sem nefnd voru hér að ofan. Sennilega náðist að laga þessi atriði í tæka tíð því skólahúsnæðinu var aldrei lokað. 34

Vegna þess hve nemendur voru orðnir margir á áttunda áratugnum þurfti ekki aðeins að stækka skólahúsið heldur einnig skólabílinn (Kristján Þórðarson, 2005, bls. 241). Árið 1974 var ákveðið að kaupa sérstakan skólabíl. Keypt var 22 manna rúta sem dugði til að aka börnunum í skólann því þau byrjuðu ekki öll á sama tíma. Á þessum tíma voru lög um skólabíla þannig að ríkið greiddi 85% af verði bílanna og hægt var að fá nýjan bíl á þriggja ára fresti með því að láta gamla bílinn upp í. Árið 1976 bað skólanefnd um mötuneyti fyrir skólann en það var ekki hægt vegna kostnaðar og þeirrar staðreyndar að ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum 1976 og 1977 (ÞÍ. Skj. mnr. 1986- BB/6. Barð.skh. Ba-25. Bréf frá Menntamálaráðuneytinu, 27. september 1976). Nemendur þurftu því áfram að koma með nesti. Bætt hafði verið úr þessu þegar Guðrún Finnbogadóttir, einn viðmælandi í rannsókninni, var í skólanum frá 1984 1994 (Guðrún Finnbogadóttir, 20. október 2016). 4.5 Nemendafjöldi Mynd 4. Nemendafjöldi í farskóla Barðastrandarhrepps, 1955-1964, og Birkimelsskóla, 1965-1996 og 2014-2016 (Hagstofa Íslands, 1967, Fræðslumálaskrifstofan, 1967-1970, Menntamálaráðuneytið, 1972-1996, Kristján Finnbogason, 8. október 2016 og Kristján Már Unnarsson, 2014). 35