Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

Similar documents
Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Ný tilskipun um persónuverndarlög

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 489/2012. frá 8. júní 2012

Samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar - dæmi -

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB

Sumarbeit sauðfjár á ræktuðu landi og fóðurrepju

Ég vil læra íslensku

Horizon 2020 á Íslandi:

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

KVER HAFRANNSÓKNASTOFNUNAR

Gengið og verðlagsmælingar til mjög langs tíma

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Fyrirkomulag forsjár barna af erlendum uppruna

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Viðhorfskönnun meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. September 2018

Hugvísindasvið. Lesið í landið. Fyrirbærafræði, fornleifaskráning og menningarlandslag. Ritgerð til B.A.-prófs. Ásta Hermannsdóttir

Áhrif lofthita á raforkunotkun

STOÐKERFISVERKIR HJÁ HJÚKRUNARDEILDARSTJÓRUM OG TENGSL VERKJA VIÐ STREITU

Til að forritið vinni með Word þarf að hlaða niður á tölvuna forritsstubbnum Cite While You Write

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Fóðurrannsóknir og hagnýting

Reykjavík-Rotterdam, rannsókn á vöruútflutningi til Niðurlands (Hollands) Reykjavík-Rotterdam, a study of exports of goods to the Netherlands

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg.

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Upplýsingaleit á Internetinu Heilsa og lífsstíll. Dr. Ágústa Pálsdóttir dósent, bókasafns- og upplýsingafræði Háskóli Íslands

Loftmengun vegna jarðvarmavirkjanna

[fjou:lɪð] mitt er svo [fuŋkt]!

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar

Stefnumótun. tun Rf. Hlutverk (Mission) Why we exist. Gildi (Core values) What we believe in. Framtíðarsýn (Vision) What we want to be

Forseti Íslands á. 9. tölublað 2009 Fimmtudagur 14. maí Blað nr. 304 Upplag

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Health at a Glance: OECD Indicators 2005 Edition. Heilbrigðismál í hnotskurn: Rit OECD Samantekt. Summary in Icelandic. Útdráttur á íslensku

Geislavarnir ríkisins

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Samsvörun milli heildarmagns tannátu meðal 12 og 15 ára barna (DMFT/DMFS) og tannátu í lykiltönnum

Tengsl streituvaldandi þátta í starfsumhverfi, svefns og stoðkerfisverkja hjá millistjórnendum í opinberri þjónustu

Eftirspennt Brúargólf Klóríðinnihald í nokkrum steyptum brúargólfum

HVERNIG Á AÐ META ÁHÆTTU?

Könnunarverkefnið PÓSTUR

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri

Hagvísir Vesturlands. Börn í sveitum á Vesturlandi

HUGPRÓ Betw Be ar tw e ar QA & Agile

Saga fyrstu geimferða

Skýrsla um starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

Notkun tíðahvarfahormóna hjá íslenskum konum árin

Fél403 Vor 2012 Verkefni jan. Vægi 10% Einstaklingsverkefni.

Dystópíur uppgangskynslóðarinnar

Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016

Maðurinn í málverki. eftir Ragnar Þórisson. Listaháskóli Íslands Myndlistardeild B.A.-ritgerð (janúar 2010) Leiðbeinandi: Ragna Sigurðardóttir

Ari Teitsson. (2005, 8. nóvember). Til upprifjunar. Bændablaðið, bls. 6. Berry, T., (1996). Business Plan Pro. Oregon: Palo Alto Software.

Að störfum í Alþjóðabankanum

Einelti og líðan. Unnið upp úr könnuninni: Heilsa og lífskjör skólanema, HBSC 2013/2014. Tinna Rut Torfadóttir HUG- OG FÉLAGSVÍSINDASVIÐ

Íslenskt sauðfé í Norður-Ameríku

Fjöldi myndgreiningarannsókna á Íslandi árið 2008.

Reykholt í Borgarfirði

LV Breytingar á grunnvatns- og jarðvatnsborði á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar

Öryggi barna skiptir miklu máli, börnin eru

Fjallkrækill Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi?

Umfang og umhverfi frumkvöðlastarfsemi á Íslandi 2006

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst

Beethoven og tæknikröfur. píanósónötu nr. 26 Les Adieux. Elín Arnardóttir

KENNSLULEIÐBEININGAR

Fæðuvenjur á unglingsárum og miðjum aldri og tengsl við áhættu á brjóstakrabbameini

Ofbeit í sjó orsök landeyðingar Hugleiðingar um áhrif skollakopps á landrof í ljósi þróunar í Kollsvík

ANNUAL SAFETY REVIEW. Þróunar og greiningarstofa Division of Development and Analysis

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11

Tíðni persónuleikaraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Klakaströnglar á þorra

Einstaklingsmunur og þróun læsis hjá fjögra til sjö ára börnum

Sveiflur og breyttar göngur deilistofna. norðaustanverðu Atlantshafi

SVEPPASÝKINGAR MEÐAL SUNDGESTA

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Lambleysi hjá gemlingum, meinafræðileg greining

Útvarpssendistaður á Úlfarsfelli Tæknilegar forsendur

Transcription:

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Jón Viðar Jónmundsson 1 og Emma Eyþórsdóttir 2 1 Bændasamtökum Íslands 2 Rannsóknarstofnun landbúnaðarins/lbh á Hvanneyri Inngangur Fyrsta heimsráðstefna um stórvirka erfðavísa fyrir frjósemi hjá sauðfé var haldin í Armidale í Ástralíu árið 1980. Þar voru í fyrsta sinn settar fram vísbendingar um Booroola genið hjá ástralska Merinó fénu. Margir rekja útbreiðslu á þessu fé vítt um heim beint til þessa fundar. Tilraunir með það urðu á næstu árum mjög umfangsmiklar í starfi margra tilraunastöðva, sem fengust við rannsóknir á sauðfé víða um heim. Rétt er einnig að nefna ráðstefnu, sem haldin var í Edinborg árið 1983, um frjósemi hjá sauðfé. Á þeirri ráðstefnu kom Þokugenið fyrst fram á sjónarsviðið. Í júlí 1990 var síðan önnur heimsráðstefna um ofurfrjósemi hjá sauðfé haldin í Toulouse í Frakklandi. Þar var kynnt feikilega mikið efni sem að langstærstum hluta fjallaði um Booroola féð víða að úr heiminum. Héðan frá Íslandi voru á þessari ráðstefnu nokkur erindi sem tengdust Þokufénu, en árin á undan hafði J.P. Hanrahan frá Írlandi verið við mælingar sínar hér á landi á fjölda egglosa hjá íslensku sauðfé. Á síðasta ári var aftur kominn tími til að vísindamenn sem starfa að erfðarannsóknum á sauðfé hittust til að bera saman bækur sínar. Því var blásið til heimsráðstefnu í Toulouse í Frakklandi í desember 2003 að frumkvæði L. Bodin sem starfar þar. Fagsvið ráðstefnunnar var talsvert víðara en á fyrri ráðstefnum, eða stakerfðir hjá sauðfé og geitum. (Workshop on major genes and QTL in sheep and goat). Við lögðum land undir fót og sóttum þessa ráðstefnu, sem haldin var dagana 8.-11. desember. Í farteskinu voru þrjú erindi. Eitt, sem við höfðum tekið saman ásamt Stefáni Aðalsteinssyni, um stakerfðir hjá íslensku sauðfé og nýtingu þekkingar þar um í íslenskri sauðfjárrækt. Annað fjallaði um nýjan frjósemiserfðavísi sem við teljum okkur hafa fundið og kennum við upphaf sitt, ána Lóu í Hafrafellstungu í Öxarfirði. Þriðja greinin, sem kynnt var sem veggspjald, voru niðurstöður úr spurningalista, sem sendur var síðastliðið vor til allmargra bænda hér á landi, sem bjuggu yfir reynslu í sambandi við nýtingu á fé með Þokugenið. Erindi ráðstefnunnar er að finna í umfangsmikilli skýrslu frá henni. Hér á eftir verður brugðið ljósi á nokkra athyglisverðustu þættina, sem fram komu á ráðstefnunni, en ekki er mögulegt hér að fjalla um nema örlítinn hluta þess sem þar kom fram. Nokkuð var af erindum um geitur og liggja þær hér að öllu óbættar hjá garði. Þá verður ekki fjallað um íslensku erindin hér. Í þessu skrifaða erindi er fjallað um talsvert fleiri þætti, sem fram komu á ráðstefnunni, en þá sem hægt verður að fjalla um á fundinum. Erfðamengi sauðfjár Fyrsti hluti ráðstefnunnar voru erindi þar sem fjallað var um þær aðferðir sem menn hefðu til að greina og staðfesta erfðavísa og uppbyggingu genakorta. Hér verður ekki fjallað neitt um slíka aðferðafræði. Fram kom að í genakortum í dag væru hjá sauðfé skilgreind 1100-1200 merkigen. Í leit að erfðavísum er auk þess orðin veruleg hjálp af nákvæmum genakortum í öðrum tegundum; mannfólki, músum, svínum og nautgripum. Þegar farið er að bera saman kortin á milli tegunda þá finnast litningabútar hér og hvar sem

eru sameiginlegir á milli tegunda og þannig opnast oft möguleikar til að flytja þekkingu frá rannsóknum í öðrum tegundum. Vafalítið mun slíkt hjálpa mikið til í framtíðinni að fylla í myndina hjá sauðfé og mynda þéttari genakort, þar sem DNA rannsóknir á sauðfé munu aldrei verða jafn umfangsmiklar og í fyrrnefndum tegundum. Mikið af leit út frá merkigenum byggir á að finna tengsl þeirra við mælingar á eiginleikum, sem verið er að leita að erfðavísum fyrir. Rétt er að vekja athygli á því að skortur á víðtækum gagnasöfnum er mjög víða í heiminum einn helsti þröskuldurinn í rannsóknum á sauðfé í samanburði við t.d. nautgripi. Vert er að vekja athygli á þeirri sérstöðu sem er hér á landi með öflugri upplýsingagrunn um sauðfé en víðast annars staðar þekkist. Í einu erindanna var minnt á mikilvægi þess að halda uppi samræmdu nafnakerfi á erfðavísunum jafnskjótt og þeir finnast. Slík örnefnanefnd hefur starfað fyrir sauðfé undir skammstöfuninni COGNOSAG og má minna á að Stefán Aðalsteinsson var í þeim hópi vísindamanna, sem hleyptu henni af stokkunum. Eiginleikar a) Ull, skinn og ullargæði Rannsóknir á þessum eiginleikum hjá sauðfé eiga sitt höfuðvígi í Ástralíu líkt og vænta má og gerður þarlendir vísindamenn gerðu grein fyrir stöðu rannsóknanna. Litarerfðavísar eru eitt besta dæmið um stakerfðavísa hjá sauðfé, sem lengi hafa verið þekktir og víða hagnýttir í ræktunarstarfi og þá ekki hvað síst hér á landi. Veigamesta erfðavísasætið (A-sætið) hefur verið staðsett á litningi 13. Ýmis fleiri gen eða erfðavísaflokkar eru þekktir, sem hafa mikil áhrif bæði á ullargæði og ullarvöxt. Ástralíumenn hafa lagt feikilega mikið í rannsóknir á þessu sviði á síðari árum þar sem unnið er að fjölþættum markmiðum. Jafnhliða leit að erfðavísum er verið að leita frekari þekkingar á samspili þátta sem stýra ullarvexti og ullargæðum. Neikvætt samband ullarmagns og fínleika ullar er m.a. þáttur, sem mikil áhersla er lögð á að komast fram hjá. Það virðist sem í upphafi hafi Ástralar haft miklar hugmyndir um að ná skjótum árangri með að einangra einstök gen og geta síðan beitt erfðatækni við flutning þeirra. Þeir hafa nú uppgötvað að leiðin þangað er líklega lengri en þeir ætluðu í upphafi. Mjög stórt rannsóknaverkefni er í gangi í Ástralíu með blendingshóp af Romney x Merinó fé þar sem fram fara miklar og nákvæmar mælingar á miklum fjölda eiginleika, jafnhliða greiningu á merkigenum. Enn hafa þessar rannsóknir ekki leitt til niðurstaðna sem mögulegt hefur verið að nýta í hagnýtu ræktunarstarfi. b. Frjósemi Mikilvirkir erfðavísar, sem hafa áhrif á frjósemi, voru eins og fram hefur komið, öðru fremur aflvakinn að þessari ráðstefnu. G.H. Davis frá Nýja-Sjálandi gaf yfirlit um stöðu í þessum efnum. Hann hefur ásamt J.P. Hanrahan á Írlandi verið í forystu rannsókna í þessum efnum í heiminum á síðustu tveimur áratugum. Byrjun á þessari þróun verður eins og áður segir rakin til 1980 þegar fram komu hugmyndir um að ofurfrjósemi í Booroola, sem þá var stofn af Merinó fé á tilraunastöð í Ástralíu, mætti skýra með áhrifum af einum stórvirkum erfðavísi. Fé af þessum stofni dreifðist síðan til rannsóknarstöðva víða um heim og miklar rannsóknir hófust á þessum eiginleika ásamt leit að sjálfu geninu. Á meðan genið var óþekkt var ekki hægt að greina arfberana nema með afkvæmarannsóknum á hrútum, sem að sjálfsögðu var bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Árið 1993 staðsettu nýsjálenskir

vísindamenn merkigen tengt Booroola geninu á litningi 6. Próf fyrir merkigeninu var hægt að nýta til að áætla Booroola arfgerðina og er sagt að öryggi þess hafi verið um 90%. Miklar rannsóknir til að einangra sjálft genið (FecB) hófust í framhaldi af þessu og árið 2001 fundu hópar vísindamanna á Nýja-Sjálandi, í Frakklandi og í Skotlandi genið nær samtímis. Frá þeim tíma er því fyrir hendi aðferð (DNA próf) til nákvæmrar staðfestingar á því hvort viðkomandi einstaklingur er arfberi. Það að nú er mögulegt að staðfesta genið hefur leitt af sér aðra skemmtilega leit. Uppruni þessa eiginleika hafði lengstum verið á huldu en H.N. Turner, sem hóf rannsóknir á þessu fé, taldi sig þekkja sögusagnir um að það mætti rekja til blöndunar við indverskt fé sem flutt hefði verið til Ástralíu fyrir rúmum tveim öldum. Þetta hefur nú verið staðfest þar sem Garole (Bengal) dvergféð á Norðaustur Indlandi virðist vera nánast arfhreint fyrir þessum sama erfðavísi. Síðan hefur á þennan hátt mátt rekja að það er þetta sama gen, sem er að finna í Java fénu í Indónesíu og menn töldu til skamms tíma annað slíkt frjósemisgen og í Kína eru fundin fjárkyn sem heita Hu og Han þar sem þetta gen er einnig að finna. Áhrif Booroola gensins voru vel þekkt áður en það sjálft var greint. Í arfblendnu ástandi leiðir það til aukningar um eitt fætt lamb á hverja á og arfhreinar ær fæða um 1,5 lömb hver aukalega. Þessi áhrif eru of mikil til þess að leiða til mikillar hagnýtra nota. Genið hefur verið flutt í fjölda fjárkynja víða um heim, en slíkar tilraunir hafa verið gerðar í það minnsta í á öðrum tug landa. Gerð var grein fyrir notkun á Booroola í blendingsrækt í tveim mismunandi kynjum. Í Ísrael hófst flutningur á geninu í Assaf kynið þar í landi. Þar er um að ræða fé, sem notað er til mjólkurframleiðslu að hluta, og lömbin því vanin undan ánum rúmlega mánaðar gömul og fóðruð frá þeim aldri til slátrunar. Með blendingsrækt hefur verið komið upp stofni af mjög frjósömu Assaf fé. Þá var greint frá viðamiklum samanburðartilraunum í Frakklandi þar sem geninu hafði verið blandað í mjög ófrjósamt fé af Merinos d Arles kyni. Ærnar sem hafa genið skila um 40% meiri þunga lamba á fæti eftir hverja á við 70 daga aldur lamba. Þessu fylgir að vísu talsverður fjöldi lamba sem þarf að fóstra sem heimaganga. Um 1990 var Inverdale (FecX I ) genið uppgötvað í Romney á Nýja-Sjálandi og um líkt leyti annað gen í sama fjárkyni, sem nefnt er Hanna (FecX H ), en þau eru kennd við þær hjarðir þar sem þau voru fyrst greind. Bæði þessi gen hafa lík áhrif og leiða til aukningar um 0,6 lömb hjá arfblendnum ám sem hafa þau. Þessi gen hafa þá sérstöðu að þau eru kynbundin, þ.e. staðsett á X litningi og erfast því ekki frá feðrum til sona. Bæði þessi gen hafa nú verið greind og fundið að um er að ræða tvær mismunandi stökkbreytingar þó að svipfarsáhrif þeirra séu þau sömu. Annað sérkenni þessara gena er að í arfhreinu ástandi valda þau ófrjósemi, eggjastokkar hjá arfhreinum ám eru óvirkir. Þetta leiðir til þess að framræktun á eiginleikanum verður að gerast eftir ákveðnum reglum. Í dag er sagður verulegur áhugi á Nýja-Sjálandi fyrir hrútum sem hafa genið, bæði af Romney og Texel kynjum. Nýsjálendingar hafa metið að við hefðbundnar búskaparaðstæður þar í landi sé aukaverðgildi slíkra hrúta vegna gensins 3350 NZ$. Erfðum á Woodlands geninu (FecX2 W ) var fyrst lýst árið 1999, en það fannst í hjörð af Coopworth fé og er uppruni þess rakin til myndunar á því kyni við háskólann í Lincoln um 1960. Erfðir á þessu geni eru mjög flóknar. Það er kynbundið en því til viðbótar eru erfðir þess það sem kallað er imprinted (tjáning gensins háð því frá hvoru foreldra genið erfist). Áhrif af geninu, þegar það er tjáð, eru um 0,25 fædd lömb eftir hverja á. Ærin verður að erfa genið frá föður sínum til að það sé í tjáð (gen frá móðurinn er þögult). Því til viðbótar þarf hrúturinn að hafa erft genið frá móður, sem hefur genið í þöglu formi. Þessar erfðir hafa því afar slitrótt birtingarform,

frjósemishrútarnir koma fram við og við með nokkurra kynslóða bili. Fundist hefur önnur ættarlína í Coopworth fé þar sem fram koma sams konar erfðir og er hún kennd við Meterell. Talið er hugsanlegt að þetta gen sé mjög útbreitt í þessu fjárkyni og því sé hér ef til vill um sama genið að ræða. Slíkt verður þó ekki fullyrt fyrr en genið verður greint. Að því er unnið að krafti, en Davis taldi samt líklegt að nokkur ár liðu áður en það lokamarkmið næðist. Woodland genið leiðir ekki til ófrjósemi í arfhreinum ám. Cambridge kynið á Bretlandi er myndað fyrir um þremur áratugum við samblöndum af fé af ýmsum fjárkynjum þar í landi, sem þekkt var fyrir afbrigðilega mikla frjósemi. Fyrir tæpum tveimur áratugum settu Hanrahan og Owen fram tilgátur um að hina miklu frjósemi mætti skýra með stórvirkum erfðavísum í þessu fé. Þeir hafa nú verið staðfestir og fremur tveir en einn. Annars vegar er um að ræða kynbundnar erfðir, sem lýsa sér á líkan hátt og hjá Inverdale, og önnur stökkbreyting (FecX G ) en sú sem lýst er í Inverdale og Hanna. Hins vegar er búið að greina gen á litningi 5 (FecG H ). Þetta gen veldur einnig ófrjósemi í arfhreinum ám en í arfblendnum ám eykur það egglos um 1,4 egg hjá ánni. Í Belclare fénu á Írlandi lýsti Hanrahan ofurfrjósemi fyrir um einum og hálfum áratug og taldi þá að hún yrði ekki skýrð með áhrifum af einu geni. Frekari rannsóknir hafa sýnt fram á þrjú mismunandi gen hjá þessu fé, sem öll skapa verulega aukna frjósemi hjá ánum. Um er að ræða tvær mismunandi stökkbreytingar á X litningi, sem hafa lík áhrif og þær sem áður er lýst. Önnur er sú sama og hjá Cambridge fénu en hin er ný (FecX B ). Þriðji erfðavísirinn þarna er einnig sá sami og greindur er í Cambridge fénu. Fari saman kynbundið gen og frjósemisgenið á litningi 5 þá koma fram ófrjóar ær. Árið 1998 birti L. Bodin ásamt samstarfsmönnum sínum í Frakklandi vísbendingar um stórvirka frjósemiserfðavísa í Lacaune fénu, sem er mikilvægasta fjárkynið þar í landi. Hjá þeim hafa síðan verið í gangi miklar rannsóknir á þessu, sem hafa leitt í ljós að hið minnsta tvo stórvirka erfðavísa er að finna hjá þessu fé. Þarna finnst enn ein stökkbreyting á kynlitningi (FecX L?) sem hefur öll þau sömu áhrif á hliðstæðar stökkbreytingar og áður eru nefndar. Síðan er búið að staðsetja nokkuð nákvæmlega gen á litningi 11. Áhrif af þessu geni á frjósemi eru líklega mjög áþekk og fyrir íslensku genin. Þokugenið (FecI) er þrátt fyrir það að koma næst Booroola geninu í aldri um nákvæma lýsingu á áhrifum þess enn í meiri þoku en þau gen, sem hér hefur verið fjallað um. Þau áhrif þess, sem fyrst var lýst á frjósemi, hafa verið rækilega staðfest í öllum síðari rannsóknum. Sömu áhrif eru einnig mæld í hjörðum af Cheviot fé á Bretlandi, sem genið var flutt í fyrir tæpum tveimur áratugum. Fyrir liggur prófun á að ekki er um að ræða sama gen og Booroola genið og augljóslega er það ekki úr flokki kynbundnu erfðavísanna. Þarna á fundinum lýstum við einnig nýju geni í íslensku sauðfé, sem virðist hafa mjög hliðstæð áhrif og Þoku genið og allt bendir til að erfist á sama hátt. Þetta gen kennum við við upphaf sitt, ána Lóu 80-092 í Hafrafellstungu í Öxarfirði. Leiða má að því gild rök að þetta gen sé til orðið við stökkbreytingu í þessum einstaklingi. Líklega er leitun á jafn forvitnilegu rannsóknarefni og því að komast að því hvort hér sé um tvö aðskilin gen að ræða, eða tvær mismunandi stökkbreytingar í sama sæti, eða sömu stökkbreytingu í bæði skiptin. Hver sem niðurstaðan yrði er hún jafn forvitnileg til að svara sé leitað. Þá eru til lýsingar á ofurfrjósemi í tveimur kynjum, sem bæði eru í mikilli útrýmingarhættu. Hugmyndir eru um að hana megi skýra með áhrifum stórvirkra gena. Annað er Olkuska féð í Póllandi en hitt Belle-Ile féð í Frakklandi.

Á næstu árum má vænta þess að niðurstöður fari að birtast um fé þar sem tveir eða fleiri mismunandi erfðavísar fyrir ofurfrjósemi hafa verið sameinaðir í sama einstaklingi. Slíkar kindur eru enn sárafáar en Davis taldi þær litlu vísbendingar, sem væri komnar, benda til að um samleggjandi áhrif erfðavísanna væri að ræða. Þessir erfðavísar, sem hér hefur verið lýst, hafa gefið tilefni til rannsókna sem leitast við að skýra hin lífeðlisfræðilegu áhrif genanna. McNatty frá Nýja-Sjálandi, sem lengi hefur verið í fararbroddi slíkra rannsókna, lýsti því sem þar hefur komið fram á síðustu árum. Mjög margt er enn óljóst, en flest bendir samt til að um sé að ræða mjög flókið samspil, sem stýri þroska eggfrumunnar og hve næm hún sé fyrir hormónaáhrifum þeim, sem stjórna vexti hennar. Mikill áhugi er í læknisfræði- og lyfjafræðirannsóknum til að nota þetta fé til rannsókna til að öðlast aukinn skilning á þeim þáttum, sem stjórna vexti og þroska eggfrumunnar og þá um leið frjósemi. Bandaríkjamaðurinn Notter greindi frá niðurstöðum úr úrvali fyrir burði áa utan hefðbundins burðartíma, sem fram fór við tilraunastöð Virginia háskólans á síðustu tveimur áratugum í blendingsfé þar (Dorset x Rambouillet x Finnskt fé). Greinileg svörun vegna úrvalsins kom fram. Hann taldi að greinilega hefði komið í ljós að svörun kæmi ekki skýrt fram fyrr en við annan burð og í framhaldi hans. Leit að erfðavísum, sem geti skýrt erfðabreytileika í þessum þætti, hefur ekki enn skilað neinum marktækum niðurstöðum. Til gamans má geta um rannsókn frá Nýja-Sjálandi þar sem gerð hefur verið leit að merkigenum, sem hafa áhrif á erfðir á fjölda spena hjá sauðfé. Um er að ræða erfðahóp sem myndaður var við blöndun á Merinó x Romney fé. Vísbendingar um merkigen fundust á litningum 6 og 7. Áhugi á þessu tengist að sjálfsögðu möguleikum á að mynda stofn af ofurfrjósömu fé sem hefði fjóra mjólkandi spena. c. Mjólkurframleiðsla Nokkur erindi fjölluðu um eiginleika hjá mjólkurfé í Miðjarðarhafslöndunum. Nokkuð nákvæmlega var lýst feikilega umfangsmiklu verkefni, sem í gangi er til að leita erfðavísa fyrir mjólkurmagn og efnaþætti mjólkur hjá þekktustu kynjunum í Frakklandi og á Ítalíu. Einnig er þar verið að skoða eiginleika sem tengjast júgur- og spenagerð hjá ánum. Kynntar voru fyrstu niðurstöður úr þessum rannsóknum. d. Kjötframleiðsla Erindi, sem tengdust kjötframleiðslueiginleikum, voru fá. Mjög gott yfirlit um stöðu þekkingar í sambandi við rannsóknir á Callipyge geninu í Dorset fénu í Bandaríkjunum var flutt þarna. Áhrif þessa erfðavísis í einstaklingum sem tjá genið er stóraukinn vöðvavöxtur, sem oft mælist á bilinu 25-40% en er mismunandi eftir vöðvaflokkum. Þessi aukna vöðvasöfnun er ekki kominn fram í lömbum við fæðingu, þannig að burðarerfiðleikar eru ekki tengdir eiginleikanum. Vaxtarhraði og fóðurnýting er töluvert betri hjá þessum einstaklingum en öðrum og fitusöfnun mun minni. Einnig kemur fram minni ullarvöxtur. Neikvæður þáttur, sem tengist þessum eiginleika, er hins vegar að kjöt af þessum lömbum er seigara en af öðrum. Það er samt háð skrokkhlutun, er áberandi fyrir hryggvöðva en kemur hins vegar ekki fram í lærum. Erfðavísirinn fyrir þessum eiginleika er staðsettur á litningi 18 og var gerð grein fyrir þeim rannsóknum, sem hafa verið og eru í gangi, til að skýra lífeðlisfræðileg áhrif þessa erfðavísis. Erfðir á þessum eiginleika eru mjög sérstakar og eru nefndar polar overdominance og lýsa sér í sem stystu máli þannig að eiginleikinn birtist aðeins í arfblendunum einstaklingum sem hafa erft stökkbreytinguna frá föður sínum. Gen, sem valda auknum vöðvavexti hjá sauðfé, eru

einnig þekkt í öðrum kynjum þó að áhrif þeirra séu miklu minni. Þessi gen eru einnig staðsett á litningi 18 mjög nálægt Callipyge geninu. Í umfjöllun um þessa eiginleika var flutt mjög áhugavert erindi um músatilraunir. Myostatin genið hefur verið þekkt alllengi í búfé og það tengist vöðvasöfnun eins og tvöföldum vöðva (double-muscling) í nautgripum og svínum. Um leið og jákvæð áhrif slíkra eiginleika á vöðvasöfnun og kjötgæði eru vel þekkt eru einnig þekkt neikvæð áhrif á frjósemi og streitu hjá gripunum. Mýs hafa lengi verið notaðar í tilraunum sem módel fyrir eiginleika hjá búfé, ekki hvað síst í vaxtar- og lífeðlisfræðirannsóknum. Í þeirri tilraun, sem þarna var greint frá, hafði músalínu, sem býr yfir sérstökum erfðavísi fyrir þéttan vöxt (compact) verið blandað við línur af risavöxnum músum. Þannig urðu til ótrúleg vöðvabúnt. Í framræktun voru síðan framleiddar þrjár arfgerðir með tilliti til gensins fyrir þéttan vöxt, arfhrein arfgerð, arfblendin arfgerð og án gensins. Gerð var grein fyrir geysilegum mun sem kom fram á þessum arfgerðum. Það vakti athygli að miklu færri arfhrein vöðvabúnt komu fram en eðlilegt var og bendir til affalla á fósturstigi. Fádæma mikill munur kom fram í útliti, vefjasamsetningu og einstökum líffærum. Þessi tilraun sýnir alveg ótrúlegan mun arfgerða með tilliti til vöðvasöfnunar en um leið umhugsunarverð áhrif á einstök líffæri. e. Sjúkdómar Ávinningur af nýtingu merkigena er líklega hvergi meiri en ef slík gen tengjast sjúkdómsnæmi eða mótstöðu gegn sjúkdómum. Langsamlega þekktasta dæmi um slíkt er Príon genið og tengsl þess við næmi fyrir riðuveiki hjá sauðfé. Nokkuð var af erindum af þessu rannsóknarsviði. Þar voru m.a. rannsóknir þar sem leitað er að fleiri genum príon geninu, sem gætu haft áhrif á þróun riðunnar hjá fénu. Einnig var skýrt frá rannsóknum þar sem verið var að velta fyrir sér tengslum príon arfgerðanna við aðra eiginleika. Þekking á slíku er nauðsynlegur grunnur áður en farið er í víðtækt úrval með tilliti til riðuarfgerðanna Annað mjög stórt rannsóknarsvið í tengslum við sauðfjársjúkdóma tengist mótstöðu gegn sníkjudýrasmiti. Það verður æ algengara að fram koma stofnar af sníkjudýrum, sem hafa mótstöðu gegn þekktum ormalyfjum, og því hefur áhugi á að nýta erfðamótstöðu gegn sníkjudýrasmiti aukist mikið. Umfangsmiklar tilraunir í Eyjaálfu á síðustu tveimur áratugum hafa varpað skýru ljósi á mikinn erfðabreytileika hjá sauðfé í þessum eiginleika. Erindi var flutt þarna þar sem gerð var grein fyrir leit Ástralíumanna að merkigenum til að nýta í þessu sambandi. Niðurstöðurnar hafa enn skilað fáu nýtilegu og var í erindinu ekki síður gerð grein fyrir margs konar annmörkum, sem fram koma í sambandi við mælingar á mótstöðu gegn ormasmiti. Nýting upplýsinga um stakerfðavísa í ræktunarstarfi Yfirlitserindi um nýtingu merkigena í ræktunarstarfinu flutti einn af þekktari kynbótafræðingum Frakklands í nautgriparækt, D. Boichard. Hann gerði mjög glögga grein fyrir því að þessar upplýsingar kæmu ekki í stað hins hefðbundna kynbótamats, sem við þekkjum og vinnum með í dag, heldur er hér um að ræða viðbótarupplýsingar sem verða til að treysta grunninn í matinu. Gildi þessara upplýsinga verður því mest þegar vankantar eru á mælingum eða söfnun upplýsinga í hefðbundnum ferli. Nærtæk dæmi eru kynbundnir eiginleikar, eiginleikar mældir seint á ævi gripsins, slátureiginleikar, eiginleikar sem hafa lágt arfgengi, eiginleikar þar sem öflum upplýsinga er dýr o.s.frv. Að sama skapi hafa slíkar upplýsingar minni þýðingu fyrir eiginleika þar sem upplýsingagrunnur er þegar traustur og framkvæmd úrvalsins er með verulegu öryggi.

Hann flokkaði úrval í grundvelli merkigena í þrjá flokka, sem hann kallaði MAS1, MAS2 og MAS3. Í fyrsta flokknum er stuðst við fjölda merkigena, sem hafa fremur ónákvæma staðsetningu, í öðrum flokknum er unnið á grundvelli mjög vel staðsettra merkigena og í MAS3 er um það að ræða að genið sjálft, sem hefur áhrif á eiginleikann, er þekkt og mögulegt er að greina það af fyllsta öryggi. Hann taldi að þessar úrvalsaðferðir muni ekki fá mikla þýðingu í sauðfjárræktarstarfi nema MAS3. Framkvæmd samkvæmt hinum leiðunum væri of kostnaðarsöm til að skila árangri fyrir grein eins og sauðfjárrækt þar sem kynbótagripir væru ekki verðmætari en raun ber vitni. Víðtækasta notkun á merkigenum í sauðfjárrækt í heiminum í dag er án efa í ræktunaráætlunum, sem nú er unnið eftir í mörgum ESB löndum, og miða að því að rækta sauðfé með mótstöðu gegn riðu. Umfangsmiklar áætlanir á þessu sviði voru kynntar á ráðstefnunni, annars vegar fyrir Bretland (fyrirlesari forfallaðist þannig að erindið liggur aðeins fyrir sem prentað erindi en var ekki flutt á ráðstefnunni) og hins vegar Frakkland. Markmiðið í þessum ræktunaráætlunum er skýrt, það er að auka tíðni þeirra arfgerða príongensins sem eru þekktar fyrir mótstöðu gegn riðuveiki. Stefnt er að því að útrýma úr fjárstofnunum VRQ samstæðunni og um leið er lögð áhersla á að auka hlutdeild ARR/ARR arfgerðar sem mest í öllum fjárkynjum. Í tengslum við þessar áætlanir er framkvæmd ótrúlega víðtæk arfgerðagreining á fé í þessum löndum. Samkvæmt bresku upplýsingunum hefur yfir hálf milljón sauðfjár þar í landi verið arfgerðagreind í tengslum við þetta verkefni og í Frakklandi eru arfgerðagreiningar vegna þessa verkefnis á bilinu 80-90 þúsund á hverju ári. Þessum greiningum er að sjálfsögðu forgangsraðað, þannig að mest áhersla er lögð á sæðingarstöðvarhrúta og því næst hrútastofn ræktunarbúanna og þannig fikrað sig niður eftir ræktunarpíramídanum. Ljóst er að í íslenskri sauðfjárrækt er þörf á að taka þessi mál til umræðu og ef til vill að móta ræktunarstefnu með tilliti til þessa þáttar, líkt og orðið er í löndum Evrópu. Það sem fyrir okkur er talsvert umhugsunarefni er að ARR arfgerðin hefur ekki enn fundist hjá íslensku sauðfé og er það samkvæmt því við best vitum eina fjárkynið þar sem þessir þættir hafa verið rannsakaðir sem svo hagar til um. Í lok ráðstefnunnar fór fram umræða um að gera tilraun til að koma á víðtækara og meira samstarfi aðila vítt um heim sem vinna að erfðarannsóknum hjá sauðfé. Þörfin fyrir slíkt er brýn. Sauðfjárræktin virðist um allan heim eiga undir högg að sækja í sífellt harðnandi baráttu um fjármagn til rannsókna. Þörfin fyrir markvisst starf þar sem komist er hjá tvíverknaði er því ákaflega mikil. Það sem aftur á móti vinnur að vissu marki gegn slíkri þróun er að talsvert mikið af rannsóknarstarfi á þeim sviðum, sem hér hafa verið rædd, er unnið undir merkjum einkaleyfa. Það bindur margt af því fólki, sem að þessu vinnur, í sambandi við miðlun á upplýsingum, sem fram koma í rannsóknarverkefnunum, til annarra. Heimildir Proceedings of the international workshop on major genes and QTL in sheep and goat 8-11 December 2003, Toulouse (France). (Skýrsluna má nálgast hjá höfundum erindisins).