Álpappírinn. Þessi mynd er af Hljóðakettum í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarði. Fjallað er um þjóðgarðinn og Vini Vatnajökuls í blaðinu.

Size: px
Start display at page:

Download "Álpappírinn. Þessi mynd er af Hljóðakettum í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarði. Fjallað er um þjóðgarðinn og Vini Vatnajökuls í blaðinu."

Transcription

1 Álpappírinn Desember árgangur 2. tölublað Þessi mynd er af Hljóðakettum í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarði. Fjallað er um þjóðgarðinn og Vini Vatnajökuls í blaðinu. Alcoa Fjarðaál Hrauni Fjarðabyggð Sími fjardaal@alcoa.com Álpappírinn er starfsmannablað Alcoa Fjarðaáls. Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Hilmar Sigurbjörnsson (hilmar.sigurbjornsson@alcoa.com). Blaðamenn: Anna Heiða Pálsdóttir, Dagmar Ýr Stefánsdóttir og Sigrún Birna Björnsdóttir. Ljósmyndir: Hilmar Sigurbjörnsson og Jón Tryggvason.

2 2 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Alcoa og Alcoa Fjarðaál skrifuðu undir Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna Á ráðstefnunni Aukið jafnrétti aukin hagsæld sem fram fór 27. maí skrifuðu fulltrúar Alcoa Inc. og Alcoa Fjarðaáls undir Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samfélagið - Jafnréttismál Á ráðstefnunni Aukið jafnrétti aukin hagsæld sem fram fór 27. maí á vegum UN Women, Festu og Samtaka iðnaðarins, undirrituðu nokkur fyrirtæki, auk Stjórnarráðs Íslands, Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna (WEP). Meðal fyrirtækjanna voru Alcoa Inc. og dótturfyrirtæki þess, Alcoa Fjarðaál. Janne Sigurðsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls skrifaði undir fyrir hönd fyrirtækisins á Íslandi og Gena Lovett jafnréttisstjóri Alcoa (Global Chief Diversity Officer) undirritaði fyrir hönd Alcoa Inc. Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls (lengst til hægri) og Gena Lovett, jafnréttisstjóri Alcoa Inc. undirrita Jafnréttissáttmálann. Gena Lovett flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hún sagði frá þeim árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum hjá Alcoa á undanförnum árum með markvissum aðgerðum. Gena benti á að til þess að jafnrétti nái fram að ganga innan fyrirtækja þurfi að flétta jafnréttisstefnuna inn í alla starfsemina og þeir sem stjórna þurfi reglulega að gera grein fyrir þeim árangri sem þeir ná á þessu sviði. Hún segir málefnið ávallt þurfa að vera í brennidepli. Jafnréttisnefnd Fjarðaáls Tilgangur jafnréttisnefndar er að fylgja eftir og stuðla að jafnrétti hjá Fjarðaáli. Nefndin skal endurskoða jafnréttisstefnu fyrirtækisins árlega og útbúa áætlun (A3) með markmiðum og aðgerðum í jafnréttismálum, ásamt því að fylgja eftir mælingum á árangri á sviði jafnréttismála. Enn fremur tekur nefndin fyrir þau erindi sem berast hverju sinni. Í jafnréttinefnd sitja þrír karlar og þrjár konur. Formaður er María Ósk Kristmundsdóttir. Í upphafi árs var jafnréttisstefna Fjarðaáls endurskoðuð. Gerð var verklagsregla um starf jafnréttisnefndar, A3 um árleg markmið og mælikvarða, ásamt endurskoðaðri útgáfu af jafnréttisstefnunni sjáfri. Mikil vinna hefur verið lögð í skorkort jafnréttisstefnu sem verður notað næstu árin sem viðmið um árangur í jafnréttismálum. Á kvennafrídaginn, þann 24. október, voru haldnar almennar hringborðsumræður um jafnréttismál í fyrirtækinu. Jafnréttisstefna Fjarðaáls Samkvæmt íslenskum lögum þurfa fyrirtæki að setja sér jafnréttisstefnu og fylgja henni eftir. Endurskoðuð jafnréttisstefna Fjarðaáls frá árinu 2013 hefur fjögur meginmarkmið: 1. Jafnt hlutfall kynja Launajafnrétti 3. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs 4. Engin kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi Fyrsta markmiðið fjallar um að jafnt hlutfall kynja verði starfandi í fyrirtækinu árið Starfsþróun og endurmenntun innan fyrirtækisins skulu einnig fara fram óháð kyni og vera hvetjandi fyrir það kyn sem hallar á innan hvers starfshóps. Markmiðin um launajafnrétti, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og ofbeldislausan vinnustað eru forsendur fyrir því að hægt sé að ná jöfnu hlutfalli kvenna og karla á vinnustaðnum. Félag kvenna í atvinnurekstri heimsótti Fjarðaál Í maí sóttu konur úr Félagi kvenna í atvinnurekstri Austurland heim. Flestar kvennanna komu frá höfuðborgarsvæðinu auk þriggja kvenna að norðan. Hópurinn heimsótti Alcoa Fjarðaál og fékk kynningu á fyrirtækinu áður en farið var í skoðunarferð um verksmiðjuna með nokkrum konum sem starfa hjá Fjarðaáli. Gena lagði einnig áherslu á að ráðning starfsfólks með fjölbreytta hæfileika, mismunandi getu, af ólíkum uppruna og með mismunandi menntun sé ekki einungis siðferðileg skylda heldur líka gott fyrir viðskiptin. Og þar sem Alcoa er fyrirtæki í iðnaði lauk hún máli sínu með orðunum: Sometimes you need a hard hat to break the glass ceiling sem gæti útlagst á þessa leið: Stundum þarf öryggishjálm til að brjóta glerþakið. Þannig vísaði hún til þeirrar staðreyndar að konur eiga líka heima í iðnaði og geta svo sannarlega verið fyrirmyndir annarra kvenna á vinnumarkaði. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri er vinstra megin á myndinni.

3 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 3 Heimsóknin þótti vel heppnuð eins og lesa má úr orðum formanns félagsins, Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur: Heimsókn FKA á Austurland var toppuð með heimsókn í Alcoa Fjarðaál þar sem sex kvenkyns stjórnendur tóku á móti okkur og gáfu okkur innsýn í rekstur og stjórnun álversins. Toppurinn var ekki síst að fá að skoða kerskálann íklæddar öryggisklæðnaði álversins. Okkur leið eins og litlum tindátum þar sem við marseruðum á eftir álversforingjunum og fengum innsýn inn í framleiðsluferlið á einni helstu útflutningsvöru landsins. Þessi upplifun verður okkur ógleymanleg svo ekki sé minnst á öryggistilfinninguna við að finna hvernig álverinu er stjórnað af fagmennsku og ástríðu." Þórdís Lóa sagði það vera stórkostlegt að koma á Austurland og sjá gróskuna og kraftinn hjá þeim konum og fyrirtækjum sem hópurinn heimsótti: Hvert samfélag endurspeglast af því fólki sem þar býr og Austurland er afar ríkt og frjótt samfélag þar sem greinilega er mikill mannauður ásamt stórkostlegri náttúrufegurð, sagði formaðurinn áður en hópurinn hélt aftur heim á leið. Agnes Gunnarsdóttir er nú flogin á vit ævintýranna í Finnlandi. Jeff Clemmensen fylgist með konunum bakvið öryggisgler og Janne sem er nú tekin við starfi forstöðumanns upplýsingatækni Alcoa Inc. Það voru hressar konur úr atvinnulífinu sem heimsóttu álverið.

4 4 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Kvenréttindadeginum fagnað hjá Fjarðaáli Þann 19. júní árið 1915 fengu konur yfir fertugu kosningarrétt á Íslandi. Hefð hefur skapast fyrir því að fagna þessum tímamótum með kvennakaffi í álverinu. Um 160 konur víðs vegar af Austurlandi lögðu leið sína í álverið. Samfélagið - Jafnréttismál Fimmtudaginn 19. júní var því fagnað að 99 ár voru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Eins og tíðkast hefur undanfarin sjö ár var konum boðið í kaffi hjá Alcoa Fjarðaáli. Um 160 konur víðs vegar af Austurlandi lögðu leið sína í álverið á þessum tímamótum og fögnuðu áfangum saman. Í mötuneyti fyrirtækisins var boðið upp á ljúfar veitingar, ávörp starfsmanna Fjarðaáls og lifandi tónlist. Hæsta hlutfall kvenna af álverum innan Alcoa María Ósk Kristmundsdóttir verkefnastjóri hjá Fjarðaáli flutti ávarp þar sem hún gerði grein fyrir jafnréttisstefnu fyrirtækisins hér á landi og því markmiði sem unnið hefur verið að allt frá stofnun þess að hafa jöfn kynjahlutföll í starfsmannahópi fyrirtækisins. Þótt enn sé talsvert langt í land að ná þessu markmiði þá getum við státað okkur af því að vera með hæsta hlutfall kvenna í störfum í álveri innan Alcoa samsteypunnar. Þá sagði hún einnig frá þeim áfanga sem náðist þegar Gena Lovett jafnréttisstjóri Alcoa Inc. kom hingað til lands á dögunum til að undirrita Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd fyrirtækisins ásamt Janne Sigurðsson sem undirritaði fyrir hönd Fjarðaáls. Enn fremur sagði María: Í dag eru 99 ár frá því að konur fengu fyrst kosningarétt en við erum enn að berjast fyrir því að vera jafnar körlum. Samkvæmt tölum frá velferðaráðuneytinu eru heildartekjur kvenna á vinnumarkaði 66% af heildartekjum karla á vinnumarkaði, giftar konur hafa 58% af tekjum giftra karla á vinnumarkaði. Af framkvæmdastjórum stærstu fyrirtækjanna eru aðeins 12% konur, af stjórnarformönnum þessara fyrirtækja eru aðeins 8% konur (árið 2011). Af níu hæstaréttardómurum er aðeins einn þeirra kona. Þessar tölur segja mér að samfélaginu okkar er stýrt að stórum hluta af karlmönnum. Það er ekki bara slæmt fyrir okkur konur, það er slæmt fyrir samfélagið, því samfélag þar sem raddir allra fá að heyrast jafnt er betra samfélag. Inn á milli erinda flutti söngkvartettinn Systradætur frá Reyðarfirði lög sem tengdust á einhvern hátt konum. María Ósk Kristmundsdóttir ávarpar gesti. María er formaður jafnréttisnefndar Fjarðaáls og hlaut í sumar hvatningarverðlaun Tengslanets austfirskra kvenna fyrir að hafa unnið ötullega að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.

5 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 5 Samfélagið - Jafnréttismál Ingibjörg Gróa Magnúsdóttir lauk í vor meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík. Konur þurfa að vera óhræddari að láta til sín taka Ingibjörg Gróa Magnúsdóttir framleiðslustarfsmaður í kerskála Fjarðaáls flutti einnig erindi. Ingibjörg sagði frá því þegar hún hóf störf hjá fyrirtækinu hvað starfið var frábrugðið því sem hún hafði gert sér í hugarlund. Hún er búin að starfa hjá fyrirtækinu í rúm fimm ár og segir það ljóst miðað við sína reynslu að þessi störf henti jafnt konum sem körlum. Konur þurfi bara að vera óhræddari við að láta til sín taka þar sem dæmin hér sýna að þær eru alveg jafnhæfar til að stjórna stórum tækjum og taka að sér flókin verkefni í framleiðslunni. Konur og karlar búi oft yfir ólíkum hæfileikum og geti lært margt hvert af öðru og þannig gert vinnustaðinn öflugri og betri. Ingibjörg sagðist enn fremur vera langþreytt á því að mæta fordómum frá fólki í samfélaginu gagnvart því að hún sé kona í starfi sem sumir líta á sem karlastarf. Hún sagði: Það eina sem ég lendi stundum í að geta ekki gert í mínu starfi er ef lyfta þarf mjög þungum hlutum og það er sjaldan. Þá einfaldlega bið ég um hjálp! Svo er annað sem ég er betri í og get þá veitt öðrum aðstoð. Að dagskrá í matsalnum lokinni var boðið upp á stutta útsýnisferð um álverssvæðið þar sem Janne Sigurðsson forstjóri Fjarðaáls og Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðsmála sögðu frá vinnustaðnum.

6 6 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Fjölbreyttir styrkir í vorúthlutun Alcoa Vorúthlutun styrkja úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Samfélagssjóði Alcoa fór fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þann 14. maí. Að venju voru veittir styrkir af fjölbreyttum toga, á sviði íþrótta- og menningarmála og einnig mennta- og ferðamála. Samfélagið - Samfélagsstyrkir Styrkþegar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði 14. maí. Vorúthlutun styrkja úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls og Samfélagssjóði Alcoa fór fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þann 14. maí. Veittir voru 29 styrkir að upphæð 21 milljón króna. Björgunarsveit fékk styrk til kaupa á björgunarkerru Hæsta styrkinn frá Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls hlaut Björgunarsveitin Hérað, eina milljón króna, vegna kaupa á sérstakri búnaðarkerru til nota við hópslysabjörgun. Í kerrunni eru meðal annars sjúkrabörur, teppi, spelkur og annar nauðsynlegur sjúkrabúnaður. Með styrknum vill Fjarðaál auka getu björgunarsveitanna á svæðinu til að takast á við umfangsmiklar björgunaraðgerðir. Fullbúin kostaði björgunarkerran um sex milljónir króna að sögn Steinunnar Ingimarsdóttur gjaldkera Björgunarsveitarinnar Héraðs og starfsmanns Fjarðaáls. Styrkir fengust einnig frá Dekkjahöllinni, Landsvirkjun, Eimskipum, Donna og Brunavörnum á Héraði. Kjartan Benediktsson tók við styrk fyrir hönd Björgunarsveitarinnar Héraðs til kaupa á björgunarkerru.

7 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 7 Á vegum Alcoa Foundation voru veittir tveir styrkir, annars vegar til Veraldarvina og hins vegar í nýtt verkefni Alcoa hér á landi sem nefnist Synir og dætur (Sons & Daughters) og er sá styrkur ætlaður börnum starfsmanna Alcoa sem eru á leið í háskólanám. Marteinn Gauti Kárason hlaut styrk til háskólanáms, samtals dollara eða tæpa hálfa milljón króna. Marteinn lauk námi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor og hóf nám í viðskiptafræði í haust. Hann er sonur Kára Jónassonar í kerskálateymi Fjarðaáls. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, Þórarinn Ívarsson, framkvæmdastjóri Veraldarvina, Marteinn Gauti Kárason og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi. Veraldarvinir fengu 2,8 milljóna króna styrk Veraldarvinir hlutu 25 þúsund dollara styrk, um 2,8 milljónir króna, vegna starfsemi samtakanna á Austurlandi. Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og vinna að margvíslegum samfélagsverkefnum allt árið um allt land. Árið 2014 gerðu samtökin ráð fyrir að taka á móti erlendum sjálfboðaliðum til að starfa við 130 tveggja vikna verkefni, þar af um 650 manns vegna verkefna í Fjarðabyggð. Á undanförnum tólf árum hafa samtökin skipulagt 810 verkefni vítt og breytt um Ísland sem rúmlega níu þúsund erlendir sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í ásamt heimamönnum. Alls hafa sjálfboðaliðarnir skilað yfir einni milljón vinnustunda til samfélagsins, meðal annars í formi hreinsunar meðfram strandlengju Íslands, þar sem hreinsaðir hafa verið kílómetrar af kílómetra langri strönd landsins. Auk þessa hafa verið gróðursett þúsundir trjáplantna og lagðir tugir kílómetra af göngustígum svo nokkuð sé nefnt. Á veturna sinna samtökin fræðslutengdum verkefnum í skólum Fjarðabyggðar. Í fyrra gaf Fjarðabyggð Veraldarvinum gamla barnaskólann á Eskifirði. sem nú er notaður sem miðstöð samtakanna á Austurlandi. Veraldarvinir hyggjast gera skólann upp á næstu árum og koma honum í sem næst upprunalegt horf. Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslu Fjarðaáls, er sonardóttir Vilhjálms Hjálmarssonar. Hún fylgdi afa sínum á styrkveitinguna en snýr baki í okkur á myndinni. Í minningu Vilhjálms Hjálmarssonar frá Brekku Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, lést 14. júlí síðastliðinn, 99 ára að aldri. Hann var aldursforsetinn í hópi styrkþega tveimur mánuðum áður. Vilhjálmur hlaut styrk til útgáfu bókarinnar Örnefni í Mjóafirði, sem hann byrjaði á fyrir 70 árum, árið Bókinn kom út daginn sem hann hefði orðið 100 ára gamall, 20. september síðastliðinn. Vilhjálmur Hjálmarsson var jafnan kenndur við bæinn Brekku í Mjóafirði þar sem hann fæddist og var bóndi í þrjátíu ár ásamt því að kenna við barnaskólann. Hann sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn í samtals tvo áratugi og var menntamálaráðherra frá 1974 til Vilhjálmur var einnig þekktur fyrir ritstörf. Alls komu út 24 bækur eftir hann. Nesorkuboltarnir Hjálmar Jóhannesson og Stefán Már Guðmundsson voru kampakátir þegar þeir tóku við styrk til að kaupa varmadælu til kennslu í Verkmenntaskóla Austurlands. Varmadælan var formlega afhent skólanum á Tæknidegi fjölskyldunnar. Ingvar Ísfeld Kristinsson, viðhaldssérfræðingur hjá Fjarðaáli, tók á móti styrk fyrir hönd þeirra sem standa að rokkhátíðinni Eistnaflugi.

8 mmmmmmm mmmmmm 8 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Björgunarsveitir á Austurlandi Björgunarsveitir á Austurlandi minntust ótrúlegra björgunarafreka í Vöðlavík fyrir 20 árum. Að undanförnu hafa björgunarsveitirnar haft í mörgu að snúast og veitir ekki af stuðningi. Tugir starfsmanna álversins eru í björgunarsveitum og sinna björgunarstörfum í sjálfboðavinnu. Samfélagið - Björgunarsveitir Björgunarafreka í Vöðlavík minnst Minnisvarði og heimildarmynd Þann 30. maí var afhjúpaður minnsvarði um björgunarafrekin í Vöðlavík fyrir 20 árum. Björgunarsveitir á Austurlandi héldu fylktu liði til Vöðlavíkur 30. maí, þar sem minnst var björgunarafreka fyrir 20 árum. Atburðarásin hófst 18. desember 1993 þegar Bergvík VE505 strandaði í Vöðlavík. Áhöfninni var bjargað í land með fluglínutækjum, en 10. janúar 1994 fórst björgunarskipið Goðinn þegar reynt var að ná Bergvíkinni af strandstað. Einn úr áhöfn Goðans lést en sex var bjargað af þyrlusveit varnarliðsins og björgunarsveitum á Austurlandi við afar erfiðar aðstæður. Flugmaður annarrar varnarliðssþyrlunnar, Gary Copsey, afhjúpaði minnisvarðann í Vöðlavík. Hann lýsti þar flugferðinni sem þykir eitt mesta björgunarafrek þyrlusveita hersins á friðartímum. Goðinn hafði fengið á sig brotsjó og lá í briminu um 150 metra frá landi í átta til níu metra ölduhæð. Ekki var hægt að bjarga skipverjum á Goðanum af sjó eða landi og þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að snúa við vegna ísingar. Skipverjar héldu sér í reykháf Goðans og voru orðnir úrkula vonar um björgun þegar þyrlurnar birtust í sortanum. Í kjölfar þyrlubjörgunarinnar í Vöðlavík ákvað ríkisstjórn Íslands að kaupa stórar og öflugar björgunarþyrlur. TF-SÝN var í Vöðlavík og tók þátt í björgunaræfingu 30. maí. Eiður Ragnarsson er í stjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hann ávarpaði gesti í Vöðlavík, sem voru á annað hundrað. Bræðurnir Sævar, Jón Trausti, Stefán og Gísli Guðjónsssynir voru allir við björgunarstörf í Vöðlavík þegar Goðinn fórst. Sævar sagði það hafa verið erfitt að horfa bjargarlaus úr landi á skipverjana berjast fyrir lífi sínu, en að sama skapi ánægjulegt að sjá varnarliðsþyrlurnar birtast. Heimildarmyndin Háski í Vöðlavík" var frumsýnd á Eskifirði og í Neskaupstað 30. nóvember. Myndin lýsir mjög vel atburðarásinni fyrir 20 árum. Framleiðandinn, Þórarinn Hávarðsson, var myndatöku- og fréttamaður RÚV á Austurlandi þegar atburðirnir áttu sér stað. Myndin er fáanleg á diski og verður jafnframt sýnd í sjónvarpi.

9 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 9 Hér eru nokkrir þeirra björgunarsveitarmanna sem starfa í álverinu. Ingólfur Þórhallsson, lengst til hæri, var í áhöfn Bergvíkur þegar hún strandaði. Ingvar Stefán Árnason og Sigurður Sveinsson eru í Björgunarsveitinni Gerpi og komu sjóleiðina frá Neskaupstað. Sá síðarnefndi tók myndina hér fyrir neðan. Við vorum minnt á mikilvægi björgunarsveitanna þegar flutningaskipið Akrafell strandaði við Vattarnes í Reyðarfirði 6. september. Örfáum metrum munaði að skipið sigldi á skerið vinstra megin á myndinni. Björgunarsveitarmenn notuðu tækifærið og æfðu þyrlubjörgun með Landhelgisgæslunni áður en athöfnin í Vöðlavík hófst. Aftur reyndi á björgunarsveitirnar þegar flutningaskipið Green Freezer strandaði við Eyri í Fáskrúðsfirði 17. september. Mannbjörg varð í bæði skiptin og skipin náðust fljótlega á flot, en Akrafellið skemmdist mikið og liggur enn við bryggju á Reyðarfirði.

10 10 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Samfélagið - Samfélagsstyrkir Samfélagssjóður Alcoa veitir styrk til uppgræðslu á Norður-Héraði Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) veitti í sumar Landbótasjóði Norður-Héraðs styrk til að halda áfram uppgræðslu. Landbótasjóðurinn var stofnaður fyrir framlag frá Landsvirkjun árið 2003 í því skyni að græða upp land til mótvægis við það gróðurlendi sem tapaðist undir Hálslón. Einnig á sjóðurinn að standa að uppgræðslu á áreyrum Jökulsár á Dal en með minnkun vatnsmagns eykst hætta á uppfoki á áreyrum. Hér hefur tekist að snúa vörn í sókn og loka rofabarði. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, afhendir Sigvalda H. Ragnarssyni, formanni Landbótsjóðs Norður-Héraðs, styrk að upphæð 8,8 milljónir króna. Styrkurinn var afhentur formlega við Sænautasel 14. ágúst í ferð sem Landbótasjóðurinn boðaði til svo hægt væri að skoða árangur af uppgræðslu síðustu ára. Fyrst voru áreyrar Jökulsár á Dal skoðaðar í Tungu og Hlíð og síðan var ekið um Jökuldalsheiðina alveg inn að Kárahnjúkum. Þrír fulltrúar Alcoa tóku þátt í ferðinni, þau Magnús Þór Ásmundsson, Dagmar Ýr Stefánsdóttir og Hilmar Sigurbjörnsson. Fjölmiðlar voru einnig með í ferðinni og voru henni gerð góð skil í fréttum RÚV og í Glettum á N4. Þarna er einfaldlega ekki í boði að vaxa beint upp í loftið, en víðirinn lagar sig að erfiðum aðstæðum og bindur jarðveg á melum. Áburðargjöf hægra megin við veginn hefur greinileg áhrif. Vel hefur gefist að bera áburð á mela til að örva þann gróður sem er þar fyrir. Markmiðið er að gera melana að sjálfbæru gróðursvæði. Eftir bankahrunið hækkaði áburður mikið í verði og því hefur sjóðurinn ekki getað keypt eins mikinn áburð og áður til uppgræðslunnar. Með framlagi Alcoa Foundatin, sem nemur USD eða um 8,8 milljónum króna, verður hægt að auka áburðargjöfina og efla þannig verkefnið. Blóðbergið á Jökuldalsheiðinni nýtur líka góðs af áburðargjöf. Blóðberg er vinsæl kryddjurt og á að hafa mikinn lækningarmátt, sérstaklega ef það þrífst við erfið skilyrði.

11 ALCOA - Framar með hverri kynslóð í 125 ár 11 Samfélagið - Samfélagsstyrkir Svartir sandar lifna við. Hér sést árangur af uppgræðslu á áreyrum Jökulsár á Dal. Gróðurinn hefur þó átt undir högg að sækja í miklum leysingum. Gísli Sigurgeirsson þáttagerðarmaður á N4 ræðir við Stefán Ólafsson bónda í Merki í Jökuldal, um borð í kláfi sem notaður var sem samgöngutæki á veturna allt til ársins 1975 þegar brú var gerð yfir Jöklu. Stefán sagði ekkert að óttast því kláfurinn hefði flutt þyngri farma, þar á meðal áburðarpoka og naut. Kláfurinn var gerður upp árið 1996 og er í toppstandi. Stefán Bogi Sveinson, Magnús Þór Ásmundsson og Dagmar Ýr Stefánsdóttir á leið yfir Jöklu í kláfinum góða. Það er ekkert undarlegt þótt Dagmar virðist öllu vön og njóti ferðarinnar, því hún er dóttir Stefáns Ólafssonar og alin upp í Merki. Stefán Bogi og Magnús brosa líka og bera sig vel en Magnúsi finnst þó vissara að ríghalda sér í tréverkið.

12 12 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Alcoa styrkir Vini Vatnajökuls Samfélagið - Samfélagsstyrkir Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní árið Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Þjóðgarðurinn spannar ferkílómetra eða tæp 14% af flatarmáli Íslands og er á meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu. Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hafa skapað. Vinir Vatnajökuls eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs. Undanfarin fimm ár hafa samtökin veitt nærri 250 milljónum króna í fjölmörg fræðsluverkefni og styrki. Alcoa er aðalbakhjarl Vina Vatnajökuls og hefur lagt samtökunum til rúmar 400 milljónir króna. Vinir Vatnajökuls eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs. Samtökin voru stofnuð þann 21. júní Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja á þjóðgarðssvæðinu, rannsóknir, kynningu og fræðslu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu þjóðgarðsins. Undanfarin fimm ár hafa samtökin veitt nærri 250 milljónum króna í fjölmörg fræðsluverkefni og styrki. Alcoa Fjarðaál er aðalbakhjarl Vina Vatnajökuls. Frá árinu 2008 hefur Alcoa greitt samtökunum rúmar 400 milljónir króna í styrki. Snæfellsstofa á Skriðuklaustri er gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Snæfellsstofa opnaði sumarið 2010 og er fyrsta vistvænt vottaða bygging landsins samkvæmt breska umhverfisstaðlinum BREEAM. Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð Vinir Vatnajökuls stóðu að útgáfu bókar sem heitir Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð og er eftir Hjörleif Guttormsson. Fjarðaál gaf öllum starfsmönnum þessa stórfróðlegu og vönduðu bók í lok sumars. Betri handbók er vart hægt að hugsa sér á ferðalagi Svartifoss er í gamla þjóðgarðinum í Skaftafelli sem rann inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Svartifoss er 20 metra hár og vatnslítill og sem slíkur ekki mjög merkilegur, en hann er heimsfrægur fyrir stuðlabergið í klettinum. Skaftafell er gríðarlega vinsæll áningarstaður ferðamanna.

13 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 13 Samfélagið - Samfélagsstyrkir um svæðið. Í Leiðsögn um Vatnajökulsþjóðgarð er að finna mjög góða lýsingu á jarðfræði svæðisins. Bókin kom út árið 2011 og í ljósi eldgossins í Holuhrauni er áhugavert að lesa það sem Hjörleifur hafði að segja um Bárðarbungu: Eldstöðvakerfi þessarar miklu megineldstöðvar er það stærsta hérlendis, nær um 150 kílómetra í suðvestur til Veiðivatna og Torfajökuls og í norðaustur um Trölla-dyngju til Dyngjufjalla ytri. Eru rakin til þess fjölmörg eldgos en engin þó með vissu innan sjálfrar öskjunnar. Jarðskjálftamælingar í aðdraganda gossins í Gjálp 1996 bentu eindregið til kvikuhlaups suðaustur frá Bárðarbungu og leitaði kvikan útrásar miðja vegu á leið til Grímavatna. Frá Bárðarbungukerfinu getur hvenær sem er verið tíðinda að vænta." Eldgosið í Gjálp 1996 olli miklu hamfarahlaupi í Skeiðará. Vinir Vatnajökuls starfrækja verslun. Allur ágóði af af seldri vöru rennur til styrktar málefnum er varða fræðslu, kynningu og rannsóknir í Vatnajökulsþjóðgarði og nágrenni hans. Námsferðir Þjóðgarðsvarða til Bandaríkjanna Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) hefur einnig komið að starfsemi Vina Vatnajökuls. Haustið 2012 og vorið 2013 fóru tveir hópar starfsmanna og samstarfsaðila þjóðgarða á Íslandi í námsferð til Bandaríkjanna. Sjö manna hópur fór í fyrri ferðina en átta manns í þá seinni. Ferðirnar voru fjármagnaðar með styrk sem Alcoa Foundation veitti the American-Scandinavian Foundation (ASF) og Friends of the Great Smoky Mountains National Park. Jökulsárgljúfur falla undir Vatnajökulsþjóðgarð. Þar er að finna þessa steinrunnu kynjaveru. Í Hljóðaklettum eru líka margar kynjaverur. Fallastakkanöf í Borgarhafnarfjalli er 90 metra hár, þverhnýptur stuðlabergsklettur sem hefur dregið til sín reynda klettaklifrara víða að. Doug Scott og Snævarr Guðmundsson urðu fyrstir til að klífa Fallastakkanöf Kletturinn er fyrir sunnan Skálafellsjökul og sést frá þjóðveginum.

14 14 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Flugmaðurinn í innkaupateyminu Sveinbjörn Egilsson í innkaupateymi Fjarðaáls á sér áhugamál sem gerir hann bæði háfleygan og víðsýnan. Sveinbjörn á hlut í fjögurra sæta flugvél á Egilsstöðum. Eftir vinnu fer hann á flug, tekur myndir og tæmir hugann. Mannauður - Sveinbjörn Egilsson Tækifærið hjá Fjarðaáli kom á besta tíma Upp úr aldamótum var útlitið hérna á svæðinu orðið mjög dökkt og maður íhugaði að flytja til Reykjavíkur en fasteignamarkaðurinn var stór farartálmi. Árið 2004 fór ég að vinna fyrir kanadískt sjávarútvegsfyrirtæki og var kominn með annan fótinn til Kanada og eiginlega aldrei heima. Tækifærið hérna hjá Fjarðaáli kom því á besta tíma fyrir mig og fjölskylduna. Ég hóf störf í fjármálateyminu í nóvember Í byrjun árs 2012 tók ég að mér skipulag flutninga fyrir Fjarðaál ásamt Hörpu Vilbergsdóttur og sú starfsemi færðist svo yfir í innkaupateymið." Þess má geta að Sveinbjörn er bróðir Eddu Egilsdóttur í fjármálateyminu. Sumt kemst maður ekki nema fljúgandi. Hér leggur Sveinbjörn upp í flug yfir eldgosið í Holuhrauni með Kristin Harðarson sér við hlið. Atvinnuflugmannspróf en ekkert flugfélag lengur Sveinbjörn er Austfirðingur í húð og hár. Ég bjó á Fáskrúðsfirði fram að fermingu en fluttist þá til Egilsstaða. Áhugi á flugi kviknaði fyrir alvöru á flugdegi á Egilsstöðum árið Þá fór ég í prufutúr og eftir það varð ekki aftur snúið. Að loknu stúdentsprófi, fór ég að vinna í Landsbankanum og tók sólópróf og svo einkaflugmannspróf í rólegheitum og eignaðist hlut í TF-KLO árið Undir aldamótin dreif ég mig suður og lærði til atvinnuflugmanns á Reykjavíkurflugvelli. Ég er afskaplega heimakær og maður var líka kominn með fjölskyldu hérna fyrir austan. Konan mín, Nína Erlendsdóttir, er frá Breiðdalsvík. Planið var að fara að vinna hjá Flugfélagi Austurlands sem var með tvær átta sæta vélar í rekstri, frekar en að flytja af svæðinu til að sækja í flugið. Félagið hafði lengi flogið áætlunarflug með póst og farþega á nánast hvert einasta krummaskuð á svæðinu. Um helmingur af starfseminni var sjúkraflug og auk þess var líka eitthvað um leiguflug, einkum með áhafnir á skipum. En landslagið var að að breytast og um það leyti sem ég fékk atvinnuflugmannsréttindin var flugrekstur frá Austur-landi að lognast út af. Því varð lítið úr atvinnuflugmannsferlinum og ég ílentist í bankageiranum og lærði viðskiptafræði í Háskóla-num á Akureyri upp úr þvi. En það kom aldrei annað til greina en að viðhalda einkaflugmannsréttindunum og halda áfram að fljúga." Hér sameinast vinna og áhugamál Sveinbjörns í loftmynd af löndun upp úr súrálsskipinu Golden Opportunity í Mjóeyrarhöfn. Blikur á lofti í svona flugrekstri Við erum tíu sem eigum hlut í TF-KLO. Þetta er öndvegisvél, en það eru blikur á lofti í svona flugrekstri. Við höfum séð kostnaðinn fara beint upp vegna evrópskra reglugerða. Í fyrra fengum við fyrir alvöru að finna til tevatnsins. Ársskoðunin kostaði vel yfir hálfa milljón og það var ekki vegna þess að að þyrfti að rífa vélina í sundur og setja saman aftur, þó svo að ákveðnir hlutir séu skoðaðir, heldur liggur kostnaðurinn fyrst og fremst í pappírsvinnu og þóknunum fyrir allt mögulegt. Inni í tölunni var ekki einn einasti varahlutur. Ofan á það bætast 50 tíma og 100 tíma skoðanir og varahlutir. Ljósi punkturinn er sá að eldsneytisverðið hefur lækkað." Landið lítur öðru vísi út úr lofti. Þess mynd af Skrúði er allt önnur en sú sem við sjáum úr landi. Þegar flogið er að Skrúði þarf að vara sig á súlum yfir flugvélinni. Ef súlur verða varar við flugvél eiga þær til að dýfa sér og geta þá valdið miklum skaða ef þær lenda á flugvélinni." Sveinbjörn fyllir TF-KLO af bensíni eftir flugferð. Eldsneytisverð hefur lækkað og það hjálpar í flugrekstrinum.

15 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 15 Þessa (kvik)mynd tók Sveinbjörn á GoPro-vél sem hann festi á vænginn fyrir áhættuatriðið" í Bondmyndinni á síðustu árshátíð Fjarðaáls. Sveinbjörn er þarna í hlutverki James Bond að fljúga í gegnum dyrnar á Dyrfjöllum á leið í álverið. Það er alltaf jafngaman að fljúga. Ég flýg bara þangað sem hugurinn ber mig hverju sinni. Eftirminnilegasta flugið var til Grímseyjar. Vestfirðir eru eina landsvæðið sem ég á eftir að skoða að einhverju gagni. Það er gaman að geta boðið fólki í útsýnisflug, en það er líka ekkert að því að fljúga einn. Fátt jafnast á við að fljúga yfir snævi þakið landið í myrkri og tunglsljósi. Þá tæmist hugurinn og geymarnir hlaðast." Þessi mynd af eldgosinu í Holuhrauni var tekin 19. nóvember á fallegum sólardegi. Þetta er hrikalegt sjónarspil. Breytingin á landinu er ótrúleg og hraunið er orðið gríðarlegt flæmi. Það sést vel á myndinni hvernig gígbarmarnir hafa hlaðist utan um ólgandi hraunelfina sem rennur fram og breiðir úr sér í Nornahrauni. Jafnvel blámóðan hefur líka sitt aðdráttarafl þar sem hún stígur upp úr gígnum."

16 16 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Haustúthlutun samfélagsstyrkja Í árlegri haustúthlutun Styrktarsjóðs Alcoa Fjarðaáls hlutu alls 26 samfélagsverkefni á Austurlandi samtals átta milljóna króna stuðning. Þá fengu allar stúlkur í tíunda bekk grunnskóla á Austurlandi bókargjöf. Um leið voru afhentir styrkir úr Spretti. Samfélagið - Samfélagsstyrkir Við úthlutun úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls í haust komu saman flestir þeirra sem hlutu framlag úr sjóðnum ásamt Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, og Dagmar Ýri Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Úthlutunin fór fram í Safnahúsinu í Neskaupstað og myndir Tryggva Ólafssonar sköpuðu athöfninni skemmtilega umgjörð. Í árlegri haustúthlutun Styrktarsjóðs Alcoa Fjarðaáls hlutu alls 26 samfélagsverkefni víða á Austurlandi samtals átta milljóna króna stuðning. Hæsta styrkinn að þessu sinni, eina milljón króna, hlaut Verkmenntaskóli Austurlands, til þess að taka í notkun stafræna Fab Lab smiðju. Auk þess ákvað framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls að veita sérstaka gjöf til allra stúlkna í tíunda bekk í grunnskólunum á Austurlandi. Soffía Björgúlfsdóttir skemmti gestum með söng. Jón Hilmar Kárason lék undir á gítar sem Guðmundur Höskuldsson, starfsmaður Fjarðaáls, smíðaði og sagt er frá annars staðar í blaðinu. Elvar Jónsson skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands tók á móti styrk til uppbyggingar Fab Lab smiðju fyrir nemendur skólans og aðra í samfélaginu. Fab Lab smiðjan hefur það hlutverk að gefa fólki tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Framlagið úr Styrktarsjóði Alcoa Fjarðaáls rennur til uppbyggingar smiðjunnar sem var formlega vígð laugardaginn 8. nóvember á Tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskólanum.

17 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 17 Framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaál ákvað að gefa öllum stúlkum í tíunda bekk grunnskólanna Austurlandi bókina Tækifærin sem fjallar um fimmtíu konur sem fást við spennandi störf um allan heim og eiga það sameiginlegt að hafa lokið námi á sviði tækni- og raunvísinda. Fyrir hönd stúlknanna mættu þessar stúlkur frá Nesskóla í Neskaupstað til að taka við bókargjöfinni. Styrkir úr Spretti - Afrekssjóði UÍA og Alcoa Fjarðaáls Við athöfnina í Safnahúsinu voru einnig afhentir styrkir úr Spretti - Afrekssjóði Ungmenna- og íþróttasambands AUSTURLANDS og Alcoa Fjarðaáls. Sjóðurinn var stofnaður árið Árlega leggur Alcoa Fjarðaál til 2,5 milljónir króna í sjóðinn en UÍA sér um skipulag og utanumhald. Aðilar skipa sameiginlega úthlutunarnefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar úr sjónum. Afhending styrkja FER fram tvisvar á ári að vori og hausti. Nú í haustúthlutun voru veittir 19 styrkir úr sjóðnum samtals að upphæð 1,4 milljónir króna. Vettir voru fimm afreksstyrkir til ungra og efnilegra íþróttamanna að upphæð krónur hver. Níu fengu iðkendastyrk að hámarki krónur. Þá voru veittir fimm þjálfarastyrkir. Guðmundur Bjarnason og Dagmar Ýr Stefánsdóttir stýrðu athöfninni. Á myndinni eru styrkhafar úr Spretti eða fulltrúar þeirra ásamt Hildi Bergsdóttur framkvæmdastjóra UÍA og Guðrúnu Sólveigu Sigurðardóttur stjórnarmanni í UÍA.

18 18 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Fab Lab Austurand opnuð á tæknidegi fjölskyldunnar Stafræn smiðja, Fab Lab Austurland, var opnuð formlega á Tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands 8. nóvember. Samfélagssjóður Alcoa Fjarðaáls styrkti verkefnið. Samfélagið - Fab Lab Austurland Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að skapa nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og gera hugmyndir sínar að veruleika með því að hanna, móta og framleiða hluti með stafrænni tækni. Stærsta og dýrasta tækið í Fab Lab er þessi stafræni ShopBot fræsari. Jóna Árný Þóðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Elvar Jónsson skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands opna Fab Lab Austurland. Eysteinn Kristinsson tók myndirnar frá Tæknidegi fjölskyldunnar Ultimaker 2 prentar út hluti í þrívídd. Stóllinn á myndinni var smíðaður í ShopBot fræsaranum. Aðeins hugmyndaflugið takmarkar það sem prentarinn getur gert. Smærri útgáfa af ShopBot var notuð til að fræsa þennan rafmagnsgítar. Guðmundur Höskuldsson, sem rætt er við annars staðar í blaðinu, er einn þeirra sem hyggjast nýta sér Fab Lab Austurland. Guðmundur kynnti gítarsmíði sína á Tæknidegi fjölskyldunnar.

19 ALCOA - Framar með hverri kynslóð í 125 ár 19 Hægt er að segja að í Fab Lab smiðjunni séu tæki og búnaður til að búa til næstum hvað sem er, þrívíddarprentari, stór fræsari, fínfræsari, vínylskeri og laserskeri. Allur búnaður er valinn með einfaldleika að leiðarljósi. Stýribúnaðurinn gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir. Lilja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Fab Lab á Austurlandi, segir það lykilatriði að smiðjan sé opin almenningi. Boðið verður upp á námskeið í Fab Lab fyrir einstaklinga úr atvinnulífinu auk áfanga í nýsköpun við Verkmenntaskólann í tengslum við Fab Lab smiðjuna. Unga kynslóðin fjölmennti á Tæknidaga fjölskyldunnar og sýndi mikinn áhuga. Samkvæmt gestabókinni voru gestirnir 524. Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfrækir Fab Lab smiðjur í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Sauðárkróki, Ísafirði og Neskaupstað. Fab Lab Austurland er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands. Alls kostar verkefnið um 20 milljónir króna og fjármagnar VA það auk styrkja frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð, Síldarvinnslunni, SÚN og Fjarðaáli. Samfélagssjóður Alcoa Fjarðaáls lagði fram eina milljón króna. Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar sagði í ræðu sinni við opnunina að Fab Lab Austurland væri dæmi um að Nýsköpunarmiðstöð Íslands væri að vinna að því að gera þessar stafrænu smiðjur sjálfbærari. Þær væru dæmi um samlegð ríkis og fyrirtækja. Þorsteinn nefndi í því sambandi að án framlags fyrirtækja á Austfjörðum hefði opnun Fab Lab þar aldrei orðið að veruleika. Hann beindi þökkum sínum til Síldarvinnslunnar, SÚN hópsins og Alcoa. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra minnti í sinni ræðu á þá staðreynd að hið mikilvæga framlag fyrirtækjanna væru ekki styrkir" heldur miklu fremur fjárfesting" í framtíðinni. Samfélagssjóður Alcoa Fjarðaáls styrkti annað verkefni sem kynnt var á Tæknidegi fjölskyldunnar. Nesorkuboltar fengu styrk til að kaupa varmadælu til kennslu í rafiðnadeild Verkmenntaskóla Austurlands. Varmadælan, sem er að stærstum hluta úr áli, framleiðir heitt vatn til húshitunar úr umhverfishita, á fullkomlega umhverfisvænan hátt. Á myndinni hér fyrir ofan eru Nesorkuboltar að fræða Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um raforkuna sem varmadælur geta sparað. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsmemi sína á Tæknidögum fjölskyldunnar, þeirra á meðal Alcoa Fjarðaál. Jeff Clemmensen er hér að sýna hitamyndavél sem ástandsskoðunarteymi Fjarðaáls notar til að greina ástand búnaðar í álverinu. Vilhelm Anton Jónsson, öðru nafni Vísinda-Villi, mætti á Tæknidag fjölskyldunnar og var með sýnikennslu í vísindum. Með þessu tæki mælir umhverfisvöktunarteymi Fjarðaáls loftmengun.

20 20 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Gítarsmiðurinn í steypuskálanum Guðmundur Höskuldsson, umsjónarmaður ofnasvæðis steypuskálans, tók sér hálfs árs leyfi frá störfum til að læra gítarsmíði í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist með hæstu einkunn og er nú að koma sér upp gítarverkstæði. Næsti gítar hans verður úr íslensku birki, ösp og áli. Mannauður - Guðmundur Höskuldsson Guðmundur Höskuldsson á skólabekk í Galloup Guitars í Big Rapids. Þarna er hann að smíða archtop" gítar úr hlyn. Framhliðin og bakhliðin eru tálgaðar út til þess að þær verði kúptar. Öryggismarkmiðin skiptu líka máli Hvernig kom hugmyndin að námi í gítarsmíði til? Ég hef spilað á gítar í meira en 40 ár og hef í gegnum tíðina verið að reyna að sinna mínum eigin hljóðfærum. Mig hafði alltaf langað að vita meira um það sem ég var að gera. Svo höfðum við hjónin haft áhuga á að nýta sumarleyfi til að sækja námskeið í útlöndum. Sigrúnu langaði að læra skartgripagerð og mig eitthvað í sambandi við gítarsmíði. En það reyndist erfitt að finna stað sem hafði upp á hvort tveggja að bjóða, þannig að maður fór að víkka út leitina. Ég minntist þess hafði séð auglýsingar í gítartímaritum frá Galloup School í Big Rapids í Michigan í Bandaríkjunum. Allar umsagnir sem ég fann á netinu voru á þann veg að þetta væri langbesti skólinn. Fyrir starfsmann Alcoa Fjarðaáls skiptu öryggismarkmiðin líka máli. Hjá Galloup vinnur til dæmis enginn inni í vélasal öðru vísi en að vera með heyrnarhlífar. Nemendur verða alltaf að vera með öryggisgleraugu og fá aldrei að nota fræsara eða bandsög án eftirlits. Ég sótti um skólavist í apríl 2013 og komst inn í mars á þessu ári. Smári Kristinsson sá til þess að ég fékk hálfs árs launalaust leyfi frá störfum. Ég hafði bara ekki hugmyndaflug til að sækja um launað námsleyfi." Gítarverkstæði varð að viðurkenndum skóla Eigandinn og skólastjórinn Bryan Galloup lærði gítarsmíði hjá Dan Erlewine. Báðir eru þeir mjög hátt skrifaðir í faginu og hafa smíðað gítara fyrir heimsfræga gítarleikara. Galloup Guitars er verkstæði þar sem gert er við gömul hljóðfæri og ný hljóðfæri sérsmíðuð eftir pöntunum frá atvinnuhljóðfæraleikurum. Bryan Galloup byrjaði á að taka einn nema til sín í gítarsmíði en eftirspurnin varð svo mikil að þetta þróaðist út í að verða skóli með staðlað nám fyrir atvinnumenn í gítarviðgerðum og gítarsmíði. Námið skiptist í tvo hluta. Fyrstu tveir mánuðurnir fara í það sem kallað er Journeyman og snúast fyrst og fremst um viðgerðir. Svo er hægt að halda áfram í fjögurra mánaða Master Program sem er þeirra mesta nám og maður fær skírteini upp á það. Þá er komið meira út í nýsmíði og maður hefur dálítið val um hvað maður smíðar. Ég valdi að smíða akústísk hljóðfæri frekar en rafmögnuð. Það er í raun enginn galdur á bak við það að handsmíða hljóðfæri sem hljóma vel, heldur miklu frekar heilmikil vísindi." Námið gerði miklu meira en að standa undir væntingum Markmið skólans er að lyfta faginu upp á hærra plan og nefna má að á hverju ári er haldin þar vikulöng námstefna (seminar) þar sem virtustu gítarsmiðir Bandaríkjanna koma saman og halda fyrirlestra og námskeið. Kröfurnar til nemenda eru líka mjög miklar. Maður situr á skólabekknum frá morgni til kvölds og lærir gríðarlega mikið á stuttum tíma. Þetta er nám bæði í smíðinni sjálfri og síðan eru fyrirlestar, til dæmis um rafkerfi, hljóðdósir, tónstillingu, efnisval, yfirborðsmeðhöndlun, hönnun og viðgerðir. Það geta verið meira en 20 nemendur í skólanum á hverjum tíma. Þarna eru þrír aðalkennarar fyrir utan Bryan og þrír aðstoðarkennarar sem allir hafa lokið námi við skólann. Kennararnir eru samhliða að vinna við smíði á verkstæðinu. Ef eitthvað sérstakt var að gerast á verkstæðinu, var allur hópurinn kallaður þangað. Þar fyrir utan eru haldin alls konar helgarnámskeið í skólanum og ég sótti öll þau námskeið sem voru í boði. Þar lærði ég til dæmis að smíða lampamagnara. Maður var stundum orðinn dálítið þreyttur en það var algjörlega þess virði. Námið gerði miklu meira en að standa undir ýtrustu væntingum og ég er alveg innilega þakklátur fyrir að ég skyldi velja þennan skóla." Uppáhaldsgítarinn er finger-style" kassagítar úr mahóní Ég smíðaði fjóra gítara í náminum. Til þess að maður læri sem mest eru notaðar mismunandi smíðaaðferðir. Ég byrjaði á að smíða rafmagnsgítar sem var byggður á Les Pau Jr. Síðan valdi ég að smíða tólf banda kassagítar, einfaldlega af því að ég hef aldrei átt tólf banda gítar. Á annarri önninni smíðaði ég bara einn svokallaðan "finger style" kassagítar. Hann er með breiðari háls og er ætlaður til þess að plokka þannig að maður komi fingrunum vel á milli strengjanna. Þá er farið mjög djúpt í það sem heitir á ensku "voicing" þar sem maður er að stilla af hljóminn í gítarnum. Hljómurinn er líka miklu meiri en í hinum kassagítarnum sem ég smíðaði." Hérna er verið að formóta hliðar gítarsins. Viðurinn er bleyttur, hitaður og svo pressaður inn í mót og látinn kólna þar.

21 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 21 Gítarinn er allur smíðaður úr mahóní, nema hvað toppurinn er úr greni. Mahóní er bæði mjög stöðugur viður og gefur góðan hljóm, fyrir utan að vera þægilegur smíðaviður. Greni er notað í toppinn af því að greni er sterkasti viður sem hægt er að fá miðað við þyngd. Þar sem hljóðið verður til í toppnum þarf eitthvað nógu létt til að víbra með strengjunum og því léttara sem efnið er því meira víbrar það. Ef maður ætlaði að ná einhverjum viðlíka hljómi úr harðari og þyngri við yrði hann að vera svo þunnur." Þessi vél (Duplicator) var notuð til að móta ytra byrði archtop gítarsins. Akústískur jassgítar tálgaður út líkt og fiðla Á þriðju önninni smíða svo allir "archtop" eða kúptan jassgítar. Hann er allur smíðaður úr hlyn, nema toppurinn er úr greni. Hlynur er mjög sterkur, stöðugur og fallegur viður með góðan hljómburð, en það er erfiðara að vinna hann. Gítarinn er í raun smíðaður eins og fiðla, þar sem toppur og bak eru tálguð út, bæði að utan og innan, þannig að þau verða kúpt. Kassinn á honum er alveg tómur og hann er smíðaður sem akústískt hljóðfæri, öfugt við flesta svona gítara í dag og hefur því meiri hljóm en gengur og gerist með svona hljóðfæri. Það er sem sagt hægt að spila á hann órafmagnaðan en ég get líka bætt við hann pikköppi" sem er fest við (scratch) plötuna og hægt að fjarlægja." Hérna er verið að líma bindingar á gitar, en þá er strekkt band yfir til að tryggja að þær sitji rétt. Gítarsmiðurinn og gítarleikarinn Guðmundur Höskuldsson með uppáhaldsgítarinn sinn. Á hliðinni sem snýr upp er aukagat til þess að hljóðfæraleikarinn heyri sjálfur betur í gítarnum, sem er yfirleitt ekki á svona gíturum. Annars staðar í blaðinu má sjá Jón Hilmar Kárason spila á gítarinn við úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Alcoa. Þetta er alveg magnaður gítar með einstakan hljóm", segir Jón Hilmar. Hér sést vel að gítarinn líkist fiðlu. Þetta eru bestu hljóðfæri sem ég hef átt á mínum 40 ára ferli og að fylgir því mikið stolt. Maður horfir líka allt öðru vísi á hljóðfæri í dag. Þegar náminu lauk fórum við Sigrún í smáferðalag í gegnum sjö fylki og heimsóttum allar helstu hljóðfæraverslanir á leiðinni. Þarna var verið að selja gítara undir heimsfrægum vörumerkjum, en ég er ansi hræddur um að ef ég hefði skilað þeirri vinnu, þá hefði ég ekki fengið háar einkunnir í skólanum."

22 22 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 41 Mannauður - Guðmundur Höskuldsson Verður að halda áfram að takast á við ný verkefni Nú virðist gítarsmíði mjög flókin og vandasöm. Er virkilega hægt að læra allt sem skiptir máli á hálfu ári? Áður en maður kann eitthvað þá er það yfirleitt mjög flókið. Langflestir nemendanna spila sjálfir á gítar eða bassa og þekkja hljóðfærasmíð frá þeirri hlið. Flestir ætluðu sér að fara að gera við hljóðfæri. Nemendur þurfa ekki að kunna að smíða þegar þeir hefja námið og þess vegna er farið mjög ítarlega í alla hluti. Nokkrir nemendanna höfðu þó verið að smíða áður og þarna koma líka inn þrautreyndir hljóðfærasmiðir. Sjálfur hafði ég nú bara smíðað svona eitt og annað fyrir heimilið, með dyggri aðstoð bræðra minna sem hafa unnið við smíðar. En ég hef alltaf haft mjög gaman af því að smíða og lagði mig allan fram í náminu og það skilaði sér. Fyrir hvert hljóðfæri sem maður smíðar er gefin einkunn. Í mínum hópi fékk ég hæstu einkunn. Námið er mjög góð undirstaða fyrir viðgerðir og nýsmíði, en maður hefur þó takmarkaða þekkingu og verður að halda áfram að læra með því að glíma við ný verkefni." Guðmundur fór í Hallormsstað og valdi birki og ösp í íslenska gítarinn. gítara en það á eftir að koma í ljós hvernig öspin reynist. Hún er mjög létt og ætti að henta vel þar sem ég vil hafa sem mestan akústískan hljóm í gítarnum. Öspin vex mjög hratt en það tekur langan tíma að verka viðinn því hann heldur vel í sér raka. Álið er fyrst og fremst fyrir útlitið." Guðmundur er búinn að koma sér upp góðum verkfæralager í gamla tómstundaherberginu. Tómstundaherbergi og bílskúr breytt í gítarverkstæði Hefur þetta ekki kostað skildinginn? Jú, en þetta á líka að vera fjárfesting til framtíðar. Heildarpakkinn er upp á einhverjar milljónir króna fyrir utan tekjutap meðan á náminu stóð. Skólagjöldin með öllum aukanámskeiðunum nálguðust þrjá milljónir króna. Svo hefur maður verið að koma sér upp aðstöðu og verkfærum og það kostar sitt. Ég notaði tækifærið og fyllti ferðatöskur af verkfærum á meðan ég var úti. Bara svo það misskiljist ekki, þá keypti ég öll verkfærin. Síðan hef ég verið að panta verkfæri og íhluti til þess að geta tekið að mér hvaða viðgerð sem er. Ég breytti tómstundaherbergi í kjallaranum í verkstæði og er að breyta bílskúrnum fyrir rafmagnstæki og er kominn með þriggja fasa rafmagn og stóra slípivél og bandsög. Hjá Trévangi kemst ég í þykktarhefil, fræsara til að fræsa langhliðarnar og svokallaðan joiner" sem undirbýr tvo fleti til að festast saman. En stefnan er að eiga sjálfur allt til alls." Næst verður það íslenskur gítar úr birki, ösp og áli Ég er byrjaður nú þegar að taka að mér viðgerðir á strengjahljóðfærum og síðan ætla ég líka að hefja smíði á hljóðfærum. Þar liggur áhuginn. Ég ætla að byrja á að smíða gítar úr íslenskum við. Mig langar að láta á það reyna hvort ekki sé hægt að smíða markaðshæfa vöru úr íslensku efni. Mig langar líka að blanda áli inn í smíðina. Sá fyrsti verður álklæddur rafmagnsgítar. Það verður ösp í búknum og birki í hálsinum. Ég fór í Hallormsstað og valdi viðinn. Öspin var felld fyrir tveimur árum en ég þarf að fullþurka hana áður en smíðin getur hafist. Birki er notað í Ál er talsvert mikið notað í hljóðfæri sem mörg hver eru mikil listasmíði eins og þessi rafmagnsgítar sem er renndur eða skorinn út úr heilu álstykki. Guðmundur tekur þó fram að gítarinn hans verði allt öðru vísi. Minn gítar verður klæddur áli að framan og aftan en viðurinn mun sjást á milli." Þekkingin og verkfærin eru eftirlaunasjóðurinn Er hægt að lifa af hljóðfærasmíði hérna fyrir austan? Ísland er mjög lítill markaður og það er ekki auðvelt að lifa af því að smíða hljóðfæri á Íslandi. En þetta er alvöruáhugamál hjá mér. Markmiðið með því að byrja strax að smíða er að varðveita það sem ég er búinn að læra og bæta við þekkinguna. Svo er ég að búa mig undir að fara á eftirlaun og þá ætla ég að smíða allan daginn. Maður er búinn að taka hluta af þeim sjóði sem hugsaður var til efri áranna og setja hann í þekkingu og verkfæri. Von mín er sú að ég geti smíðað nokkur hljóðfæri á ári og að mér fari fram. Ég legg áherslu á hönnunina og ætla að reyna að koma mér upp einhverri sérstöðu sem ég þarf að þróa og það þýðir að maður mun smíða einhver hljóðfæri sem standast ekki væntingar. Ég ætla að nota öll þau mögulegu efni sem eru í nærumhverfinu og láta á þau reyna. Maður er að smíða í fyrsta skipti í nýjum aðstæðum með annað hráefni og önnur verkfæri en ég er vanur. Maður hefur heldur ekki kennarana til að leiðbeina sér, en ég hef þó aðgengi að þeim og er í mjög góðu sambandi við þá og þeir eru boðnir og búnir að ýta mér úr vör. Menn hafa líka verið að koma til mín og ræða möguleika á að ég smíði fyrir þá hljóðfæri með ákveðið útlit og eiginleika. Ég hef tök á að útvega allt það hráefni og íhluti sem þarf."

23 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 23 Í unglingahljómsveit með Eiríki Haukssyni En hvaðan kemur gítarleikarinn og gítarsmiðurinn Guðmundur Höskuldsson? Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík og byrjaði að spila á gítar á unglingsárunum. Eldri bróðir minn var gítarleikari í hljómsveit og þegar hann fluttist til Akureyrar 1974 skildi hann rafmagnsgítarinn og magnarann eftir. Ég fékk græjurnar lánaðar og stofnaði strax hljómsveit ásamt vini mínum sem átti lítið trommusett. Fleiri bættust svo í hópinn, þar á meðal ekki ómerkari maður en Eiríkur Hauksson söngvari. Ég var 15 ára þegar við byrjuðum að spila opinberlega á skemmtistöðum, sem var dálítið mál því við höfðum ekki aldur til að vera á vínveitingastöðum. Ég spilaði af krafti næstu árin og var kominn í tvær hljómsveitir á sama tíma. Við spiluðum á veitingahúsum í bænum og alltaf eitt kvöld í viku uppi á Keflavíkurflugvelli, fyrir utan sveitaböll á sumrin. Ég spilaði hreinlega yfir mig og fékk bara nóg af spilamennsku, hætti alveg í bransanum árið 1979 og ætlaði aldrei nokkur tímann að spila aftur." Síðasti loftskeytamaðurinn á Íslandi Áhuginn beindist inn á rafeindabrautir og mig langaði að læra símvirkjun en þar gengu starfsmenn Pósts og síma fyrir. Í staðinn var mér boðið að fara í Loftskeytaskóla Íslands árið 1978 og ég þáði það. Sumarið 1979 var mér boðið að koma hingað austur til að leysa af á Nesradíói. Ég útskrifaðist síðan sem loftskeytamaður árið 1980 og eftir það hafa bara ekki verið útskrifaðir loftskeytamenn á Íslandi, enda var þetta deyjandi stétt. Ég fluttist svo til Neskaupstaðar 1981 og vann á Nesradíói í tvö ár. Þá kynntist ég ungum tónlistarmönnum, meðal annarra Steinþóri Þórðarsyni sem varð síðar framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Fjarðaáli. Það vakti upp tónlistaráhugann að nýju og saman stofnuðum við Danshljómsveit Guðmundar Höskuldssonar. Síðan hef ég alltaf verið að spila eitthvað, gjarnan með Reyni bróður mínum. Árið 1983 fór ég á togara og náði tveimur árum á sjónum sem loftskeytamaður, lengst af á Harðbak frá Akureyri. Ég flutti svo suður 1985 en næstu árin kom ég af og til hingað austur að leysa af á Nesradíói og 1986 kynntist ég konunni minni, Sigrúnu Víglundsdóttur. Hún flutti svo suður og þar bjuggum við í nærri 20 ár." Geir Sigurpáll Hlöðversson og Guðmundur Höskuldsson mættir á æfingu hjá Coney Island Babies. Gummi er þarna að plokka Les Paul Jr. gítarinn sem hann smíðaði. Ég hef aldrei lært að spila á gítar með nögl þannig að ég hef alltaf þurft að nota mína eigin fingur og neglur. Maður hefur lent í því á ögurstund að brjóta nögl og þá sækir maður ekki bara nýja. Gummi er frábær gítarleikari og ekki síðri gítarsmiður," segir Geir. Ég bíð spenntur eftir því að hann smíði gítar fyrir mig." Byrjaði í steypuskálanum úti á Keflavíkurflugvelli Áður en ég kom hingað til Fjarðaáls vann ég í málningargeiranum, hjá Sjöfn, Hörpu og Hörpu Sjöfn, lengst af sem sölumaður og verslunarstjóri á höfuðborgarsvæðinu. Ég hafði alltaf sagt við Sigrúnu að ég væri tilbúinn að flytja hingað austur ef ég fyndi eitthvað starf. Það starf kom með álverinu og ég byrjaði að vinna sem leiðtogi í steypuskálanum, 15. október 2006, úti á Keflavíkurflugvelli og flaug beint til Kanada og var þar í þrjár vikur. Fyrstu mánuðurnir fóru í þjálfun og undirbúning. Í apríl 2007 byrjuðum við svo að steypa uppi í kerskála. Ég var á vöktum hátt í þrjú ár áður en ég varð umsjónarmaður ofnasvæðis og síðar einnig deiglustöðvar og íblöndunarlagers. Þetta er búið að vera ævintýri líkast. Hér er frábært starfsfólk hjá góðu fyrirtæki. Skemmtilegast í mínu starfi er að ég hef tækifæri til að leiða umbótavinnu. Við erum alltaf að gera betur og það gerir vinnuna skemmtilegri." Tónlistarmennirnir Jón Björn Ríkarðsson og Guðmundur Höskuldsson á ofnasvæði steypuskálans. Jónbi var trommuleikari í Álbandinu áður en hann flutti suður og helgaði sig hljómsveitinni Brain Police. Fleiri í fjölskyldunni hafa tengst álverinu Guðmundur er ekki sá eini í fjölskyldunni sem hefur starfað hjá Fjarðaáli. Ég dró Reyni bróður minn hingað austur. Hann starfaði í skautsmiðjunni og kerskálanum, en er núna að vinna fyrir Alcoa í Ma'aden í Sádí-Arabíu. Sigrún vann líka á rannsóknastofunni. Börnin eru þrjú. Herdís eldri dóttirin flutti austur með sína fjölskyldu og maðurinn hennar Valdimar Þór Valdimarsson var að vinna í kerskálanum í um tvö ár þangað til þau fluttu aftur til höfuðborgarinnar. Ýmir sonur okkar vann í kerskálanum. Hann lærði svo bifvélavirkjun en hefur ekki fundið sér samning hérna fyrir austan og er kominn aftur í kerskálann. Dóttirin Mekkín byrjaði í Verkmenntaskólanum í fyrra, en fór svo út sem skiptinemi til Malasíu og verður þar fram á næsta sumar." Coney Island Babies og Álbandið Meðfram starfinu hjá Fjarðaáli hefur Guðmundur líka náð að sinna tónlistinni. Ég hafði spilað með Hafsteini Má Þórðarsyni bassaleikara Coney Island Babies á níunda áratugnum og setti mig í samband við hann þegar ég flutti hingað austur. Ég byrjaði á að spila með þeim sem gestur á tónleikum og síðan voru þeir svo huggulegir að bjóða mér að ganga í hljómsveitina. Við tókum upp plötu og gáfum út Núna eigum við orðið til dálítið af efni í handraðanum og erum byrjaðir að undirbúa upptökur á annarri plötu, en þetta tekur allt sinn tíma því hljómsveitin samanstendur af mjög uppteknum og vandvirkum mönnum. Við erum líka að þessu fyrst og fremst til að skemmta sjálfum okkur. Svo má heldur ekki gleyma Álbandinu sem við Reynir tókum þátt í að stofna og hefur skemmt starfsmönnum Fjarðaáls í gegnum árin. Álbandið hefur legið í dvala um nokkurt skeið en á örugglega eftir að vakna til lífsins að nýju áður en langt um líður."

24 24 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Kirkjumiðstöðin við Eiðavatn Fyrsta Action-verkefni ársins fór fram við Eiðavatn laugardaginn 14. júní. Sjálfboðaliðar máluðu Kirkjumiðstöðina þar sem starfræktar eru vinsælar sumarbúðir fyrir börn af Austurlandi. Framlag frá Samfélagssjóði Alcoa nægði til að kaupa málningu á húsið og greiða annan kostnað sem fylgdi framkvæmdinni. Samfélagið - ACTION-verkefni 14. júní mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii

25 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 25 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii Árni Björnsson var ábyrgðarmaður verkefnisins. Sveinbjörn Egilsson tók þessa loftmynd af verkefninu. Alls tóku 34 sjálfboðaliðar þátt í verkefninu og þar af 14 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls.

26 36 26 ALCOA -- Framar með hverri kynslóð í 125 ár Íþróttavöllur Leiknis á Fáskrúðsfirði Laugardaginn 28. júní var Action verkefni fyrir Knattspyrnudeild UMF Leiknis á Fáskrúðsfirði. Meðal annars var ráðist í að mála glugga á vallarhúsi, grindverk á íþróttavellinum og tréverk í kringum tækjagám. Samfélagið - ACTION-verkefni 28. júní Þátttakan í verkefninu var með því besta sem sést hefur. Sjálfboðaliðarnir voru 46 og þar af 18 starfsmenn Alcoa. mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Eiríkur Ólafsson var ábyrgðarmaður verkefnisins.

27 ALCOA - Framar með hverri kynslóð í 125 ár 27 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Formaður UMF Hattar mætti í sjálfboðavinnu fyrir UMF Leikni. mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii.mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmi

28 28 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Skotfélag Austurlands Laugardaginn 30. ágúst var vel heppnað Action verkefni á svæði Skotfélags Austurlands að Þuríðarstöðum við Mjóafjarðarveg. Verkefnið laut að smíði palls við aðstöðuhús félagsins sem 226 félagar og fleiri nýta. Skotfélag Austurlands (SKAUST) hefur meðal annars unnið mikilvægt starf með því að efla öryggi við veiðar. Samfélagið - ACTION-verkefni 30. ágúst mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii Bjarni Haraldsson var hugsuðurinn á bak við pallinn og ábyrgðarmaður. mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii

29 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 29 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmi mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii Í verlkefnið mættu 14 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls ásamt fjölskyldumeðlimum og félögum í SKAUST og rigguðu upp pallinum á nótæm".

30 30 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Golfskáli endurnýjaður Laugardaginn 27. september lögðu starfsmenn Alcoa Fjarðaáls og fjölskyldur þeirra Golfklúbbnum Byggðarholti á Eskifirði lið. Verkefnið var liður í endurnýjun félagsheimilis klúbbsins. Samfélagssjóður Alcoa styrkti verkefnið. Samfélagið - ACTION-verkefni 27. september mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Nýjasta tækni var notuð til að mynda viðburðinn. Atvinnumenn í faginu stýrðu verkinu. Gamla einangrunin vék fyrir steinull. Skari Borg fór í Action-bol og var með hundakúnstir.

31 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 31 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii Náttúrulegri einangrun er vart hægt að hugsa sér enda fór hún beint í landfyllingu við golfvöllin. Hérna er ný einangrun komin á útveggina í lok dags. Eftir var að setja gluggana í og klæða veggina. Þakið verður líka endurnýjað. Samfélagssjóður Alcoa styrkti verkefnið um krónur..endursmíði hússins kostar í heild sinni á aðra milljón króna.

32 32 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Húsnæði Gerpis málað hátt og lágt Laugardaginn 4. október voru tvö mjög vel heppnuð Action-verkefni. Á Norðfirði var ráðist í að mála húsnæði Björgunarsveitarinnar Gerpis að innan. Alls mættu 54 sjálfboðaliðar, þar af 16 starfsmenn Alcoa. Samfélagið - ACTION-verkefni 4. október mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii

33 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 33 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Yngri sjálfboðaliðarnir fengu að spreyta sig á klifurveggnum. Í húsnæði Gerpis er nóg af alvöruleiktækjum. lfboðaliðar fyrir utan Knelluna á Eskifirði að loknu góðu dagsverki.

34 34 ALCOA - Framar með hverri Útikennslustofa á Stöðvarfirði Hitt verkefnið 4. október var á Stöðvarfirði þar sem unnið var með Foreldrafélagi Grunnskóla Stöðvarfjarðar að því að koma upp vandaðri útikennslustofu. Þar var líka góð mæting og rífandi gangur þrátt fyrir örlitlar skúraleiðingar. Samfélagið - ACTION-verkefni 4. október Stöðfirðingurinn Þorsteinn J. Haraldsson var ábyrgðarmaður verkefnisins. mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii

35 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 35 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii lfboðaliðar fyrir utan Knelluna á Eskifirði að loknu góðu dagsverki.

36 36 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Björgunarsveitin Geisli fékk viðbótarstyrk Laugardaginn 11. október var unnið fyrir Björgunarsveitina Geisla á Fáskrúðsfirði. Janne Sigurðsson færði sveitinni óvæntan glaðning frá Samfélagssjóði Alcoa fyrir frábært starf í þágu samfélagsins. Samfélagið - ACTION-verkefni 11. október Verkefnið fólst meðal annars í því að mála húsnæði sveitarinnar innandyra og klæða vörugám sem mun hýsa sjóflokk Geisla. Þörf fyrir öflugan og vel búinn sjóflokk kom berlega í ljós er flutningaskipið Akrafell strandaði 6. september og svo Green Freezer 17. september. Björgunarsveitin Geisli tók þátt í aðgerðum í kjölfarið. Í ár ákvað Samfélagsssjóður Alcoa að tíu Action-verkefni á heimsvísu skyldu hljóta hærri styrk og verkefnið fyrir Geisla varð eitt þeirra. Viðbótarframlagið til Geisla nam dollurum eða um 1,2 milljónum króna. mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii

37 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 37 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Annar óvæntur gestur mætti í verkefnið. Sá var á leið í hnapphelduna. Formaður Geisla, Ólafur Atli Sigurðsson og gjaldkerinn Grétar Geirsson tóku við táknrænni dollara ávísun sem Janne Sigurðsson afhenti þeim fyrir hönd Samfélagssjóðs Alcoa. Hluti af hópnum í bleikum bolum í tilefni októbermánaðar. Alls mættu 34 sjálfboðaliðar í verkefnið. Taki tíu eða fleir starfsmenn Alcoa þátt í Action-verkefni sem kemur nærsamfélaginu til góða, greiðir Samfélagssjóður Alcoa (Alcoa Foundation) 360 þúsund króna framlag í þágu verkefnisins. Samtals fékk Geisli því krónur frá Samfélagssjóði Alcoa og sá peningur kemur í góðar þarfir.

38 38 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Reiðhöllin á Iðavöllum Laugardaginn 11. október var líka farið í Action-verkefni fyrir Hestamannafélagið Freyfaxa á Fljótsdalshéraði. Lokið var við smíði skjólborða í Reiðhöllinni á Iðavöllum. Freyfaxi stendur fyrir mörgum viðburðum allt árið um kring. Samfélagið - ACTION-verkefni 11. október mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiiiiii

39 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 39 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii Barna- og unglingastarf er einn af lykilþáttunum í starfsemi Freyfaxa.

40 40 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Göngustígur í skóginum Níunda Action-verkefni ársins fór fram á skógræktarsvæðinu í Neskaupstað laugardaginn 25. október. Sjálfboðaliðar fluttu timbur, ráku niður undirstöður og smíðuðu göngustíga um skógræktarsvæðið. Samfélagið - ACTION-verkefni 25. október mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiii oooooooo o

41 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 41 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmi Skógræktarfélag Neskaupstaðar hefur unnið mikið og gott starf á svæði félagsins. Félagið var stofnað árið 1948 en árið 1949 gróðursetti hópur áhugamanna 654 birkiplöntur á svæðinu og síðan hafa tugir þúsunda plantna verið gróðursettar í Hjallaskógi sem er nú einn af fallegustu útivistarskógum Íslands.

42 42 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Hjólabrettabraut í Stríðsárasafninu Síðasta Action-verkefni ársins var laugardaginn 6. desember. Unnið var áfram að því að koma upp hjólabrettabraut í Stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Húsnæðið er komið til ára sinna og þarfnaðist endurnýjunar. Samfélagið - ACTION-verkefni 6. desember oooooooo oi mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm oooooooo oi

43 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 43 mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiiii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmii mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmiiiii Árið 2014 skilaði Action-vinna starfsmanna Fjarðaáls samtals tæpum 5 milljónum króna til tíu samfélagsverkefna á Austurlandi.

44 44 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Heilsueflingarnefnd Heilsueflingarnefnd hefur staðið fyrir ýmsum heilsuviðburðum á árinu og hvatt til þátttöku í öðrum. Um 80% starfsmanna tóku þátt í einhverjum viðburði á vegum nefndarinnar. Umhverfi, heilsa og öryggi - Heilsuefling Í byrjun árs gaf heilsueflingarnefnd út Heilsupésann með viðburðadagatali og ýmsum fróðleik um heilsu. Þátttaka í heilsueflingu var mjög góð á árinu en alls tóku um 80% starfsmanna Alcoa Fjarðaáls þátt í einhverjum viðburði á vegum nefndarinnar. Auk þess hvatti nefndin til þátttöku í öðrum heilsuviðburðum, til dæmis Lífshlaupinu og Götuþríþrautinni á Eskifirði. Nefndin vonar að nýja árið verði okkur öllum hvatning til heilsueflingar og færi okkur gæfu og góða heilsu. Heilbrigður lífsstíll gefur andlegan og líkamlegan ávinning og skilar sér tvímælalaust í betri lífsgæðum. Matthías Haraldsson, Eðvld Garðarsson, Svanbjörg Pálsdóttir, Inga Lára ásgeirsdóttir, Harpa Vilbergsdóttir og Valgerður Vilhelmsdóttir eru í heilsueflingarnefnd. Áhyggjuefni hve margir starfsmenn reykja Heilsueflingarnefnd hefur vakið athygli á skaðsemi tóbaks með fræðslupunktum í Heilsupésanum, Álglugganum, matsalnum og á upplýsingaskjánum. Áhyggjuefni er hve margir starfsmenn reykja eða nota annað tóbak. Hjúkrunarfræðingarnir á heilsugæslunni hafa safnað gögnum um reykingar meðal nýráðinna starfsmanna og þeirra sem koma í árlega heilsufarsskoðun. Síðustu tvö ár eru um 370 manns á bak við þessar tölur þannig að þær eiga að vera nokkuð marktækar. Hlutfall þeirra sem reykja hafði farið lækkandi jafnt og þétt frá 2010 en hækkaði því miður árið Reykingahlutfall: % % % % %. Þetta er mun hærra hlutfall en landsmeðaltalið, en samkvæmt könnun Landlæknisembættisins árið 2013 reyktu 11,4% daglega og 5,2% sjaldnar en daglega. Þess ber þó að geta að mörg vinnusvæði og teymi hjá Fjarðaáli eru reyklaus og nefndin veit um marga starfsmenn sem hafa hætt að nota tóbak á árinu. Gaman er að segja frá því að skrifstofan í steypuskála er nú orðin reyklaus. Vonandi tekst að ná hlutfallinu verulega niður árið Þörf á aukinni hreyfingu og breyttu mataræði Nefndin hefur líka skoðað þróun líkamsþyngdarstuðuls starfsmanna en þeim gögnum er einnig safnað á heilsugæslunni. Hlutfall þeirra sem eru í kjörþyngd (BMI 20-25) hefur aðeins hækkað og lækkað á móti í ofþyngd (BMI 25-30), en hlutfall starfsmanna í offituþyngd (BMI >30) hefur lítið breyst milli ára og er það áhyggjuefni. Kjörþyngd: 2010: 23% : 28% Ofþyngd: 2010: 43% : 38% Offita: 2010: 34% : 34% Hætta á ýmsum sjúkdómum eykst eftir því sem BMI hækkar og þegar komið er yfir 40 er talað um lífsógnandi offitu. Ef reykt er líka margfaldast þessi áhætta. Þeir sjúkdómar sem eru algengari hjá offeitum en öðrum eru sykursýki II, blóðtappi í hjarta, blóðtappi í heila (heilablóðfall), gallsteinar, þvagsýrugigt, slitgigt í höndum, hnjám og mjöðmum auk þess sem áhætta á krabbameini eykst. Þessu til viðbótar má nefna ýmsa kvilla sem fólk tengir yfirleitt ekki sérstaklega við offitu, svo sem ófrjósemi (barnleysi) kvenna, bakverk og astma. Margir starfsmenn Fjarðaáls hafa gert gagngerar breytingar á árinu á lífstíl sínum, svo eftir er tekið, með aukinni hreyfingu og breytingu á mataræði. GCC - hreyfiáskorunin Stærsti heilsuviðburður ársins var 16 vikna hreyfiáskorunin Global Corporate Challenge (GCC) sem Alcoa tók þátt í annað árið í röð. Þetta er sjö manna liðakeppni. Fjölmargir starfsmenn Fjarðaáls tóku þátt og þrjú efstu liðin fengu verðlaun. Við upphaf og lok átaksins voru haldnar tvær heilsuvikur þar sem um 80 manns þáðu að koma í heilsufarsmælingu á heilsugæslunni. Hjúkrunarfræðingarnir Heiðrún og Svana mældu blóðþrýsting, blóðsykur, kólesteról og þyngdarstuðull. Fyrirlestrar í matsalnum Heilsueflingarnefnd stóð fyrir tveimur fyrirlestrum í matsalnum. Orri Smárason sálfræðingur fjallaði um jákvæða sálfræði og hamingju. Frá þeim fyrirlestri er sagt annars staðar í blaðinu. Svanhvít Antonsdóttir Michelsen (Dandý) hélt fyrirlestur sem hún kallaði Hvatning og innblástur. Fyrirlesturinn fjallaði um um undirbúning og þáttöku hennar í Iron Man keppni í Svíþjóð, þrátt fyrir alvarleg og langvarandi veikindi. Gengið upp að Opi í þokunni. Alcoans in Motion Haldnir voru tveir Alcoans in Motion (AIM) viðburðir með þátttöku Sóma og um króna styrkjum frá Samfélagssjóði Alcoa sem fóru í góð málefni. Fyrri viðburðurinn var ganga upp að Opi í Oddsdal í mjög leiðinlegu veðri og slæmu skyggni. Þrátt fyrir það gengu um 30 manns á öllum aldri þar upp og fengu sér síðan kærkomna hressingu eftir volkið. Opsgangan var til styrktar ABG Aðstoð við börn með geðraskanir. ABG er teymisverkefni HSA, Fjölskyldusviða Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar, Menntaskólans á Egilsstöðum, Verkmenntaskólans í Neskaupstað og Skólaskrifstofu Austurlands. Seinni viðburðurinn var ganga í Stórurð í Dyrfjöllum, en sú ganga fór hins vegar fram í frábæru veðri. Stórurðargöngunni eru gerð skil annars staðar í blaðinu.

45 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 45 Golfklúbbur Sóma Golfklúbbur Sóma hélt uppi öflugri starfsemi í sumar. Einn af fremstu golfkennurum landsins hélt golfnámskeið og Sómamótið í golfi heppnaðist mjög vel. Starfsmannafélagið Sómi - Golfklúbbur Golfnámskeið Sóma Starfsmannafélagið Sómi bauð félagsmönnum upp á 90 mínútna golfnámskeið hjá Karli Ómari Karlssyni, einum af reyndustu golfkennurum landsins. Námskeiðin voru haldin dagana ágúst á Reyðarfirði, Seyðisfirði og Norðfirði. Farið var yfir grunnatriði í sveiflu, vippum og púttum. Þátttakendur fengu einnig bækling með því sem farið var yfir á námskeiðinu. Golfkennslan var góður undirbúningur fyrir golfmót Sóma í september. Sómamótið í golfi á Egilsstöðum og Norðfirði Davíð Þór Magnússon þiggur golfleiðsögn. Sómamótið í golfi fór fram sunnudagana 14. september á Ekkjufellsvelli á Egilsstöðum og 21. september á Grænafellsvelli í Neskaupstað. Keppendur voru samtals 32. Leiknar voru tvisvar níu holur í tveggja manna liðum samkvæmt Texas Scramble fyrirkomulagi. Brammer, Launafl, VHE, BYKO og Húsasmiðjan gáfu veglega vinninga. Verðlaun voru veitt fyrir sigur á hvoru móti, lengsta teighögg og upphafshögg næst holu. Sómameistarar í golfi 2014 urðu Henrý Elís Gunnlaugsson og Hólmgrímur Elís Bragason. Sigurlaunin voru Leatherman hnífar. Magnús Þór Ásmundsson mundar kylfuna eins og atvinnumaður. Hérna er sko enginn athyglisbrestur hjá Hólmgrími Elís Bragasyni, þótt hann hafi þurft að hugsa um mótshaldið í leiðinni og gert það af stakri prýði. Stemmningin í sólinni á Egilsstöðum var frábær. Sigurvegarar urðu Bjarki Ingason og Brynjar Örn Rúnarsson, í fremri röð fyrir miðju. Jón Gunnarsson með upphafshögg beint inn á flöt. Sómameistarar í golfi 2014 urðu Hólmgrímur Elís Bragason og Henrý Elís Gunnlaugsson, í fremstu röð fyrir miðju. Þeir báru sigur úr bítum í Neskaupstað og voru með betra skor en sigurvegararnir á Egilsstöðum. Smári Kristinsson horfir á eftir kúlunni á Norðfirði.

46 46 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Heilsueflingarnefnd og Starfsmannafélagið Sómi Fjölskylduganga í Stórurð til styrktar öldruðum á Seyðisfirði Dyrfjöll eru talin hafa myndast sem askja í miklu sprengigosi í vatni. Ísaldarjökull hefur svo mótað hið einstaka form á fjöllununm. Sunnudaginn 7. september gengu 49 starfsmenn álversins og fjölskyldur þeirra í Stórurð undir öruggri leiðsögn Hafþórs Helgasonar frá Borgarfirði eystri. Gangan var frábær heilsubót í stórfenglegu umhverfi og frábæru veðri. Stórurð er eitt merkilegasta náttúrufyrirbrigðið á Austurlandi og þótt víðar væri leitað. Heilsueflingarnefnd Alco Fjarðaáls og Starfsmannafélagið Sómi skipulögðu gönguna undir merkjum Alcoans in Motion (AIM). Samfélagssjóður Alcoa veitti fyrir vikið um króna styrk til hjúkrunardeildar HSA á Seyðisfirði fyrir aldraða með minnissjúkdóma. Hafþór Helgason vísar göngumönnum veginn í Stórurð. Veðrið lék við léttklædda og glaðbeitta göngumenn. Gangan tók um sex klukkutíma en telst þó ekki vera erfið. Göngumenn voru á öllum aldri.

47 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 47 Talið er að Stórurð hafi myndast með þeim hætti að ísaldarjökull hafi brotið björg úr Dyrfjöllum og flutt allt að sjö kílómetra leið. Á leiðinni í Stórurð er að finna einn stærsta jaspis á landinu. Jaspis er kísill (SiO 2) mengaður ýmsum öðrum efnum sem skapa mismunandi litbrigði. Yfirleitt myndast hann sem útfelling úr kísilmettuðu vatni. Risavaxin björg, hyldjúpar tjarnir og sléttir grasbalar gera Stórurð að einstakri náttúruperlu. Hluti af hópnum kominn í Stórurð. Að göngunni lokinni bauð Sómi upp á gómsæta súpu og eplaköku á Álfacafé á Borgarfirði eystri.

48 48 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Mótorhjólaferð til Mið-Asíu styrkti trúna á mannkyninu Í sumar fóru hjónin Högni Páll Harðarson og Unnur Sveinsdóttir á mótorhjólum alla leið til Mongólíu. Högni Páll segir okkur frá þessari fimm mánaða ævintýrferð um slóðir sem fáir Íslendingar hafa fengið að kynnast. Mannauður - Högni Páll Harðarson Baráttan við vegleysurnar í Mongólíu reyndi virkilega mikið á andlegt og líkamlegt þrek. Hérna er Högni Páll alveg úrvinda eftir að hafa streðað í steikjandi hita í sandi með enga viðspyrnu og farið nokkrum sinnum á hausinn. Högni Páll Harðarson er viðhaldssérfræðingur hjá Fjarðaáli og Unnur Sveinsdóttir er kennari í Grunnskólanum á Reyðarfirði. Högni Páll segist hafa verið með mótorhjóladellu frá því að hann var smápatti. Dellan tók sig alvarlega upp fyrir um tíu árum. Unnur tók svo prófið árið 2008 og síðan erum við búin að ferðast vítt og breitt bæði hér heima og erlendis. Það gerist eitthvað sérstakt þegar áhugi á ferðalögum og mótorhjólum rennur saman. Maður upplifir umhverfið allt öðru vísi og hefur miklu meiri og nánari samskipti við fólk en þegar ferðast er í bíl. Hjólin okkar eru af gerðinni Suzuki V-Strom. Þau eru áreiðanleg og henta ágætlega til ferðalaga. Hjólið mitt er komið í kílómetra sem þykir í frekar mikið á mótorhjóli hér á landi." Unnur og Högni Páll ánægð með að vera komin aftur til Fáskrúðsfjarðar eftir 147 daga ferðalag á mótorhjólum og búin að fá sér malt og sviðakjamma. Þetta er einhver bilun En af hverju Mongólía? Þetta er einhver bilun sem magnast upp og heltekur mann. Mongólía er fjarlægur draumur hjá flestum sem eru í svona ferðamennsku. Einungis tveir Íslendingar höfðu hjólað þangað á undan okkur að því við best vitum. En þetta var ekki bara ferðalag um Mongólíu heldur um Mið-Asíu og löndin sem við heimsóttum urðu alls 20. Hugmyndin kviknaði fyrir einhverjum árum en undirbúningur hófst fyrir alvöru síðasta sumar. Við einbeittum okkur að því að hjóla á malarvegum en undirbúningurinn fólst þó aðallega í því að fara vel yfir hjólin og lesa bækur og afla sér upplýsinga á netinu. Svona mótorhjól eru varla til í þessum heimshluta og maður þarf því að vera sjálfbjarga í öllu sem að hjólunum snýr. Svo kynntum við okkur rússnesku því það skiptir öllu máli að geta lesið kýrilíska letrið á skiltum og geta gert sig skiljanlegan á svæðum þar sem enginn talar ensku. Unnur var reyndar miklu betri í tungumálinu en ég. Pappírsvinnan hófst svo í byrjun árs." Maður er að takast á við sjálfan sig Gekk ferðalagið samkvæmt áætlun? Já, þetta gekk í heildina eins og lagt var upp með. En á svona ferðalagi eru endalaus verkefni og það skiptast á skin og skúrir. Á köflum var þetta gríðarlega erfitt. Maður er að takast á við sjálfan sig og sjá hvað maður getur. Við komumst líka mjög vel frá því að vera saman 24 tíma á sólarhring í fimm mánuði og þurftum heldur ekki að hafa áhyggjur af börnunum og barnabörnunum á meðan, þótt við værum að sjálfsögðu farin að sakna þeirra. En það er þó langt því frá að allir dagar hafi verið erfiðir. Við notuðum tjaldið miklu minna en við höfðum ætlað okkur. Það reyndist mjög einfalt að kaupa gistingu á viðráðanlegu verði í flestum þessum löndum."

49 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 49 Högni Páll og Unnur fóru samtals kílómetra á hjólunum. Þetta kort af leiðinni settu þau aftan á hjólin sín. Tókum úr okkur sjokkið í Hvíta-Rússlandi Við lögðum af stað frá Seyðisfirði 7. maí. Færeyjar, Danmörk, Þýskaland og Pólland voru sem hver önnur hraðahindrun á leiðinni í þau verkefni sem við vorum að fara að takast á við. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir þessum löndum sem mjög gaman er að ferðast um. Ferðin byrjaði í raun fyrir alvöru þegar við komum yfir landamærin til Hvíta-Rússlands. Upphaflega var það forvitni sem rak okkur þangað en á síðari stigum í skipulagningunni reyndist það nauðsyn vegna ástandsins í Úkraínu. Hvíta-Rússland er frekar lokað og einangrað land. Við fengum fimm daga vegabréfsáritun og til þess þurftum við að bóka okkur inn á mörg hundruð herbergja niðurnítt ríkishótel í gamla Sovétstílnum. Einhvern tímann hafði klóakið á herberginu okkar verið brotið upp og tengt með barka og ekki múrað yfir. Rúmin voru tveir dívanar sinn af hvoru tagi og sama gilti um önnur húsgögn, þau voru sitt úr hverri áttinni. Þarna tókum við úr okkur sjokkið og fórum því næst til Rússlands." Ekki spurt hvað maður tekur í bekk Við fórum alla leið austur fyrir Baikalvatn sem er stærsta ferskvatn í veröldinni og héldum þaðan í suður til Ulaanbaatar, höfuðborgar Mongólíu. Í mótorhjólaheiminum er æskileg þyngd ferðahjóla vinsælt þrætuefni. Hjólin okkar teljast vera tiltölulega þung en að sama skapi eru þau þægilegri heldur en léttari hjól. Á vondum eða engum vegi er eðlilega betra að vera á léttu hjóli. Það er hins vegar ekki hjól sem mann langar að sitja á í fjórar vikur austur eftir Rússlandi. Á mjög lélegum vegum og vegleysum í Mongólíu hefði aftur hentað betur að vera á léttari hjólum. Þar er ekki spurt hvað þú tekur í bekk heldur hvað þú getur lyft þungu mótorhjóli. Hjólið mitt vó 310 kíló fulllestað og þegar maður er búinn að streða í steikjandi hita í sandi með engri viðspyrnu, búinn að fara nokkrum sinnum á hausinn, þá er maður bara úrvinda. Það er ekki nema von að fólk segi að maður sé brjálaður að sækja í þetta." Í rússnesku borginni Ulan-Ude er stærsti Lenínhaus í heiminum, 7,7 metrar á hæð. Sennilega er þetta líka stærsta höfuð í heiminum. Urðum virkilega hrifin af Rússlandi Í Rússlandi tók við ferðalag í háaustur í fjórar vikur og þá síaðist það inn í hausinn á manni að Rússland er stærsta land í heimi. Á leiðinni hittum við mikið af góðu fólki og urðum bara virkilega hrifin af Rússlandi. Fólk sýndi okkur mikinn áhuga og spurði iðulega fyrst: Hvaðan eruð þið?" og svo Hvert eruð þið að fara". Mjög gjarnan ruglaði fólk saman Íslandi og Írlandi og þá sýndum við kortið aftan á hjólunum. Þann pakka tókum við að minnsta kosti 1001 sinni. Rússar eru mjög sjálfbjarga viðhaldsmenn og voru gjarnan komnir á hnén og farnir að velta fyrir sér mótorunum. Öll þessi skemmtilegu samskipti fóru fram á rússnesku og fingramáli, því þarna talar fólk almennt litla ensku. Við lentum fyrir tilviljun í viðtali hjá héraðsfréttablaði í smábæ í Síberíu. Viðtalið birtist á vefnum og rússneskumælandi starfsmaður í skautsmiðjunni sagði mér að ég væri kallaður Unnur og hún Högni. Annað var að mestu haft rétt eftir okkur." Í Mongólíu dúkkar alls staðar upp vingjarnlegt fólk og fer að tala við mann. Vegakerfið í Mongólíu er bæði erfitt og sérstakt Mongólía er bara hreint út sagt engu lík. Hálendið minnir reyndar um margt á Ísland, en vegakerfið er afar sérstakt. Þarna eru mikið til bara slóðar og maður velur sér stefnu fremur en veg. Mjög gjarnan er fyrst einn slóði og þegar hann blotnar eða skemmist verður til annar við hliðina og svo koll af kolli. Þetta er mjög strjálbýlt land, byggt hirðingjum og við gistum gjarnan hjá þeim. Þarna voru stöðug samskipti við forvitið og skemmtilegt fólk. Maður stoppar kannski einn á sléttunni og sér ekki neitt nema náttúruna til allra átta. En viti menn, allt í einu dúkkar einhver upp og fer að spjalla. Þetta fólk er ekkert hrætt við nánd og var komið alveg ofan í mann og farið að snerta á hjólinu. Þetta er yndislegt og vingjarnlegt fólk."

50 50 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Mannauður - Högni Páll Harðarson Maður þarf annað hvort að éta eða deyja Mataræðið var líka dálítið snúið viðfangsefni, sérstaklega í Mongólíu og Tadjikistan. Ég glími gjarnan við magavandræði á ferðalögum og nota til dæmis ekki mjólkurvörur, en fólk á þessu svæði lifir mikið til á mjólkurvörum og hvítu hveiti og svo kjöti sem er ekkert kryddað. En maður þarf annað hvort að éta eða deyja. Svo vorum við nú reyndar alltaf með einhverjar neyðarbirgðir á hjólunum. Við reyndum að kaupa allt vatn í flöskum eða sjóða það. Í Tadjikistan og þessum hálendari löndum er frekar hægt að drekka úr uppsprettum. Í Kasakstan urðum við vatnslaus og urðum að drekka úr á og það gerði okkur öruggglega ekki gott." Högni Páll og Unnur í Ulaanbaatar á 17. júní. Á bak við þau er minnismerki um harðstjórann Genghis Khan sem gerði Mongólíu að víðfemasta landi heims á 13. öld. Styttan er 40 metra há og í hana fóru 250 tonn af stáli. Slíkar styttur eru í miklu uppáhaldi hjá málmiðnaðarmanninum Högna Páli. Salernismenningin er sérstakur kapítuli Mongólía er mjög hálent land. Ulaanbaatar liggur í metra hæð og er kaldasta höfuðborg í heimi. Við fórum inn í bæ þar sem hitastigið er iðulega undir mínus 40 gráðum yfir vetrarmánuðina. Þar var ekki rennandi vatn í húsum og bæjarbúar nýttu sameiginlegt baðhús í bænum. Við fengum besta herbergið á hótelinu því reykrörið frá eldavélinni lá í gegnum herbergið og hitaði það upp. Þetta var líka mjög gott hótel fyrir þær sakir að þarna voru bæði kvenna- og karlakamar MEÐ hurð. Salernismenningin í þessum löndum er sérstakur kapítuli. Í Mongólíu er algengt að kamrar séu hurðarlausir og að dyrnar snúi út að veginum. Þarna var gjarnan gert ráð fyrir að fleiri en einn gætu notað kamarinn í einu. Fólk gerði bara stykkin sín í holu og engin skilrúm á milli. Á móti kemur að þarna eru engar smitleiðir við snertingu, þannig að þetta er kannski ekki alveg galið. Í Rússlandi er algengt á bensínstöðvum með öllum nýjustu þægindum, svo sem þráðlausu netsambandi og fullkomnum latte vélum, að salernin séu útikamrar. " Í Mongólíu eru kameldýr vinsæl farartæki en ekki hefðu þó Högni Páll og Unnur viljað skipta á þeim og mótorhjólunum. Rússneskunámið kom sér vel Þó svo að Mongólía væri mögnuð var mjög gott að komast aftur yfir til Rússlands í umhverfi þar sem við gátum meira bjargað okkur. Við vorum í Rússlandi í nokkra daga áður en við fórum inni í Kasakstan, Kyrgistan, Tadjikistan og svo Úsbekistan. Kyrgistan er stórmerkilegt og skemmtilegt land. Maður kemur upp úr eyðimörkinni í Kasakstan yfir í gróðurvin. Menntunarstig virtist líka vera með öðrum hætti. Þegar maður sagðist vera frá Íslandi, virtust allir vita að Reykjavík væri höfuðborgin. Þarna var líka mikið af hlykkjóttum giljum sem eru draumur mótorhjólamannsins." Vegurinn á milli Kyrgistan og Tadjikistan var erfiður yfirferðar. Högni Páll heldur hér á erni í Mongólíu þó ekki salerni. Háfjallaveiki herjaði á í Tadjiksitan Síðan fórum við yfir til Tadjikistans og það er fátækasta landið sem við ferðuðumst til. Þar voru engin hótel en allir tilbúnir að hýsa mann með fullu fæði fyrir tíu dollara á manninn. Við klifruðum beint upp í um metra hæð og fórum mest upp í metra hæð sem reyndi verulega á okkur. Úthald og geta voru í lágmarki og við vorum með höfuðverki og áttum erfitt með svefn. Það kom okkur á óvart að háfjallaveiki myndi leika okkur svona grátt. Vegirnir voru

51 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 51 líka mjög erfiðir, en að sama skapi spennandi og það er ekkert sjálfgefið að maður fái að fara þarna um. Við þurftum sérstakt leyfi til þess að ferðast um gilið sem skilur að Tadjikistan og Afganistan. Við vorum alltaf að fara í gegnum eftirlitsstöðvar þar sem við vorum skráð inn og út. Þarna var verið að gæta að öryggi okkar þó að manni finnist óþægilegt að vera stöðugt að umgangast hermenn með vélbyssur. Vegurinn er að mestu höggvinn inn í klettavegg og maður horfir nánast allan tímann yfir til Afganistan á sams konar vegakerfi handan Pamír árinnar." Öryggisfatnaðurinn sannaði gildi sitt Það er ekkert auðvelt að halda sig við öryggisfatnað mótorhjólamanna í 45 stiga hita. Við notuðumst við peysubrynjur og héldum okkur við öryggisstígvél allan tímann. Það bjargaði fætinum á Unni þegar hún lenti í slysi í Tadjikistan. Hún brotnaði sem betur fer ekki en bólgnaði illa á kálfanum. Það var aldrei inni í myndinni að halda ekki áfram þannig að hún harkaði það bara af sér." Í Úsbekistan er bensín svartamarkaðsvara Svo fórum við inn í Úsbekistan og þar er bensín svartamarkaðsvara. Úsbekar eiga miklar gaslindir þannig að bílaflotinn þeirra keyrir á própangasi og bensínstöðvar eru bara í þremur stærstu borgunum. Það var nánast eins og maður væri að leita að fíkniefnium. Maður þurfti að hnippa í einhvern og spyrja hvort hann ætti eitthvað. Þá elti maður annað hvort bíl eða mótorhjól til einhvers sem vísaði manni eitthvað annað. Svo endaði maður inni í bakgarði og keypti bensín á fimm lítra brúsum. Þetta varð til þess að bensínkerfin á hjólunum voru orðin full af skít þegar við komum yfir til Rússlands í þriðja sinn." Í Kapadokkia um miðbik Tyrklands eru þessir merkilegu bústaðir. Trúin á mannkyninu hefur aukist Hvaða lærdóm dragið þið af ferðalaginu? Ferðalagið hristi upp í fordómunum. Eftir þetta hef ég meiri trú á mannkyninu en minni trú á stjórnmálamönnum. Það er ekki maðurinn á götunni sem er á bakvið allan vitleysisganginn í heiminum heldur misvitrir leiðtogar og maður hittir þá ekki á svona ferðalagi. Við lentum aldrei í neinum útistöðum eða leiðinlegum uppákomum. Og það var aldeilis ekki svo að lögreglumenn eða hermenn væru til vandræða. Á heilum mánuði í Rússlandi áttum við tvisvar samskipti við lögreglu. Í fyrra skiptið fengum við góðar kveðjur í almennu umferðareftirliti. Í seinna skiptið vorum við nýkomin á hótel í Síberíu þegar hótelstarfsmaður bankaði upp á og rétti okkur útprentun úr Google Translate, þar sem stóð að lögreglumaður vildi ræða við okkur. Þar sem ekki var boðið upp á örugga geymslu höfðum við yfirleitt þann hátt á að hlekkja hjólin saman við innganginn á hótelunum. Lögreglumaðurinn vildi að við færum með hjólin og við eltum hann að vöktuðu porti við ráðhús bæjarins. Þar fengum við að geyma hjólin gjaldfrítt." Ferðabók í farvatninu? Hafið þið hugleitt að gefa út bók um ferðalagið? Unnur er penninn og það þyrfti kannski bara að senda hana í nokkrar vikur til Spánar vopnaða fartölvu. Við héldum úti ferðasíðu á Facebook til þess að láta vita af okkur og þegar það var ekki hægt, gátum við yfirleitt sent SMS á son minn og hann kom skilaboðum inn á síðuna. Það kom okkur á óvart hvað síðan naut mikilla vinsælda. Ferðalaginu voru líka gerð skil á bifhjol.is og Morgunblaðið spjallaði við okkur við heimkomuna. Við höfum líka sýnt myndir og sagt fólki frá ferðinni." Högni Páll og Unnur tóku myndir á GoPro vél í ferðinni. Hérna mundar Högni vélina í loftbelg yfir Tyrklandi. Þarna voru 100 belgir á lofti í einu. Drekarnir fögnuðu okkur með Malti og sviðakjömmum Frá Rússlandi lá svo leiðin til Georgíu og Armeníu sem eru líka mjög merkileg lönd með mikla sögu. Kákasusfjöllin Georgíumegin er þekkt draumaland fyrir mótothjólamenn því þar eru góðir vegir en mjög hlykkjóttir í fallegu landslagi. Við vorum svo töluverðan tíma í Tyrklandi og nutum lífsins, meðal annars prófuðum við loftbelg. Á heimleiðinni fórum við síðan í gegnum Grikkland, Búlgaríu, Serbíu, Ungverjaland, Slóvakíu, Tékkland og svo loks Þýskaland, Danmörk og Færeyjar aftur. Þriðjudaginn 30. september tóku svo félagar okkar í Drekum vélhjólaklúbbi Austurlands á móti okkur með malti og sviðakjömmum á bryggjunni á Seyðisfirði og fylgdu okkur síðasta spölinn til Fáskrúðsfjarðar." Draumalandið er Íran Hvert liggur svo leiðin næst? Það segir sig sjálft að við förum ekki á hverju ári í fimm mánaða ferðalag frá börnum og vinnu. En það liggur alveg ljóst fyrir hvað við ætlum að taka okkur fyrir hendur þegar við hættum að vinna. Það góða við þennan ferðamáta er að maður ræður öllu sjálfur. Maður fer það sem passar manni. Í Armeníu hittum við til dæmis Frakka sem var kominn á eftirlaun og naut lífsins á mótorhjóli. Og þetta er líka ótrúlega ódýr ferðamáti. Draumalandið mitt er Íran. Allir mótorhjólamenn sem þangað hafa komið segja að fólkið þar sé alveg einstakt. Það ber ferðamenn á höndum sér. Svona ferðalög snúast um fólk og samskipti. Landið á sér líka mjög merkilega sögu og það er auðvelt að ferðast þar. Afríka væri líka mjög skemmtilegt verkefni."

52 52 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Jólatrésskemmtanir Starfsmannafélagsins Sóma Nærri 600 mans mættu á hinar geysivinsælu jólatrésskemmtanir Sóma sunnudagana 30. nóvember og 7. desember. Boðið var upp á glæsilegustu piparkökuhúsabyggð á landinu, veglegt jólabingó og dans í kringum jólatréð með jólasveinum. Starfsmannafélagið Sómi - Jólatrésskemmtnir mmmmooi kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi

53 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 53 oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooiii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooiii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooiii

54 54 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Starfsmannafélagið Sómi - Jólatrésskemmtnir oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii

55 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 55 oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi

56 56 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Starfsmannafélagið Sómi - Jólatrésskemmtnir kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi

57 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 57 oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooi oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii

58 58 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Samfélagið - ACTION-verkefni 23. nóvember kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i

59 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 59 oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooii kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i

60 60 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Samfélagið - ACTION-verkefni 23. nóvember ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i

61 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 61 ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i

62 62 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Starfsmannafélagið Sómi - Jólatrésskemmtnir kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii i ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii

63 ALCOA - Framar með hverri kynslóð 63 ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i kkkkkkkmmmmmmmmkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkooooooooooooiii ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooo i

64 64 ALCOA - Framar með hverri kynslóð Mannauður - Samskiptapunktur Tileinkum okkur jákvætt hugarfar og hegðun Jákvæð sálfræði vill leggja sitt af mörkum til að bæta lífsgæði allra, ekki aðeins þeirra sem þurfa að glíma við sálræn vandamál. Niðurstöður rannsókna í jákvæðri sálfræði staðfesta að hægt er að tileinka sér jákvæðni og bjartsýni. Jákvæðni stuðlar að betri andlegri og líkmalegri heilsu og getur verið forvörn gegn margvíslegum kvillum. Hamingja hefur mikið verið rannsökuð á undanförnum árum. Erfðir eru stór en ekki afgerandi áhrifaþáttur í hamingju.. Umhverfi og aðstæður hafa minni áhrif á hamingju en okkar eigin hugsanir, ákvarðanir og aðgerðir. Við getum orðið hamingjusamari með jákvæðu hugarfari og hegðun. Fylgni er á milli helgunar í starfi og hamingju. Við getum aukið hamingju okkar með því að vera þakklát og örlát. Hrós hefur jákvæð áhrif í báðar áttir og lætur okkur sjálfum líða betur. Stuðlaberg er áberandi í blaðinu. Þessa margbrotnu og mögnuðu stuðla er að finna í farvegi Jökulsár á Dal við bæinn Grund.

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson

Ritstuldarvarnir. Sigurður Jónsson Ritstuldarvarnir Sigurður Jónsson sigjons@hi.is Aðgangur að Turnitin 1. Beint í Turnitin á www.turnitin.com 2. Gegnum Moodle-námskeið Kennarar og nemendur halda sig í Moodleumhverfinu Fá frumleikaskýrslu

More information

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule

Part 66. Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66 Requirements for exercising privileges Highlights of New Part 66 rule Part 66.A.20(b) privileges The holder og an aircraft maintenance licence may not exercise its privileges unless: 1. In compliance

More information

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND

OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET. East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND OPEN DAYS 2011 LOCAL EVENTS COUNTRY LEAFLET East Iceland / Austurlands ICELAND / ÍSLAND INDEX I. Regional Partnerships Official Partners of the OPEN DAYS 2011 East Iceland... 3 Austurlands... 5 2 I. Regional

More information

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi

Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Möguleg útbreiðsla trjátegunda með hækkandi hitastigi á Íslandi Björn Traustason og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá Fagráðstefna 25.mars 2010 Inngangur Landfræðileg greining til að meta útbreiðslu nokkurra

More information

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu

Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Tilraunahúsið Úrræði fyrir raungreinakennslu Ari Ólafsson dósent í tilraunaeðlisfræði Eðlisfræðiskor HÍ og Raunvísindastofnun Háskólans Tilraunahúsið p.1/18 Sýnishorn af markmiðum ríkisvalds í menntamálum

More information

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015

Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Akureyrarbær Starfsmannakönnun 2015 Q1. Ert þú karl eða kona? Karl 229 19.83% Kona 926 80.17% Fjöldi 1155 Q2. Á hvaða aldursbili ert þú? 30 ára eða yngri 190 16.42% 31-40 ára 257 22.21% 41-50 ára 312 26.97%

More information

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011

Samanburður vindmæla. Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Samanburður vindmæla Samanburðarmælingar í mastri LV v/búrfell 15. ágúst 30.sept 2011 Haustþing Veðurfræðifélagsins 2011 Tegundir vindmæla Til eru margar mismunandi gerðir vindmæla sem byggja á mismunandi

More information

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR

SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR SNERTIFLETIR ÍSLANDSSTOFU VIÐ FLUGREKENDUR Ingvar Örn Ingvarsson Verkefnisstjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar Samgöngufundur á Norðurlandi, 19. nóvember 2015 Meginstoðir stefnu og lykilárangursþættir

More information

Ný tilskipun um persónuverndarlög

Ný tilskipun um persónuverndarlög UT Messa SKÝ, 9. febrúar 2012 Hörður Helgi Helgason Um fyrirlesara 1999 2000-03 2003-06 2006- Héraðsdómslögmaður Persónuvernd Ráðgjafi, evrópsk persónuv.lög LM lögmenn -> Landslög munið #utmessan Boligen

More information

Ég vil læra íslensku

Ég vil læra íslensku Ég vil læra íslensku 16 Föt Föt Évlí - 16 föt 1 hlusta Generated by Foxit PDF Creator Foxit Software benda lita teikna klippa líma strákur stelpa ekki stelpa/ekki strákur hugsa Évlí - 16 föt 2 hlusta íslenskur

More information

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME.

Rannsóknarskýrsla í sálfræði 103 á vorönn 2008 um. viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. í sálfræði 103 á vorönn 2008 um viðhorf nemenda til nokkurra þátta í skólastarfi ME. Rannsóknin á að gera grein fyrir afstöðu nemenda við Menntaskólanum á Egilsstöðum til nýgerða breytinga á stoðtímakerfi

More information

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017

Stóra myndin. Uppbygging þekkingarsamfélags. Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Stóra myndin Uppbygging þekkingarsamfélags Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Aðalfundur SFS 19. maí 2017 Bakgrunnur Viðskiptaráð Íslands 1 Yfirlit 1. Hvað eru þekkingarkjarnar? 2. Hvað

More information

Horizon 2020 á Íslandi:

Horizon 2020 á Íslandi: Horizon 2020 á Íslandi: - Árangur Íslands í Horizon2020 - Hvernig getur Rannís veitt ykkur aðstoð? Kristmundur Þór Ólafsson Alþjóðasvið Rannís Landstengiliður (NCP) fyrir H2020 Hvað er H2020? Rammaáætlun

More information

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013

Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Námsferð til Ulricehamn Svíþjóð, mars 2013 Svíþjóð - stjórnsýslan Þrjú formleg stjórnsýslustig Sveitarfélög, 290 talsins (Local level) Lén, 20 talsins (Regional level) Landsstjórn, 349 þingmenn (National

More information

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila.

Viðhorf erlendra söluaðila. Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila Spurningakönnun framkvæmd í desember 2016 á meðal erlendra söluaðila á póstlista Íslandsstofu sem telur 4500 aðila. Viðhorf erlendra söluaðila desember 2016 VIÐMIÐ TEGUND FYRIRTÆKIS

More information

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins

Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Morgunverðarfundur Ferðamálastofu Grand hótel, Reykjavík 14. apríl 2011 Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinar kortlagningar Hvað fangar hug og hjarta ferðamannsins Dr. Edward H. Huijbens Forstöðumaður /

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 8. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa

Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum. Raddir fjölbreyttra kennarahópa Rannsóknarstofa í fjölmenningarfræðum Raddir fjölbreyttra kennarahópa Sólveig Karvelsdóttir, lektor, HÍ Hafdís Guðjónsdóttir, dósent, HÍ Rannsóknin er hluti af tveimur rannsóknum Fjölbreyttir kennarahópar

More information

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson

Samstarf HR og IGI. Ólafur Andri Ragnarsson Samstarf HR og IGI Ólafur Andri Ragnarsson Leikjaiðnaðurinn 2021 Leikjaiðnaðurinn 2021 5.000 störf 70 milljarðar í heildarútflutningstekjur ef... Photo Ian Parker http://parkerlab.bio.uci.edu/nonscientific_adventures/iceland_man.ht

More information

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir

Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Ný persónuverndarlöggjöf 259 dagar til stefnu Alma Tryggvadóttir Sérfræðingur í persónurétti Yfirlit Stóra myndin Skyldur GDPR Aðlögunarferli Áskoranir og praktísk ráð 2 3 Yfirlit: Hvað er GDPR?» GDPR

More information

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir Myndlistardeild, lektor Vegna þátttöku í listfræðiráðstefnunni [no title] í Kaupmannahöfn í október.

Aðalheiður L. Guðmundsdóttir Myndlistardeild, lektor Vegna þátttöku í listfræðiráðstefnunni [no title] í Kaupmannahöfn í október. STARFSÞRÓUNARSJÓÐUR AKADEMÍSKRA STARFSMANNA - úthlutun haustönn 2018 Auglýst var eftir umsóknum um styrkveitingar með umsóknarfrest til 3. september 2018. Alls bárust sjóðnum 12 umsóknir: 7 frá hönnunar-

More information

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar

Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar 1 Inngangur og yfirlit yfir rafmagnsvélar Introduction to rotating machines 2 Grunnhugtök og meginþættir Klassískar gerðir véla Riðstraumsvélar Samfasavél (synchronous machine) Spanvél (induction machine

More information

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011

Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 Name of the University: Copenhagen University Names of the student: Helga Sæmundsdóttir Exchange semester: Vor 2011 I GENERAL INFORMATION ABOUT THE SCHOOL 1. Describe the school and its surroundings very

More information

Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur?

Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur? Hvers urðum við vísari og hvað gætum við tileinkað okkur? Málþing um byggðamál og svæðasamvinnu 14. mars 2014 Stefanía Traustadóttir Heimsókn til Norðurbotns (Oulu) apríl 2012 Þátttakendur: Ragnheiður

More information

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin

Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Klettafjöllin og Grand Canyon 1 Klettafjöllin, Grand Canyon og Laramide byltingin Kristbjörg María Guðmundsdóttir Eitt af fallegustu handverkum náttúruaflanna er án efa að finna í vesturhluta Norður-Ameríku.

More information

Fóðurrannsóknir og hagnýting

Fóðurrannsóknir og hagnýting Fóðurrannsóknir og hagnýting Uppskeruhátíð rannsókna Gunnar Örn Kristjánsson Strandbúnaður 2018, Grand Hótel Reykjavík, 19.-20. mars. Grundvöllur fóðurgerðar Þarfir hjá eldisfisk Efnaþarfir til vaxtar

More information

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB ÍSLENSK útgáfa EES-viðbætir við Stjórnartíðindi EB I EES-STOFNANIR 1. EES-ráðið 2. Sameiginlega EES-nefndin 3. Sameiginlega EES-þingmannanefndin 4. Ráðgjafarnefnd EES ISSN 1022-9337 Nr. 54 8. árgangur

More information

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík

Notkun merkis Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands Bústaðavegur Reykjavík Notkun merkis Veðurstofu Íslands Veðurstofa Íslands Bústaðavegur 9 150 Reykjavík +354 522 60 00 +354 522 60 01 vedur@vedur.is Maí 2009 2 Efnisyfirlit Merki 3 Litanotkun 5 Merki í fleti 6 Stærð merkisins

More information

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2

Power Engineering - Egill Benedikt Hreinsson. Lecture 25. Examples 2. Sýnidæmi 2 1 Examples 2 Sýnidæmi 2 2 Example 25-1 Gefið er 3 fasa, 3 teina raforkukerfi samkvæmt meðfylgjandi einlínumynd. Allar stærðir á myndinni eru í einingakerfinu ( per unit ). Seríuviðnám háspennulínanna er

More information

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs?

Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Hvað felst í menntun til sjálfbærrar þróunar og hvernig getur hún verið þungamiðja skólastarfs? Ingólfur Ásgeir Jóhannesson Hvernig getur málefni sem ekki er skilgreint sem námsgrein í grunnskóla eða námssvið

More information

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst

Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst ágúst Snælandsskóli Haustönn 2017 Námsgrein Enska Bekkur 10. bekkur Kennari: Hafdís Ágúst 15. 18. ágúst 21. 25. ágúst 28. ág 1. sept. 15. skipulagsdagur 16. skipulagsdagur 17. Skipulagsdagur 18. skipulagsdagur

More information

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services

Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services 2011:1 27. maí 2011 Félagsþjónusta sveitarfélaga Municipal social services Samantekt Frá árinu 1987 hefur Hagstofa Íslands leitað upplýsinga frá sveitarfélögum árlega um fjárhagsaðstoð, félagslega heimaþjónustu

More information

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016

Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Erlendir ferðamenn í Reykjavík 2016 Stillt upp fyrir tískumyndatöku í Hörpu. Samantekt unnin fyrir Höfuðborgarstofu mars 2017 Höfundur: Rögnvaldur Guðmundsson Rannsóknir

More information

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum

Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa. Efnisyfirlit. Þátttaka í félögum og þjóðmálum. Þróun félagsauðs í grannríkjunum Félagsauður á Íslandi Þróun og skýringar á mun milli landa Efnisyfirlit Þróun félagsauðs í grannríkjunum Bandaríkin Skandinavía Meginland Evrópu Þróunin á Íslandi Félagsþátttaka Frumtengsl Félagsrof Félagsauður,

More information

STÝRING OG GJALDTAKA Á FERÐAMANNASTÖÐUM HÁMARKA UPPLIFUN, VERNDA NÁTTÚRU OG TRYGGJA ÖRYGGI

STÝRING OG GJALDTAKA Á FERÐAMANNASTÖÐUM HÁMARKA UPPLIFUN, VERNDA NÁTTÚRU OG TRYGGJA ÖRYGGI STÝRING OG GJALDTAKA Á FERÐAMANNASTÖÐUM HÁMARKA UPPLIFUN, VERNDA NÁTTÚRU OG TRYGGJA ÖRYGGI ER ÍSLAND SPRUNGIÐ MEÐ 2,2 M FERÐAMANNA? TOP 10 ÞJÓÐGARÐAR Í BANDARÍKJUNUM 1. Great Smoky Mountains National Park

More information

Útvarpssendistaður á Úlfarsfelli Tæknilegar forsendur

Útvarpssendistaður á Úlfarsfelli Tæknilegar forsendur Útvarpssendistaður á Úlfarsfelli Tæknilegar forsendur Kynning í Dalskóla 6. desember 2018 Gautur Þorsteinsson, verkfræðingur Um útvarpsþjónustu Fyrsta útsending útvarpsdagskrár 1920 Útsendingar útvarps

More information

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is

Gleðilega hátíð. JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA. Landsbankinn landsbankinn.is REYKJAVIK PRIDE 2. 7. ÁGÚST FREE COPY HINSEGINDAGAR.IS Gleðilega hátíð JÓNSSON & LE MACKS jl.is SÍA Landsbankinn landsbankinn.is 410 4000 VELKOMIN Á HINSEGIN DAGA 2016 WELCOME TO REYKJAVIK PRIDE 2016 Sagan

More information

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur

CHEMISTRY. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Kafli 3. Kafli 3. Hlutfallareikningur: AðA. reikna út fnum. Efnajöfnur. Efnajöfnur. Efnajöfnur CHEMISTRY The Central 9th Edition Hlutfallareikningur: AðA reikna út frá formúlum og efnajöfnum fnum Lavoisier: Massi varðveitist í efnahvörfum. : lýsa efnahvörfum. Efnajafna : Hvarfefni og myndefni: 2H

More information

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar

Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Áhrif brennisteins díoxíðs (SO 2 ) á heilsufar Þórólfur Guðnason yfirlæknir Sóttvarnalæknir, Embætti landlæknis Nóvember 2014 Gastegundir frá eldgosum >95% H 2 O, CO 2 SO 2

More information

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur. Multicultural Council of Reykjavik Candidates

Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur. Multicultural Council of Reykjavik Candidates Fjölmenningarráð Reykjavíkurborgar Frambjóðendur Multicultural Council of Reykjavik Candidates Aleksandra Chlipala Hversu lengi búið á Íslandi: Have been a resident of Iceland: Pólsk Polish aleksandrachlipala@gmail.com

More information

Laun á almennum vinnumarkaði 2005 Earnings in the private sector 2005

Laun á almennum vinnumarkaði 2005 Earnings in the private sector 2005 26:1 14. júlí 26 Laun á almennum vinnumarkaði 25 Earnings in the private sector 25 Samantekt Árið 25 voru regluleg mánaðarlaun á almennum vinnumarkaði að meðaltali 244 þúsund krónur, heildarmánaðarlaun

More information

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands

Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands ÞÓRA BJÖRK HJARTARDÓTTIR Íslenskukennsla útlendinga við Háskóla Íslands 1. Fjöldi erlendra stúdenta Á liðnum áratug hefur erlendum stúdentum fjölgað gríðarlega við Háskóla Íslands. Haustið 2000 voru skráðir

More information

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd

10. tbl nr Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar. Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd 10. tbl. 2009 nr. 439 Viktor Arnar Ingólfsson skrifar: Starfsmaður í nærmynd Eymundur Runólfsson forstöðumaður áætlanaog umhverfisdeildar um starfið og verkefnin Það fer að styttast í að Eymundur Runólfsson

More information

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg.

VESTANPÓSTUR. Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi. Meðal efnis: Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg. STO FNA Ð 1945 VESTANPÓSTUR Janúar 2006 Útgefandi: Ísfirðingafélagið í Reykjavík 1. tbl. 18. árg. Meðal efnis: Heimsókn til ísfirskra víkinga í Noregi VESTANPÓSTUR 2006 Ábyrgðarmaður: Guðfinnur Kjartansson

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vor 2017 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

More information

Stefnumótun. tun Rf. Hlutverk (Mission) Why we exist. Gildi (Core values) What we believe in. Framtíðarsýn (Vision) What we want to be

Stefnumótun. tun Rf. Hlutverk (Mission) Why we exist. Gildi (Core values) What we believe in. Framtíðarsýn (Vision) What we want to be Stefnumótun tun Rf Hlutverk (Mission) Why we exist Gildi (Core values) What we believe in Framtíðarsýn (Vision) What we want to be Stefna (Strategy) Our Game plan Stefnumiðað árangursmat Balanced Scorecard

More information

CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir

CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir CORINE-verkefniðog landgerðabreytingar á Íslandi milli 2000 og 2006. Kolbeinn Árnason Ingvar Matthíasson Ásta Kr. Óladóttir CORINE: Coordination of information on the environment eða: Samræming umhverfisupplýsinga

More information

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur

Sjónarhorn View. Outline view - Yfirlitshamur. Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Power Point leiðbeiningar Sjónarhorn View Normal view (2000)/Notes Page View (Office97) - minnispunktahamur Outline view - Yfirlitshamur Hér er hægt að rita minnispunkta við hverja glæru fyrir þann sem

More information

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ

VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI ANNAÐ Kennsluáætlun vorönn 2018 Enska 9. bekkur Kennsluáætlun þessi tekur mið af hæfniviðmiðum sem fram koma í Aðalnámskrá Grunnskóla og skólanámskrá Grunnskóla Grindavíkur VIKA VIÐFANGSEFNI EFNISTÖK NÁMSEFNI

More information

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið

Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM. Skýrsla fyrir skólaárið Skóli Ísaks Jónssonar INNRAMAT Í SKÓLANUM Skýrsla fyrir skólaárið 2016-2017 Efnisyfirlit Efnisyfirlit... 2 1. Inngangur... 3 2. Markmið og tilgangur matsins... 3 3. Aðferðir og framkvæmd matsins... 3 4.

More information

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós

Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós Leiðbeiningar um notkun XML-þjónustu Veðurstofu Íslands fyrir norðurljós XML-þjónustan veitir aðgang að nýjum norðurljósagögnum Veðurstofunnar sem birt eru á www.vedur.is. Slóð XML-þjónustunnar er http://xmlweather.vedur.is/aurora?op=xml&type=index

More information

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ

Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær» Keilir» Fjörður» Reykjavík/HÍ / 1004720-1004720-3-ABC 2.1.2018 09::16 Mánudaga - föstudaga KEF - Airport» Reykjanesbær»»» Reykjavík/HÍ 06:42 06:44 06:45 06:47 06:51 06:52 06: 07:17 07:18 07:22 07:28 07:29 07:31 07:32 07:34 07:36 07:38

More information

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 50. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 15. DESEMBER 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Þegar ritstjóri

More information

Könnunarverkefnið PÓSTUR

Könnunarverkefnið PÓSTUR Könnunarverkefnið PÓSTUR Þáttakenndur í verkefninu UM PÓST Rauði hópur Vor 2010 Börn fædd 2005 Hópstjóri: Tatjana Lind Jónsson Unnið var með Könnunaraðferðinni (The Project Approach). Stuðst var við bókina

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 19. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 12. MAÍ 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ Saman látum við hjólin snúast GRUNNNÁM

More information

Umhyggja. Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns. Brýtur þjónustukerfið mannréttindi?

Umhyggja. Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns. Brýtur þjónustukerfið mannréttindi? Umhyggja Afstaða nemenda með sérþarfir til skólans síns Brýtur þjónustukerfið mannréttindi? Sömu námskröfur gerðar til langveikra sem og annarra í MH en aðstoð og aðlögun stundum nauðsynleg 2. tbl. 13.

More information

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003

Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Stakerfðavísar hjá sauðfé - ráðstefna í Frakklandi í desember 2003 Jón Viðar Jónmundsson 1 og Emma Eyþórsdóttir 2 1 Bændasamtökum Íslands 2 Rannsóknarstofnun landbúnaðarins/lbh á Hvanneyri Inngangur Fyrsta

More information

Ari Teitsson. (2005, 8. nóvember). Til upprifjunar. Bændablaðið, bls. 6. Berry, T., (1996). Business Plan Pro. Oregon: Palo Alto Software.

Ari Teitsson. (2005, 8. nóvember). Til upprifjunar. Bændablaðið, bls. 6. Berry, T., (1996). Business Plan Pro. Oregon: Palo Alto Software. Heimildaskrá Ritaðar heimildir Ari Teitsson. (2005, 8. nóvember). Til upprifjunar. Bændablaðið, bls. 6. Berry, T., (1996). Business Plan Pro. Oregon: Palo Alto Software. Bændasamtök Íslands (2005). Hagtölur

More information

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga

BSc. ritgerð. Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga BSc. ritgerð Markaðsfræði og alþjóðaviðskipti Peningaeyðsla, netverslun og netnotkun unglinga Eva Úlla Hilmarsdóttir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands Leiðbeinandi: Þórhallur Örn Guðlaugsson Febrúar

More information

Fjölmenning á Íslandi Maí Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir

Fjölmenning á Íslandi Maí Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir Fjölmenning á Íslandi Maí 2018 Greinagerð Esja Jeanne Jónsdóttir Multicultural Iceland May 2018 In Icelandic the word menning (culture) does not exist in the plural form yet at the same time Icelandic

More information

Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu

Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu Líkamsþyngd barna á höfuðborgargsvæðinu Er hlutfall barna yfir kjörþyngd hætt að aukast? Stefán Hrafn Jónsson Lýðheilsustöð Margrét Héðinsdóttir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins Mars 2010 Líkamsþyngd barna

More information

Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2.

Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2. Reykjavík, 15. maí 2017 R17050061 110 Borgarráð Fyrirhuguð heimsókn borgarstjórans í Philadelphia, Pennsylvaníuríki, Bandaríkjunum, til Reykjavíkur dagana 31. maí til 2. júní 2017 Fyrirhuguð er opinber

More information

Að störfum í Alþjóðabankanum

Að störfum í Alþjóðabankanum Tímarit um viðskipti og efnahagsmál, útgáfa 2007-2008 Að störfum í Alþjóðabankanum Jónas H. Haralz JEL flokkun: G21, G28, N16, N26, N46 Lykil hugtök: Alþjóðabankinn, Suður-Ameríka, efnahagsmál, hagsaga,

More information

Áhrif lofthita á raforkunotkun

Áhrif lofthita á raforkunotkun Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Júlí 2017 Áhrif lofthita á raforkunotkun Orkuspárnefnd Orkustofnun Júlí 2017 Útgefandi: Orkustofnun, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík Sími: 569 6000, Fax, 568

More information

Saga fyrstu geimferða

Saga fyrstu geimferða Lokaverkefni 2015 Réttarholtsskóli Saga fyrstu geimferða Arnar Freyr Jónsson og Oddur Kjartansson 10.FG Hópur 26 Geimöldin Árið 1957 hófst hin svokallaða geimöld sem síðar átti eftir að verða frumkvöðullinn

More information

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn -

LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM. Schengen ráðstefna 6. október Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - LÖGREGLAN Á SUÐURNESJUM Schengen ráðstefna 6. október 2011 - Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn - Áherslur - Lögreglan á Suðurnesjum - Framkvæmd landamæraeftirlits - Umhverfið - Álag á Ísland

More information

INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 2016

INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 2016 FLUGTÖLUR 216 INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 216 Flugvöllur 215 216 Br. 16/15 Hlutdeild Reykjavík 348.24 377.672 8,5% 5,4% Akureyri 17.897 183.31 7,3% 24,5% Egilsstaðir 89.79 93.474 4,9%

More information

INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 2014

INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 2014 FLUGTÖLUR 2014 INNANLANDSFARÞEGAR UM ÍSLENSKA ÁÆTLUNARFLUGVELLI 2014 Flugvöllur 2013 2014 Br. 14/13 Hlutdeild Reykjavík 338.278 328.205-3,0% 48,6% Akureyri 178.231 172.106-3,4% 25,5% Egilsstaðir 91.561

More information

Vaasa Ostrobothnia nóv. 2012

Vaasa Ostrobothnia nóv. 2012 Vaasa Ostrobothnia 19-21.nóv. 2012 Hópurinn og ferðin Halla Steinólfsdóttir Dalabyggð Ingibjörg Valdimarsdóttir Akranesi Ólafur Sveinsson SSV The Ministry of Foreign Affairs of Finland (19.nóv.) The Regional

More information

Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/ /10

Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/ /10 Börn á höfuðborgarsvæðinu léttari nú en áður Niðurstöður úr Ískrá á þyngdarmælingum barna frá 2003/04-2009/10 Stefán Hrafn Jónsson Háskóli Íslands, Landlæknisembættið Margrét Héðinsdóttir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 20. TBL 3. ÁRG. FIMMTUDAGUR 17. MAÍ 2012 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ LANGAR ÞIG AÐ KOMAST FRÍTT Á STÆRSTA

More information

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri

Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Hugvísindasvið Skítsama um allt, frá hægri eða vinstri Pólitíkin og pönkið Ritgerð til B.A.-prófs Valur Gunnarsson Janúar 2010 Háskóli Íslands Hugvísindasvið Almenn bókmenntafræði Skítsama um allt, frá

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 18. TBL 2. ÁRG. FIMMTUDAGUR 5. MAÍ 2011 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ ÍSLENSKA SIA.IS ICE 54848 05/11 GÓÐIR

More information

Lónsöræfi. Leyndarmál í ríki Vatnajökuls. Verkefni 10. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar

Lónsöræfi. Leyndarmál í ríki Vatnajökuls. Verkefni 10. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar Lónsöræfi Leyndarmál í ríki Vatnajökuls Verkefni 10. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar Summary The elementary school Grunnskóli Hornafjarðar, has for some years been working to connect it s curriculum to

More information

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning)

LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) LEIÐARVÍSIR UM ÞÁTTTÖKUNÁM (Service Learning) Frásagnir úr námsferð fræðslustjóra með skólastjórum í Reykjavík, starfsmönnum Fræðslumiðstöðvar og fulltrúum úr fræðsluráði á ráðstefnu og í skólaheimsóknir

More information

Leiðbeinandi á vinnustað

Leiðbeinandi á vinnustað Work Mentor Leiðbeinandi á vinnustað Leonardo da Vinci, Transfer of Innovation verkefni sem VMA sótti um að stýra. Kynning maí 2011. Jóhannes Árnason 1 Work Mentor Leonardo da Vinci Transfer of Innovation

More information

Vaxtarsaga Marel. Snjólfur Ólafsson og Auður Hermannsdóttir

Vaxtarsaga Marel. Snjólfur Ólafsson og Auður Hermannsdóttir Vaxtarsaga Marel Snjólfur Ólafsson og Auður Hermannsdóttir Alþjóðlegur vöxtur íslenskra fyrirtækja og erlendar fjárfestingar síðustu ára hafa vakið mikla athygli hér á landi og víðar. Grein þessi varpar

More information

ÆGIR til 2017

ÆGIR til 2017 ÆGIR3 2016 til 2017 Þríþraut Mikil þróun, sífellt betri árangur, fleiri og betri keppnir Íslandsmetið í Ironman féll tvisvar í sumar Norðurlandameistari kvenna í flokki 23 ára og yngri Þríþrautarsamband

More information

Lengsta fjallakeðja á Jörðinni!

Lengsta fjallakeðja á Jörðinni! AMERÍKA 1 Lengsta fjallakeðja á Jörðinni! Meðfram allri vesturströnd Ameríku liggja Cordillerafjöll. Í S-Ameríku eru þau kölluð: Andesfjöll Í N-Ameríku skiptast þau í: Klettafjöll (Rocky Mountains), Strandfjöll

More information

Hvað er núll - slysastefna. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins

Hvað er núll - slysastefna. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins Hvað er núll - slysastefna Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins Markmið stjórenda núll slysasýn New trends in accident prevention due to the changing world of work European Agency for Safety

More information

JANÚAR 2016 Karl Sigurðsson

JANÚAR 2016 Karl Sigurðsson JANÚAR 2016 Karl Sigurðsson Staða og horfur á vinnumarkaði Staðan á vinnumarkaði er að mörgu leyti góð ef litið er til þróunar atvinnuleysis, en skráð atvinnuleysi hefur lækkað úr um 8% árin 2009 og 2010

More information

Erlendir vetrarferðamenn vegir og þjónusta

Erlendir vetrarferðamenn vegir og þjónusta Erlendir vetrarferðamenn vegir og þjónusta 2017-2018 Erlendir vetrarferðamenn vegir og þjónusta 2017-2018 Vetrarferðamenn utan þjónustusvæðis Vegagerðarinnar. Greinargerð unnin með stuðningi rannsóknasjóðs

More information

Kæling uppsjávarfisks fyrir vinnslu?

Kæling uppsjávarfisks fyrir vinnslu? Upphaf mælinga í uppsjávarskipum Sigurjón Arason Yfirverkfræðingur Matís ohf. og Prófessor, Háskóli Íslands Dr. Magnea G. Karlsdóttir; Fagstjóri, Matís ohf. Ásbjörn Jónsson; Verkefnastjóri, Matís ohf Magnús

More information

Sveiflur og breyttar göngur deilistofna. norðaustanverðu Atlantshafi

Sveiflur og breyttar göngur deilistofna. norðaustanverðu Atlantshafi í norðaustanverðu Atlantshafi Jóhann Sigurjónsson Hafrannsóknastofnun Grand Hótel, Reykjavík, 21.-22. nóvember 2013 Efni erindis Deilistofnar Ástand og horfur Uppsjávar þríeykið Norsk-íslensk síld-kolmunni-makríll

More information

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11

1.3 Jean Luc Nancy um skynjun og tilveru Almennt um innsetningar Judith Rugg um innra og ytra rými... 11 Samantekt Í þessari ritgerð er fjallað um rými og innsetningar og sérstaklega verk Elínar Hansdóttur Path og Parallax. Elín er ungur, íslenskur listamaður sem hefur vakið mikla athygli á síðustu árum með

More information

HUGPRÓ Betw Be ar tw e ar QA & Agile

HUGPRÓ Betw Be ar tw e ar QA & Agile HUGPRÓ Betware QA & Agile 26.02.2010 Head Quarters Betware Reykjavík Betware DK Copenhagen Denmark Betware Solutions CA Kamloops, BC Betware Madrid Spain Certus Odense Denmark Betware Sp. z o.o. Warsaw

More information

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst

JÓHANNES BJÖRN. Falið vald. Kúnst JÓHANNES BJÖRN Falið vald Kúnst 1979, 2009 Jóhannes Björn Lúðvíksson ISBN 978-9979-70-580-2 IV. Þangað sem auðurinn streymir Þegar talað er um eigendur alþjóðlegra banka og margar undirtyllur þeirra, verður

More information

Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi og íslenskum skólum

Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan bakgrunn í íslensku samfélagi og íslenskum skólum Ráðstefnurit Netlu Menntakvika 211 Menntavísindasvið Háskóla Íslands Ritrýnd grein birt 31. desember 211 Ólöf Garðarsdóttir og Guðjón Hauksson 1 Ungir innflytjendur og aðrir einstaklingar með erlendan

More information

LV Breytingar á grunnvatns- og jarðvatnsborði á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar

LV Breytingar á grunnvatns- og jarðvatnsborði á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar LV-2014-021 Breytingar á grunnvatns- og jarðvatnsborði á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar Mælingar með samanburði á gervitunglamyndum frá 2002, 2010 og 2012 Lykilsíða Skýrsla LV nr: LV 2014 021 Dags: 19.02.2014

More information

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist

Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Grafísk hönnun og hip-hop Þróun umslagahönnunar í hip-hop tónlist Daði Oddberg Einarsson Lokaritgerð til BA-prófs Listaháskóli Íslands Hönnunar- og arkitektúrdeild Desember 2016 Grafísk hönnun og hip-hop

More information

Wind to Hot water MILL Detailed Specifications

Wind to Hot water MILL Detailed Specifications MILL 2700 Detailed Specifications Generator Type 3 phase generator with high-quality permanent magnets. Cast aluminium body. Generator Weight 25 kg Blade/Rotor Construction 3 Blades, Advanced injection

More information

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017

Innihaldsyvirlit. til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor. seinast dagført 15. aug. 2017 Innihaldsyvirlit til vegleiðing umsiting av kundum í FSL-debitor seinast dagført 15. aug. 2017 Innihaldsyvirlit...1 Upprættan av kundum við INDIVID...2 Allar fyritøkur og persónar, ið hava føroyskt A-,

More information

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi

Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Lokaverkefni til B.Ed. prófs Samstarf heimila og skóla frá sjónarhorni kennara á Íslandi og í Englandi Eru ánægðir foreldrar bestu bandamenn kennara? Halldóra Gísladóttir 300955-5419 Kennaraháskóli Íslands

More information

Fjallkrækill Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi?

Fjallkrækill Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi? Ritrýnd grein Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags Hörður Kristinsson Fjallkrækill Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi? S íðustu áratugina hafa menn mikið velt fyrir sér áhrifum hlýnandi

More information

gigtin Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf GIGTARFÉLAG ÍSLANDS 2. tölublað 2017

gigtin Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf GIGTARFÉLAG ÍSLANDS 2. tölublað 2017 gigtin 2. tölublað 2017 GIGTARFÉLAG ÍSLANDS Það er ástæða til bjartsýni Ráð fyrir aðstandendur Gigt og kynlíf Viðurkenndar stuðningshlífar Virkur stuðningur Vandaður vefnaður Góð öndun Einstök hönnun Fjölbreytt

More information

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 36. TBL 3. ÁRG. FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST 2012 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST

More information

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu

2. Stefnur og hugmyndafræði sem hafa haft áhrif á listkennslu Ágrip Í þessari ritgerð, sem er lokaverkefnið mitt til B.Ed gráðu, mun ég fjalla um samvinnu á milli myndlistarskóla og grunnskóla. Í því samhengi mun ég skoða Billedskolen i Tvillingehallen og Myndlistarskólann

More information

20 ÁRA AFMÆLISRIT FLATAR 2013 / 1 FLATARMÁL

20 ÁRA AFMÆLISRIT FLATAR 2013 / 1 FLATARMÁL 20 ÁRA AFMÆLISRIT FLATAR 2013 / 1 FLATARMÁL FLATARMÁL 1 / 2013 20 ÁRA AFMÆLISRIT FLATAR Flatarmál 1. tbl., 20. árg. 2013 rit Flatar, samtaka stærðfræðikennara 2013 Flatarmál Útgefandi Flötur, samtök stærðfræðikennara

More information

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ

FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ MONITORBLAÐIÐ 22. TBL 1. ÁRG. FIMMTUDAGUR 9. SEPTEMBER 2010 MORGUNBLAÐIÐ mbl.is FRÍTT EINTAK TÓNLIST, KVIKMYNDIR, SJÓNVARP, LEIKHÚS, LISTIR, ÍÞRÓTTIR, MATUR OG ALLT ANNAÐ fyrst&fremst Bubbi Morthens hætti

More information

FÖSTUDAGUR. Það lærir enginn að vera hugmyndaríkur. Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt:

FÖSTUDAGUR. Það lærir enginn að vera hugmyndaríkur. Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt: FÖSTUDAGUR 1. FEBRÚAR 2008 FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS ELLÝ ÁRMANNS aftur á skjáinn NANNA KRISTÍN MAGNÚSDÓTTIR opnar barnavöruverslun ÞORBJÖRG HELGA VIGFÚSDÓTTIR topp 10 Hanna Stína er eftirsóttur innanhússarkitekt:

More information